• Úr eftirmælum

    Ég hef að undanförnu birt hér á fasbókinni ljóð úr ljóðabókinni „Illgresi“ eftir Örn Arnarson, sem ég tel fremstan íslenskra ljóðskálda. Við ættum sem flest að kynna okkur ljóð hans. Hér kemur eitt enn sem ber heitið „Úr eftirmælum“:

    Hefur göngu æskan ör
    Árla lífs á degi,
    sýnist ævin unaðsför
    eftir sléttum vegi,
    skilur ei, að kuldakjör
    koma á daginn megi.
    Haustsins þungu kröm og kör
    kennir vorið eigi.

    Þreyta merkir hár og hár
    hvítt, er líður vorið.
    Sljóvgar auga tár og tár.
    Tæmist æskuþorið.
    Allir hljóta sár og sár,
    svo að þyngir sporið.
    Leggst við baggann ár og ár,
    uns menn fá ei borið.

    Mörgum þykir vel sé veitt,
    vinnist gullið bjarta,
    láta í búksorg ævi eytt,
    ágirndinni skarta.
    En þeir flytja ekki neitt
    yfir djúpið svarta.
    Þangað fylgir aðeins eitt:
    ást frá vinarhjarta.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Verkefni Alþingis

    Fyrir nokkru birti ég hér á síðu minni greinarkorn um ástæðuna fyrir því að almenningur á Íslandi nýtur betri lífskjara en fólk sem býr í mörgum öðrum ríkjum. Þar væru stærstu áhrifavaldarnir sæmilegt frelsi í viðskiptum (kapítalismi) og réttarvernd sú sem tiltölulega sjálfstæðir dómstólar veita.

    En þar með er ekki öll sagan sögð, þar sem fyrir liggur að íslenska ríkið hefur sólundað skattfé borgaranna í alls kyns starfsemi sem ekkert hefur með þau verkefni að gera sem eðlilegt er að ríkið leggi stund á. Í viðtali í morgunþætti Bylgjunnar 1. júlí s.l. fjallaði Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda um grein sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið 19. júní s.l. Þar fjallar hann um þetta. Það hafa líka fjölmargir aðrir Íslendingar skrifað um að undanförnu, m.a., á svipuðum nótum og Skafti, og gert grein fyrir ógnvekjandi meðferð ríkisins á skattfénu. Fyrir liggur að skattheimtan hér á landi sé miklu meiri en þörf krefst. M.a. nefnir Skafti til sögunnar alls kyns starfsemi opinberra aðila sem þeir ættu alls ekki að standa fyrir en hundruð eða þúsundir manna eru ráðnir til að sinna.

    Í viðbót við þetta er nú svo komið málum að fullveldi þjóðarinnar hefur verið skert stórlega með því að færa valdið til þess að setja lög og reglur á Íslandi til erlendra stofnana. Þær setja þá saman stóra reglupakka sem okkur er talið skylt að taka upp hér á landi án þess að þeir hafi hlotið þá meðferð sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að löggjafinn sinni. Ekki hafa hér á landi einu sinni verið sett almenn lög sem heimila þetta framsal á fullveldi þjóðarinnar og skal þá ósagt látið hvort slík heimild myndi standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta hefur lögfræðingurinn Arnar Þór Jónsson m.a. fjallað í viðamiklum skrifum sínum að undanförnu.

    Það er löngu kominn tími til að þeir stjórnmálamenn, sem við kjósum, taki nú til við að sinna endurbótum á þeim skaðvænlegu þáttum sem felast í þeim háttum sem að framan er lýst. Með því yrði gert verulegt átak í að bæta kjör almennings í landinu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Amma kvað

    Fyrir nokkrum dögum birti ég hér á fasbókinni kvæðið „Þá var ég ungur“ eftir eðalskáldið Örn Arnarson. Það hlaut afar öflugar undirtektir. Hér kemur annað kvæði eftir þennan ljóðasnilling.

    AMMA KVAÐ

    Ekki gráta unginn minn,
    Amma kveður við drenginn sinn.
    Gullinhærðan glókoll þinn
    geymdu í faðmi mínum,
    elsku litli ljúfurinn,
    líkur afa sínum.

    Afi þinn á Barði bjó,
    bændaprýði, ríkur nóg.
    Við mér ungri heimur hló.
    Ég hrasaði fyrr en varði.
    Ætli ég muni ekki þó
    árið mitt á Barði?

    Man ég víst, hve hlýtt hann hló,
    hversu augað geislum sló
    og hve brosið bað og dró,
    blendin svör og fyndin.
    Ég lést ei vita, en vissi þó,
    að vofði yfir mér syndin.

    Dýrt var mér það eina ár.
    Afi þinn er löngu nár.
    Öll mín bros og öll mín tár
    eru þaðan runnin,
    gleðin ljúf og sorgin sár
    af sama toga spunnin.

    Elsku litli ljúfur minn,
    leiki við þig heimurinn.
    Ástin gefi þér ylinn sinn,
    þótt einhver fyrir það líði.
    Vertu eins og afi þinn
    allra bænda prýði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Grundvöllur velferðar

    Það er eins og margt fólk í samfélagi okkar eigi erfitt með að skilja hvar grunnstoðin fyrir velgengni og góðum kjörum almennings liggur. Samt ættu menn að átta sig á þessu með því að skoða heimsmyndina sem við okkur blasir. Það er nefnilega augljóst að velgengnin er mest, þar sem mönnum er frjálst að verða ríkir ef þeir ástunda atvinnu sína með sölu á vörum eða þjónustu, sem almenningur sækist eftir. Þetta getum við kallað kapitalisma og fylgir þá gjarnan með lýðræðisleg stjórnskipan og raunveruleg réttarvernd dómstóla.

    Þessa skipan er okkur skylt að bera saman við skipulag þar sem handhafar ríkisvaldsins beita valdi sínu til að taka ákvarðanir um framleiðslu og sýslan þeirra sem vilja sjálfir hagnast í viðskiptum, eins og flestir vilja. Þessu fyrirkomulagi fylgir yfirleitt ófrelsi og kúgun, þar sem mönnum er jafnvel refsað fyrir áræðni og hugmyndaauðgi í atvinnulífinu.

    Við höfum átt því láni að fagna að koma á stjórnskipan af fyrri tegundinni. Reyndar eru línur sjaldnast skýrar í þessari aðgreiningu, því valdhafar hafa oftast tilhneigingu til að takmarka frelsi í því skyni að geta úthlutað lífsins gæðum til sjálfs sín eða annarra.

    Við getum líka litið til fortíðar okkar eigin þjóðar. Ég skrifaði t.d. fyrir allnokkru síðan greinastúf um forfeður mína sem fyrir rúmlega hundrað árum bjuggu í torfbæ norður við heimskautsbaug með öllum þeim þrengingum sem slíkum aðstæðum fylgja. Enginn býr lengur við slík skilyrði.

    Nú sést velferðin á hverju strái. Venjulegt fólk býr í eigin húsnæði, ekur um á glæstum bifreiðum og fer reglulega í orlofsferðir til sólríkra landa. Með því er ég ekki að segja að allir hafi allt til alls. Allir hafa hins vegar haft ómælt gagn af velferðinni sem fylgir frjálsu markaðskerfi og lýðréttindum sem við erum svo lánsöm að hafa virt í meginatriðum þó að þar megi lengi um bæta.

    Menn ættu að bera hagi almennings í hinum kapitalísku ríkjum saman við kjör manna í ríkjum sam þurfa að lúta alræðisvaldi stjórnarherranna. Þar er mönnum oft refsað fyrir velgengni og almenningur líður fyrir bág kjör sín. Að auki er ástandið víða svo að menn eru sviptir frelsi og jafnvel lífi fyrir að lúta ekki herrum sínum í einu og öllu. Þar eru mannréttindi oftast lítt vernduð og dómstólastarf er bágborið. Við heyrum nær daglega fréttir af slæmum kjörum meðbræðra okkar sem þurfa að lifa við skipulag alræðis.

    Flest erum við á þeirri skoðun að réttlætanlegt sé að bæta kjör þeirra sem minna mega sín ef bágindin stjórnast af erfiðum lífskjörum sem menn ráða ekki við. Reglulega heyrist hins vegar málflutningur um að bæta megi kjör alls almennings með því að takmarka frelsi þeirra sem hagnast í viðskiptum og færa hagnaðinn til almennings með valdi í stað viðskipta. Þetta er reyndar að nokkru leyti gert með skattheimtu sem oftast er ranglát og gengur allt of langt. Er ekki einfaldlega skynsamlegra að reyna að skilja hvar velferð okkar liggur og reyna frekar að styrkja hag þeirra sem afla fjár fyrir samfélagið en veikja hann?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Sannfæring þingmanna

    48. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

    Fyrir þinginu liggur nú tillaga um vantraust á matvælaráðherra vegna fáheyrðs ofbeldis sem hann hefur beitt Hval hf. með ráðherravaldi sínu. Ráðherrann er þingmaður Vinstri grænna og tekur við af fyrri ráðherrum þess flokks við þau lögbrot sem í þessari háttsemi felast.

    Nú er talið að alþingismenn, sem opinberlega hafa lýst forsmán á þessari háttsemi ráðherrans, hyggist greiða atkvæði gegn þessari tillögu í því skyni að halda lífi í ríkisstjórninni sem nýtur stuðnings flokks þess sem þeir tilheyra.

    Gangi málið fram með þessum hætti er það ekkert minna en algjör niðurlæging fyrir Alþingi og þá einkum þingmennina sem hér eiga hlut að máli. Þeir virðast þá fremur fylgja fyrirmælum flokksforystu sinnar en sannfæringu sinni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Heimildarlaus valdbeiting

    Leiðari Morgunblaðsins s.l. föstudag 14. júní ber fyrirsögnina „Loftslag, lýðræði og óvinir þess“. Þar er fjallað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fyrir skömmu þar sem tekin var til greina krafa um að lýðræðislegur meirihluti svissneskra borgara hefði brotið mannréttindi á borgurum landsins með því að gera ekki nóg í loftslagsmálum. Í Sviss væri beint lýðræði í hávegum haft, en þjóðaratkvæðagreiðsla hafði farið þar fram um loftslagsaðgerðir árið 2021. Nú hefðu báðar deildir svissneska þingsins hafnað þessum dómi, m.a. á þeirri forsendu að MDE hefði farið út fyrir valdsvið sitt og viðhaft óþolandi afskipti af svissnesku lýðræði.

    Sá sem hér skrifar tekur kröftuglega undir þessa afstöðu Morgunblaðsins. Þessi dómstóll hefur ekki, frekar en aðrir dómstólar yfirleitt, vald til að hnekkja ákvörðunum löggjafans í aðildarríkjum MDE.

    Lítum aðeins á skiptingu valds milli æðstu stofnana ríkisvalds á Íslandi sem telja má sambærilega því sem gildir í öðrum lýðræðisríkjum í Evrópu. Ríkisvaldinu er skipt í þrjá þætti: löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hver þessara þátta byggir valdheimildir sínar á ákvæðum í stjórnarskrám ríkjanna, sem í grunninn kveða á um lýðræði, þ.e. að handhafar ríkisvaldsins sæki vald sitt til almennings (kjósenda). Hér á landi fer löggjafinn þannig með lýðræðislegt vald sem almennir kjósendur veita honum í Alþingiskosningum til afmarkaðs tíma í senn.

    Handhafar framkvæmdarvalds njóta afleidds lýðræðislegs umboðs til valdheimilda sinna, þar sem þeir verða að styðjast við meiri hluta þingsins . Þeir þurfa síðan að byggja valdskotnar ákvarðanir sínar á ákvæðum í stjórnarskrá sem veitir þeim slíkar heimildir í einstökum málum með settum lögum.

    Samkvæmt íslensku stjórnarskránni fara dómstólar ekki með neitt sambærilegt vald. Upphafsákvæði 61. gr. hennar segir svo um valdheimildir þeirra: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.“ Þetta er að sínu leyti sama staða og gildir um valdheimildir alþjóðlegra dómstóla til að dæma um réttarstöðu borgara í einstökum aðildarríkjum. Til þess þurfa þeir heimildir sem þurfa að byggja á stjórnskipulegum innanlandsreglum aðildarríkjanna. Slíkar reglur veita þessum alþjóðlegu dómstólum ekki heimildir til að setja nýjar lagareglur um réttarstöðu borgara aðildarríkjanna. Og þá ekki til að túlka reglur út fyrir efni lagareglna sem réttlega hafa verið lögleiddar með lýðræðislegum hætti. Sjálftaka þessara dómstóla brýtur svo einnig gegn fullveldi þjóðanna sem byggist á stjórnarskrám þeirra semg fæstar hafa gefið frá sér.

    Gagnrýni Morgunblaðsins á fyrrgreindan dóm MDE byggist á þessum gildu sjónarmiðum. En hvað þá um íslenska dómstóla? Mega þeir byggja dóma sína á öðru en íslenskum lögum, sem Alþingi hefur sett? Ég hef í mörg ár mælt fyrir þeim málstað að dómstólar hafi ekki heimild til slíks. Þeim beri bara að dæma eftir lögum, en Alþingi setur þau samkvæmt stjórnarskránni á grundvelli þess lýðræðislega umboðs sem þingið hefur og getið var um að framan. Samt er málinu svo háttað að íslenskir dómstólar hafa um langan aldur tekið sér vald til lagasetningar á hliðstæðan hátt on MDE gerði í fyrrgreindum dómi. Dæmi eru um að íslenskir fræðimenn hafi haldið því berum orðum fram að dómstólar fari með heimildir af þessu tagi. Einn skrifaði t.d.: „Viðurkennt er að dómsvaldið eigi að vera sjálfstætt og því mega dómstólar aldrei verða ambátt löggjafans. En þetta hefur enga merkingu nema dómsvaldið hafi sjálfstæðar valdheimildir nokkurn veginn til jafns við löggjafann til að móta reglur sjálfstætt eða að minnsta kosti til aðhalds og mótvægis.“

    Þessi „fræðikenning“ stenst auðvitað enga skoðun. Dómstólar sem „móta reglur sjálfstætt“ eru með öllu ábyrgðarlausir af lagasetningu sinni. Hún er andlýðræðisleg alveg eins og dómur MDE á dögunum.

    Þó að ég hafi í bókum mínum á undanförnum áratugum nefnt mörg dæmi um svona misnotkun á dómsvaldinu hefur mér fundist að almenningur í landinu hafi látið sér fátt um finnast. Ég hef ekki fylgst nákvæmlega með dómsýslunni síðan en hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta hafi ekkert lagast. Beini ég því til starfandi hæstaréttarlögmanna að nefna til sögunnar dóma frá síðustu árum sem sýna þetta. Ég þekki dæmi um að ákvæði um refsiverða háttsemi verið „snyrt til“, svo refsa megi mönnum fyrir lögbrot til að þóknast þannig almenningi í landinu. Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að svo sé. Ástæða er til að hvetja dómara til að láta ekki freistast af slíku hátterni. Fjölmiðlar hafa því miður ekki, svo mér sé kunnugt, fjallað um þetta þegar það gerist hjá dómstólum hér innanlands. Heldur ekki Morgunblaðið, þó að á vettvangi þess sé nú réttilega fjallað um valdbeitingu erlendra dómstóla eins og nefnt var fyrst í þessum pistli.

    Guð blessi Ísland!

     Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Þá var ég ungur

     
    Er ekki ráð að mannfólkið beini stundum huganum að raunverulegum gildum í lífinu, fremur en að vera upptekið af þrasi daganna sem oftar en ekki snýst um hégóma og tildur en ekki það sem skiptir það mestu máli þegar allt kemur til alls?
    Sá sem skrifar þessar línur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að traustasta samband í mannheimi, sem sjaldan brestur, sé samband móður og barns. Þegar ég og faðir minn sátum á kenderíi saman fyrir mörgum áratugum fórum við gjarnan með ljóð. Ljóðabókin Illgresi eftir Örn Arnarson var í uppáhaldi hjá okkur. Þar er margar ljóðaperlur að finna. Ein þeirra var í sérstöku uppáhaldi okkar. Ég held við höfum verið sammála um að fegurra ljóð hefði ekki verið samið á Íslandi. Hvað finnst þér lesandi góður?
    Mamma var fædd 3. júní 1923. Pabbi dó 3. júní 1979. Þessi dagur hefur því alltaf átt sérstakt sæti hjá mér.
    Skyggnumst aðeins um sviðið.
    ——-
    Hinn 12. desember 1884 ól Ingveldur Sigurðardóttir, þá 34 ára, son. Þetta gerðist á bænum Kverkártungu á Langanesströnd. Drengurinn var sjöunda barn hennar og eiginmannsins Stefáns Árnasonar. Hjónin bjuggu við lítil efni. Á harðindaárunum eftir 1880 svarf að þeim og þurftu þau snemma árs 1887 að bregða búi sakir fátæktar. Þau réðust sem vinnuhjú að Miðfirði. Eldri börnin urðu þau að láta frá sér en héldu drengnum. Hann hét Magnús. Stefán drukknaði vorið 1887 í Miðfjarðará þegar Magnús litli var tveggja ára gamall. Eftir það var hann í umsjá móður sinnar, sem varð nokkrum árum síðar bústýra á Þorvaldsstöðum í Miðfirði. Drengurinn þótti pasturslítill og var talinn latur til vinnu. Eina skjólið hans var móðirin sem unni honum og annaðist um hann í hörðum heiminum. Var hann hjá henni allt til þess að hann hélt til Reykjavíkur til náms um tvítugt.
    Ingveldur andaðist vorið1925. Líklega hefur henni þá ekki hugkvæmst að hún ætti eftir að lifa um ókomna tíð í hjarta þjóðarinnar sem táknmynd þess bands milli einstaklinga sem ekkert fær grandað, og verða þar í reynd ódauðleg.
    Magnús sonur hennar fékkst við kveðskap og kom yfirlætislaus ljóðabók hans Illgresi fyrst út á árinu 1924. Hann orti undir skáldanafninu Örn Arnarson. Það ódauðlega ljóð sem hann orti til móður sinnar varð ekki til fyrr en degi var tekið að halla í lífi hans sjálfs, en Magnús andaðist 1942. Það ár kom út ný útgáfa af Illgresi og var þar fyrst birt ljóðið „Þá var ég ungur“.
    Þetta ljóð er snilldarverk. Efni þess þarf ekki að lýsa. Það talar fyrir sig sjálft.
    ——-
    Hreppsómaga-hnokki
    hírðist inni á palli,
    ljós á húð og hár.
    Steig hjá lágum stokki
    stuttur brókarlalli,
    var svo vinafár.
    Líf hans var til fárra fiska metið.
    Furðanlegt, hvað strákurinn gat étið.
    Þú varst líknin, móðir mín,
    og mildin þín
    studdi mig fyrsta fetið.
    Mér varð margt að tárum,
    margt þó vekti kæti
    og hopp á hæli og tám.
    -Þá var ég ungur að árum.-
    „En þau bölvuð læti“,
    rumdi ellin rám.
    Það var eins og enginn trúa vildi,
    að annað mat í barnsins heimi gildi.
    Flúði ég til þín, móðir mín,
    því mildin þín
    grát og gleði skildi.
    Lonta í lækjar hyli,
    lóan úti í mónum,
    grasið grænt um svörð,
    fiskifluga á þili,
    fuglarnir á sjónum,
    himinn, haf og jörð –
    öll sú dásemd augu barnsins seiddi.
    Ótal getum fávís hugur leiddi.
    Spurði ég þig móðir mín,
    og mildin þín,
    allar gátur greiddi.
    Út við ystu sundin
    -ást til hafsins felldi-
    undi lengstum einn,
    leik og leiðslu bundinn.
    Lúinn heim að kveldi
    labbar lítill sveinn.
    Það var svo ljúft, því lýsir engin tunga,
    af litlum herðum tókstu dagsins þunga.
    Hvarf ég til þín móðir mín,
    og mildin þín
    svæfði soninn unga.
    Verki skyldu valda
    veikar barnahendur.
    Annir kölluðu að.
    Hugurinn kaus að halda
    heim á draumalendur,
    gleymdi stund og stað.
    „Nóg er letin, áhuginn er enginn“.
    Ungir og gamlir tóku í sama strenginn,
    allir nema móðir mín,
    því mildin þín
    þekkti dreymna drenginn.
    Heyrði ég í hljóði
    hljóma í svefni og vöku
    eitthvert undralag.
    Leitaði að ljóði,
    lærði að smíða stöku
    og kveða kíminn brag.
    Ekki jók það álit mitt né hróður.
    Engum þótti kveðskapurinn góður.
    Þú varst skjólið, móðir mín,
    því mildin þín
    vermdi þann veika gróður.
    Lífsins kynngi kallar.
    Kolbítarnir rísa
    upp úr öskustó.
    Opnast gáttir allar,
    óskastjörnur lýsa
    leið um lönd og sjó.
    Suma skorti verjur og vopn að hæfi,
    þótt veganestið móðurhjartað gæfi.
    Hvarf ég frá þér móðir mín,
    en mildin þín
    fylgdi mér alla ævi.
    Nú er ég aldinn að árum.
    Um sig meinin grafa.
    Senn er sólarlag.
    Svíður í gömlum sárum.
    Samt er gaman að hafa
    lifað svo langan dag.
    Er syrtir af nótt, til sængur er mál að ganga,
    -sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga-
    þá vildi ég móðir mín,
    að mildin þín
    svæfði mig svefninum langa.
    Magnús Stefánsson hlaut ekki mikinn veraldlegan frama meðan hann lifði. Nafn hans mun hins vegar lifa með ljóðum hans um ókomna tíð. Og Ingveldur Sigurðardóttir mun lifa sem táknmynd þeirra tengsla mannlífsins sem aldrei bregðast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Frammistaða við talningu atkvæða

    Frammistaða kjörstjórna við talningu atkvæða í forsetakosningunum í gær var frekar bágborin. Allir vita að þjóðin bíður fyrir framan sjónvarpstækin sín eftir upplýsingum um tölur úr talningunni. Það komu smáar tölur úr tveimur kjördæmum stuttu eftir að kjörfundi lauk kl. 22 en síðan ekki fleiri tölur fyrr en vel eftir miðnætti. Þessi frammistaða er óboðleg. Það er enginn vandi að koma fram með fyrstu tölur úr öllum kjördæmum rétt upp úr kl.22. Kjörstjórn tekur kjörkassa kl. t.d. 20 og fer með þá í talningarsal sem er læstur undir lögregluvernd. Inn í salinn fara svo talningarmenn sem hefja flokkun og talningu atkvæða strax. Þá verða fyrstu tölur úr öllum kjördæmum tilbúnar upp úr kl. 22. þegar kjörfundi lýkur, þannig að unnt er að birta þær þá strax. Það á auðvitað að vera skylt að standa svona að birtingu talna svo fólk geti fylgst með upphafi talningarinnar miklu fyrr en núna. T.d. þarf gamalt fólk, sem langar til að fylgjast með, að geta komist í háttinn miklu fyrr en nú er.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Baktjaldamakk?

    Í gær skrifaði ég á fasbók pistil um „afrek“ Katrínar Jakobsdóttur í stjórnmálasögu undanfarinna ára og áratuga. Kom þar fram að ég teldi hana hafa verið eindreginn sameignarsinna og að gjörðir hennar hefðu verið í beinni andstöðu við stefnumál Sjálfstæðisflokksins um frelsi, ábyrgð og takmörkuð ríkisafskipti. Síðustu árin hefði hún af hálfu Vinstri grænna stýrt óvinsælli ríkisstjórn með aðild þessara tveggja flokka og komist þar upp með gjörðir sem samstarfsflokkurinn ætti alls ekki að hafa þolað. Lýsti ég m.a. undrun minni á að forystumenn Sjálfstæðismanna hefðu nú hver af öðrum lýst stuðningi sínum við forsetaframboð Katrínar, þar sem þessi viðhorf hennar væru líkleg til að hafa áhrif á gjörðir hennar í forsetaembættinu. Við greiningu á fylgi hennar í könnunum hefur komið fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins væru stærsti pólitíski hópurinn sem styður hana.

    Svo laust allt í einu niður í höfuð mér skýringin á þessu furðuverki. Hér lágu slóttugir samningar að baki. Að því er Katrínu snerti var orðið ljóst að hún og flokkur hennar myndi fá hroðalega útkomu í Alþingiskosningum sem haldnar verða á næsta ári. Metnaðarfull konan vissi að hún myndi eiga erfitt með að sætta sig við slík örlög. Fyrirsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins áttuðu sig líka á að þeirra biði afhroð í kosningunum framundan nema þeim tækist að gera breytingar á stöðunni þannig að kosningabaráttan yrði vænlegri.

    Og var nú ekki sjálfsagt að semja? Katrín færi í forsetaframboð en Bjarni formaður íhaldsins forsætisráðherrastólinn. Þetta myndi henta báðum. Til þess að þetta gengi upp yrðu Sjálfstæðismennirnir að lofa Katrínu stuðningi í forsetakjörinu. Og það hefur gengið eftir. Morgunblaðið hefur greinilega tekið þátt í þessum slægvitru brögðum, því ekki verður annað séð en það styðji Katrínu til forsetakjörs svo undarlegt sem það er. Og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnilega gert ráðstafanir til að fá stuðningsmenn sína til að kjósa Katrínu til forseta.

    Er þetta það sem þjóðin vill? Baktjaldamakk til að tryggja sem best stöðu óvinsælla stjórnmálamanna? Ég skora á fjölmiðla að beina spurningum til þessara þátttakenda í makkinu um þetta, því vonir ættu að standa til þess að fæstir þeirra vilji taka áhættuna af að svara með ósannindum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Villir á sér heimildir

    Katrín Jakobsdóttir hefur látið af starfi sem forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna og boðið sig fram í embætti forseta sem kjósa skal næsta laugardag, 1. júní.

    Katrín ber auðvitað fulla ábyrgð á verkum þeirrar ríkisstjórnar sem hún stýrði og þá kannski sérstaklega eigin verkum og ráðherranna úr hennar eigin flokki.

    Katrín hefur á stjórnmálaferli sínum verið einn harðasti alræðissinni í landinu og hefur það reglulega komið fram í pólitísku starfi hennar undanfarin ár og áratugi. Meðal þeirra afreka sem hún hefur drýgt eða átt beinan þátt í að drýgja eru eftirtalin:

    Hún hefur verið andvíg öllum einkarekstri í landinu. Sérstaklega hefur borið á andúð hennar á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Þetta hefur leitt til mun hærri kostnaðar fyrir skattgreiðendur en ella hefði verið.

    Hún hefur tekið þátt í andúð á náttúruvænum orkuvirkjunum. Hefur aðferðin þá verið sú að láta margmennar nefndir umhverfissinna fjalla um ákvarðanir um virkjanir og tefja þær. Hefur ekki verið ráðist í virkjanir um margra ára skeið.  T.d. hefur ekki verið ráðist í að reisa Hvammsvirkjun í Þjórsá þó að fyrir hafi legið að í þá virkjun hafi mátt ráðast fyrir mörgum árum. Nú er svo komið að framleiða þarf raforku með olíu víða í landinu með þeim skaðlegu áhrifum sem slíkt hefur haft, þegar haft er í huga að einna verðmætustu auðlindir þjóðarinnar eru fólgnar í virkjunum vatnsorku og jarðhita.

    Hún greiddi á Alþingi atkvæði með aðförinni að Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra eftir hrunið 2008. Sú aðför mistókst með öllu en verður þjóðinni til ævarandi skammar.

    Hún telur að leyfa eigi fóstureyðingar alveg fram að fæðingu barna.

    Hún tók þátt í fyrirvaralausri aðför að hvalveiðum við landið. Beindist aðförin eingöngu að einu fyrirtæki sem hafði lagt stund á þessar veiðar. Liggur ljóst fyrir að þessi aðför mun leiða til bótagreiðslna úr ríkissjóði sem talið er að muni nema einhverjum milljörðum króna. 

    Hún vill ekki að heimiluð verði heimiluð smásala á áfengi í matvöruverslunum.

    Fleiri mál má sjálfsagt nefna þar sem afstaða hennar byggist á alræðishyggju á borð við þá sem ræður í ríkjum sem sósíalistar ráða í heiminum.

    Líklegt er að hún kunni sem forseti að beita neitunarvaldi á lagasetningu í þágu nefndra verkefna gefist henni tækifæri til.

    Þegar kjósendur gera upp á milli frambjóðenda í kosningu forseta um næstu helgi verður ekki hjá því komist að leggja mat á fortíð þeirra því ekki er unnt að gera ráð fyrir að þeir muni umbreyta persónu sinni og skoðunum nái þeir kjöri.

    Í skoðanakönnunum að undanförnu hefur komið fram að kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðismanna muni verða stærsti stuðningshópur þessa frambjóðanda. Fyrir liggur að nokkrir áhrifamestu forystumenn flokksins styðja hana. Virðist m.a. Morgunblaðið gera það þótt með óbeinum hætti sé.

    Ástæða er til að vekja athygli þjóðarinnar á þessum undarlegu kringumstæðum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður