• Öfgalaust

    Á netsíðu Vísis í gær er birt opið bréf til mín í tilefni af litlum pistli sem ég fékk birtan í Morgunblaðinu 18. nóvember. Sendendur bréfsins eru sex konur sem vilja kenna sig við öfgar. Mér finnst að þær ættu ekki að gera það, enda fæ ég ekki betur séð en sjónarmið þeirra séu að mörgu leyti öfgalaus, þó að mér sé gert rangt til og ætlaðar meiningar sem ég kannast ekki við og hef aldrei borið fram. Rétt er að hafa nokkur orð um þetta.

    Grein mín hafði inni að halda hvatningu til þeirra sem útsettir eru fyrir hættu á að verða beittir kynferðisofbeldi sem og hinna sem gætu orðið ofbeldismenn. Var þessu fólki bent á að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir brotin eða að minnsta kosti að fækka þeim, því kannski getum við aldrei komið í veg fyrir að þau verði framin.

    Ég kann ekki að vísa til vísindalegra kannana máli mínu til stuðnings, en ég er samt sannfærður um að þorri kynferðisbrota er framinn af drukknum ofbeldismönnum á drukknum fórnarlömbum þeirra. Stundum er ástæða til að ætla að sá sem ofbeldinu beitir, myndi ekki gera það ef hann væri ekki undir áhrifum vímugjafa.

    Brotin eru yfirleitt ekki framin á veitingahúsum eða úti á götu. Þau eru mörg framin í heimahúsum, eftir að ofbeldismanninum hefur tekist að lokka fórnarlambið með sér þangað. Stundum hefur hann að sögn líka blandað ólyfjan í drykki brotaþolans til að deyfa hann og draga úr afli hans til andstöðu. Þetta er auðvitað skelfilegt og við ættum öll að sameinast í baráttu gegn þessu framferði með eða án öfga. Ofbeldi innan fjölskyldna er erfiðara viðfangs, því þar hafa hrottarnir oft eins konar yfirráð yfir fórnarlömbum sínum. Samt hljótum við að leita leiða til að draga úr heimilisofbeldinu.

    Það er auðvitað grófur útúrsnúningur úr orðum mínu að telja mig vilja gera fórnarlömbin ábyrg fyrir brotunum, sem þau hafa mátt þola. Það er satt að segja furðulegt að sjá ábyrgar öfgakonur gera þessu skóna. Fyrir mér vakti aðeins að reyna að fækka þessum alvarlegu brotum, þó að erfitt sé að finna leiðir sem virka í þá átt.

    Þegar álitamál er uppi er oft gagnlegt að stilla upp öfgadæmi, til að átta sig á
    grundvallaratriðunum. Segjum til að mynda að konur stunduðu það að innbyrða
    sjálfviljugar, áður en þær færu út á skemmta sér, lyfin sem ofbeldismenn nota til að koma vilja sínum fram við þær. Væri ekki við hæfi að hvetja konur til þess að
    hætta því, svo þær væru ekki varnar- og meðvitundarlausar á skemmtistöðum
    borgarinnar? Væri sú hvatning fallin til þess að varpa ábyrgð kvenna á þeim
    glæpum sem þær yrðu fyrir á þær sjálfar? Nei, því jafnvel þá bæru þolendur enga
    ábyrgð á verknaði gerendanna, þótt draga hefði mátt úr líkum á brotunum.

    Ég er sammála öfgakonum um að hvorki karlar né konur eigi að fremja ofbeldisbrot á öðru fólki. Best væri ef unnt yrði að uppræta þau með öllu en því miður er ekki sjáanlegt að slíkt sé hægt. Grein mín var skrifuð í þeim tilgangi að reyna að fækka slíkum brotum. Ábyrgð á ofbeldinu hvílir á brotamanni en ekki öðrum. Með vinsemd beini ég því til ykkar að ætla mér ekki skoðanir í aðra átt. Ástandið í þessum málum er hins vegar klárlega þannig að ég hvet stúlkur, sem mér þykir vænt um, að hafa varann á sér í umgengni við karlmenn sem þær eru kannski að hitta í fyrsta sinn á skemmtistað. Ég hika ekki við að benda þeim á að þær geti stundum beitt aðferðum sem draga úr líkum á að brotið verði á þeim, m.a. með því að skerða ekki dómgreind sína með neyslu vímugjafa. Og ég mun halda því áfram. Verði þær hins vegar fyrir því að brotið sé á þeim, mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til að hjálpa þeim að fást við eftirköstin m.a. með því að brýna fyrir þeim að ábyrgðin og skömmin sé ekki þeirra, heldur eingöngu brotamannsins. Og það eins þó að þær hafi verið drukknar.

    Verði grein mín til þess að forða einni nauðgun yrði ég sáttur. En þetta munum við aldrei fá að vita, hvorki ég né öfgakonurnar. Við skulum samt taka höndum saman um að gera það sem við getum til að fækka ofbeldisbrotum. Sumir telja það stundum geta orðið málstað til framdráttar að búa til andstæðing jafnvel með því að skrökva á hann sökum. Það er misskilningur hjá ykkur ef þið haldið að þessi aðferð sé vænleg gagnvart mér. Ég hef skömm á ofbeldismönnum og er miklu fremur samherji ykkar en fjandmaður.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Víman

    Hvínandi þytur hefur leikið um samfélag okkar að undanförnu vegna ásakana um að mikið sé um að brotið hafi verið á fólki, einkum konum, með því að misbjóða því kynferðislega. Brotamenn sem neiti ásökunum sleppi við refsingar, því erfitt reynist að sanna á þá brotin. Nokkuð hefur verið um að slíkir menn séu samt nafngreindir á opinberum vettvangi, án þess að sakir séu sannaðar, og veldur þetta þeim stundum velferðarmissi, brottrekstri úr vinnu eða útskúfun frá þátttöku í íþróttum svo dæmi séu nefnd. Á þessu eru ýmsar hliðar sem ræddar hafa verið í ýmsar áttir og greinir fólk á um flestar þeirra.

    Ein er samt sú hlið á þessu öllu saman sem lítið sem ekkert hefur verið rædd og sumir telja jafnvel að ekki megi minnast á. Þar á ég við áfengis- og vímuefnanotkun langflestra sem þurfa að upplifa þá dapurlegu lífsreynslu sem hér um ræðir, bæði brotamenn og brotaþola. Sumir hafa gengið svo langt að telja óheimilt að vara þá við sem verða þolendur svona brota með því að benda þeim á að varast notkun vímuefna í því skyni að forðast brot.

    Ég tel að áfengis- og vímuefnanotkun sé ráðandi áhrifaþáttur í langflestum þessara brota. Afleiðingar hennar geta auk nauðgana og annarra ofbeldisbrota, verið ótímabærar þunganir, vanræksla og jafnvel misnotkun barna, fóstureyðingar, forsjársviptingar, skaðleg andleg áhrif á börn, framhjáhöld, slys og ótímabær andlát.

    Þó að enginn vafi sé á, að þessi neysla sé stærsti áhrifaþátturinn í bölinu, heyrast þær skoðanir að á þetta megi helst ekki minnast. Til dæmis megi ekki vara, oftast konur, við vímuefnanotkun á skemmtistöðum. Með því sé verið að réttlæta brot misindismanna, sem á þeim brjóta. Þetta er auðvitað hálfgerður þvættingur, sem á líklega rót sína að rekja til þess að svo margir vilja geta þjónað áfengisnautn sinni í friði. Í raun er verið að segja að ekki megi benda fólki á að reyna að gæta sín sjálft. Það er samt vafalaust besta vörnin gegn svona brotum að gæta sín sjálfur. Þetta jafnast t.d. á við að gæta sín í umferðinni til að forðast slys.

    Ráðið er sem sagt að hætta eða draga verulega úr notkun áfengis- og vímuefna hvort sem er á skemmtistöðum eða bara heima fyrir. Slíkt er til þess fallið að draga úr hættu á þessum brotum, þó að þau yrðu seint alveg úr sögunni. Þeir sem ekki geta nýtt sér þetta ráð eru líklega háðir vímugjöfunum með þeim hætti að þeir ættu að leita sér hjálpar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Besta kerfið

    Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenskra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið. Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslensku þjóðarinnar, sem og því að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.

    Komið var á því sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum.

    Allt frá því að tekið var að stjórna fiskveiðum við landið með þessum hætti hafa verið uppi gagnrýnisraddir, sem hafa talið rangindi felast í því að úthluta þessum verðmætu heimildum til útgerðarmanna og fyrirtækja þeirra. Nær væri að allir landsmenn fengju beina aðild að þeim verðmætum sem felast í nýtingu sjávaraflans. Virðast kröfur í þessa átt hafa farið vaxandi með árunum. Rétt er að líta til nokkurra atriða sem undirrituðum finnst skipta máli við hugleiðingar um þetta.

    Fram að þeim tíma, þegar tekið var til við að takmarka aflann á þann hátt sem að framan er lýst, höfðu Íslendingar haft frjálsan aðgang að fiskimiðunum. Hver sem vildi gat komið sér upp fiskibát og hafið veiðar. Þetta leiddi sýnilega til ofveiði sem gerði takmörkun sóknarinnar nauðsynlega. Þegar slíkri takmörkun var komið á með lögum varð auðvitað nauðsynlegt að ætla þeim sem höfðu stundað útgerð sérstaka hlutdeild í heildarveiðinni, sem byggðist á aflareynslu þeirra. Þeir höfðu m.a. fjárfest í fiskiskipum, oft með miklum tilkostnaði. Það hefði engan veginn staðist að svipta þá, sem fjárfest höfðu á þennan hátt, heimildinni til að nýta þessi verðmætu atvinnutæki. Slíkt háttalag hefði einfaldlega leitt til bótaskyldu íslenska ríkisins og hefðu bæturnar ekki numið neinum smáum upphæðum. Á sama hátt myndi það leiða til þungbærrar bótaskyldu íslenska ríkisins nú ef til stæði að svipta útgerðina aflaheimildum sínum.

    Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra. Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það sem nýtt er í landbúnaði. Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun sem byggir á einstaklingseignarrétti er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel. Við hikum ekki við að segja að Ísland sé í sameign þjóðarinnar sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna.

    Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum. Til dæmis sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda. Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta.

    Kannanir sýna að íslenska kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.

    Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki. Við hljótum að skattleggja íslenska borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.

    Þeir sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um. Meginviðhorfin sem orðið hafa ofaná í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau bestu sem völ er á þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Afsökunarbeiðni

    Á árinu 2019 kom út bókin „Hrunréttur“ eftir þrjá prófessora við lagadeild Háskóla Íslands, Ásu Ólafsdóttur, Eyvind G. Gunnarsson og Stefán Má Stefánsson. Meðal þess sem finna má í þessari bók þremenninganna er listi yfir skrif um hrunið og afleiðingar þess. Þar er að finna fræðigreinar, en einnig fjölmiðlaefni, aðsendar greinar og fleira. Er svo að sjá að þetta eigi að vera heildstætt yfirlit yfir allt slíkt efni sem birst hefur hér á landi.

    Í bókinni er hins vegar hvergi minnst einu orði á skrif mín, hvorki í ofangreindum lista né við umfjöllun um einstaka dóma sem ég hef fjallað ítarlega um í skrifum mínum. Efni sem ég hef birt hafði hreinlega farið fyrir ofan garð og neðan hjá höfundunum.

    Hinn 7. september 2019 birti ég grein í Morgunblaðinu um þetta. Kom fram í grein minni að líklegast hefði þetta verið gert vitandi vits og væri liður í viðleitni lögfræðingasamfélagsins til að beita á mig einhvers konar útilokun frá skrifum um lögfræði. Ég hefði skrifað í bókum og blöðum hvassa gagnrýni á ýmislegt í framkvæmd laga í landinu, þ.m.t. marga dóma Hæstaréttar. Þetta félli undir að geta kallast „þöggun“ á þessi skrif.

    Ég hafði eftir útkomu bókarinnar samband við tvo af þremur höfundum bókarinnar og óskaði skýringar á þessum vinnubrögðum sem varla uppfylltu fræðilegar kröfur. Ábendingar mínar virtust koma þeim á óvart og könnuðust þeir ekki við þátttöku sína í vísvitandi þöggun á skrif mín. Þetta væru bara mistök við frágang á bók þeirra.

    Nú þegar rykið er sest hef ég áttað mig á því að ég hafði ekki forsendur til að saka höfundana um að hafa gert þetta vísvitandi. Þetta voru að vísu misfellur við skrif bókar þremenninganna en ég trúi því sem þeir sögðu, að þetta væru hrein og klár mistök. Ég bið höfundana því afsökunar á að hafa borið annað eins og þetta á þá. Í reynd var meira í húfi fyrir þá en mig þar sem þessar misfellur í bókinni snertu þá miklu fremur en mig. Óska ég þessum ágætu lögfræðingum velfarnaðar í fræðastarfi sínu í framtíðinni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Stuðningur við siðleysi

    Nú hafa þjóðinni verið borin þau tíðindi að einn af nýkjörnum Alþingismönnum hafi sagt skilið við stjórnmálaflokkinn sem hann var í framboði fyrir er hann hlaut kosningu. Það eru nokkrir dagar liðnir frá kosningum og ekki er vitað um nein tíðindi á vettvangi stjórnmála sem gefa manninum tilefni til þessara sinnaskipta. Ljóst er að hann bauð sig fram undir fölsku flaggi, enda hefur hann sjálfur ekki skýrt athæfi sitt með öðru en gamalli atburðarás sem lá öll fyrir löngu fyrir kosningarnar. Hann var einfaldlega að svindla á kjósendum, þegar hann lét kjósa sig fyrir flokk sem hann yfirgefur svo strax að kjörinu loknu vegna atvika sem lágu fyrir áður en kosið var.

    Ég held ég myndi varla nenna að stinga niður penna til þess eins að áfellast þennan mann fyrir hátterni hans. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessu með honum? Með því háttalagi gerist sá flokkur meðsekur í háttsemi mannsins. Komið hefur fram í fréttum að enginn þingmanna flokksins greiddi atkvæði gegn því að taka við honum. Þingflokkurinn hefur þá upplýst að hann er til í að taka þátt í siðlausum brotum annarra ef hann aðeins telur sig hagnast á því – í þessu tilviki með því að fá viðbótaratkvæði á þingi.

    Ekki gott.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Aðgerðaleysi

    Hvernig stendur á því að stjórnmálaflokkarnir bregðast ekki við augljósum annmörkum á lagareglum um dómstóla, þó að ítrekað hafi verið bent á þá með þeim hætti að enginn þarf að efast?

    Ég hef um árabil fjallað um þetta í ræðu og riti og fært fram lýsingu á staðreyndum sem enginn hefur getað efast um að séu réttar.

    Nú síðast sendi ég frá mér hlaðvarpsþætti (sex talsins) þar sem farið er yfir meginreglur sem dómstólum ber að virða í störfum sínum og nefni dæmi um að freklega hafi verið brotið gegn þeim.

    Í síðasta þættinum ræði ég umbætur á lögum sem auðvelt er að koma á til þess að bæta þessa þýðingarmiklu starfsemi svo um munar.

    Af einstökum breytingum er þýðingarmest að afnema sjálfdæmi dómaraelítunnar um val á nýjum dómurum í Hæstarétt.

    Á því sviði liggja fyrir handföst dæmi um misnotkun á valdi til þess arna. Þannig eru bein dæmi um að við mat á umsækjendum sé breytt um viðmiðanir milli ára í því skyni að hefja vini og kunningja upp yfir aðra sem sitjandi dómurum kann að vera í nöp við.

    Þetta hafa allir séð og margir lögfræðingar fjallað um á opinberum vettvangi.

    En það er eins og stjórnmálamönnum sé alveg sama.

    Nú er verið að mynda nýja ríkisstjórn og mætti þá ætla að fjallað væri um úrbætur á lagareglum um dómstóla sem allir sjá að eru nauðsynlegar í því skyni að reyna að uppfylla þær kröfur sem lýðræðislegt réttarríki hlýtur að gera til þessara stofnana.

    Ég spái því að ekki muni sjást orð um þetta í komandi sáttmála um stjórnarmyndun.

    Þetta er eins og logandi eldhnöttur sem enginn þorir að taka á, þó að staðreyndirnar liggi fyrir og auðvelt sé að gera lagabreytingar til umtalsverðra bóta.

    Kannski stjórnmálamennirnir séu að bíða eftir að þeir sjálfir eða ástvinir þeirra þurfi að prófa þetta spillta kerfi á sjálfum sér?

    Á meðan eru aðrir borgarar látnir bera skaðann af spillingunni.

    Reynið frekar að vakna og gera strax þær úrbætur sem gera þarf.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Dómarar aðstoða ráðherra við stjórnsýslu

    Á vefsíðu stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um réttarfarsnefnd. Fram kemur að dómsmálaráðherra skipi hana. Hún hafi það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars, m.a. þegar samin eru frumvörp og aðrar reglur á því sviði í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að nefndin veiti umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur sem varða réttarfar.

    Ljóst er að þessi verkefni flokkast undir framkvæmdavald, þ.e. svonefnd stjórnsýsluverkefni. Á lögmæti þeirra kann að reyna í dómsmálum.

    Í pistlinum um nefnd þessa á vefsíðunni kemur fram að þrír af fimm nefndarmönnum koma nú úr röðum skipaðra dómara við Hæstarétt. Tveir þeirra sátu í nefndinni þegar þeir voru skipaðir dómarar á síðasta vetri en sáu ekki ástæðu til að segja af sér þessum stjórnsýslustörfum við það tækifæri. Sá þriðji er núverandi forseti Hæstaréttar. Hann er ekki talinn líklegur til að afsala sér bitlingum sem honum hafa verið fengnir.

    Skipunartími núverandi nefndarmanna er til 28. febrúar n.k.

    Flestum hugsandi mönnum ætti að vera ljóst að ekki er við hæfi að dómarar við æðsta dómstól þjóðarinnar séu skipaðir til að veita ráðherra aðstoð við stjórnsýslu dómsmála. Þetta er ómur liðins tíma.

    Væri ekki ráð að nútímakonan, sem nú gegnir embætti dómsmálaráðherra, óskaði eftir að hæstaréttardómararnir í réttarfarsnefnd segðu af sér þessum störfum hið bráðasta? Að minnsta kosti muni hún gæta þess við endurnýjun á mannvali í nefndina eftir næstu áramót að skipa þetta fólk ekki aftur í þessa nefnd.

    Fróðlegt væri að heyra að minnsta kosti viðhorf hennar til þessa málefnis. Kannski Mogginn láti henni í té rými til þess?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Eiga dómarar að sýsla við lagasetningu?

    Á síðum Morgunblaðsins hefur á undanförnum dögum komið til umræðu hvort eðlilegt hafi verið á síðasta ári af forsætisráðherra að fela Páli Hreinssyni dómara við EFTA-dómstólinn að skrifa álitsgerð um valdheimildir heilbrigðisráðherra til „opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum“. Skilaði dómarinn álitsgerð um þetta efni 20. september s.l.

    Það er skoðun mín og fjölda annarra lögfræðinga, að ekki sé við hæfi að skipaðir dómarar sinni svona verkefnum fyrir stjórnarráðið. Skiptir þá að mínu mati ekki máli hvort um ræðir dómara við innlenda dómstóla eða fjölþjóðlega.

    Segja má að ástæður fyrir þessu séu aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi fara dómstólar með dómsvald, en það vald á samkvæmt stjórnarskrá og lögum að vera skilið frá framkvæmdarvaldi, sem ráðherrar fara með. Það skiptir því máli að dómarar gerist ekki þátttakendur í meðferð ráðherravalds. Slíkt er til þess fallið að skapa tengsl sem geta haft áhrif langt út fyrir einstök verkefni sem ráðherra felur dómara að sinna. Þetta dregur úr trausti manna á dómstólum. Í öðru lagi er auðvitað hætta á að dómari verði beinlínis vanhæfur til meðferðar einstaks máls, sem borið er upp við dómstól hans, ef deilt er um gildi eða efni lagareglna sem hann hefur átt þátt í að semja.

    Forsætisráðherra segir nú réttilega að dómari skuli sjálfur meta hæfi sitt í einstökum málum. Augljóst er að þetta mat hans beinist eingöngu að síðari þættinum, sem nefndur er að framan, en ekki þeim fyrrnefnda sem er ekki þýðingarminni en sá síðarnefndi. Og þessi staðreynd ætti ekki að skipta nokkru máli, þegar verið er að velja lögfræðinga til að skrifa álitsgerðir fyrir stjórnarráðið.

    Það er sem sagt skoðun mín að dómarar eigi alls ekki að taka að sér verkefni í stjórnsýslu á borð við það sem hér um ræðir. Með þeim eina hætti varðveita þeir hlutlausa stöðu sína og tiltrú almennings á þeim.

    Svo má spyrja: Hvers vegna leitar ráðherrann til dómarans til að fá lögfræðiálit? Páll er hinn mætasti lögfræðingur og kann ýmislegt fyrir sér. En er ekki starfandi í landinu fjöldi lögfræðinga sem segja má hið sama um? Í þeim flokki má til dæmis telja fræðimenn og kennara í lögfræði, starfandi lögmenn og jafnvel lögfræðimenntaða stjórnmálamenn. Er einhver þörf á að hætta stöðu hins mæta dómara Páls með þessu?

    Nauðsynlegt er að taka fram að þessi ámælisverði þáttur í íslenskri stjórnsýslu hefur tíðkast í landinu um langa hríð. Besta dæmið er skipun réttarfarsnefndar. Hún er fastanefnd sem m.a. hefur það hlutverk „að vera dómsmálaráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars.“ Í þessari nefnd hafa starfandi hæstaréttardómarar setið um árabil. Þetta er eins og ómur úr fortíðinni sem er ekki boðlegur nú á tímum, hafi hann einhvern tíma verið það. Dómarar sem hafa átt sæti í þessari nefnd hafa oftsinnis tekið þátt í að dæma í málum þar sem deilt hefur verið um efni réttarfarslaga sem nefndin hefur samið.

    Hvernig væri að ráðherrar beittu sér fyrir breytingu á þessum ámælisverðu þáttum í íslenskri stjórnsýslu í stað þess að hlaupa til varna og forherðast í sjónarmiðum liðins tíma?

    Jón Steinar Gunnlaugson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og nefndarmaður í réttarfarsnefnd (áður en hann var skipaður dómari)

  • Hjarðhegðun dómara

    Hvers vegna ætli kveðið sé svo á í lögum að áfrýjunardómstólar skuli skipaðir fleiri en einum dómara, sem dæma skuli mál saman, ýmist þrír, fimm eða sjö? Þetta gildir ekki bara á Íslandi heldur einnig í öðrum löndum sem og við alþjóðlega dómstóla, eins og Mannréttindadómstól Evrópu svo dæmi sé tekið. Ástæðan er augljós. Það er talið til þess fallið að tryggja rétta niðurstöðu í málinu að kveðja til nokkra vel hæfa lögfræðinga til að leggja dóm á sakarefni þess. Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú að hver og einn þeirra leggi sitt álit til grundvallar niðurstöðu sinni. Þetta beri þeim þá að gera eftir að hafa borið saman bækur sínar og verið tilbúnir til að skipta um skoðun ef einhver hinna kemur með úrlausn sem telur þeim hughvarf. Þessi skipan myndi óhjákvæmilega valda því að dómarar skrifuðu sératkvæði þegar úrlausnin, sem þeir telja rétta, er ekki hin sama og úrlausn hinna. Þetta hlyti að gerast reglulega, því úrlausnarefnin eru oft flókin og veruleg áhöld um aðferðafræðina við að dæma um þau og þar með um niðurstöðuna.

    Víða erlendis er gert ráð fyrir að einstakir dómarar skuli greiða skriflega atkvæði í máli sem til meðferðar er hverju sinni. Sé dómari sammála öðrum að öllu leyti getur hann einfaldlega vísað til röksemda annars dómara í hópnum eftir að þeir hafa komið sér saman um hvor eða hver þeirra skuli skrifa hinn efnislega rökstuðning. Þessi aðferð við samningu dóma er til þess fallin að stuðla að persónulegri ábyrgð einstakra dómara í hópnum á niðurstöðu sinni.

    Allir ættu að vita að í nokkurra manna hópi lögfræðinga hlýtur að verða alltítt að upp komi ágreiningur um þau lögfræðilegu úrlausnarefni sem fengist er við. Þetta verður augljóst þegar athugaðar eru upplýsingar um slíkt við fjölskipaða erlenda dómstóla. Þar er víða regla fremur en undantekning að sjónarmið séu að einhverju leyti mismunandi. Slíkur ágreiningur er eðlilegur og telst raunar óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skipa marga jafnsetta dómara í dóm.

    Ætli þetta sé sá háttur sem við er hafður hér á landi? Nei, ekki aldeilis. Elíta dómaranna liggur meira segja ekkert á þeirri skoðun sinni að æskilegt sé að bræða saman sjónarmiðin og forðast sératkvæði. Nú er orðið afar fátítt að sératkvæðum sé skilað og þarf ekki að fara nema nokkur ár aftur í tímann til að sjá mun skárra ástand að þessu leyti í Hæstarétti. Þegar ég átti sæti í réttinum taldi ég það skyldu mína að standa með sjálfum mér við úrlausn málanna og byggði þá á þeirri augljósu forsendu að rétt niðurstaða í lögfræðilegum ágreiningi væri aðeins ein en ekki margar sem dómari gæti valið úr. Þetta gerðu líka einstakir aðrir dómarar og nefni ég þá til sögunnar Hjördísi Hákonardóttur, Ólaf Börk þorvaldsson og Viðar Má Matthíasson.

    En bæði þá og nú hefur meginreglan verið sú að bræða saman sjónarmiðin, eða þá einfaldlega að fylgja í blindni einhverjum hinna sem skrifar atkvæði. Hátturinn sem þarna er ríkjandi felur í sér eina tegund þeirrar hjárðhegðunar sem nú tröllríður þjóðfélagi okkar og setur mark sitt á ákvarðanir og afstöðu manna. Virðist viðhorf margra dómara felast í því að þeir telji sig hafa verið skipaða í dóm til að semja við aðra lögfræðinga um hina réttu niðurstöðu í stað þess að finna hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu. Úr þessu hefur oft orðið hrein afbökun, þar sem eitt rekur sig í annars horn og engin leið verður að skilja um hvað viðkomandi dómur er fordæmi. Nefndi ég sláandi dæmi um þetta í bók minni „Veikburða Hæstiréttur“, sem kom út á árinu 2013, sjá bls. 54-78. Dæmin sýna vel fáránleikann í þessari aðferðafræði samninganna.

    Ekki deili ég við nokkurn mann um að nauðsynlegt sé að ágreiningur, sem upp kemur við samningu dóma, sé krufinn til mergjar og reynt sé að nálgast sameiginlega hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu, þannig að allir dómararnir geti sameinast um forsendur og niðurstöðu máls. Standi hins vegar eftir ágreiningur um röksemdir eða niðurstöðu að slíkri krufningu lokinni er það að mínum dómi skylda dómara að fylgja sinni bestu samvisku og greiða sératkvæði en ekki að víkja skoðun sinni til hliðar í þágu einingarinnar. Ein af meginforsendum þess að skipa marga dómara í æðsta dómstól þjóðar hlýtur að vera að tryggja að mismunandi lagaleg sjónarmið hinna hæfustu lögfræðinga séu þar til staðar. Dómarar eru ekki skipaðir til embætta í slíkum dómstól til að taka samstöðuna sín í milli fram yfir bestu einstaklingsbundna vitund um lögfræðileg úrlausnarefni. Breyting á reglum um samningu dóma í þá átt sem ég hef rakið ætti að vera til þess fallin að bæta mjög starfsemi æðri dómstólanna, hvort sem um Landsrétt eða Hæstarétt ræðir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Furðulegur dómur

    Hinn 23. júní s.l. hafnaði meirihluti Hæstaréttar í málinu nr 24/2021 kröfu sakbornings í sakamáli um að tveir af þremur dómurum við Landsrétt skyldu víkja sæti í endurtekinni meðferð á máli hans í Landsrétti, en Hæstiréttur hafði ómerkt fyrri dóm Landsréttar á þeirri forsendu að ekki hefði farið fram munnleg sönnunarfærsla í málinu. Með öðrum orðum stóð svo á að dómararnir tveir höfðu sakfellt manninn við fyrri meðferðina án þess að til hefði komið munnlegur framburður fyrir dómi. Hæstiréttur hafði ómerkt þennan fyrri dóm af þessari ástæðu.

    Sakborningur taldi eðlilega að hann þyrfti ekki að sæta því að þessir tveir dómarar, sem væru búnir að sakfella hann á ófullnægjandi grundvelli, settust í dóm í máli hans þar sem bætt yrði úr fyrri annmörkum á meðferð málsins. Gerði hann því kröfu um að þessir tveir dómarar yrðu látnir víkja sæti þegar málið yrði dæmt á ný. Í forsendum Hæstaréttar virðist koma fram skilningur á nauðsyn þess að sakborningur hafi ekki ástæðu til að vantreysta dómurum máls, því þar segir m.a.: „Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari komi að úrlausn máls ef réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.“

    Þessari einföldu hugsun sýnist svo varpað fyrir borð síðar í forsendunum þar sem segir svo orðrétt: „Þótt að sínu leyti sé skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þessir dómarar muni líta málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður getur það eitt og sér ekki talist grundvöllur undir réttmætan efa um að þeir teljist óhlutdrægir.“ Kröfu mannsins var því synjað.

    Í þessum forsendum felst alvarleg þversögn. Engin réttarfarsleg þörf er á að synja kröfu mannsins. Hann vildi bara að málið dæmdu dómarar sem hann hefði ekki ástæðu til að ætla að hefðu fyrirfram mótað afstöðu sína til sakarinnar. Það er í raun óskiljanlegt að fjórir af fimm hæstaréttardómarar skuli synja honum um þetta.

    Það er lítið hald í því fyrir manninn að einn dómaranna fimm skuli hafa skilað sératkvæði, þar sem hann færir einföld rök fyrir því að taka beri kröfu mannsins til greina. Í atkvæði hans segir m.a. svo: „Fjölmörg dæmi eru um að dómari hafi talist vanhæfur þótt afskipti hans af málefni, meðal annars við meðferð máls fyrir dómi, hafi verið mun veigaminni en að kveða upp efnisdóm í máli, …. Vanhæfisreglur laganna hafa auk þess að geyma víðtæk ákvæði sem mæla fyrir um að hlutrænt séð skuli dómarar taldir vanhæfir þótt síður en svo verði fullyrt að tengsl þeirra við mál séu með þeim hætti að áhrif þurfi að hafa á afstöðu þeirra.“

    Nefnir þessi dómari m.a. til sögunnar dæmi úr lögum, þar sem kveði er á um þetta.

    Fullyrða má að traust almennings til Hæstaréttar hafi látið verulega á sjá á undanförnum misserum og árum. Því hefur ráðið ófullnægjandi dómsýsla réttarins. Hafi dómarar við Hæstarétt áhuga á að reyna að bæta traust almennings til dómstólsins ættu þeir að reyna að forðast dóma þar sem bersýnilega er brotið freklega á rétti borgara til hlutlausrar meðferðar mála þeirra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður