Við myndun núverandi ríkisstjórnar voru höfð uppi stór orð um að nú yrði sparað í rekstri ríkisins. M.a. hafði þá nýlega komið fram tillaga um að fækka dómurum Hæstaréttar úr sjö í fimm. Ástæðan fyrir þessu var sú að eftir stofnun Landsréttar á árinu 2018 hafði komið í ljós svo um munaði að dómstóllinn hafði svo lítið að gera að hver dómari dæmdi aðeins í 30-40 málum á ári, en þessi fjöldi hafði á árunum fyrir breytinguna verið allt að 330 málum á hvern dómara á ári. Leiddi þetta til þess að dómararnir tóku að sér að sinna öðrum embættum, m.a. hjá ríkinu, sem sjálfsagt hafa aukið tekjur þeirra um allt að helmingi.
Strax á fyrsta degi í embætti var dómsmálaráðherrann spurður, hvort ekki stæði til að flytja frumvarp á Alþingi um þessa breytingu. Ráðherrann svaraði að bragði að ekki kæmi til greina að fækka dómurunum. Engin rök voru fyrir þessari afstöðu, en með lagabreytingu í þessa átt hefði mátt spara ríkissjóði nokkur hundruð milljónir króna á ári. Hver ætli ástæðan sé fyrir þessari óskiljanlegu afstöðu?. Mér dettur t.d. í hug að ráðherrann vilji með þessu auka líkur á að geta sjálf orðið dómari við réttinn þegar ráðherradómi lýkur.
Er þetta ekki dæmigert? Persónulegir eigin hagsmunir eru teknir fram yfir hagsmuni þjóðarinnar af því að spara umtalsverð útgjöld í rekstri ríkisins. Þessi ráðherra hefur, bæði á þessu sviði sem öðrum, sýnt fram á vanhæfni til að sinna starfi sínu. Og aðrir ráðherrar hafa sýnilega stutt ráðherrann í þessari smánarlegu afstöðu. Er ekki þörf á að þjóðin ákveði við fyrsta tækifæri að losa þjóðina við þetta fólk úr ráðherradómi?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur