Þjóðin hefur undanfarin ár fengið fréttir af átökum ríkissaksóknara, Sigríðar J. Friðjónsdóttur, við vararíkissaksóknarann, Helga Magnús Gunnarsson. Hófust þessar stælur með áminningu Sigríðar við Helga Magnús í ágústmánuði árið 2022. Hrakti hún í framhaldinu Helga Magnús úr starfi sínu og hefur neitað honum um að fá aðstöðu við embættið og verkefni til að sinna starfsskyldum sínum.
Þetta mál er allt hið undarlegasta. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skipar ráðherra vararíkissaksóknara ótímabundið.
Í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er kafli um lausn starfsmanna frá embætti. Þar segir í 1. mgr. 26. gr. að stjórnvald sem skipar í embætti veiti og lausn frá því um stundarsakir. Undanfari lausnar um stundarsakir er áminning. Í 21. gr. laganna frá 1988 er kveðið á um að forstöðumaður stofnunar skuli veita áminningu. Ef um ráðherraskipaðan starfsmann er að ræða verður að telja það falla undir verksvið ráðherra að veita honum áminningar, því þær eru auðvitað haldlausar ef embættismaður sem ekki hefur skipunarvaldið veitir áminningarnar. Hann getur nefnilega ekki fylgt þeim eftir með uppsögn starfsmannsins úr starfi gefi atvik málsins tilefni til.
Af þessu leiðir að áminning ríkissaksóknara á hendur Helga Magnúsi, sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, hefur enga þýðingu fyrir starf hans við embættið. Hann virðist hins vegar hafa látið þetta yfir sig ganga og hefur nú látið af starfi sínu sem vararíkissaksóknari. Undanfari þessarar niðurstöðu er ólögmæt áminning ríkissaksóknarans og undirlægjuháttur sitjandi dómsmálaráðherra.
Við hefur blasað allan þennan tíma að persónuleg andúð ríkissaksóknarans á Helga Magnúsi hefur valdið þessu uppnámi við starfrækslu þessa embættis. Persónuleg andúð getur ekki orðið tilefni til brottvikningar starfsfólks. Hér hefur ríkissaksóknarinn að auki orðið til þess að embættið er verr búið en áður til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Sýnist ráðherrann hafa haft fullt tilefni til að áminna ríkissaksóknarann og víkja honum síðan úr starfi hefði hann ekki látið sér segjast við áminninguna.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur