• Ofbeldi

    Var það ekki sumarið 2023, sem Svandís, þá matvælaráðherra, beitti fyrirtækið Hval hf. ólögmætu ofbeldi með því að stöðva hvalveiðar fyrirtækisins degi áður en vertíðin átti að hefjast? Þetta fyrirtæki hafði stundað þessar veiðar um margra áratuga skeið og fjárfest í búnaði og starfsmönnum fyrir háar fjárhæðir.

    Lög kveða á um að leyfi þurfi til að mega stunda hvalveiðar. Fyrirtækið hafði fengið slíkt leyfi m.a. til að stunda veiðarnar á vertíðinni 2023. Enginn vafi var á að háttsemi ráðherrans braut freklega lagalegan rétt á fyrirtækinu.

    Í ljós kom að ráðherranum var ljóst að þessi aðgerð var ólögmæt og þar með myndi hún valda ríkissjóði (skattgreiðendum) fjártjóni sem nema myndi svimandi háum fjárhæðum. Ráðherrann vísaði aðeins til huglægra sjónarmiða sinna um að stöðva ætti hvalveiðar við landið. Ljóst var og er að þeim sjónarmiðum verður ekki framfylgt nema með lagabreytingum sem heyra undir löggjafarvaldið en ekki ráðherra.

    Það lá sem sagt fyrir að með athæfi sínu braut ráðherrann vísvitandi lögverndaðan rétt þessa fyrirtækis. Ekki var samt hróflað við ráðherranum úr embætti. Þar með tóku ríkisstjórnarflokkarnir að sínu leyti ábyrgð á þessari ólögmætu aðgerð, þ.m.t. Sjálfstæðisflokkurinn. Væri ráðherranum ekki vikið úr embætti fyrir þessar sakir, hefðu þær þegar í stað átt að valda slitum á stjórnarsamstarfi þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn með flokki ráðherrans, Vinstri-grænum.

    En það virðist vera gjaldgeng aðferð ráðandi flokka í ríkisstjórn á Íslandi að una framferði ráðherra sem allir vita að er ólögmætt og muni valda ríkissjóði háum bótagreiðslum. Þetta segir ófagra sögu af stjórnarfari í landinu.

    Hafi ofbeldisfullur flokkur völd virðist hann geta beitt þeim ólöglega til að koma fram stefnumálum sínum í stað þess að freista þess að fá lögum breytt á Alþingi. Þessari valdbeitingu gegn hvalveiðum virðist hafa verið viðhaldið á þessu ári. Vegur Svandísar hefur nú vaxið því hún hefur verið kosin formaður stjórnmálaflokksins sem hýsir hana. Og ennþá situr hún í ríkisstjórninni.

    Niðurstaðan er sú að það sé gjaldgeng aðferð í stjórn landsins að brjóta rétt á borgurum á kostnað almennings til að koma fram hugðarefnum sínum. Ætli svona framferði yrði látið óátalið í öðrum ríkjum sem vilja kenna stjórnarfar sitt við lögmæti? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Flokkur frelsis og ábyrgðar?

    Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.

    Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir til að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum sem þeir segjast hafa?

    Kosningar eru framundan. Í ljós kemur í fylgiskönnunum að flokkurinn, sem ég og fjölmargir aðrir hafa stutt, muni gjalda afhroð. Að mínum dómi kemur ekki annað til greina en skipta gersamlega um kúrs og byggja kosningabaráttuna á þeim stefnumálum, sem við mörg héldum að þessi flokkur ætti að standa fyrir.

     

    Þessi eru helst:

    Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.

    Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn styðja frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.

    Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.

    Fullveldi landsins. Nú sjást merki um að fyrirsvarsmenn flokksins vilji standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti.

    Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl.

    Gera verður raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.

    Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.

    Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.

    Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.

    Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar.

    Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.

    Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum.

    Fleira mætti telja en hér skal látið staðar numið að sinni.

     

    Það hlýtur svo að teljast nauðsynlegur þáttur í endurreisn flokksins að endurnýja í stórum stíl forystuna. Það er auðvitað augljóst að kjósendur geta ekki treyst núverandi forystumönnum til að hrinda í framkvæmd ofangreindum verkefnum.

    Framangreind stefnumið ber að setja fram með öflugum hætti í kosningabaráttunni sem framundan er. Gera má ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá allt að einu gjalda fyrir brot á stefnumálum sínum undanfarin ár. Þetta myndi hins vegar gefa fyrirheit um stuðning kjósenda þegar fram í sækir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

     

     

  • Ábyrgð á sjálfum sér

    Alveg frá því ég fyrst fór að velta tilverunni fyrir mér hefur það verið einhvers konar grunnstef í afstöðu minni að menn eigi að njóta frelsis til orða og athafna svo lengi sem þeir skaða ekki aðra. Óhjákvæmilegur hluti þessa frelsis sé svo að bera sjálfur ábyrgð á háttsemi sinni og tjáningu.

    Segja má að þessi afstaða sé skilgetið afkvæmi þeirrar hugsunar að samfélag manna sé til fyrir þá einstaklinga sem þar lifa. Þeir séu hins vegar ekki til fyrir samfélagið sem þeir búa í, eins og svo margir virðast telja, heldur sé tilvist þess fremur ill nauðsyn. Hlutverk ríkisvaldsins sé fyrst og fremst að vernda menn fyrir ágangi og afskiptasemi annarra en ekki að skerða frelsi þeirra til athafna sem varða þá sjálfa.

    Fyrir hefur komið að ég hafi stungið niður penna um þetta þó að sjálfsagt hafi miklu oftar verið tilefni til.

    Vinur minn Brynjar Níelsson hefur nú sagt af sér varaþingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mig grunar að hann hafi svipaða afstöðu til lífsins og ég.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Greiðsluáskorun

    Hér getur að líta greiðsluáskorun sem birtist í Morgunblaðinu í gær, 17. september. Það er nauðsynlegt fyrir landslýð að gæta þess að ríkið verði ekki vanhaldið í innheimtu skatta. Þeir eru taldir upp í auglýsingunni. Kannski að það vanti eitthvað í upptalninguna!? Upptalningin er ógnvekjandi.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ekki svo langt síðan

    Eitt helsta áhugaefni margra Íslendinga nú orðið er að komast í orlof til sólríkra ferðamannastaða í suðrinu. Það er svo sem ekki ástæða til að kvarta yfir því að flest fólk hafi ráð á því að fara slíkar ferðir. Menn ættu samt í velferð sinni að muna eftir kjörum þjóðarinnar fyrir rúmlega einni öld eða svo.

    Mér hefur stundum dottið í hug að skoða heimildir um lífskjör langafa míns og langömmu og bera þau saman við allsnægtirnar sem almenningur á Íslandi býr við á okkar tímum.

    Þessi hjón hétu Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Gunnar Hafliðason. Þau bjuggu á jörðinni Skálahnjúki í Gönguskörðum árin 1859 til 1903. Gönguskörð eru vestur af Sauðárkróki á skaganum milli Húnaflóa og Skagafjarðar. Þetta er norður við heimskautsbaug og má geta nærri að þarna hafi veður verið válynd, einkum yfir vetrartímann. Þau hjónin eignuðust 7 börn og var amma mín Þorgerður Vilhelmína þeirra yngst, fædd 1878.

    Húsakynni þessarar fjölskyldu voru torfbær, sem bæði hýsti menn og húsdýr. Þau áttu auðvitað ekki bifreið og þaðan af síður tvær bifreiðar, eins og algengt er að fjölskyldur eigi nú á tímum! Ef leið þeirra lá til annarra bæja notuðu þau hesta, sem þó voru ekki til staðar á sumum bæjum. Þau fóru aldrei í sólarlandaferðir! Þau fengu ekki mikil frí frá störfum við búskapinn, sem þau þurftu að sinna alla daga. Þau áttu svo til engin tæki til að vinna með, hvort sem var til að brjóta tún eða heyja þau. Til þessara starfa voru líkamskraftarnir notadrýgstir. Til matar notuðust þau að mestu leyti við þau matvæli, sem búskapur þeirra gaf af sér. Dagblöð og útvarp voru ekki í boði og fengu þau tíðindi af atburðum í öðrum héruðum í besta falli með farandfólki sem átti leið um.

    Íslendingar eru flestir komnir af harðgeru fólki sem bjó við svipuð kjör og fjölskyldan að Skálahjúki. Þegar við hugsum til gjöfulla lífskjara í landi okkar nú á tímum, er okkur hollt að renna stundum huganum til þessa fólks. Það er ekki svo langur tími liðinn síðan það brá búi. Aðeins 120 ár. Upp úr þeim jarðvegi sem þetta fólk skapaði hefur sprottið eitt mesta velferðarríki í heimi manna. Við ættum að þakka því fyrir grundvöllinn sem það lagði að velferð okkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Fróðlegir hlaðvarpsþættir

    Haustið 2021 gerði sá mæti þjóðfélagsrýnir, Björn Jón Bragason, 6 hlaðvarpsþætti með viðtölum við mig um ástand mála í Hæstarétti og aðgerðir sem gera þyrfti til að endurbæta starfsemi réttarins. Báru þættirnir nafnið „Það skiptir máli“ og hafa að geyma ítarlega lýsingu á því sem aflaga hefur farið í starfsemi réttarins á undanförnum árum og til hvaða ráðstafana ætti að grípa til endurbóta. Hægt er að ná í þessa þætti á hlaðvarpi Morgunblaðsins.

    Svona hlaðvarpsþættir fela í sér nýjung á sviði umfjöllunar um þjóðfélagsmál og gefa tækifæri til fjalla af mun meiri nákvæmni um þau en unnt hafði verið áður. Áhugamenn um ástand dómsmálanna sem ekki hafa hlustað á þætti okkar Björns Jóns ættu nú að bregða undir sig þeim fæti sem þeim þykir bestur og hlusta á þá.

    Nú hefur annar vandaður þáttagerðarmaður, Snorri Másson, gert hlaðvarpsþátt með viðtali við Björn Jón sem ástæða er til að hvetja menn til að hlusta á. Þar er fjallað um marga þætti þjóðfélagsmálanna af þekkingu og viti sem báðir þessir menn eru þekktir fyrir og þora að hafa skoðanir á. Það er því rík ástæða til að hvetja menn til að hlusta á þáttinn og hlusta á fróðleik sem er hafinn yfir dægurþrasið sem daglega er hellt yfir okkur. Hafið þökk fyrir drengir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Vinátta

    Það er varla ofsagt að góðir vinir eru hverjum manni nauðsynlegir. Sérstaklega á þetta við um þá sem þora að segja manni til syndanna þegar við á.

    Ég hef verið heppinn, því ég á fjölmarga vini og hika sumir þeirra ekki við að segja mér löst á skoðunum mínum og háttsemi og gefa mér því tilefni til að bæta mig. Til dæmis er ég oft of orðhvass og tel það stundum fela í sér hreinskilni sem þjónar þörfum þeirra sem um er rætt. En þá kemur stundum til þess að góður vinur segir mig hafa gengið of langt; lengra en þörf krefji og hafi ég þá sært þann sem fyrir verður án þess að nokkur þörf hafi verið á því. Sé þetta tilfellið þarf ég stundum að bæta ráð mitt og biðja þann sem fyrir hefur orðið afsökunar á framkomu minni.

    Sönn vinátta þjónar ekki alltaf þeim tilgangi að samsinna vininum í því sem hann hefur sagt eða látið frá sér fara, eins og svo margir gera. Á stundum getur slíkur stuðningur samt verið styrkur fyrir þann sem í hlut á. Sönn vinátta felst hins vegar ekki í að taka jafnan undir sjónarmið vinarins. Það er oftast misskilningur. Verðmætasti vinurinn er sá sem segir manni löst á framgöngu manns.

    Í reynd má segja að sjálft lýðræðið feli í sér þá skipan að mismunandi sjónarmið manna séu ekki bara eðlileg heldur einnig æskileg. Þeir sem eru ósammála um eitthvert málefni skiptist þá á skoðunum með friðsælum hætti og freista þess þá að hafa uppbyggileg áhrif á hinn. Segja má að slíkt feli oftast í sér umburðarlyndi og sanngirni sem tilheyrir sannri vináttu.

    Margir eiga hins vegar erfitt með að fylgja þessum viðhorfum. Þeir forherðast þá oft í meiningu sinni og eru þess ekki fúsir að slaka á þó að þeim sé sýnt fram á veilur í hugsunum sínum og ályktunum. Margir minna bestu vina gegnum tíðina hafa verið menn sem eru kunnir af því að vera á öndverðum meiði við mig í afstöðu til þjóðfélagsmála án þess að slík viðhorf hafi spillt vináttu þeirra við mig. Þeir hafa þá haft yfir þeirri skaphöfn að ráða að geta bent mér, sjálfumglöðum manninum, á að ég hafi farið villur vegar og þá oft sýnt öðrum óbilgirni. Fyrir slíkar ábendingar er ég þakklátur, þó að stundum geti reynst erfitt að fara eftir þeim.

    Svo eru líka þeir sem taka á ósamlyndi við aðra með því að forðast samneyti við þá og hætta jafnvel tala við þá. Stundum getur það verið vegna þess að þeir vita ekki hvernig þeir eigi að rökstyðja sín öndverðu sjónarmið og þá sé þögn og samskiptaleysi besta lausnin. Slíka háttsemi ættu allir að forðast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Endurbætur á Hæstarétti

    Lagareglur um starfsemi Hæstaréttar er að finna í lögum um dómstóla nr. 50/2016. Þessi lagaákvæði þarfnast endurbóta og eru eftirtaldar breytingar þýðingarmestar:

    Í fyrsta lagi ber að fækka dómurum réttarins í fimm en þeir eru núna sjö talsins. Við stofnun Landsréttar minnkaði starfsálagið Hæstarétti svo að það varð aðeins 20-30% af því sem verið hafði. Eftir það var engin þörf á að dómarar réttarins yrðu fleiri en fimm og hefði það raunar verið vel í lagt.

    Í öðru lagi ber að breyta reglum um skipan nýrra dómara, a.m.k. þannig að tryggt sé að sitjandi dómarar og kunningjahópur þeirra hafi þar engin áhrif. Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar skulu ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, eins og komist er að orði. Enginn vafi er á að skipun nýrra dómara fellur samkvæmt þessu undir dómsmálaráðherra. Hann (hún) er hins vegar núna nánast áhrifalaus um þetta.

    Í þriðja lagi ætti að breyta reglum um atkvæðagreiðslur, þannig að dómarar greiddu hver um sig skriflega atkvæði um niðurstöður dómsmálanna. Þessi háttur yrði til þess fallinn að stuðla að persónulegri ábyrgð dómaranna við dómsýsluna og veitir ekki af. Þetta þekkist víða erlendis við æðstu dómstóla viðkomandi landa. Með breytingu á þessu myndi draga úr samningum milli dómaranna um niðurstöður, en upplýst hefur verið að það teljist nú um stundir ríkjandi sjónarmið innan réttarins að ná slíkum samningum fremur en að hver og einn dómari greiði atkvæði eftir eigin sannfæringu.

    Dómsmálaráðherra ætti að flytja lagafrumvarp um þessar breytingar, þó að dómararnir við réttinn segist vera andvígir þeim, líklega vegna þess að þeir vilja eiga náðuga daga. Ráðherrann veit að ákvörðunarvaldið í ráðuneytinu er í hennar höndum en ekki embættismanna sem ganga erinda dómaranna. Breytingarnar myndu draga úr kostnaði ríkissjóðs auk þess að verða liður í þeirri andlitslyftingu sem ríkisstjórnin þarfnast sárlega um þessar mundir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Gullbrúðkaup

    Við hittumst fyrst haustið 1972. Hún var þá 19 ára og ég 24. Við urðum ástfangin og fljótlega lá fyrir að samband okkar yrði varanlegt. Við giftum okkur 27. júlí 1974. Fyrr á því ári hafði elsti sonur okkar Ívar Páll fæðst og var hann skírður við athöfnina í kirkjunni. Síðan höfum við eignast fjögur börn, Gunnlaug 1976, Konráð 1984, Huldu Björgu 1986 og Hlyn 1988. Barnabörnin eru orðin 15 talsins.

    Kristín hefur borið hitann og þungann af uppeldi barna okkar, þó að ég hafi auðvitað líka sinnt því verkefni með henni. En hún er eins og hún hafi verið sköpuð til að annast um alla þessa afkomendur okkar og reyndar mig líka. Þau sjá ekki sólina fyrir henni og ég ekki heldur. Hún hefur líka gætt að heilsu minni alla tíð og fékk mig m.a. til að hætta að drekka í maí 1979 og að reykja haustið 1980. Svo hefur hún staðið með mér og stutt mig í umfangsmiklum skrifum mínum, hvort sem er í bókum eða blaðagreinum, lesið allt yfir, komið með ábendingar um efnið og lagfært stafsetningu og rithátt.

    Í dag eru liðin 50 ár frá því að við giftumst og telst það orðið gullbrúðkaup. Það er mikil lífsgæfa að eignast förunaut eins og hana um lífsins daga. Ég hef notið þeirrar gæfu öll þessi ár og er jafn ástfanginn af henni eins og í árdaga, þó að samband okkar hafi auðvitað breyst með árunum, eins og gerist sjálfsagt hjá yfirleitt öllum hjónum. Forsjónin hefur verið okkur afar hliðhöll öll þessi ár.

    Ég færi lífsástinni minni þakklæti fyrir lífshlaup okkar saman og vonandi eigum við ennþá einhver ár eftir í félagi hvort við annað og okkar myndarlega ættboga.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Látið undan hagsmunakröfum

    Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur sýnt fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til óþarfrar starfsemi á vegum ríkisins. Deildi ég nýlega á fasbókinni viðtali við hann á Bylgjunni þar sem hann gerir sannfærandi grein fyrir þessu. Oftast eru það hagsmunaaðilar á viðkomandi sviði sem krefjast þess að ríkið standi að ákvörðunum um slíkt. Og þá er oft látið undan slíkum kröfum. Er nú svo komið að stór hluti þjóðarinnar vinnur hjá ríkinu við óþörf störf sem kosta skattgreiðendur stórfé.

    Ég hef látið mig starfsemi Hæstaréttar varða á undanförnum árum. Landsréttur hóf starfsemi á árinu 2018 til að létta álagi af Hæstarétti sem þá var allt of mikið. Við breytinguna varð svo sannarlega dregið úr þessu álagi. Í grein sem ég skrifaði á fasbókina 18. apríl á þessu ári („Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda“) tók ég saman tölur úr ársskýrslum Hæstaréttar sem sýndu að málum sem rétturinn hafði sinnt eftir breytinguna fækkaði um 80-90 prósent frá því sem áður hafði verið. Samt var dómurum við réttinn aðeins fækkað um tvo, úr níu í sjö, í stað þess að fækka þeim í fimm eins og þeir höfðu lengst af verið áður en sprenging varð í fjölda málanna á síðari hluta síðustu aldar. Lá fyrir að hér var verið að láta undan kröfum dómaranna sjálfra. Taldi ég það vera hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli hafa látið undan þessum kröfum. Þessir hátekjumenn ríkisins hafa síðan bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda og nemur óþarfur kostnaður af þessum sökum mörgum tugum milljóna á ári. Þetta er einfalt og augljóst dæmi um þá meðferð á ríkisfé sem Skafti Harðarson hefur bent á.

    Það er löngu kominn tími til að stjórnendur í landinu hætti að láta undan kröfum hagsmunaaðila um aukin ríkisútgjöld þeim sjálfum til handa. Landsmenn ættu að taka kröftuglega undir þau sjónarmið sem Skafti Harðarson hefur talað fyrir og taki nú að draga úr útgjöldum ríkisins í stað þess að auka þau. Kannski einstakir flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn séu að tapa fylgi sínu núna vegna undanlátsemi við hagsmunakröfur ríkisstarfsmanna um útgjöld úr ríkissjóði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður