• Forsjárhyggja

    Það er alveg merkilegt að sjá hvernig forsjárhyggjan getur heltekið suma menn sem gefa kost á sér í pólitík og ná kjöri sem alþingismenn. Alþingismenn eru, svo sem von er, haldnir þörf til að láta gott af sér leiða. Margir þeirra halda að því markmiði verði best náð með löggjöf sem hefur hefur vit fyrir fólkinu, þ.e.a.s. verndar það fyrir sjálfu sér. Þeim ætlar seint að lærast þau einföldu sannindi að eina verndin, sem eitthvað dugar, er sú vernd sem í því felst að hver og einn maður taki ábyrgð á sínu eigin lífi.

    Taka má dæmi af lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þar er tilgangi laganna lýst í 1. gr. þeirra, þar sem segir:

    „Markmið þessara laga er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og að stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar.“

    Síðan er í lögunum að finna margs konar ákvæði sem ganga út á að takmarka heimildir manna til að taka peningalán sem tryggð eru með ábyrgð þeirra sjálfra eða annarra. Hvers vegna er löggjafinn að skipta sér af þessu? Ef lánveitandi og lántaki semja um lánveitingu með skilmálum sem báðir samþykkja, hvað hefur þá löggjafinn að gera með að takmarka heimildir þeirra til að semja sín á milli um þetta? Báðir gera þetta á sína eigin ábyrgð.

    Þetta eru að mínum dómi kostuleg afskipti af einkamálefnum sem koma löggjafanum ekkert við. Meðan sjálfráða menn hafa heimildir til að semja við aðra um málefni sín og báðir aðilar eru sammála um skilmála samnings, kemur ríkisvaldinu samningurinn ekki við. Svo einfalt er það.

    Mörg fleiri dæmi eru til um þessi ósköp. Í forsjárhyggju laga er einatt takmarkað frelsi borgaranna til að ráðstafa sínum eigin málefnum á sína eigin ábyrgð. Í ríki sem vill virða rétt manna til persónulegs frelsis og þ.m.t. ábyrgðar á sjálfum sér, geta lagaákvæði af þessu tagi ekki talist réttlætanleg.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ásetningur til manndráps

    Þessa dagana eru sagðar fréttir af dómsmálum, þar sem sakborningur virðast hafa veist að fórnarlambinu á lífshættulegan hátt, þannig að bani hefur hlotist af, en verið samt aðeins ákærður fyrir hættulega líkamsárás.

    Það er vissulega svo í sakamálum, að sanna þarf ásetning brotamanns, m.a. til manndráps hafi sú orðið afleiðing árásarinnar. Hafi árásin verið lífshættuleg og brotamanni mátt vera ljóst að dauði kynni að hljótast af, ætti handhafi ákæruvalds að mínum dómi að miða ákæru við að ásetningur hafi staðið til manndráps. Séu einhverjar mildandi aðstæður til staðar ætti það að vera dómarans að taka tillit til þeirra við sakfellingu sína, fremur en ákæranda. Þá má hafa í huga að sá síðarnefndi getur gert varakröfu um heimfærslu brotsins til mildara refsiákvæðis sé tilefni til.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Yfirbót Sjálfstæðisflokks

    Að loknum þessum Alþingiskosningum hlýtur að liggja fyrir að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins muni mynda ríkisstjórn á Íslandi. Þetta verður klárlega meira og minna hrein vinstri stjórn.

    Í þessu felast tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að ganga í endurnýjun lífdaga með hreinni andstöðu við slíka ríkisstjórn. Ekki veitir honum af.

    Meðal þeirra stefnumála flokksins sem m.a ber nú að leggja áherslu á eru þessi helst:

    1. Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.

    2. Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn hafa stutt frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.

    3. Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.

    4. Fullveldi þjóðarinnar. Sést hafa merki um að fyrirsvarsmenn flokksins hafa viljað standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti. Frá þessum tilhneigingum ber að hverfa hið snarasta.

    5. Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl. Þetta myndi þýða mikla fækkun ríkisstarfsmanna og sparnað á skattheimtu ríkisins.

    6. Þessu síðast nefnda mun fylgja raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu.

    7. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.

    8. Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.

    9. Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.

    10. Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.

    11. Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar. M.a. ber flokknum að berjast gegn niðurdælingu á koltvísýringi sem vinnur gegn plöntugtóðri á jörðinni og sóar verðmætum. Loftslagshysterían er ein helsta birtingarmynd sósíalismans í dag.

    12. Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.

    13. Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum og hætta með öllu stuðningi við svonefndan vókisma, t.d. trönsun á börnum og bann við kynjaaðgreindum salernum.

    Með skýrri stefnu í þessum efnum gæti flokkurinn kannski endurheimt krafta Sigríðar Andersen, Snorra Mássonar og Bergþórs Ólasonar og fleiri kraftmikla boðbera frelsis og ábyrgðar.

    Það þarf engan Miðflokk.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kosningar framundan

    Nú líður að því að Íslendingar kjósi til Alþingis. Í mínum huga skiptir þá mestu máli fyrir kjósendur að velja það framboð sem líklegast er til að vilja framfylgja þeim stefnumálum sem þeir aðhyllast. Vill kjósandinn að í framtíðinni verði lögð áhersla á að atvinnustarfsemi í landinu verði í höndum einstaklinga sem bera sjálfir fjárhagslega ábyrgð á rekstri sínum? Eða vill hann fremur að sem mest starfsemi manna sé í höndum ríkisvaldsins og fjárins til hennar sé aflað með skattlagningu á borgarana?

    Í hinum frjálsa heimi hefur ævinlega sannast að rekstur undir merkjum einstaklinga sé miklu árangursríkari heldur en ríkisrekstur, þar sem ríkið stundar alls kyns starfsemi sem það ætti alls ekki að sinna. Að auki er mönnum ljóst að mannréttindi eru miklu betur virt og vernduð í hinum fyrrnefndu ríkjum sem vilja virða frelsi og ábyrgð einstaklinganna í atvinnulífinu auk þess sem slík afstaða er til þess fallin að draga úr skattbyrði borgaranna.

    Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur birt lista yfir þá starfsemi sem ríkið hefur tekið í sínar hendur en ætti að láta einkaframtakið um. Ástæða er að beina því til kjósenda að kynna sér þennan boðskap og gera upp við sig hvort þeir vilji frekar hið frjálsa samfélag en samfélag ríkisafskipta og opinbers rekstrar. Flestir frjálshuga menn ættu ekki að eiga erfitt með að gera upp hug sinn.

    Þó að flestir framboðsaðilar séu með mjög svo flekkaðan feril í þessum efnum ættu kjósendur að skoða hug sinn um hverjir eru líklegastir til að starfa í þágu frelsisins í framtíðinni. Í kosningum felst nefnilega afstaða til þjóðfélagshátta í framtíðinni en ekki fortíðinni, þó að frammistaðan þá geti vissulega gefið vísbendingar um framtíðina. Kjósendur ættu samt að muna að flokkar sem hafa brotið gegn meintum frelsishugsjónum sínum gætu verið fúsir til að bæta ráð sitt í þessum efnum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Minningarorð um Þorstein

    Fallinn er nú frá sá maður sem ég hef haft hvað mest í hávegum á lífsferli mínum undanfarna áratugi, Þorsteinn Haraldsson löggiltur endurskoðandi. Hann hefur að undanförnu háð erfitt stríð við alvarleg veikindi sem nú hafa dregið hann til dauða.

    Á árunum fyrir 1980 rak ég, ásamt Baldri Guðlaugssyni lögmanni og Sverri Ingólfssyni endurskoðanda, skrifstofu undir heitinu Lögmanns- og endurskoðunarstofa. Var hún staðsett á efstu hæð hússins Lækjargata 2, þar sem Nýja bíó var til húsa á neðstu hæð. Þetta hús brann síðar og er horfið af vettvangi. Á árinu 1980 kom Þorsteinn Haraldsson til liðs við okkur og varð hann fjórði eigandi stofunnar.  Ég áttaði mig fljótlega á því að þarna fór einstakur afbragðsmaður og hefur hann verið náinn vinur minn alla tíð síðan. Þorsteinn bar með sér ferskan blæ og var drífandi við að koma á breytingum og lagfæringum á umhverfi okkar. Man ég sérstaklega eftir tvennu sem hann átti allan heiður af. Skipt var um peru á salerninu en gamla peran var ónýt þegar Þorsteinn kom til liðs við okkur og hafði svo staðið um nokkra hríð. Einnig stóð hann fyrir því að við festum kaup á heilli hæð í húsinu að Skólavörðustíg 12, innréttuðum hana undir hans stjórn og fluttum stofuna þangað. Af þessu hvoru tveggja varð mikil bragarbót eins og nærri má geta. Kannski sýnir þessi upprifjun á tveimur ólíkum málum forystuna sem hann tók í öllu því sem varðaði rekstur okkar og velferð.

    Við Þorsteinn urðum strax nánir persónulegir vinir. Náði sú vinátta langt út fyrir verkefni stofunnar okkar. Man ég til dæmis vel eftir því hvernig hann hvatti mig áfram til góðra verka við að tjá mig opinberlega um það sem ég taldi að betur mætti fara í réttarkerfinu og raunar stjórn þjóðfélagsins á þeim árum sem liðin eru frá því að við kynntumst. Hefur staðið svo allt fram á þennan dag.

    Sjálfur skrifaði hann bókina „Afglöp og spilling“, sem kom út á árinu 2020 og fjallaði um misnotkun valdsmanna í skattkerfinu, sem af einhverjum annarlegum ástæðum lögðu ekki háa skatta á tekjur af fjármálaumsvifum tiltekinna stórfyrirtækja. Var Þorsteini þá vegna málsins vikið úr starfi sínu hjá skattrannsóknarstjóra, þó að athugasemdir hans við þessa misnotkun hefðu ekki verið hraktar. Voru honum dæmdar bætur í Hæstarétti fyrir ólögmæta uppsögnina með dómi réttarins 14. október 2014. Þeir yfirmenn í skattkerfinu sem sekir voru um þessa valdníðslu voru hins vegar aldrei látnir bera ábyrgð á framferði sínu. Dæmigert fyrir Ísland eða hvað?

    Ég er Þorsteini Haraldssyni eilíflega þakklátur fyrir vináttu hans, stuðning og hvatningu gegnum árin.

    Eiginkona Þorsteins er Lára Júlíusdóttir lögmaður. Er aðdáunarvert  hvernig hún hefur stutt hann og hjálpað í veikindunum að undanförnu. Ég heimsótti hann fyrir nokkrum dögum og sá með eigin augum þá umönnun sem hann fékk í þeim alvarlegu veikindum sem hann barðist við og hversu mikinn stuðning Lára veitti honum vakandi og sofandi. 

    Við Kristín og börnin okkar þökkum Þorsteini af alhug fyrir kynnin á undanförnum áratugum og vottum Láru og fjölskyldunni innilega samúð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Api í framan

    Mér finnst rétt að deila með vinum mínum á fasbókinni frásögn af eftirminnilegum atburði frá því í árdaga þegar ég vann á Mogganum en það var fyrsta starfið mitt eftir lögfræðipróf haustið 1973.

    Aftan við hús blaðsins við Aðalstræti háttaði svo til að lítið port var þar með nokkrum bílastæðum. Innkeyrslan í þetta port var þröng og komst ekki nema einn bíll þar um í einu. Umrætt sinn hafði ég komið til starfa snemma á laugardagsmorgni og lagt mínum gamla en stolta Fólksvagni þarna í portinu.

    Þegar ég ætlaði að halda á brott undir hádegi kom í ljós að einhver bíleigandi hafði lagt bíl sínum í miðja innkeyrsluna og lokað þannig af fjóra eða fimm bíla fyrir innan, meðal annars minn. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að fara aftur inn á ritstjórnina og athuga hvort ég kæmi auga á einhvern sem þarna gæti átt hlut að máli. Ól ég ekki miklar vonir í brjósti um árangur, enda húsið sjö eða átta hæðir og allt eins víst að bílskúrkurinn væri annars staðar í húsinu.

    En viti menn. Inni á einum blaðamannabás Moggans sat og skrafaði maður sem greinilega var gestkomandi. Ég kom í dyrnar og spurði hvort hann ætti bílinn fyrir aftan húsið. Hann játti því. Bað ég manninn að koma út og færa bílinn svo að ég kæmist á brott. Svo fór ég og settist undir stýri á Fólksvagni mínum.

    Þegar maðurinn kom út stuttu síðar hafði ég skrúfað niður rúðuna hjá mér, hallaði mér út og ávarpaði manninn: „Hvernig dettur þér í hug að leggja bílnum þínum svona maður minn?“ Erfitt var að ímynda sér að maðurinn ætti svar sem dygði við þessari fyrirspurn svo fráleit var sú háttsemi hans að leggja bíl sínum í innkeyrsluna. En hann fann rétta svarið. Hann gekk að bílnum mínum og horfði smástund niður á ásjónu mína sem stóð hálf út um rúðuopið og sagði: „Heyrðu, þú ert nú eins og api í framan.“ Síðan snerist hann á hæli, settist upp í sinn bíl og ók á brott.

    Ég er enn að velta því fyrir mér hverju ég hefði átt að svara.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hulda Björg

    Kannski vita vinir mínir á Fasbókinni að ég er sjálfur hættur lögmannsstörfum. Á fyrrverandi skrifstofu minni starfar nú afbragðsgóður lögmaður, dóttir mín Hulda Björg Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður. Hún var að skila af sér verkefni sem kallaði á hæfni og yfirvegun. Viðskiptavinurinn, sem hafði fyrst leitað til mín, sendi mér svofellda orðsendingu:

    „Takk kærlega fyrir að benda mér á hana Huldu Betri manneskju í sínu starfi hef ég ekki hitt“

    Þeir sem vilja leita til hennar geta snúið sér til stofunnar „JSG-lögmenn“ og er staðsett á Skólavörðustíg 12, Reykjavík. Sími hennar er 694-2586.

    Hún leitar svo til mín ef hún þarf að virkja reynslu gamla mannsins, en þau tilvik hafa verið fátíð.

    Hulda er ekki ennþá orðin vel þekkt af störfum sínum svo ég vil hjálpa til með því að benda vinum mínum á hana ef þeir þurfa á lögmannsaðstoð að halda. Þeir mega þá vera vissir um að þeim verður tekið af háttvísi og að unnið verður að verkefnum fyrir þá af hæfni og góðri þekkingu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kær vinur

    Fyrir mörgum árum var Gylfi Baldursson, heyrnar- og talmeinafræðingur, makker minn í hinu göfuga brids-spili. Eins og margir muna sjálfsagt eftir var Gylfi fatlaður og komst ekki ferða sinna nema í hjólastól. Ekki sáust samt neinir harmar í fari Gylfa af þessum sökum. Þvert á móti var hann einstaklega skemmtilegur maður með létta lund og fljótur til svars ef á þurfti að halda. Gylfi er nú látinn. Við gætum öll lært af viðbrögðum hans við atburðum líðandi stundar og hvernig hann létti sjálfum sér og öðrum lífshlaupið með léttri lund sinni og snörpum viðbrögðum við því sem fyrir hann bar.

    Það gerðist til dæmis einu sinni að sumarlagi að Gylfi leitaði hressingar á heilsuhæli sem rekið var á Reykjalundi. Þegar hann kom þangað var honum sagt að hann væri velkominn, en sjúkraþjálfarar gætu ekki sinnt honum að þessu sinni. Þeir væru flestir í fríi og þess vegna væri enginn tiltækur til að sinna honum. Hann gæti þess í stað lagst inn í nokkra daga og fengið heita bakstra sem talið var að myndu hressa hann við. Þáði hann það. Var honum vísað inn á herbergi þar sem hann skyldi hafast við meðan á meðferð hans stæði.

    Þegar Gylfi hafði komið sér fyrir, sat hann í hjólastólnum fyrir framan vistherbergið og beið þess að vera sinnt. Eftir dálitla stund kom starfskona stormandi inn ganginn þar sem Gylfi sat. Stöðvaði hún för sína hjá honum og ávarpaði hann: „Vildir þú heita bakstra?“ Hann svaraði að bragði: „Nei ég vildi nú bara fá að heita Gylfi áfram“.


    Eitt sinn vorum við félagarnir þátttakendur í háalvarlegu bridsmóti. Þegar kaffihlé var gert á spilamennskunni sátum við saman við kaffiborð og ræddum slæm örlög okkar í síðasta spili fyrir hlé. Vorum við ekki alveg sammála um framvindu mála í spilinu. Gylfa leiddist ruglð í makkernum og ávarpaði hann þessum orðum: „Jón minn! Þú þarft ekki að óttast að þú kafnir þó að þú lokaðir á þér munninum augnablik.“ Var málið þar með útrætt.

    Það léttir manni lífshlaupið að hafa fengið að njóta vináttu og samvista við þennan gáfumann sem Gylfi var. Hann andaðist 17. júlí 2010.

    Blessuð sé minning hans.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kosningar framundan

    Ég hef sagt frá því áður hér á fasbókinni að ég hafi jafnan kosið Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir flokkar hafa gert. Ég hef séð að þetta er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur í orði sett í öndvegi stefnumál sem hafa best fallið að mínum.

    Nú hefur hins vegar hlaupið snurða á þráðinn. Þessi flokkur hefur um langan tíma verið í samvinnu við ofstækisfullan vinstri flokk, Vinstri græna, og látið hann ráða allt of miklu um stjórn landsins. Í fyrrnefndri grein minni nefndi ég til sögunnar ýmis dæmi um þetta, þ.m.t. hrein lögbrot sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið þennan samstarfsflokk komast upp með og það án þess að gera einu sinni skilmerkilega grein fyrir andstöðu sinni við þau. Nú er svo komið að mikill fjöldi stuðningsmanna flokksins hefur sagt skilið við hann og kveðst vilja í kosningunum framundan fremur styðja aðra flokka. Hafa sumir, sem ég hef talið til skoðanabræðra minna, jafnvel fallist á að taka sæti á framboðslistum þeirra.

    Hvað skal gera í þessari stöðu? Enginn annar flokkur hefur sett í stefnuskrá sína þau málefni sem ég hef talið tilheyra hugsjónum mínum í pólitík. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í reynd svikið þau í stórum stíl á undanförnum árum er hann samt eini flokkurinn sem segist vilja hafa þau í öndvegi á veginum framundan. Er ekki annað að sjá að hann hafi nú áttað sig. Segist hann núna vilja bæta ráð sitt og setja á ný málefni frelsis og ábyrgðar í öndvegi stefnu sinnar. Enginn annar flokkur hefur gert þessa hugsjón að grundvelli sinnar stefnu og engan þeirra get ég af þeirri ástæðu hugsað mér að styðja.

    Í þeirri stöðu sem upp er komin hef ég því ákveðið að treysta því að minn gamli flokkur vilji nú af einlægum huga bæta ráð sitt og taka á ný að upp stefnumál sín sem á fyrri tíð hafa aflað honum meira fylgis en aðrir flokkar hafa notið. Ég hef því ákveðið fyrir mitt leyti að kjósa hann og gefa honum nýtt tækifæri. Í því efni er ekki öðrum til að dreifa. Önnur framboð eru öll af því tagi að ég get ekki hugsað mér að styðja þau því reynsla mín segir mér að þeim sé ekki treystandi til að berjast fyrir þeim málefnum sem ég hef sett í öndvegi í mínu lífi.

    Það kemur því að mínum dómi ekki annað til greina, en að gefa þessum fyrrverandi flokki mínum tækifæri á ný í þeirri von að hann hafi nú lært af reynslunni og muni ekki í framtíðinni svíkja þá stefnu sem hann segist ennþá vilja hafa í öndvegi, þrátt fyrir svikin við þau á undanförnum árum. Ég mun því krossa fingur og krossa við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum framundan.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Misheppnaður stjórnmálamaður

    Að undanförnu höfum við fengið að fylgjast með einhverjum misheppnaðasta stjórnmálamanni síðari tíma. Þar á ég við Svandísi Svavarsdóttur sem nú er orðin formaður Vinstri-grænna. Fyrir nokkrum dögum sagði þessi formaður að hún og flokkur hennar vildi halda áfram stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki og Framsókn undir stjórn Bjarna Benediktssonar fram á vor en þá vildi hún að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Hún virtist telja sig hafa vald til að ákveða líftíma ríkisstjórnarinnar og tímasetningu kosninga. Aðallega er hún samt einfaldlega ofstækisfullur vinstri maður.

    Nú þegar Bjarni forsætisráðherra hefur ákveðið að rjúfa þingið strax og kjósa í lok nóvember, fer Svandís á límingunum. Nú vill hún ekki einu sinni sitja í starfsstjórn með manninum sem hún vildi um síðustu helgi vinna með fram á vor í fullgildri ríkisstjórn. Hún segir sig núna frá því að setjast í starfsstjórnina, þó að föst hefð sé fyrir því að fráfarandi stjórnarflokkar sinni þeirri skyldu þegar þing er rofið. Aldrei hefur nokkur annar flokkur hagað sér þannig.

    Þegar Svandís kemur fram í fjölmiðlum er hún ávallt uppfull af hroka og yfirlæti, þó að hún hafi svo sannarlega engin efni á því. Með þessari framkomu virkar hún fráhrindandi á kjósendur. Það eru sýnilega hrein mistök flokks hennar að hafa valið hana til forystu og það rétt fyrir kosningar, þegar stjórnmálamenn hafa hagsmuni af því að laða kjósendur að sér fremur að hrinda þeim frá sér.

    Á undanförnum árum hefur þessi stjórnmálamaður oftsinnis brotið vísvitandi lagalegan rétt á mönnum og er stöðvun hvalveiða skýrasta dæmið um það. Hefur hún þá bakað ríkissjóði, eða öllu heldur almenningi í landinu, skaðabótaábyrgð sem mun valda háum bótagreiðslum. Segja má að hún skeyti hvorki um skömm né heiður, því hún hefur í reynd hafnað því að gegna starfi sínu á þann hátt að virða lagalegar skyldur sínar, eins og alþingismönnum ber að gera. Ef hún heldur að framkoma hennar dragi að sér kjörfylgi er það mikill misskilningur. Flestir kjósendur hafa hreina óbeit á stjórnmálamönnum sem haga sér eins og hún hefur gert. Það er óskandi að flokkur hennar þurrkist út af Alþingi í kosningunum framundan.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður