• Stigið fram af festu?

    Það vakti nokkra athygli þegar nýja ríkisstjórnin lét þess getið á verkefnalista sínum að hún hygðist beita sér fyrir samdrætti í ríkisútgjöldum, m.a. með því að „taka til“ í þeim stofnunum ríkisins sem hefðu vaxið um of. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar sagði þannig: „Ríkisstjórnin hyggst einfalda stjórnsýslu og hagræða í ríkisrekstri. Í því efni verður stigið fram af festu strax í upphafi kjörtímabils.“

    Almenningur fagnaði þessari yfirlýsingu, enda er öllum ljóst að ríkisútgjöld hafa vaxið langt umfram þarfir. Settir voru sérfræðingar í að vinna tillögur um þennan sparnað. Þeir skiluðu tillögum 4. mars s.l. þar sem m.a. sagði svo: „Með stofnun Landsréttar hefur málum í Hæstarétti fækkað verlega svo ekki telst þörf á að fleiri en fimm dómarar sitji við réttinn.“

    Nú hefur sitjandi dómsmálaráðherra lýst yfir að hún muni ekki beita sér fyrir þessari fækkun dómaranna. Samt er komið fram að við stofnun Landsréttar á árinu 2018 stóðu ekki efni til annars en að dómararnir yrðu fimm en ekki sjö. Svo er að sjá sem ráðherrann hafi ekki þurft að eyða miklum tíma í að kynna sér málið, áður en hún tók nú ákvörðun sína daginn eftir að hún birtist. Hún lét sér detta í hug að sparnaðurinn við þetta yrði ekki nægur, aðeins 100 milljónir króna næstu fimm árin!

    Hæstiréttur Íslands tók til starfa á árinu 1920. Fimm dómarar sátu í réttinum fyrstu áratugina að undanskildu tímabili á fyrri hluta 20. aldarinnar þegar þeim var fækkað í þrjá. Árið 1945 urðu þeir fimm á ný og hélst svo fram til ársins 1972, þegar tekið var að fjölga dómurum vegna vaxandi fjölda dómsmálanna sem rétturinn þurfti að sinna. Á árunum fyrir þá breytingu var rétturinn að dæma í 140-200 málum árlega. Málafjöldinn óx hratt á næstu árum og var dómurum við réttinn þá fjölgað nokkrum sinnum og urðu þeir flestir ellefu á tímabili. Þeir voru níu, þegar Landsréttur tók til starfa árið 2018. Dómararnir sjálfir í Hæstarétti vildu þá að fjöldi þeirra yrði sjö, þó að aðeins þrír eða fimm dómarar ættu að sitja í dómi í flestum tilvikum.

    Sýnt hefur verið fram á að eftir stofnun Landsréttar minnkaði starfsálag á hvern dómara Hæstaréttar niður í 20-25% af því sem verið hafði. Hafa á þessu tímabili verið kveðnir upp dómar í 30-60 málum á ári eða allt niður í fjórðung þess málafjölda sem dæmdur var meðan dómararnir voru fimm talsins fyrir árið 1972. Fjölgun dómaranna undanfarna áratugi hefur ávallt stafað af fjölgun málanna sem þurft hefur að dæma. Í ársskýrslum réttarins hefur komið í ljós að dæmd mál voru rúmlega 800 talsins á ári síðustu árin fyrir stofnun Landsréttar.

    Af þessum tölum sést að engin efni stóðu til þess að fleiri dómarar en fimm sætu í Hæstarétti eftir stofnun Landsréttarins. Slík breyting hefði dregið úr starfsönnum dómaranna að miklum mun. En þeir vildu meira. Fyrir þeirra tilverknað var þeim aðeins fækkað í sjö.

    Forseti Hæstaréttar hefur verið stóryrtur um fyrirætlanirnar nú um fækkun dómaranna. Hefur hann þá m.a. staðhæft að ekki megi fækka dómurunum því þá muni þurfa að kalla til varadómara í of mörgum málum. Virðist hann telja það óheppilegt því það ógni samræmi í dómum. Varadómarar hafa nýst í marga áratugi og verður ekki séð að þeir hafi spillt fyrir störfum réttarins. En í tilefni af stóryrðum forsetans skal þess getið, að fram kemur í ársskýrslum réttarins eftir breytinguna 2018, að árlega hafa verið kvaddir fjölmargir varadómarar til starfa, þrátt fyrir að sjö dómarar hafi átt sæti í réttinum þennan tíma. Þetta er mikið og virðist forsetinn ekki óttast það. Þannig voru varadómarar 16 talsins árið 2023 og álíka margir árin á undan, en á þessum árum hefur málafjöldinn verið 30-60 mál eins og áður sagði. Þetta er því bara fyrirsláttur hjá forsetanum sem sýnir ekki annað en ákafa hans í að andmæla hugmyndunum um að fækka dómurum réttarins í fimm. Hann vill greinilega halda áfram að búa svo um hnútana að dómararnir hafi það náðugt og þá rúman tíma til að sinna öðru en dómsstörfunum við réttinn. Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið. Dómararnir eiga auðvitað að vera í fullu starfi, eins og verið hefur gegnum tíðina.

    Af yfirlýsingu dómsmálaráðherrans virðist mega ráða að ríkisstjórnin hafi ekki mikinn áhuga á að spara ríkisútgjöld eins og lofað var við stofnun hennar. Almenningur ætti því að hverfa frá fyrirætlunum um fagnaðarlæti. Þetta hefur sýnilega bara verið fagurgali sem engu máli mun skipta í reynd. Íslendingar kannast við slíkt hátterni stjórnmálamanna sem vilja fegra ásýnd sína.

    Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Dúsur

    Nú hefur sitjandi dómsmálaráðherra látið þau boð út ganga að hún muni ekki beita sér fyrir því að dómurum Hæstaréttar skuli fækkað úr sjö í fimm. Samt er komið fram að við stofnun Landsréttar á árinu 2018 stóðu ekki efni til annars en að dómararnir yrðu fimm en ekki sjö. Segir ráðherrann að ekki sé tilefni til þessarar fækkunar þar sem sparast muni minna en 100 milljónir króna fram til ársins 2030 með því að fækka dómurunum um tvo!

    Þá vita menn það. Óþörf útgjöld ríkissjóðs verða ekki afnumin nema þau nái fjárhæð sem ráðherrann telur þess virði að ná í ríkissjóðinn. Hvernig ætli þessi ráðherra hafi fundið upphæðina sem miða skyldi við þegar fjárhæðin var ákveðin? Það skyldi þó ekki vera að þeir sem hér eiga hagsmuna að gæta hafi fengið að leggja orð í belg um upphæðina? Um það veit ég ekki. Við blasir hins vegar að ráðherrann hefur ekki viljað fremja aðgerð sem hún vissi að myndi valda óvild dómaranna við réttinn. Forseti réttarins hafði reyndar skýrt frá andúð sinni í viðtali í sjónvarpi. Skýringar ráðherrans á ástæðunni fyrir því að miða skyldi við sparnaðarupphæðina hafi verið það eina sem henni datt í hug til að komast hjá því að vekja andúð dómaranna. Kannski nýir ráðamenn þjóðarinnar séu búnir að læra snillibrögð stjórnmálanna og hirði ekki um að reyna að betrumbæta hegðun þeirra sem sátu við völd á undan þeim? Persónulegir fjárhagsmunir þeirra sem þurfa að gæta hagsmuna sinna skipti meira máli en aðhald og sparnaður ríkissjóðs.

    Þeir sem gerðu sér hugmyndir um að nýja ríkisstjórnin vildi beita réttsýni í meðferð fjármuna skattborgara fremur en dúsum til valdamikilla embættismanna ættu að hugsa málið á ný. Við misnotkun fjármuna verður líklega ekki séð fremur en fyrri daginn. Kannski sumir valdsmenn vilji bara skauta framhjá sjálfsögðum ákvörðunum ef þeir halda að aðrir taki þær óstinnt upp? Þjóðin á sýnilega von á góðu næstu misserin.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Löngu tímabær fækkun dómara

    Á árinu 2013 birtist ritgerð eftir mig sem bar heitið „Veikburða Hæstiréttur – verulegra úrbóta er þörf“. Þegar ritgerðin kom út var orðið ljóst að stofnað yrði millidómstig til að létta of miklu álagi af Hæstarétti. Þetta var gert með stofnun Landsréttar, sem tók þó ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2018.

    Dómarar við Hæstarétt voru níu fyrir breytingarnar en var ekki fækkað nema í sjö. Ljóst var frá upphafi að starfsálag í Hæstarétti myndi minnka verulega við breytinguna. Hafði ég haft orð á því í ritgerðinni 2013 að þeim mætti fækka a.m.k. í fimm.

    Dómararnir töldu að þetta væri of mikil fækkun og töldu sjö hæfilegan fjölda dómara við Hæstarétt. Við athugun sem ég gerði á ársskýrslum réttarins, fyrir og eftir breytingarnar, kom hins vegar í ljós að starfsálag á hvern einstakan dómara. miðað við fækkun í sjö, varð aðeins um 25% af því sem það hafði verið fyrir breytingu. Ég benti á þetta og taldi að rétt hefði verið að fækka dómurunum a.m.k. í fimm með tilsvarandi sparnaði útgjalda. Í viðtali við fyrrverandi forseta Hæstaréttar 1. tbl. Lögmannablaðsins 2020 kom sama sjónarmið fram um minnkun á starfsálagi dómaranna við breytinguna. Man ég ekki eftir að hann hafi fyrr tekið undir tillögur mínar um betrumbætur á dómskerfinu! Segja má honum til afsökunar að þetta hafi hann ekki gert fyrr en hann var sjálfur hættur.

     rátt fyrir þessar óumdeildu staðreyndir gerðu sitjandi dómarar í Hæstarétti kröfu um að þeim yrði einungis fækkað í sjö. Virtust þeir sjá möguleika í að geta þá farið að föndra við önnur störf en dómssýsluna og þá aflað sér aukatekna með þeim hætti. Og þrátt fyrir ábendingar mínar lét ríkisstjórnin þetta eftir þeim. Allan tímann frá breytingu hafa dómararnir verið sjö talsins og hafa þeir því getað unnið önnur störf meðfram dómarastörfunum, eða sinnt öðrum hugðarefnum sínum að vild. Þessu hafa viðmótsþýðir ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki stjórnað sem hafa gegnt embætti dómsmálaráðherra allan þennan tíma. Á þeim bæ virðist ekki skipta máli þó að varið sé a.m.k hundruðum milljóna í að gera silkihúfum í stjórnkerfinu til geðs.

    Það er ekkert annað en spilling að hafa látið þetta eftir dómurunum. Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, sendi ég erindi til forsætis- og dómamálaráðherra með ábendingum um þetta. Og viti menn. Þeir hafa nú kynnt fyrir þjóðinni ákvörðun sína um að fækka dómurunum í fimm og því ber að fagna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Helstefna gegn fíkniefnum

    Ennþá berjast margir, jafnvel flestir menn, fyrir þeirri helstefnu sem felst í banninu á fíkniefnum. Ætla menn aldrei að skilja?

    Sagan af baráttunni gegn fíkniefnunum er harmþrungin. Í stríðinu gegn þeim hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem margir hverjir hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi e.t.v. mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og Helstefnamargs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan kunni að hafa mildast er árangurinn af þeirri viðleitni smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann. 

    Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

    Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Stjórnlyndi til skaða

    Það er eiginlega frekar ógnvænlegt að verða var við hversu margir vilja leysa öll vandamál mannanna með vali á stjórnlyndu fólki í áhrifastöður. Nú síðast náðu frambjóðendur kjöri með því að lofa þeim sem lægstu launin hafa að greiða þeim uppbætur á laun með framlögum úr ríkissjóði. Segja má að þarna hafi atkvæðin verið keypt með loforðum um fjárgreiðslur. Síðan hefur auðvitað komið í ljós að hinir kjörnu fulltrúar þessa framboðs geta ekki staðið við loforð sín eftir að þeir náðu kjöri og eru komnir í ráðherrastóla. Auðvitað ekki.

    Ástæðan er einföld. Það þarf að afla fjár fyrir þessum útgjöldum. Ríkissjóður er fjárvana og skattheimta allt of mikil. Hún beinist auðvitað að þeim sem afla tekna með athafnafrelsi í atvinnulífinu og sjá þannig fyrir velferð almennings.

    Mannfólkið ætti nú á dögum að hafa lært að velferð manna verður ekki tryggð með ráðum af þessu tagi. Ítrekað hefur komið í ljós að velferðin er mest hjá þeim ríkjum sem láta atvinnulífið um að afla tekna með athafnafrelsi án forsjár ríkisins. Þetta sést best með því að bera hagi manna saman, annars vegar í ríkjum sem byggja á atvinnufrelsi borgaranna og hins vegar í ríkjum sem vilja láta stjórnvöldin stýra atvinnulífinu og ætla svo að úthluta lífsins gæðum til borgaranna. Þetta leiðir ávallt til þess að stjórnsamt ríkisvald takmarkar persónulegt frelsi á öllum sviðum og er síðan í ofanálag ófært um að sjá borgurunum fyrir sambærilegri velferð og menn njóta í þeim ríkjum sem byggja á frelsi borgaranna til orðs og æðis.

    Er ekki fyrir löngu kominn tími til að mannfólkið skilji þessi sannindi og hætti að leita þeirra einfeldningslegu lausna sem engan vanda leysa?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hagnaður af framboðum

    Að undanförnu hefur verið fjallað um fjárstyrki ríkisins til Flokks fólksins undanfarin ár og ráðstöfun þeirra. Ég óskaði eftir að Ríkisendurskoðun sendi mér ársreikninga þessa flokks undanfarin ár og kom þá í ljós að styrkir frá ríkissjóði og Alþingi árin 2018 til 2023 nema samtals um 400 milljónum króna. Ekki kemur fram að þessu fé hafi verið varið í annað en rekstrarútgjöld flokksins. Verður því ekki séð að ríkisstyrkjunum hafi verið varið til persónulegra útgjalda starfsmanna hans á þessu tímabili eins og margir hafa haldið fram.

    Af reikningunum kemur fram að bókaður hreinn hagnaður ofangreind ár nemur 94 milljónum króna, þegar tap ársins 2021 (60 milljónir) hefur verið dregið frá samanlögðum hagnaði þessara ára. Er hagnaður af rekstrinum öll árin jákvæður nema árið 2021.

    Eftir stendur spurningin um hvernig það geti staðist að ríkissjóður styrki stjórnmálaflokka sem bjóða fram í kosningum um milljónatugi umfram það fé sem þeir verja til kosningastarfs.

    Kannski það sé skýringin á mörgum framboðum smáflokka að nú virðist það vera orðin gild leið til fjáröflunar að bjóða fram lista í kosningum?

    Ég hef lagt til að þessari styrkjastarfsemi verði hætt og þeim sem bjóða fram í kosningum verði gert að afla sjálfir fjár til að kosta þá starfsemi. Þessar tölur styrkja svo um munar þá afstöðu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Aðalatriði máls

    Morgunblaðið hefur að undanförnu flutt fréttir af styrkveitingum úr ríkissjóði til Flokks fólksins samkvæmt lögum frá 2021 (breyting á lögum nr. 106/2006) til þess að standa straum af kostnaði við framboð þessara stjórnmálasamtaka til Alþingis og sveitarstjórna.

    Í þessum lögum kemur fram að samtök sem sækja um styrki þurfi fyrirfram að framvísa gögnum um að þau eigi rétt á styrkjum en síðan eftirá að framvísa bókhaldsgögnum um að styrkirnir hafi verið notaðir til þeirra þarfa sem lögin kveða á um.

    Morgunblaðið hefur aðallega sýnt fram á að Flokkur fólksins hefur ekki framvísað gögnum sem leggja þarf fram til að eiga rétt á framlögum. Þetta eru auðvitað þarfar upplýsingar þegar athugað er hvort þessi framboðsaðili hafi uppfyllt skilyrði til að fá styrki. Hefur blaðið sýnt fram á að svo hefur ekki verið.

    En það er önnur hlið á málinu sem telja má að skipti meira máli þegar þessar styrkveitingar eru skoðaðar. Það er greinargerð eftirá um að styrkirnir hafi í reynd gengið til að standa straum af þeim kostnaði sem um ræðir, en ekki t.d. til persónulegrar ráðstöfunar þeirra sem að framboði hafa staðið. Þannig segir í 9. gr. laganna að stjórnmálasamtök skuli fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Í nefndri 8. gr. segir m.a. að endurskoðendur sem árita reikninga þessa skuli starfa eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðanda og sannreyna að reikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laganna og staðfesta það álit með áritun sinni. Ríðikisendurskoðandi geti hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna reikninga stjórnmálasamtakanna.

    Fram hafa komið opinberlega tilgátur um að fyrirsvarsmenn Flokks fólksins kunni að hafa ráðstafað þessu fé til persónulegra þarfa sjálfra sín. Hér er um að ræða tugi milljóna árlega undanfarin ár. Það er auðvitað aðalatriði málsins að upplýsa hvort málum sé svona farið. Sé svo sýnist að um sé að ræða refsiverða háttsemi þessara fyrirsvarsmanna, sem falli undir að teljast auðgunarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ofbeldi í skjóli rétttrúnaðar?

    Nú er sagt frá því að drengjahópur frá Austurlöndum standi fyrir ofbeldinu í Breiðholtsskóla. Þeir munu flestir vera Múhameðstrúar. Rétttrúnaðurinn virðist koma í veg fyrir að tekið sé á málinu. Ekki sé unnt að tala við feður þessara drengja þar sem þeir tali ekki við konur en flestir kennaranna eru konur. Eigum við ekki að hleypa fleira fólki af þessu tagi inn í landið? Kannski styttist bara í að það taki yfir?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hugsjónir

    Hvað er hugsjón? Við tölum um að sá maður hafi hugsjón sem telur að skylt sé að haga lífi sínu í samræmi við ákveðnar grunnhugmyndir um lífið og tilveruna. Þegar ég tala hér um hugsjónir undanskil ég hugmyndir sem ganga út á að gera öðrum miska eða stjórna þeim með fyrirmælum og boðvaldi, eins og sumir kunna að vilja gera. Með hugtakinu á ég við hugmyndir sem viðkomandi maður hefur leitað að, drifinn áfram af eldmóði sannleikans og án þess að setja sig yfir hlut annarra.

    Flest höfum við hugsjónir. Það er hins vegar undir hælinn lagt hvort við leggjum okkur fram um að lifa eftir þeim. Þrátt fyrir það er okkur sjálfsagt öllum hollt að móta með okkur meginhugmyndir sem verða til við hugsanir okkar sjálfra um það réttlæti sem við viljum virða. Þær byggjast sjálfsagt aðallega á lífsreynslu okkar en stundum enn fremur á hugmyndum sem við leggjum sjálf niður fyrir okkur og teljum eftirsóknarvert að lifa eftir af fremsta megni.

    Ég held að öllum sé hollt að reyna að haga lífi sínu eftir hugmyndum sem þeim þykja eftirtektarverðar og jafnframt rökréttar og fagrar. Að mínum dómi gera slíkar hugsjónir líf okkar verðmeira en ella, jafnvel svo að við teljum okkur hafa höndlað sjálfa lífshamingjuna ef okkur tekst að lifa eftir þeim. Slíkar hugsjónir eiga erindi til okkar allra.

    En svo eru til hugsjónir sem eru miklu stórfelldari heldur en þetta. Þær geta lotið að meginhugmyndum, sem varða ekki bara okkur sjálf, heldur líka annað fólk. Við virðum til dæmis flest lýðræðislegt stjórnskipulag og mannréttindi sem við teljum að ekki bara að við sjálf, heldur allir aðrir menn eigi að njóta.

    Stundum geta menn jafnvel verið tilbúnir til að láta líf sitt í baráttu fyrir slíkum hugsjónum sínum. Þá binda menn hugsjónir sínar ekki við eigin hagsmuni heldur einnig við hagsmuni annarra.

    Í lýðræðislegu stjórnkerfi nútímans reynir sjaldan eða jafnvel alls ekki á slíkar fórnir í þágu hugsjónanna. Það kemur miklu fremur fyrir að menn verði að taka á sig alls kyns óþægindi fyrir að vilja ekki brjóta gegn hugsjónum sem þeir virða og vilja hafa að meginstefi í lífi sinu. Þeir sem misvirða slíka afstöðu skilja þá oft ekki samhengi þeirra hugmynda sem viðkomandi maður vill virða. Kannski getur það stafað af því að þeir virði þær ekki sjálfir eða jafnvel kjósi frekar að sækjast eftir innihaldslitlum stundarhagsmunum í eigin þágu. Ætli við könnumst ekki mörg við slíka afstöðu? Stundum getur líka staðið svo á að sá, sem ekki skilur eða fellst á hugsjónina, einfaldlega hætti að vilja hafa samskipti við hugsjónamanninn. Slíka afstöðu þekkjum við líka þó að okkur finnist hún oftast frekar aumkunarverð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Málið leyst

    Ég hef fundið lausnina á karpinu um styrki til stjórnmálaflokka. Við leysum þetta í einu vetfangi með því að fella niður lagaákvæðin í lögum nr. 162/2oo6 um starfsemi stjórnmálaflokka sem kveða á um styrkina. Engir styrkir; skattborgarar lausir við þvinguð framlög; málið leyst.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur