Hátíðlegar stellingar

Það er þarft að setja sig stundum í hátíðlegar stellingar og velta fyrir sér grundvellinum fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk.

Meginhugmyndin hlýtur að vera sú að einstaklingurinn sé grunneiningin í slíku samfélagi. Hann verður ekki til fyrir samfélagið, heldur verður samfélagið til vegna hans og annarra einstaklinga sem þar er að finna. Hlutverk þess getur aldrei orðið að drottna yfir honum. Það hefur miklu fremur því hlutverki að gegna að vernda réttindi hans fyrir ásókn annarra.

Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmark ast af öðru en réttindum annarra. Við teljum líka þá meginreglu gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi einstaklinga og jafnvel að slík heimild dugi ekki til ef skert eru réttindi sem njóta ríkari verndar samkvæmt sérstökum ákvæðum sem við höfum sett í stjórnarskrá okkar um það. Ég tel að miklu máli skipti fyrir þá sem starfa að úrlausn mála í réttarkerfinu að átta sig vel á þessum hugmyndagrundvelli stjórnskipunarinnar.

Einnig er sérstök ástæða til að nefna annan þátt, sem að mínum dómi er óaðskiljanlegur hluti af þeirri lífsskoðun sem hér er lýst, en það er virðing fyrir öðru fólki og skilyrðislaus viðurkenning á rétti þess til að haga eigin lífi á þann hátt sem það sjálft kýs, eins lengi og það skaðar ekki aðra. Mannfólkið er fjölbreytilegt og einstakir menn hafa ólíkar kenndir, hvatir og langanir í lífinu. Allir eiga þar að mínum dómi sama rétt. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum og láta menn njóta misjafns réttar eftir því hverjum þessara „flokka“ þeir tilheyra. Til þess hafa menn ekki heimild af þeirri einföldu ástæðu að einn á ekki að ráða neinu um einkahagi annars.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur