Hér á Íslandi er margt sem betur mætti og ætti að fara. Lítum á nokkur dæmi:
- Hjarðhegðun. Menn taka alltof oft undir skoðanir og háttsemi annarra án þess að hafa sjálfir aflað upplýsinga og lagt málefnalegt mat á það sem um ræðir. Þannig er tekið undir með þeim sem hæst láta.
- Flestir stjórnmálamenn eru stefnulausir, en með því á ég við að þeir styðjast sjaldnast við ákveðna pólitíska línu, sem oft er nauðsynlegt að kynna fyrir kjósendum fyrirfram svo þeir viti hvers vænta megi af þeim sem þeir kjósa.
- Embættismenn í þjónustu ríkisins ráða mörgum (flestum?) ákvörðunum í málefnum almennings og stofnana sem ríkisvaldið er í fyrirsvari fyrir. Kosnir fulltrúar telja það aðalskyldu sína að byrja störf sín í embætti með því að kynna sér viðhorf embættismanna sem fyrir sitja í t.d. ráðuneytunum og eru reyndar miklu fleiri en þörf er á. Hér eiga kjörnir fulltrúar að halda um stjórnartauma en gera það oft lítt eða ekki. Þeim finnst þá þægilegra að lúta forsjá embættismanna sem hafa oft meiri vitneskju en þeir um kringumstæður mála.
- Birtar hafa verið upplýsingar um að starfsmenn ríkisins séu margir verklausir eða verklitlir. Mikill mannafli fer í að gera lítið sem ekkert í vinnunni. Þetta kostar almenning stórfé. Lagareglur torvelda þeim, sem almenningur hefur kosið til áhrifa, að segja upp opinberum starfsmönnum sem engin þörf er fyrir.
- Stór hluti almennings hikar ekki við að fullyrða að þeir, sem hafa verið sakaðir um afbrot, hafi framið brotin, þó að sök þeirra hafi ekki verið sönnuð fyrir þeim stofnunum sem um það eiga að fjalla (dómstólum). Af þessu hafa hlotist miklir harmleikir.
- Það er einkenni á störfum kjörinna fulltrúa að vilja takast á hendur forsjá fyrir ýmsum málefnum þjóðarinnar, þó að engin þörf sé fyrir slíkt. Með þessari háttsemi telja þeir sig vinna að hagsmunum almennings þó að reyndin af þessu sé öndverð og gangi ekki út á annað en að hafa vit fyrir fólkinu og vernda það fyrir sjálfu sér. Meginreglan á að vera sú að menn taki sjálfir ábyrgð á ákvörðunum sem varða eigin hagsmuni þeirra og beri síðan sjálfir ábyrgð á því sem aflaga kann að fara.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur