• Honum ber að biðjast lausnar

    Í fyrra stóð Róbert Spanó íslenski dómarinn við Mannréttindadómstól Evrópu að furðulegum dómi í máli gegn Íslandi. Það mál varðaði skipun dómara í Landsrétt. Þar átti íslenski dómarinn hlut að dómi MDE á hendur heimalandi sínu með þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði ekki verið skipaður samkvæmt lögum. Þetta sáu allir lögfróðir menn að var staðleysa. Skipan dómsins fór að öllu leyti fram samkvæmt lögum og hafa allar valdastofnanir á Íslandi staðfest að svo sé, Alþingi, ráðherra, Hæstiréttur (mál nr. 10/2018) og meira að segja forseti Íslands. Enginn réttur var brotinn á kæranda sem hafði játað ölvunarakstur og var ákveðin refsing fyrir það.

    Á sama tíma hefur Róbert Spanó staðið að því að vísa frá MDE fjölda kærumála frá Tyrklandi, þar sem m.a. dómurum var vikið úr starfi í stórum stíl fyrir þær sakir að vilja ekki þýðast harðstjórann Erdógan. Svo bítur Róbert Spanó höfuðið af skömminni með því að þiggja boð til Tyrklands til að hitta Erdógan og láta þar sæma sig heiðursnafnbót, allt undir forsjá harðstjórans. Þetta er ótrúleg atburðarás, ekki síst þegar málið gegn Íslandi er skoðað til samanburðar.

    Ekki er auðvelt að ráða í ástæðurnar fyrir framferði þessa dómara. Hann virðist helst vera í einhverjum pólitískum og persónulegum leik, þar sem lög og réttur skipta hann ekki miklu máli.

    Það er orðið ljóst að Róbert Spanó er með Tyrklandshneykslinu búinn að skaða Mannréttindadómstól Evrópu með þeim hætti að honum ber siðferðileg skylda til að biðjast lausnar; a.m.k. ef hann metur hag dómstólsins meira en eigin hégómagirnd.

    Ég spái því að hann muni samt ekki gera þetta. Hann mun bregðast við eins og svo margir gera við hliðstæðar aðstæður. Forherðast og sitja sem fastast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hóphyggja

    Hafa menn leitt hugann að því hversu mjög félög og flokkadrættir eru sterkar frumforsendur fyrir alls kyns ágreiningi og voðaverkum manna? Hóphyggjan er fyrirbæri sem rænir menn heilli hugsun og hindrar þá í að taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er svo miklu auðveldara að taka þátt í einhverju sem hópurinn gerir. Félagar í hópnum þurfa ekki að taka persónulega ábyrgð á háttsemi hans. Nóg er að vísa til þess að hópurinn hafi tekið afstöðu og félagarnir í hópnum styðji hana. Þetta er líka stundum nefnt hjarðhegðun, sem er lýsandi orð fyrir svona breytni.

    Mér er nær að halda að hóphyggjan sé ráðandi háttur í samfélagi mannanna. Menn eru með einum hópi og þá gegn öðrum. Styrjaldir eru t.d. reknar í nafni hópa. Ein þjóð ræðst á aðra og drepur sem mest hún má. Þeir sem drepnir eru hafa fæstir nokkru sinni gert á hluta þeirra sem drepa. Þeir sem tilheyra einni þjóð standa saman og þá eftir atvikum gegn öðrum þjóðum. Persónuleg háttsemi og ábyrgð kemur sjaldnast við sögu. Sama má segja um trúarhópa, sem reglulega fremja illvirki á fólki úr öðrum hópum. Nú er frá því sagt að mörgum, jafnvel flestum, almennum borgurum í Þýskalandi Hitlers hafi verið kunnugt um útrýmingu gyðinga en ekki látið málið samt neitt til sín taka.

    Og innan vébanda þjóðanna byggist mannlífið á hóphyggju. Menn eru sýknt og heilagt að leggja málstað lið bara fyrir þá sök að þeir tilheyra hópnum sem færir hann fram. Í félögum er mjög oft kallað eftir samstöðu félagsmanna um svonefnd baráttumál þeirra. Þá er verið að biðja félagsmennina um að leggja ekki sjálfstætt mat á það sem um ræðir, heldur einfaldlega styðja það á grundvelli hóphyggjunnar. Og það dugar flestum. Þeir þurfa ekki að finna nein önnur rök fyrir afstöðunni en þau að hópurinn hafi hana.

    Á vettvangi stjórnmála háttar oftast svo að flokkarnir hafa afstöðu sem fulltrúum á þeirra vegum er talin bera skylda til að fylgja. Allt að einu er skýrt á það kveðið í stjórnarskrá að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína (48. gr.). Hollustan við hópinn (flokkinn) tekur þessu samt oftast fram. Segja má að slík hóphyggja sé að hluta til nauðsynleg, þar sem mynda þarf hópa til að unnt sé að hafa skikk á landstjórninni. Þetta gengur samt oftast miklu lengra en nauðsyn krefur.

    Og fjölskipaðir dómstólar eru ofurseldir hóphyggjunni. Þar eru dómar oftast kveðnir upp án þess að einstakir þátttakendur í hópnum geri sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu og rökum fyrir henni. Samt eiga þeir aðeins að beita réttarheimildum, eins og þeir skilja þær, við úrlausn málanna. Sumir dómarar hafa meira að segja kveðið upp úr um að samstaða innan hópsins sé sérstakt keppikefli. Þessi aðferðafræði felur það í sér að niðurstaða dómsmála ræðst fremur af samningum innan hópsins en af beitingu réttarheimilda. Dómari sem fékk að ráða í síðustu viku skuldar hinum samstöðu í þessari svo ekki hallist á í hópnum. Aðilar dómsmálanna verða fórnarlömb hóphyggjunnar.

    Þó að fallast megi á að hópar séu að vissu marki nauðsynlegir og gagnlegir, ætti það sem við getum kallað einstaklingshyggju að ráða miklu meiru um hagi okkar og afstöðu. Menn eiga að taka sjálfir afstöðu til málefna í miklu ríkari mæli en nú er og vera tilbúnir til að taka ábyrgð á þeirri afstöðu. Mér er nær að halda að styrjöldum og hernaðarlegum voðaverkum myndi fækka í heiminum ef menn tækju upp þennan hugsunarhátt í miklu ríkari mæli en nú er gert og legðu hóphyggjuna til hliðar sem almennan lífsmáta, eins og hún svo sannarlega er nú.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Heiður eða skömm?

    Þessa dagana eru sagðar af því fréttir að Róbert Spanó, sem nú gegnir embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), hafi sérstaklega verið heiðraður af Tyrkjum. Var honum boðið til Tyrklands þar sem hann var sæmdur nafnbót heiðursdoktors við háskólann í Istanbúl, auk þess sem hann átti fund með Erdogan forseta Tyrklands.

    Þetta eru vond tíðindi. Sérstaklega að dómarinn skuli þiggja svona fjólur af ríki sem allir vita að reglulega forsmáir vernd mannréttinda og hefur þurft að verjast fjölmörgum kærum fyrir MDE undanfarin misseri, m.a. fyrir brot á tjáningarfrelsi borgara sinna.

    Þegar Róbert var spurður um ástæður þess að hann tók við þessum gælum, svaraði hann því til að hefð væri fyrir því að dómarar við dómstólinn gerðu það þegar aðildarríki ætti í hlut. Svarið er frekar bágborið svo ekki sé meira sagt.

    Í raun ættu dómarar við MDE aldrei að þiggja svona viðurkenningar frá aðildarríkjunum. ALDREI. Ríkin eru aðilar til varnar í kærumálum sem berast til dómstólsins. Það er því ekki við hæfi að dómarar taki við atlotum þeirra. Slíkt hlýtur að rýra traust manna til dómstólsins. Allra helst á þetta við þegar í hlut á ríki sem er blóðugt upp fyrir axlir af mannréttindabrotum sínum eins og Tyrkir eru. Róbert hefði hreinlega átt að nota þetta tækifæri til að uppræta hefðir af þessum toga, hafi þær yfirhöfuð verið fyrir hendi.

    Hvers vegna heldur Róbert Spanó að Tyrkir hafi viljað hengja á hann orðu? Dettur honum ekki í hug að það kunni að vera vegna viljans til að gera hann vinveittan þeim stjórnvöldum í þessu landi, sem sífellt þurfa að verja hendur sínar fyrir dómstólnum? Mun hann láta það eftir þeim?

    Það er auðvitað forsmán ef dómarar við dómstólinn eru svo hégómlegir að vilja þiggja svona viðurkenningar fremur en að afþakka þær í þágu þeirra hagsmuna sem þeim hefur verið trúað fyrir að gæta í þágu almennra borgara í aðildarríkjum að dómstólnum. Það er sorglegt að íslenski dómarinn við dómstólinn skuli falla á kaf í þennan pytt. Vonandi drukknar hann ekki.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hvað um þig?

    Á Íslandi segjumst við búa í lýðræðisríki, sem virðir mannréttindi.

    Meginreglan um vernd þeirra kemur fram með ýmsum hætti í stjórnskipan okkar og lögum.

    Þannig skiptum við ríkisvaldinu í þrjá valdþætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

    Til mannréttinda heyrir að ekki megi sakfella borgara fyrir refsiverða háttsemi, nema brot sé sannað lögfullri sönnun, eftir að hinn sakaði hefur fengið að verja sig með því að tala máli sínu og véfengja málatilbúnað ákæranda, m.a. sönnunarfærslu sem hann hefur uppi.

    Það eru handhafar dómsvaldsins sem einir mega kveða upp úr um sök sakaðra manna og þá að undangenginni lögfullri málsmeðferð.

    Nú er auðvitað ekki bannað í opnu upplýsingasamfélagi að flytja fréttir af málum, þar sem grunur kann að leika á að brotið hafi verið gegn refsilögum. Þeir sem þetta gera verða samt að gæta sín. Þeim ber skylda til að virða þær takmarkanir sem við öll búum við og felast í að mega ekki fullyrða um sakir annarra borgara, án þess að um þær hafi verið fjallað fyrir dómi og þá með þeirri niðurstöðu að sök hins sakaða manns teljist sönnuð eftir að hann hefur notið óskerts réttar til að færa fram varnir sínar.

    Við verðum reglulega vör við að þessar einföldu meginreglur eru brotnar og þar með réttur þeirra sem fyrir sökum eru hafðir.

    Ég hygg að hér séu blaða- og fréttamenn í mestri áhættu um að brjóta af sér. Það freistar þeirra stundum að birta frásagnir af borgurum sem fela í sér dylgjur og jafnvel beinar fullyrðingar um lögbrot þeirra. Þeir slá sjálfa sig þá til riddara fyrir slíkt hátterni; kalla sig „rannsóknarblaðamenn“ og gefa þá í skyn að þeir hafi höndlað sannleikann um afbrot og megi sakfella þann sem í hlut á, þó að alls ekki hafi verið fjallað um ætlaða sök hans með þeim hætti sem hið siðaða þjóðfélag krefst að gert sé.

    Almenningur gætir sín oft ekki á þessu. Menn taka þá oft undir svona sakfellingar og hrópa jafnvel húrra fyrir hinum glaðbeitta ákæranda.

    Svona „dómar“ eru oft mjög meiðandi fyrir þá sem fyrir sökum eru hafðir hvort sem þeir hafa brotið af sér eða ekki. Menn ættu að muna að þeir kunna sjálfir að verða fyrir barðinu á svona ásökunum og sakfellingum án þess að hafa fengið að njóta þess réttar sem lög mæla.

    Ég aðhyllist þá aðferð við sakfellingar sem réttarríkið beitir.

    Hvað um þig lesandi góður?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hvílík viðbrögð!

    Það er næsta furðulegt að fylgjast með viðbrögðum fréttastofu RÚV við upplýsingum Samherja um atvik að fréttaflutningi stofunnar á árinu 2012 um meint gjaldeyrissvik fyrirtækisins.

    1. Samherji segir að fréttamaðurinn Helgi Seljan hafi ekki verið með í höndum skýrslu frá svonefndri Verðlagsstofu skiptaverðs þegar fréttin var flutt, þó að hann hafi sagst vera það. Fyrirsvarsmenn verðlagsstofunnar kannast ekki við að hafa samið svona skýrslu. Helgi og Ríkisútvarpið svara og segjast víst hafa verið með skýrsluna. Og þá skal spurt: Af hverju framvísa þeir henni ekki nú til sönnunar á réttmæti staðhæfinganna?

    2. Fyrirsvarsmenn RÚV fara mikinn í ásökunum á hendur Samherja fyrir að hafa veist að fréttamanni RÚV. Engin dæmi séu um að fréttamenn hafi þurft að sæta slíkum árásum. Og þá skal spurt: Verður ekki fréttamaður sem sakar borgara í fréttum um refsiverða háttsemi að sæta því að þeir svari fyrir sig? Er hann friðhelgur fyrir því? Ef þeir telja sig hafa stoð fyrir þeirri skoðun að fréttamaðurinn hafi farið með rangt mál, jafnvel vísvitandi, mega þeir þá ekki segja frá því? Hverslags vitleysa er þetta hjá ríkisstofnuninni sem í hlut á og ber skyldur um hlutlægni og málefnaleg vinnubrögð?

    3. RÚV finnur að því að lögreglumaður hafi fengið fréttamanninn á fölskum forsendum til að tala við sig. Hafa fréttamenn RÚV ekki oftar en einu sinni orðið uppvísir að því að beita slíkum bellibrögðum? Frægasta dæmið er líklega viðtalið við Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem olli því að hann hraktist úr ráðherraembætti. Í þessu gildir sýnilega tvöfalt siðferði hjá ríkisstofnuninni.

    Svo ættu þeir sem tjá sig um málið í neðanmálsgreinum að skilja að þetta er ekki fótboltaleikur þar sem menn halda með öðrum gegn hinum. Hið sama gildir um fréttamenn á öðrum miðlum, sem núna sýna RÚV mönnum stéttvísi sína. Eins og endranær eiga menn að taka afstöðu eftir málefninu. Í augnablikinu standa mál þannig að fréttamenn RÚV hafa sýnt af sér háttsemi sem ekki er frambærileg. Við eigum öll að fordæma það.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Margra kosta völ?

    Fyrir nokkru birtist í Stundinni grein eftir Stefán Snævarr prófessor í heimspeki. Í grein sinni fjallar höfundur um pistil sem Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar hafði birt á sama stað í vor, þar sem hann fjallaði um nýútkomna bók mína „Umbúðalaust – hugleiðingar í hálfa öld“. Stefán Snævarr skrifar ekki mikið um þessa nýútkomnu bók. Skrif hans eru að mestu tileinkuð annarri bók eftir mig sem kom fyrst út á árinu 1987 hjá Almenna bókafélaginu og bar heitið „Deilt á dómarana“. Þar hafði ég fjallað á gagnrýnan hátt um nokkra dóma Hæstaréttar Íslands sem höfðu varðað vernd mannréttinda í landinu.

    Stefán er ekki lögfræðingur, en hann er sonur fyrrverandi hæstaréttardómarans Ármanns Snævarrs sem nú er látinn. Ármann var ágætur lögfræðingur og gegndi um nær aldarfjórðungs skeið stöðu prófessors við lagadeild Háskóla Íslands. Hann var dómari við Hæstarétt á árunum 1972 til 1984. Víst má því telja að Stefán hafi í uppvextinum kynnst lögfræðinni svolítið í gegnum föður sinn og störf hans. Kannski má sjá í viðhorfum Stefáns birtast áhrif frá lagaviðhorfum sem ef til vill voru ríkjandi á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Þau leiddu stundum til úrlausna sem fremur verða rakin til geðþótta dómenda en beitingar réttarheimilda. Þessi viðhorf eru afar áhrifamikil enn þann dag í dag, þó að vonandi hafi dregið úr áhrifamætti þeirra.

    Ekki finnst mér Stefáni takast mjög vel upp þegar hann ræðir um aðferðafræði í lögfræði. Mér sýnist hann saka mig um að einfalda mál fyrir mér og hampar mjög orðum sem ég held upp á og nota oft þegar ég tel mig hafa skýrt út lögfræðilegar úrlausnir í rituðu máli: „Svo einfalt er það.“ Sýnist mér Stefán einmitt telja lögfræðilegar úrlausnir flóknar, jafnvel svo að sá sem úr leysi eigi margra kosta völ við úrlausn sína. Hann segir: „Vandinn er sá að það eru ævinlega til fleiri en ein tæk (e. acceptable) túlkun á öllum lögum…“ Virðist hann telja að dómarinn geti valið á milli þessara kosta og eigi því val á milli mismunandi úrlausna. Kannski þetta sé eitthvað sem hann drakk í sig með móðurmjólkinni? Að minnsta kosti þekkjast þessi viðhorf vel og þá ekki síst hjá dómurum fyrri tíðar. Það var eins og þeir teldu dómurum heimilt að láta stjórnmálaviðhorf og persónulegar lífsskoðanir hafa afgerandi áhrif á úrlausnir sínar. Þetta er aðferðafræði af því tagi sem íslenskir dómarar hafa gegnum tíðina beitt til að koma fram niðurstöðum sem þeim hafa þótt „æskilegar“.

    Gagnrýni mín í bókinni forðum beindist m.a. að aðferðum af þessu tagi. Skrif mín síðan, sem orðin eru nokkur að vöxtum, hafa einnig að verulegu leyti beinst að þessu sama. Ég sé því ástæðu til að gera af þessu tilefni Stefáns tilraun til að skýra aðferðafræði lögfræðinnar eins og ég hef séð hana í störfum mínum og skrifum.

    Í samfélagi okkar hefur verið komið á fót sérstökum stofnunum til að leysa úr ágreiningsefnum, hvort sem er milli ríkis og einstaklinga eða einstaklinga innbyrðis. Þessar stofnanir nefnum við dómstóla. Þeir eiga að beita lögfræðilegum aðferðum við að komast að niðurstöðum.

    Í stjórnarskrá er kveðið svo á að dómstólar skuli einungis dæma eftir lögum. Í þessu felst ekki einungis bann við því að dómendur láti persónuleg eða pólitísk sjónarmið ráða niðurstöðum dómsmála, heldur felst líka í þessu krafa um að lögð sé rækt við að finna þá lagareglu sem við á og beita henni síðan á úrlausnarefnið. Lögfræðin felur því í sér að kenna hvaða aðferðir séu heimilar við úrlausn málanna.

    Menn ættu að hafa í huga að í stjórnskipun okkar er dómstólum ekki ætlað að móta nýjar lagareglur. Því hlutverki gegnir löggjafinn, Alþingi. Verkefni dómstóla er á hinn bóginn að finna þær reglur sem voru í gildi þegar atvik máls urðu og beita þeim á úrlausnarefnið. Það er reyndar undarlegt að heyra lögfræðimenntaða menn halda því fram að dómstólar hafi heimildir til að mynda nýjar reglur. Hefðu þeir slíkar heimildir fælist í þeim sú aðferðafræði að leysa skuli úr ágreiningi með því að fela málið í hendur mönnum sem hefðu heimildir til að móta nýjar reglur sem ekki voru til staðar, þegar atvik máls urðu, og beita þeim afturvirkt á ágreiningsefnið. Þetta finnst mér að ekki fái staðist. Svo einfalt er það.

    Aðferðafræðin í lögfræðinni við úrlausn ágreiningsmála byggist á þeirri forsendu að einungis ein niðurstaða sé rétt í þeim lögfræðilega ágreiningi sem til úrlausnar er. Allir sem um fjalla verða að byggja á þessari forsendu. Niðurstöður dómsmála eiga til dæmis ekki að geta orðið mismunandi eftir því hvaða dómari dæmir. Menn mega ekki láta það rugla sig í þessu að menn kann að greina á um hver hin rétta niðurstaða sé að efni til. Forsendan um að verkefnið sé að leita hinnar réttu niðurstöðu verður að gilda hjá hverjum og einum.

    Ég hef starfað sem málflytjandi og dómari alla mína tíð í lögfræðinni. Það hefur oft komið fyrir mig að hafa ekki haft hugmynd um hver verða muni hin rétta niðurstaða þegar vinnan við að leita hennar hefst í því máli sem til meðferðar er. Það verður þá oft hreinlega heillandi viðfangsefni að feta sig áfram eftir álitaefnunum í réttri röð hverju á eftir öðru, þar til niðurstaðan birtist í lokin og er þá oftar en ekki skýr og greinileg. Enginn geðþótti hefur þá fengið að komast að, einungis öguð lögfræðileg aðferðafræði.

    Svo hef ég einatt upplifað það í flóknustu málum að málið snýst í raun og veru um tiltölulega einfalt grundvallaratriði, þó að tíma og vinnu hafi tekið að finna það og þá oftast vegna þess að annar málsaðilinn hefur haft hagsmuni af því að reyna að leiða fram ályktanir sem styðja hans málstað og hann telur að ráða eigi niðurstöðunni. Það er allt saman eðlilegt því í dómsmálunum takast málsaðilar á og hver og einn þeirra talar fyrir sínum hagsmunum. Skylda þess sem dæmir er að kynna sér ástæður málsaðila til hlítar. Að öðrum kosti getur hann ekki fundið þá réttu. Hann þarf með öðrum orðum ekki aðeins að finna rökin fyrir henni, heldur þarf hann líka að hafna þeim sem kunna að vísa í aðrar áttir.

    Margir menn, bæði lögfræðingar og aðrir aðhyllast aðferðafræði sem þeir telja að gefi þeim valkosti um niðurstöðu. Þeir leggja þá venjulega áherslu á að úrlausnarefnið sé svo flókið að ekki sé unnt að ákveða með markvissum hætti hver sé hin rétta niðurstaða. Auðvitað kann úrlausnarefnið að vera flókið þannig að lausnin verður ekki örugg fyrr en að lokinni gaumgæfilegri athugun á öllu því sem máli kann að skipta. Þetta breytir engu um að hin rétta niðurstaða hlýtur alltaf að vera ein, eða sú sem leiðir af réttri beitingu réttarheimildanna. Menn ættu að muna að til aðferðafræði í lögfræði heyrir að beita réttarheimildum eftir heimildargildi þeirra. Þannig ganga til dæmis sett lög fyrir ólögfestum heimildum (venju, eðli máls o.s.frv.).

    Dómasafnið er fullt af dæmum um að dómarar hafa bersýnilega ekki beitt þeirri aðferðafræði sem þeim var skylt heldur látið geðþóttann ráða. Hér læt ég duga að nefna lítið dæmi sem allir skilja. Á þeim tíma að deilt var um hvort leyfa ætti sölu á áfengu öli hér á landi tók hann Guttormur upp á því að bjóða mönnum þjónustu við að blanda kláravíni, sem þeir höfðu keypt í ríkinu, saman við pilsner. Við þessa athafnasemi var auðvitað ekki um tilbúning áfengis (bruggun) að ræða. Þetta var bara blöndun áfengis við óáfengan drykk líkt og átti sér stað út um allt, þar með talið á heimilum landsmanna hvort sem er við neyslu áfengis eða matargerð, svo dæmi séu nefnd. En Guttormur var ákærður og sakfelldur fyrir tilbúning áfengis (bruggun) sem var refsiverður samkvæmt áfengislögum! Tveir fastir embættisdómarar í Hæstarétti sakfelldu hann (H.1988.104).[1] Þetta var auðvitað rænulaus vitleysa sem líklega átti rót sína að rekja til þess að dómararnir hafi verið andvígir því að leyfa sölu á áfengu öli í landinu. E.t.v. hafa þeir sjálfir frekar viljað lettvín!? Það er að öllum líkindum stórskaðlegt fyrir traustið sem dómstólar þurfa að njóta, þegar svona geðþótti er látinn ráða niðurstöðum.

    Svo sýnist mér Stefán Snævarr vilja gagnrýna mig fyrir að hafa talið réttinn til að standa utan félaga tilheyra hinu stjórnarskrárverndaða frelsi til að mynda félög með öðrum. Hugleiðing hans um þetta er reyndar ekki vel skiljanleg en sú er oft raunin þegar reynt er að gera einfalda hluti flókna með einhverju sem ekki kemur málinu við.[2] Auðvelt ætti að vera að átta sig á því að réttinum til að mynda félög með öðrum hlýtur af rökbundinni nauðsyn að fylgja réttur til að synja aðild að félögum sem menn vilja ekki verða félagar í. Að öðrum kosti væri unnt að þvinga menn til stuðnings við málstað sem þeir kunna að vera andvígir.

    Segja má að kenningar um að margbreytilegar niðurstöður séu dómstólum heimilar í sama málinu séu hentugar fyrir þá sem vilja að úrlausnir dómstóla ráðist fremur af tækifærismennsku en beitingu réttarheimilda.

    Að lokum tek ég fram að mér finnst æskilegt að menn tjái sig um starfsemi dómstóla og umfjöllun um verkhætti þeirra, þó að ekki séu lögfræðingar. Stefán Snævarr er prófessor í heimspeki. Kannski honum takist þó stundum betur upp í skrifum sínum á þeim vettvangi en í þeirri grein sem hér hefur verið gerð að umtalsefni?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður


    [1] Sjá bók mína „Í krafti sannfæringar“ (R.vík 2014), bls. 50-52.
    [2] Um þennan dóm er fjallað í bók minni „Í krafti sannfæringar“, bls. 68-71. Sjá líka bók mína „Umbúðalaust – hugleiðingar í hálfa öld“ (R.vík 2020), bls. 36-41 og 47-58.