• Hjarðhugsun

    Það er lagt fyrir okkur á næstum hverjum degi að hafa skoðanir á málefnum þjóðfélagsins sem svonefndir fjölmiðlar fræða okkur oftast um. Við vitum að frásagnir þeirra eru oft litaðar af persónulegum skoðunum þeirra manna sem semja fréttir. Þeim ber auðvitað að reyna að vera hlutlausir í frásögnum sínum, en það getur verið erfitt, því flestir sem sinna þessum frásögnum hafa sjálfir skoðanir á því sem frá er sagt. Sumir fjölmiðlar gefa sig meira að segja út fyrir að vera talsmenn ákveðinna sjónarmiða í stjórnmálum eða öðrum málefnum sem fjallað er um.

    Það getur verið erfitt að greina kjarnann frá hisminu í því sem borið er fram fyrir okkur í tilfallandi fréttafrásögnum á hverjum degi. Flest tökum við oftast afstöðu í hugarheimi okkar þó að við gerumst sjaldnast sjálf opinberir talsmenn hennar. Ætli flest okkar séu ekki undir þá sök seld að trúa oftast frásögnunum sem við heyrum. Í þeim felast oft staðhæfingar eða tilgátur um staðreyndir auk dulbúnings á persónulegum skoðunum þess sem segir frá. Verður þá stundum til eins konar hjarðhugsun sem flest okkar aðhyllast hugsunarlaust án þess að vera í nokkurri aðstöðu til að gagnrýna frásögnina af því sem um ræðir. Þetta ber okkur að forðast þó að erfitt sé því að við „vitum ekki betur“.

    Sum okkar búa yfir því sem við nefnum hugsjónir. Í þeim felst oft að við reynum sjálf að leggja ákveðinn mælikvarða á það sem við heyrum, sem þá oftast samrýmist hugsjónum okkar. Við þekkjum flest nafngiftir margra þessara hugsjóna. Sumir eru sósíalistar sem vilja að valdsmenn ráði atburðum í samfélaginu að svo miklu leyti sem unnt er. Aðrir eru það sem við köllum vinstri menn, án þess að þeir vilji sjálfir kalla sig sósíalista. Enn aðrir aðhyllast frelsi og ábyrgð einstaklinganna sjálfra. Þeir eru stundum kallaðir frjálshyggjumenn. Og margir falla ekki undir þessar skilgreiningar og aðhyllast þá oftast þær hugmyndir um atburði líðandi stundar sem hyggjuvit þeirra eða kannski skorturinn á því segir þeim.

    Ég er á þeirri skoðun að við ættum sem flest að reyna að gera okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem við viljum að þjóðfélagið lúti að mestu. Þessar hugmyndir ættum við að reyna að móta út frá þeim sjónarmiðum sem styðja viðleitni okkar til að vera sjálfstæðir einstaklingar sem vilja bera ábyrgð á sínum eigin gjörðum, hvort sem er í persónulegum málum eða þeim sem lúta að skipan sameiginlegra mála þjóðfélagsins. Kannski við komumst þá nær því að lúta ekki að jafnaði þeim viðhorfum sem fjölmiðlar og atkvæðamiklir einstaklingar mata okkur á með því að vera að minnsta kosti gagnrýnin á það sem við heyrum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ofurviðbrögð

    Það fór eins og mig grunaði þegar ég vísaði til viðtals Bylgjunnar við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur í morgunþætti í fyrradag, 24. júní. Margir risu upp á afturfætur sína vegna þess arna. Það er eins og margir telji að útgerðin greiði ekkert í ríkissjóð fyrir heimildina til að veiða fisk við Ísland. Það er mikill misskilningur. Heiðrún Lind skýrir stöðuna í þessu og kemur þar fram að útgerðin greiði að jafnaði þriðjung af hagnaði sínum í veiðigjöld, sem er sérstakt endurgjald fyrir aðganginn að miðunum. Í viðtalinu rökstyður hún að sú mikla hækkun sem til stendur að gera á þessum veiðigjöldum muni hafa mjög lamandi áhrif á rekstur fyrirtækja sem stunda fiskveiðar. Nú ættu menn að gera sér grein fyrir því að þessi fyrirtæki borga skatta eftir sömu reglum og önnur fyrirtæki í atvinnurekstri. Veiðigjöldin eru viðbót við skattgreiðslurnar. Og þá er deilt um hvort þau beri að hækka frá því sem nú gildir. Heiðrún Lind gerir í viðtalinu skýra grein fyrir stöðunni. Hún aftekur ekki að hækka megi veiðigjöldin en telur að hækkunin sem stendur fyrir dyrum sé meiri en svo að fyrirtækin ráði við hana a.m.k. til lengri tíma. Menn ættu að hlusta á viðtalið áður en þeir tjá sig um málið á þann glaðbeitta hátt sem margir gera. Hér er hlekkur á viðtalið. Það er eins og margir telji sig sjálft eiga í vændum háar fégreiðslur úr ríkissjoði ef veiðigjöldin verði hækkuð! Ætli það geti ekki talist draumórar?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Málefnaleg innlegg

    Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag 25. júní er að finna grein eftir Ásgeir Ingvarsson undir fyrirsögninni „Stríð, friður og Donald Trump“. Ásgeir skrifar reglulega greinar í Morgunblaðið sem undantekningarlaust eru svo sannarlega þess virði að vera lesnar. Greinin í dag er öfgalaus og vönduð greining á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs núna eftir að klerkastjórnin í Íran varð þátttakandi í þeim. Þessi skrif gefa raunsanna mynd af þessum atburðum og er hressandi að lesa hana í staðinn fyrir hlutdræg og stóryrt skrif, sem svo margir ástunda um þessar mundir, Þeir eru sýnilega drifnir áfram af fréttaflutningi RÚV sem er allur á aðra hliðina. Takk fyrir Ásgeir.

    Svo var líka í morgun flutt í Bítinu á Bylgjunni viðtal við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, sem starfar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún talaði um skattlagninguna á fiskveiðarnar, sem nú er á döfinni. Hún fór á öfgalausan og málefnalegan hátt yfir þessar fyrirætlanir og sýndi fram á alvarlega skaðsemi þeirra. Ég hef ekki heyrt nokkurn annan tala um þetta umdeilda mál af meira viti og á vandaðri hátt. Menn ættu að „sækja sér“ þetta viðtal og hlusta án þeirra fordóma sem svo margir temja sér um málið. Takk fyrir Heiðrún.

    Áhugamenn um stjórnmál ættu að leggja sig eftir vönduðu efni um þessi viðkvæmu mál, en taka niður skyggðu gleraugun sín á meðan.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hryðjuverk

    Hryðjuverkasamtök, sem hafa lýst yfir því að þau stefni að útrýmingu þjóðar þinnar, gera morðárás á heimaland þitt. Þau drepa saklausa borgara þar og handtaka fjölda annarra, sem þeir flytja með sér úr landi og halda föngnum við illa meðferð. Þeir vita að stjórnvöld í heimalandi þínu munu bregðast hart við. Þeir telja þjóð þína ekki eiga sér tilverurétt og segjast vilja útrýma henni. Heima fyrir fela þeir sig meðal saklausra borgara í því skyni að þeir verði fyrst drepnir í þegar þjóð þín hefur aðgerðir til að hefna fyrir morðárás þeirra og bjarga föngunum. Þeir vita líka að almenningur í öðrum löndum muni fordæma drápin á fólkinu, sem þeir nota sem hlífðarskjöld. Þeir vita hversu skelfilegt það er fyrir allt friðelskandi fólk að fá daglegar fréttir af saklausu fólki, þ.m.t börnum, sem verða fórnarlömb í þessum átökum. Þeir vita líka að borgarar í öðrum löndum munu fordæma þessi viðbrögð þjóðar þinnar. Auðvitað. Við viljum ekki drepa þá sem saklausir eru. Samt ættu borgarar annarra ríkja að velta fyrir sér hvor aðilinn beri meiri ábyrgð á hörmungum þessa fólks sem „verður á milli“, þeir sem ráðast á það eða hinir sem stofnuðu til átakanna og notuðu svo fólkið til hlífðar fyrir sjálfa sig. Þeir vissu að það myndi falla vegna þess að þjóð þín myndi vilja ná til þeirra sem hófu morðin.

    Mikið er það göfugt þegar umheimurinn fordæmir árásir þjóðar okkar og skelfilegar afleiðingar þeirra en víkja aldrei að morðárás hinna sem öllu komu af stað. Við erum svo göfug og erum jafnvel fús til að halda á Austurvöll til að fordæma þá sem brugðust við árás hinna.

    Ég tek fram að ég styð ekki þau varnarviðbrögð sem hafa kostað saklaust fólk lífið. Það er hins vegar illa þolandi að hlusta sífellt á einhliða málflutning þeirra sem styðja Hamas hryðjuverkasamtökin.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hetja

    Öllum núlifandi mönnum er kunnugt um ótrúleg illvirki, sem menn hafa framið gegnum tíðina. Þar rísa kannski hæst glæpir sem Nasistar í Þýskalandi drýgðu, þegar þeir frömdu fjöldamorð á Gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Var þá milljónum Gyðinga smalað eins og búpeningi inn í gasklefa og þeir drepnir án þess að hafa annað til saka unnið en að tilheyra kynstofni gyðinga. Kannski er mannskepnan grimmasta dýrategund jarðarinnar, því hún fremur oft illvirki sín í þeim eina tilgangi að slátra fórnarlömbunum.

    En stundum verður málum hins vegar svo háttað að verstu illvirkin ala af sér stærstu hetjudáðirnar. Nicolas Winton var breskur maður sem fæddur var á árinu 1909. Á fyrstu árum síðri heimstyrjaldarinnar tók hann sér fyrir hendur að bjarga gyðingabörnum sem bjuggu í Tékkóslóvakíu frá drápsvél Þjóðverja áður en þeir réðust þar inn og slátruðu Gyðingum sem þar bjuggu, jafnt fullorðnum sem börnum. Þessi maður kom 669 tékkneskum börnum til Bretlands og kom þeim þar fyrir í fóstri hjá breskum fjölskyldum. Liggur ljóst fyrir að með þessum hætti bjargaði hann lífi þessara barna.

    Þessi einstaki maður lét ekki hátt um verk sín. Varð almenningi ekki kunnugt um verk hans fyrr en á 9. áratug 20. aldarinnar. Þá kom í ljós að þúsundir manna áttu honum líf að launa, bæði þeir sem hann hafði bjargað og svo einnig afkomendur þeirra. Hlaut hann þá verðuga viðurkenningu fyrir hetjudáðir sínar.

    Lífshlaup Nicolas Winton ætti að vera okkur ævarandi áminning um að láta okkur varða misgjörðir, sem einatt eru framdar á mannfólkinu kringum okkur. Í þeim efnum getur framtak einstaklinga skipt máli og jafnvel orðið þeim til bjargar sem órétti eru beittir. Við ættum því ekki að leiða alltaf hjá okkur lögbrot og aðrar misgjörðir á réttindum annarra, eins og svo margir gera. Lífsferill Nicolas Winton ætti að vera okkur hvatning til góðra verka gagnvart öðru fólki í stað þess að þegja þunnu hljóði, þegar við verðum vör við misgjörðir gagnvart því, þó að þær jafnist sem betur fer ekki á við misgjörðir Þjóðverja í stríðinu.

    Nicolas Winton náði háum aldri og varð 106 ára. Hann féll frá á árinu 2009.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Bókun 35

    Nú er deilt á Alþingi um lögleiðingu á bókun 35, sem felur í sér breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Texti frumvarpsins um lögleiðinguna hljóðar svo:

    „Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.“

    Í þessu felast fyrirmæli um að eldri reglur skv. EES-samningnum skuli ganga fyrir yngri lögum sem Alþingi setur ef ekki er efnislegt samræmi á milli. Þetta felur það í sér að löggjafarvald Alþingis er takmarkað, því að ný sett lög á Alþingi víkja auðvitað ævinlega til hliðar eða fella niður eldri lagareglur ef efnislegt ósamræmi er til staðar. Í reynd er því lagasetningarvald Alþingis takmarkað að þessu leyti án þess að stjórnarskráin heimili slíkt.

    Ekki verður annað séð en að sú skipan sem felst í þessu frumvarpi standist ekki nema stjórnarskránni sé fyrst breytt og í hana sett ákvæði sem heimilar þetta. Alþingismönnum er skylt að haga störfum sínum að lagasetningu samkvæmt þeim heimildum sem stjórnarskráin veitir. Þess vegna hefur Alþingi ekki stjórnskipulega heimild til að lögfesta þetta frumvarp.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Áður en það verður um seinan

    Morgunblaðið birtir í dag, 6. júní, grein eftir Árna Má Jensson, undir heitinu „Þróun íslams síðustu 1.400 ár“. Þar er að finna lýsingu á sífellt vaxandi áhrifum flóttafólks frá löndum íslams til vesturlanda. Segir hann þetta vera einu heildina „óháð kynþætti og landfræðilegum uppruna, sem sest að í nýjum heimkynnum með fullmótað þjóðskipulag í farteskinu, sem það trúir að hafið sé yfir landslög, menningu og trúarbrögð gestgjafalandsins“. Í grein sinni lýsir höfundur sívaxandi áhrifum þessa fólks í þeim löndum sem það flyst til. Áhrifin eru mótuð af framandi trúarbrögðum þess á skipulag og lýðræðislega skipan mála í hinum vestrænu ríkjum. Lýsing Árna Más er ógnvænleg því þessu fólki fer ört fjölgandi á vesturlöndum og mun áður en yfir lýkur ná að breyta þjóðfélögum okkar í þá átt sem ekki er unnt að sætta sig við.

    Þá er hægt að finna á netinu 17 mínútna ræðu sem 29 ára gömul hollensk stúlka, Eva Vlaardinggerbroek, flutti á ráðstefnu á vegum samtakanna CPAC (the Conservative Polical Action Conference) í Ungverjalandi fyrr á þessu ári. Allir vesturlandabúar ættu að hlusta á þessa ræðu. Þar ræðir hún tæpitungulaust um ógnvænlega hættu sem vesturlandabúum stafi af íslam og vaxandi fjölda þeirra sem þangað flytjast og aðhyllast þessi öfgafullu trúarbrögð, Hafi þeir sívaxandi áhrif á vesturlöndum, sem miði að því að uppræta grunngildi lýðræðislegra þjóðfélaga, en koma í staðinn á þjóðskipulagi sem ekkert okkar vill una.

    Það er kominn tími til að íslensk stjórnvöld setji lagareglur sem útiloki þetta öfgafulla fólk frá því að flytjast búferlum hingað til lands. Okkur ber engin skylda til að taka við því og ber að bregðast við, áður en það verður um seinan..

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Forræðishyggja

    Flestir Íslendingar kannast við alkunnar skýringar á hugtökunum forræðis- eða forsjárhyggju. Þessi hugtök eru notuð um þá háttsemi yfirvalda að taka fram fyrir hendurnar á almennum borgurum og setja á einn eða annan hátt skorður við frjálsum athöfnum þeirra. Meginhugsunin í forræðishyggju er sú að almennir borgarar séu almennt ekki færir um að hugsa skynsamlega eða rökrétt um eigin hagsmuni. Þess vegna þurfi að stjórna og stýra athöfnum þeirra með valdboði til að tryggja að þeir fari sér ekki að voða eða geri ekki eitthvað sem yfirvöldin telja að yrði þeim eða öðrum samborgurum til skaða.

    Hugtakið forræðishyggja er þannig gjarnan notað um stjórnmálastefnur sem vilja hafa ríkisvaldið sterkt, lagaboð mörg og athafnafrelsi einstaklinga takmarkað meðan ríkisvaldið tekur ákvarðanir fyrir fólkið og stendur í framkvæmdum þess. Þessu fylgir ávallt mikil skattheimta því handhafar ríkisvaldsins þurfa peninga til að geta haft ráðin af fólkinu. Hugtakið er notað um ýmsar stjórnmálastefnur bæði til hægri (t.d. íhaldsstefnu, eins og sumir vilja meina), fyrir miðju (kristilega demókrata) og til vinstri (sósíalisma, nasisma og fasisma). Lengst gengur þetta í ríkjum sem vilja ráða mannlegri breytni. Jafnaðarmannaflokkar, t.d. á Norðurlöndum, segjast vilja beita forræðishyggju vegna þess að að þeir vilja tryggja með valdboði að allir fái sem jafnastan hluta af gæðum samfélagsins. Þessi viðleitni gengur lengst í ríkjum sem við kennum við alræðishyggju (t.d. ríki kommúnismans). Þá er hugtakið einnig notað utan stjórnmálanna í þeim almenna skilningi að einstaklingur sem aðhyllist forræðishyggju leitist við að hugsa fyrir annað fólk, enda á þeirri skoðun að fólk sé almennt ekki fært um það.

    Við segjum flest á tyllidögum að við viljum aðhyllast frelsi einstaklinga til að ráða sér sjálfir og taka þannig ábyrgð á sjálfum sér. Slík skipan sé best til þess fallin að hvetja menn til frumkvæðis í eigin málum og stuðla þannig að lífshamingju þeirra. Á þessum grundvelli ættum við af fremsta megni að forðast forræðishyggju þeirra sem við höfum valið til að fara með ríkisvald. Hún er að minum dómi allt of ráðandi í landi okkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Gáfnamerki

    Gáfnamerki: gott að þegja,
    glotta að því, sem aðrir segja,
    hafa spekingssvip á sér,
    aldrei viðtals virða neina,
    virðast hugsa margt, en leyna
    því, sem raunar ekkert er.

              — Guttormur J. Guttormsson

    Ég lét af störfum sem dómari við Hæstarétt haustið 2012. 

    Segja má að megintilgangur minn með því að hætta hafi verið löngun mín og kannski þörf á að geta fjallað um dómstólinn á opinberum vettvangi til þess að „berja í brestina“ en að mínum dómi var brýn þörf á að gera það. Ég hafði kynnst starfsemi þessa æðsta og þýðingarmesta dómstóls þjóðarinnar „innan frá“ ef svo má segja og þóttist vita hvað ég söng þegar ég fjallaði um einstaka þætti í starfsemi hans. Fyrsta bók mín um þetta kom út á árinu 2013 „Veikburða Hæstiréttur“ og gerði ég þar grein fyrir þýðingarmestu breytingunum sem ég taldi að gera þyrfti á skipulagi dómstólsins og vinnubrögðum hans. Tillögur mínar voru vel rökstuddar og ítarleg grein var gerð fyrir þörfinni á að hrinda þeim í framkvæmd.

    Ég varð fyrir vonbrigðum með þær viðtökur sem bókin fékk á almennum vettvangi. Lítt var rætt um alvarlega gagnrýni mína á Hæstarétt Íslands, þó að ég héldi áfram að hvetja menn til dáða, m.a. með meiri skrifum. Það var eins og þjóðin væri dofin gagnvart dómstólnum. Ég vísaði einhvers staðar til Nóbelskáldsins um tilhneigingu Íslendinga til að stunda „orðheingilshátt“ og tala bara um „titlíngaskít“ þegar ræða þarf alvarleg mál. Mér finnst þetta ástand hafa verið viðvarandi og ennþá sé brýn þörf á endurbótum. M.a. gerði Alþingi að kröfu dómaranna breytingu á lögum um Hæstarétt og fékk réttinum sjálfun svo gott sem alræðisvald um skipun nýrra dómara. Það var mikið óþurftaverk. Við dómstólinn stofnaðist við þetta eins konar klíka sem herti skaðleg áhrif sín á starfseminni. Í þessu nutu dómararnir fulltingis lögfræðinga sem störfuðu utan dómstólsins en sóru sig í valdamikinn hópinn.

    Á síðustu árum hefur ekki verið fjallað að ráði um verk Hæstaréttar opinberlega og þá síst á gagnrýninn hátt. Engu er líkara en að þeir, sem gerst ættu um að vita, óttist dómstólinn. Málflutningsmennirnir eru hræddir um hagsmuni skjólstæðinga sinna í ódæmdum málum og lögfræðingar, sem hyggja á frama innan dómskerfisins, halda líka að sér höndum. Þeir vita að til þess að ná slíkum frama verða þeir að koma sér vel við valdahópinn sem stjórnar dómskerfinu, meðal annars vali nýrra dómara, en þar eru dómarar við Hæstarétt áhrifamestir.

    Nýjasta dæmið, skylt þessu, er þegar núverandi dómsmálaráðherra hafnaði að kröfu sjálfra dómaranna tillögum um að fækka þeim, þó að umfangið á starfseminni hefði minnkað verulega við stofnun Landsréttar og ríkisstjórnin gæfi út yfirlýsingar um nauðsynlegan sparnað í ríkisrekstri. Núna geta verklitlir dómararnir sinnt aukastörfum og drýgt tekjur sínar verulega. Hefur íslenska ríkið meira að segja fengið þeim slík störf í hendur. Þetta þekktist ekki áður.

    Kannski lýsir þagnarhjúpurinn sem umlukið hefur Hæstarétt Íslands sér vel í opinberri umfjöllun að undanförnu þegar minnst hefur verið á þörfina fyrir að fækka sitjandi dómurum. Hugsanlega vill dómsmálaráðherra ekki styggja dómsvaldið af ótta við að það verði ekki ráðherranum hliðhollt í framtíðinni, enda hafa Hæstaréttardómararnir orðið berir að grófri misnotkun valds í embættisfærslum sínum eins og ég rek hér að neðan. Svo gæti verið að sumir lögfræðingar vilji hafa sitjandi dómara góða í von um að eiga meiri möguleika á að fá skipun í embætti við dóminn þegar skipa þarf nýja dómara í framtíðinni.

    Þegar ég hef skrifað bækur mínar um réttinn, hef ég velt því vandlega fyrir mér hvort ég ætti að skýra frá ótrúlegri atburðarás í tengslum við skipun mína í embætti dómara við Hæstarétt á árinu 2004. Þar hafði framferði nær allra starfandi dómara við réttinn verið með þeim hætti að afar ámælisvert hlaut að teljast. Þeir brutu gegn lögum á þann veg að tvímælalaust varðaði við almenn hegningarlög, þar sem kveðið er á um refsinæmi þess að misfara með opinbert vald (sjá xiv. kafla laganna t.d. 130. gr.). Þetta gerðu þeir í því skyni að hindra skipun mína í réttinn. Í huga mér tókust annars vegar á hagsmunir af því að þjóðin gæti borið traust til æðsta dómstóls síns og svo hins vegar hagsmunir af því að reyna að hindra misnotkun ríkisvalds á æðstu stöðum í framtíðinni. Mér var og er auðvitað vel ljóst hversu þýðingarmikið það er að þjóðin geti borið traust til dómstólsins. Hefðin hefur verið sú að þegja til að reyna að vernda þetta traust.

    Ég komst að þeirri niðurstöðu að traust mætti ekki byggjast á vanþekkingu á vondum verkum. Það yrði að byggjast á þekkingu á góðum verkum. Þögn um misgjörðir og misnotkun valds er einungis til þess fallin að festa slíka háttsemi í sessi. Sá sem kemst upp með að misnota vald sitt vegna þess að enginn talar um það er líklegur til að endurtaka slíkt hátterni. Niðurstaða mín varð því sú að segja frá atburðarásinni. Er frásögn mína að finna í 13. og þó einkum 14. kafla bókar minnar „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Ég átti í barnaskap mínum von á að frásögnin myndi valda miklu fjaðrafoki, bæði í fjölmiðlum og einnig meðal æðstu valdsmanna þjóðarinnar í ríkisstjórn og á löggjafarsamkundunni. Atvikin sem ég lýsti voru að vísu nokkuð komin til ára sinna, þar sem þau áttu sér stað um 10 árum áður en bók mín kom út. Allt að einu hlutu allir ábyrgir menn að sjá að átta af níu dómurum við Hæstarétt höfðu brotið gróflega gegn lagaskyldum sínum; meira að segja þannig að refsingu hefði átt að varða.

    Því miður tel ég mig hafa orðið vitni að slæmum dómaraverkum, bæði meðan ég enn starfaði sjálfur við dómstólinn og ekki síður eftir að ég lét af störfum. Ég hef engan áhuga á að ná mér niðri á þeim sem gerðu á hluta minn á sínum tíma enda eru þeir einstaklingar sem þá áttu hlut að máli horfnir frá störfum. Þeir sem við tóku hafa hins vegar flestir sýnt að þeir eru ekkert betri. Og þörfin fyrir endurbætur er brýn. Við viljum ekki að börnin okkar þurfi að sitja undir geðþótta og kunningjagæsku þegar helgasta stofnun réttarríkisins, æðsti dómstóllinn, á í hlut.

    Ég býst við að hvarvetna í nágrannalöndum okkar hefðu það þótt mikil og alvarleg tíðindi ef fráfarandi dómari við æðsta dómstól viðkomandi þjóðar hefði skýrt frá framferði samdómara sinna eins og því sem hér er hefur verið lýst. Menn hefðu að minnsta kosti leitað eftir svörum og skýringum. Gat það til dæmis verið að sögumaður færi rangt með staðreyndir í lýsingu sinni? Hefði ekki verið nauðsynlegt að þeir sem fyrir sökum voru hafðir svöruðu fyrir sig? Það var ekki gert einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir kunnu ekki svörin og óttuðust að efni gagnrýni minnar kæmi til tals í þjóðfélaginu. Í þessu náðu þeir góðum árangri. Þetta var óþægilegt umræðuefni svo flestir þögðu bara þunnu hljóði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ólögmæt hlerun

    Uppi hefur orðið fótur og fit vegna upplýsinga um að starfandi lögreglumenn hafi misnotað aðgang sinn að gögnum lögreglunnar um rannsóknir á nafngreindum mönnum. Veittu lögreglumennirnir öðrum aðilum aðgang að þeim til notkunar í lögskiptum sínum við þá sem þarna höfðu verið til rannsóknar. Þýðingarmestu gögnin í þessu voru símhleranir hjá þessum sökuðu mönnum. Hefur réttilega verið talið að brotið hafi verið á persónulegum réttindum þessara manna og þar með réttarvernd þeirra sem varin er af stjórnarskránni.

    Lögreglan má samkvæmt lögum ekki hlera síma manna nema dómari hafi úrskurðað um heimild hennar til hlerunarinnar. Eru mjög ströng ákvæði í lögum um skilyrði fyrir því að dómari megi veita lögreglu slíka heimild. Er ljóst að ekki kemur til greina að gefa hlerunarþola eða lögmanni hans upplýsingar um hlerunarúrskurð til að gæta hagsmuna sinna af honum, því slík vitneskja þeirra skemmir þessa rannsóknarheimild. Af þessum sökum hvílir rík skylda á dómara að grandskoða skilyrðin fyrir því að fallast megi á ósk lögreglu um hlerunarheimild.

    Fyrir liggja upplýsingar um að á árunum eftir hrun 2008 til 2012 bárust héraðsdómstólum 875 beiðnir frá lögregluyfirvöldum um símhleranir hjá einstökum mönnum. Var fallist á 869 þeirra eða 99,7%. Þetta hlutfall er hærra en þekkist í nokkru öðru landi í Evrópu. Þá hefur líka komið fram að yfirvöldin áttuðu sig fljótlega á því að Héraðsdómur Vesturlands var fúsari en aðrir héraðsdómstólar til að fallast á þessar beiðnir. Leitaði lögreglan því mest til þessa dómstóls með beiðnir sínar. Virðast þær hafa verið veittar án þess að dómarinn í því umdæmi kannaði hvort lagaskilyrðum fyrir þeim væri fullnægt. Svo undarlegt sem það var að leita til þessa landsbyggðadómstóls um heimildir fyrir þessu var ástæðan sýnilega sú að dómarinn sem þar sat veitti heimildirnar án þess að kanna hvort fyrir þeim væru lagaheimildir. Virðist hann hafa stimplað þær án athugunar á lögmæti þeirra.

    Á forsíðu Fréttablaðsins 16. júní 2014 var slegið upp frétt um að þessi dómari hafði á sínum tíma veitt svona heimild án nokkurrar könnunar á skilyrðum hennar. Stóð svo á um manninn, sem hlera átti, að verið var að sleppa honum úr gæsluvarðhaldi, þar sem honum hafði verið kynntur réttur hans til að neita að svara spurningum lögreglu.

    Í dómi Hæstaréttar í öðru máli 4. febrúar 2016 (mál nr. 842/2014) var fjallað um heimildir lögreglu til að hlera síma manna sem setið höfðu í gæsluvarðhaldi og nutu því heimildar til að svara ekki spurningum lögreglu um sakarefnið. Var sagt orðrétt í forsendum dómsins: „Með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr, lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.“

    Af þessum forsendum Hæstaréttar er ljóst að héraðsdómarinn sem veitti svona heimildir braut gegn mannréttindum mannsins sem fyrr var nefndur.

    Á Íslandi þótti síðar vera ástæða til að gera þennan dómara að forseta Hæstaréttar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur