• Hagnaður af framboðum

    Að undanförnu hefur verið fjallað um fjárstyrki ríkisins til Flokks fólksins undanfarin ár og ráðstöfun þeirra. Ég óskaði eftir að Ríkisendurskoðun sendi mér ársreikninga þessa flokks undanfarin ár og kom þá í ljós að styrkir frá ríkissjóði og Alþingi árin 2018 til 2023 nema samtals um 400 milljónum króna. Ekki kemur fram að þessu fé hafi verið varið í annað en rekstrarútgjöld flokksins. Verður því ekki séð að ríkisstyrkjunum hafi verið varið til persónulegra útgjalda starfsmanna hans á þessu tímabili eins og margir hafa haldið fram.

    Af reikningunum kemur fram að bókaður hreinn hagnaður ofangreind ár nemur 94 milljónum króna, þegar tap ársins 2021 (60 milljónir) hefur verið dregið frá samanlögðum hagnaði þessara ára. Er hagnaður af rekstrinum öll árin jákvæður nema árið 2021.

    Eftir stendur spurningin um hvernig það geti staðist að ríkissjóður styrki stjórnmálaflokka sem bjóða fram í kosningum um milljónatugi umfram það fé sem þeir verja til kosningastarfs.

    Kannski það sé skýringin á mörgum framboðum smáflokka að nú virðist það vera orðin gild leið til fjáröflunar að bjóða fram lista í kosningum?

    Ég hef lagt til að þessari styrkjastarfsemi verði hætt og þeim sem bjóða fram í kosningum verði gert að afla sjálfir fjár til að kosta þá starfsemi. Þessar tölur styrkja svo um munar þá afstöðu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Aðalatriði máls

    Morgunblaðið hefur að undanförnu flutt fréttir af styrkveitingum úr ríkissjóði til Flokks fólksins samkvæmt lögum frá 2021 (breyting á lögum nr. 106/2006) til þess að standa straum af kostnaði við framboð þessara stjórnmálasamtaka til Alþingis og sveitarstjórna.

    Í þessum lögum kemur fram að samtök sem sækja um styrki þurfi fyrirfram að framvísa gögnum um að þau eigi rétt á styrkjum en síðan eftirá að framvísa bókhaldsgögnum um að styrkirnir hafi verið notaðir til þeirra þarfa sem lögin kveða á um.

    Morgunblaðið hefur aðallega sýnt fram á að Flokkur fólksins hefur ekki framvísað gögnum sem leggja þarf fram til að eiga rétt á framlögum. Þetta eru auðvitað þarfar upplýsingar þegar athugað er hvort þessi framboðsaðili hafi uppfyllt skilyrði til að fá styrki. Hefur blaðið sýnt fram á að svo hefur ekki verið.

    En það er önnur hlið á málinu sem telja má að skipti meira máli þegar þessar styrkveitingar eru skoðaðar. Það er greinargerð eftirá um að styrkirnir hafi í reynd gengið til að standa straum af þeim kostnaði sem um ræðir, en ekki t.d. til persónulegrar ráðstöfunar þeirra sem að framboði hafa staðið. Þannig segir í 9. gr. laganna að stjórnmálasamtök skuli fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Í nefndri 8. gr. segir m.a. að endurskoðendur sem árita reikninga þessa skuli starfa eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðanda og sannreyna að reikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laganna og staðfesta það álit með áritun sinni. Ríðikisendurskoðandi geti hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna reikninga stjórnmálasamtakanna.

    Fram hafa komið opinberlega tilgátur um að fyrirsvarsmenn Flokks fólksins kunni að hafa ráðstafað þessu fé til persónulegra þarfa sjálfra sín. Hér er um að ræða tugi milljóna árlega undanfarin ár. Það er auðvitað aðalatriði málsins að upplýsa hvort málum sé svona farið. Sé svo sýnist að um sé að ræða refsiverða háttsemi þessara fyrirsvarsmanna, sem falli undir að teljast auðgunarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ofbeldi í skjóli rétttrúnaðar?

    Nú er sagt frá því að drengjahópur frá Austurlöndum standi fyrir ofbeldinu í Breiðholtsskóla. Þeir munu flestir vera Múhameðstrúar. Rétttrúnaðurinn virðist koma í veg fyrir að tekið sé á málinu. Ekki sé unnt að tala við feður þessara drengja þar sem þeir tali ekki við konur en flestir kennaranna eru konur. Eigum við ekki að hleypa fleira fólki af þessu tagi inn í landið? Kannski styttist bara í að það taki yfir?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hugsjónir

    Hvað er hugsjón? Við tölum um að sá maður hafi hugsjón sem telur að skylt sé að haga lífi sínu í samræmi við ákveðnar grunnhugmyndir um lífið og tilveruna. Þegar ég tala hér um hugsjónir undanskil ég hugmyndir sem ganga út á að gera öðrum miska eða stjórna þeim með fyrirmælum og boðvaldi, eins og sumir kunna að vilja gera. Með hugtakinu á ég við hugmyndir sem viðkomandi maður hefur leitað að, drifinn áfram af eldmóði sannleikans og án þess að setja sig yfir hlut annarra.

    Flest höfum við hugsjónir. Það er hins vegar undir hælinn lagt hvort við leggjum okkur fram um að lifa eftir þeim. Þrátt fyrir það er okkur sjálfsagt öllum hollt að móta með okkur meginhugmyndir sem verða til við hugsanir okkar sjálfra um það réttlæti sem við viljum virða. Þær byggjast sjálfsagt aðallega á lífsreynslu okkar en stundum enn fremur á hugmyndum sem við leggjum sjálf niður fyrir okkur og teljum eftirsóknarvert að lifa eftir af fremsta megni.

    Ég held að öllum sé hollt að reyna að haga lífi sínu eftir hugmyndum sem þeim þykja eftirtektarverðar og jafnframt rökréttar og fagrar. Að mínum dómi gera slíkar hugsjónir líf okkar verðmeira en ella, jafnvel svo að við teljum okkur hafa höndlað sjálfa lífshamingjuna ef okkur tekst að lifa eftir þeim. Slíkar hugsjónir eiga erindi til okkar allra.

    En svo eru til hugsjónir sem eru miklu stórfelldari heldur en þetta. Þær geta lotið að meginhugmyndum, sem varða ekki bara okkur sjálf, heldur líka annað fólk. Við virðum til dæmis flest lýðræðislegt stjórnskipulag og mannréttindi sem við teljum að ekki bara að við sjálf, heldur allir aðrir menn eigi að njóta.

    Stundum geta menn jafnvel verið tilbúnir til að láta líf sitt í baráttu fyrir slíkum hugsjónum sínum. Þá binda menn hugsjónir sínar ekki við eigin hagsmuni heldur einnig við hagsmuni annarra.

    Í lýðræðislegu stjórnkerfi nútímans reynir sjaldan eða jafnvel alls ekki á slíkar fórnir í þágu hugsjónanna. Það kemur miklu fremur fyrir að menn verði að taka á sig alls kyns óþægindi fyrir að vilja ekki brjóta gegn hugsjónum sem þeir virða og vilja hafa að meginstefi í lífi sinu. Þeir sem misvirða slíka afstöðu skilja þá oft ekki samhengi þeirra hugmynda sem viðkomandi maður vill virða. Kannski getur það stafað af því að þeir virði þær ekki sjálfir eða jafnvel kjósi frekar að sækjast eftir innihaldslitlum stundarhagsmunum í eigin þágu. Ætli við könnumst ekki mörg við slíka afstöðu? Stundum getur líka staðið svo á að sá, sem ekki skilur eða fellst á hugsjónina, einfaldlega hætti að vilja hafa samskipti við hugsjónamanninn. Slíka afstöðu þekkjum við líka þó að okkur finnist hún oftast frekar aumkunarverð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Málið leyst

    Ég hef fundið lausnina á karpinu um styrki til stjórnmálaflokka. Við leysum þetta í einu vetfangi með því að fella niður lagaákvæðin í lögum nr. 162/2oo6 um starfsemi stjórnmálaflokka sem kveða á um styrkina. Engir styrkir; skattborgarar lausir við þvinguð framlög; málið leyst.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Form og efni

    Að undanförnu hefur verið mikið rætt um framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi en um þau gilda lög nr. 162/2006. Gerðar voru allmiklar breytingar með lögum nr. 109/2021, þar sem kveðið var á um skilyrði þess að svonefnd stjórnmálasamtök nytu þessara framlaga. Áherslan í hefur legið á því hvort formreglum laganna um stofnun stjórnmálasamtaka og skráningu þeirra hefur verið fylgt.

    Það er vissulega rétt að þeir sem styrkja njóta þurfa að hafa uppfyllt þessar formkröfur. En hver ætli sé tilgangurinn með þessum framlögum? Hann er sá að standa undir kostnaði við kosningabaráttu þeirra sem bjóða fram. Þannig er í lögunum kveðið á um að umsóknum um þessa styrki skuli fylgja afrit reikninga fyrir kostnaði sem fjárstyrk er ætlað að mæta. Síðan er mælt fyrir um um reikningsgerð eftirá um ráðstöfun fjárins sem eingöngu á að hafa gengið til greiðslu kostnaðar vegna alþingiskosninga og sveitastjórnarkosninga eftir atvikum. Skal þá farið eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðanda. Ber stjórnmálasamtökum að skila reikningum sínum fyrir síðastliðið ár eigi síðar en 1. nóvember ár hvert og skulu þeir vera áritaðir af endurskoðendum.

    Öll þessi umgjörð er sýnilega ákveðin í því skyni að hafa eftirlit með því að styrkjunum hafi í reynd verið eingöngu ráðstafað til greiðslu á kostnaði við framboð styrkþega. Formreglur laganna um stofnun stjórnmálasamtaka og skráningu þeirra eiga sýnilega að auðvelda athugun á því eftirá að styrkjunum hafi í reynd verið varið til þessara þarfa.

    Af opinberri umfjöllun um þessi málefni að undanförnu hefur mátt ráða að einhver stjórnmálasamtök hafi ekki sýnt fram á þau hafi fylgt reglum laganna um skil á greinargerðum um að framlögin hafi verið nýtt í því skyni sem skylt er. Hefur þá m.a. verið dylgjað um að tilteknir fyrirsvarsmenn stjórnmálasamtaka hafi nýtt féð í þágu sjálfra sín og þannig gerst sekir um fjárdrátt. Þetta er auðvitað aðalatriði málsins. Hver var nýting þessara framlaga?

    Ef stjórnmálasamtök geta nú, þó að seint sé, sannað að framlögin hafi í reynd verið notuð til þeirra þarfa sem lögin kveða á um, getur ekki orðið heimilt að endurkrefja viðkomandi samtök um framlögin. Þau ættu hins vegar að fara í skammarkrókinn fyrir að hafa ekki virt formreglurnar á þeim tíma sem til þess var gefinn.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Styrkir til Flokks fólksins

    Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka byggjast á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006. Á II. kafla þessara laga voru gerðar breytingar með lögum nr. 109/2021, þar sem fjallað er um „Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi.“ Þar er gerð grein fyrir skilyrðum þess að stjórnmálaflokkar fái úthlutað fé úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.

    5. gr. a. þessara laga hljóðar svo:

    Fyrir liggur að Flokkur fólksins hefur þegið fé úr ríkissjóði undanfarin ár án þess að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt. Hefur flokkurinn heldur ekki á annan hátt gert grein fyrir ráðstöfun þessa fjár, þó að fyrir liggi að hann hafi þegið framlög sem nema nokkrum hundruð milljónum króna á undanförnum árum.

    Í skýrslu stjórnarráðsins um „Framlög til stjórnmálaflokka“ undanfarin ár kemur fram að Flokkur fólksins hafi fengið framlög árlega vegna áranna 2017-2024, sem nema samtals rúmlega 400 milljónum króna. Í skýrslunni segir að skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka sé að viðkomandi samtök hafi áður fullnægt upplýsingaskyldu sinni til Ríkisendurskoðunar.

    Að undanförnu hafa opinberlega komið fram upplýsingar frá fyrirsvarsmanni Flokks fólksins, sem nú hefur tekið sæti í ríkisstjórn landsins, um að flokkur hennar hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögunum, en samt sótt um og fengið (furðulegt nokk) ofangreind framlög undanfarin ár. Hér sýnist ljóst að hvorki greiðandi né þiggjandi hafi fullnægt lagaskyldum sínum. Vekur það grunsemdir um að fénu hafi ekki verið varið til þeirra þarfa sem lögin kveða á um.

    Í umræðum um þetta mál að undanförnu hefur komið fram að sumir hafa talið þennan flokk hafa fullnægt skyldum sínum í þessum efnum. Þótti mér því rétt að birta framangreindar upplýsingar, sem byggðar eru á lögunum sem um þetta gilda og opinberum skýrslum um framkvæmd þeirra.

    Málið snýst ekki um skráningu Flokks fólksins hjá skattinum á árinu 2016, eins og einn stuðningsmanna hans hefur talið. Það snýst um skilyrði núgildandi laga til að fá fjárframlög frá skattborgurum þessa lands.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Siðapostuli

    Konan var kosin á þing vegna þess að hún sagðist ætla að tryggja öllum tiltekin lágmarkslaun. Fólkið kaus hana í auðgunarskyni. Allir hefðu átt að vita að loforðið var blekking, því ekki var hægt að efna það. Þetta hefur nú komið í ljós svo hún er „fallin frá“ loforðinu.

    Þá kemur í ljós að hún hefur fengið hundruð milljóna í styrk úr ríkissjóði á undanförnum árum án þess að uppfylla lagaskilyrði til þess. Er einna helst svo að sjá að hún hafi tekið þetta fé til persónulegra nota en ekki ráðstafað því í þágu flokks síns, sem ekki er flokkur. Hún ætlar ekki að skila þessu oftekna fé en gerir samt enga grein fyrir ráðstöfun þess. Svo mikið er víst að fólkið með lágu launin fékk það ekki.

    Konan mun komast upp með þetta vegna þess að nýkosin stjórnvöld í landinu eru siðspillt og meta völd sín meira en siðgæðið.

    Svo reynir konan bara að vera fyndin með því að beita dónaskap og upphrópunum í opinberum umræðum. Hún er nefnilega orðin ráðherra og telur að þar með hafi hún fengið heimild til að tala yfir aðra með hávaða og hótfyndni um leið og hún leggur undir sig skattfé almennings án heimildar.

    Það er víst ekki hægt að sæma hana fálkaorðunni fyrr en á þjóðhátíðardaginn 17. júní n.k. Líklega verður hún þá búin að fremja fleiri afrek í þágu þjóðarinnar?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Oft var þörf en nú er nauðsyn

    Flestir Íslendingar gera sér ljóst að helstu náttúruauðlindir þjóðarinnar felast í því að geta framleitt orku með umhverfisvænum hætti, fyrst og fremst með virkjun fallvatna og jarðhita. Fyrir nokkrum dögum gekk dómur í héraði sem felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun. Þessi dómur virðist byggður á umdeilanlegri túlkun á ákvæðum laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sýnist mega draga þá ályktun af forsendum dómsins að bannað hafi verið með þessum lögum að byggja vatnsaflvirkjanir sem einhverju skipta á Íslandi.

    Að mínum dómi er ekki ástæða til að fjalla um túlkun þeirra lagaákvæða sem dómurinn kveðst byggja á. Það er einfaldlega ljóst að þjóðin getur ekki unað við þessa niðurstöðu. Of langan tíma tekur að áfrýja þessum dómi. Þess í stað verður nú þegar að grípa til lagasetningar sem heimilar Landsvirkjun tæpitungulaust að ráðast í framkvæmdir við virkjun fallvatna og verður ekki séð að þörf sé á nýyrðinu vatnshlot, sem notað er í þessum lögum til að koma á móts við kröfur afturhaldsmanna um að stöðva virkjanir.

    Að mínum dómi ber nú að bregðast hratt við. Ráðherra ætti þegar í stað núna, þegar Alþingi situr ekki, að setja bráðabirgðalög skv. heimild í 28. gr. stjórnarskrár, sem fella úr gildi þessi undarlegu lagaákvæði, sem dómstólar telja sig geta með réttu eða röngu túlkað á þann hátt sem fram kemur í forsendum þessa dóms. Ekki er ráðlegt að bíða aðgerðarlaus eftir því að Alþingi setji lög um þetta efni eftir að það kemur saman 8. febrúar n.k. því að á þinginu sitja alþingismenn sem kunna aðferðir til að tefja lagasetningu um þjóðþrifamál af því tagi sem hér um ræðir. Lögin þarf því að setja strax svo að unnt verði að forða því stórfellda tjóni sem þessi dómur veldur.

    Oft var þörf en nú er nauðsyn.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Misfellur í framkvæmd kosninga

    Komið hefur fram í fréttum að einhver fjöldi utankjörfundaratkvæða hafi ekki skilað sér til kjörstjórna við kosningarnar 30. nóvember s.l., þó að talið sé að þeim hafi verið skilað til sveitarstjórna í því skyni að þeim yrði komið tímanlega til viðkomandi kjörstjórnar.

    Í XXI. kafla kosningalaga nr. 112/1921 er fjallað um kosningakærur. Í 1. mgr 127. gr. er kveðið á um að Alþingi skeri úr hvort þingmenn séu löglega kosnir. Í b.lið 3. mgr. 132. gr. segir, að ógilda skuli kosninguna ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem líklegt er að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar. Í 2. mgr 127. gr. er kærufrestur kjósenda 7 dagar frá því að kosningaúrslit voru auglýst.

    Í 114. gr. laganna segir síðan að sé ágreiningur milli umboðsmanna stjórnmálasamtaka sem þátt hafi tekið í alþingiskosningum og landskjörstjórnar

    um úrslit kosninga og úthlutun þingsæta, eigi umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Landskjörstjórn skuli þá leggja fyrir Alþingi í þingbyrjun eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og

    gögn þau sem ágreiningur kann að vera um ásamt rökstuddri umsögn sinni, sbr. 2. mgr. 132. gr.

    Ekki er í lögunum kveðið á um kærufrest stjórnmálasamtaka sem hafa tekið þátt í alþingiskosningum. Má væntanlega draga þá ályktun af þessu að kærufrestur þeirra sé þar til Alþingi hefur skorið úr um lögmæti kosningar þingmanna.

    Nú hefur Alþingi ekki ennþá komið saman eftir alþingiskosningarnar 30. nóvember s.l. Ekki verður því betur séð en að framboðsaðilar geti ef þeir kjósa ennþá komið á framfæri athugasemdum um að atkvæði sem réttilega voru greidd tímanlega hafi ekki verið talin með öðrum atkvæðum.

    Af kosningalögum er ljóst að kærur á úrslitum kosninga geti því aðeins haft áhrif, að lagfæring á göllunum bendi til þess að líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar, sjá b.lið 3. mgr. 132. gr laganna. Telja má að réttur þeirra, sem hafa löglega tekið þátt í kosningum, til þess að atkvæði þeirra séu talin, geti talist til grunnréttinda sem njóti hliðstæðrar verndar og mannréttindi skv. stjórnarskránni.

    Ég tel að við þessar aðstæður beri landskjörstjórn að telja þau atkvæði sem ekki voru talin og birta opinberlega upplýsingar sínar um niðurstöðu talningarinnar og senda þær til Alþingis. Þá geta framboðsaðilar tekið afstöðu til þess hvort þeir telji ástæðu til að kæra framkvæmd og úrslit kosninganna. Það væri þá aðeins ef þeir telja að leiðréttingin valdi breytingu á niðurstöðunni. Geri hún það ekki yrði kæra tilgangslaus.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, formaður yfirkjörstjórnar við alþingiskosningar í Reykjavík 1995-2000