• Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

    Í stjórnarskrá okkar er kveðið svo á að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þar er síðan að finna frekari ákvæði um réttarstöðu manna gagnvart frelsisskerðingum, m.a. um rétt til að leita til dómstóla vegna hennar.

    Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu beitt íslenska ríkisborgara því valdi að meina þeim að fara heim til sín til að „afplána“ sóttkví þar, en skipa þeim þess í stað að vistast í „sóttvarnarhúsi“ þann tíma sem sóttkví varir.

    Nokkrir borgarar hafa ekki viljað una þessu möglunarlaust og hafa þeir því borið þessa valdbeitingu undir dómstóla. Þar hafa fengist þær niðurstöður að þetta ofbeldi standist ekki fyrrgreinda meginreglu.

    Aðrir Íslendingar ættu að fagna því að einstakir samborgarar þeirra skuli ekki sitja þegjandi undir þessari valdbeitingu og kalla eftir dómsúrlausnum um að hún standist ekki. Við ættum síðan einnig að fagna niðurstöðunum, því þær byggjast á því að hér séu að minnsta kosti að einhverju leyti í gildi raunveruleg borgaraleg frelsisréttindi sem snerta grundvöll stjórnskipunar okkar.

    Ekki geri ég lítið úr því að gera þurfi ráðstafanir til að hemja veiruskrattann. En menn mega ekki missa stjórn á hugsunum sínum af því tilefni. Svo hefur nú brugðið við að hávaðasamar raddir hafa ekki bara veist að þeim einstaklingum sem hafa staðið vaktina í þessu heldur einnig að lögmönnum þeirra persónulega. Í hópi þeirra sem svona hafa talað er að finna ýmsa sem fram til þessa hafa viljað láta líta á sig sem frjálshuga borgara, sem vilji andæfa ofríki stjórnvalda, þegar við á.

    Það er eins og veiran hafi heltekið þá. Hvað ætla þeir að gera við prinsippið um frelsi þegar á að beita þá frelsissviptingum vegna stjórnmálaskoðana eins og gert er um víða veröldina. Kannski þeir telji að skoðanafrelsi sé bundið við „réttar“ skoðanir.

    Stundum er þessi blinda kölluð „að sjá ekki skóginn fyrir trjánum“.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Níð í boði RÚV

    Það er dálítið undarleg lífsreynsla að þurfa að hlusta á hreinan róg um sjálfan sig sem borinn er fram á opinberum vettvangi, fleytt áfram af slúðrandi alþingismönnum og sjónvarpað í umræðuþætti í sjónvarpi allra landsmanna, Ríkisútvarpinu. Þar á ég við skrafþáttinn „Silfrið“ sem sjónvarpað var sunnudaginn 14. mars.

    Tilefnið fyrir þessum ódæmum er að ég var notaður til pólitískra árása á dómsmálaráðherrann fyrir þær sakir að hafa falið mér verkefni að tillögum um hröðun meðferðar sakamála. Ég væri nefnilega óvildarmaður þolenda kynferðisbrota og verndari ofbeldismanna á því sviði. Þessar ásakanir á mínar hendur voru með öllu tilhæfulausar. Virðast þær hafa átt rót sína að rekja til þess að ég hef talið nauðsynlegt að sanna brot á sakborninga í slíkum málum ef dæma á þá til refsingar. M.a. er kveðið á um þetta í stjórnarskránni. Töldu rógberar ekki stætt á að fela mér verkefnið um meðferð sakamála, þó að engin leið væri að skilja sambandið á milli þessara ósönnu ávirðinga minna og verkefnisins.

    Mér sýnist að orðgapar samfélagsins séu farnir að ganga út frá ávirðingum mínum sem vísum án þess að þurfa að finna þeim stað hverju sinni. Þannig var það til dæmis í silfraða þættinum í sjónvarpi allra landsmanna, þar sem þrír af fjórum viðmælenda í þættinum töluðu fyrirvaralaust um mig sem þrjót sem beitti sér gegn þolendum ofbeldisbrota. Ekki þótti ástæða til að gefa mér kost á að koma fram mínum sjónarmiðum um sjálfan mig í þessum þætti.

    Eftir að hafa hlustað á þennan boðskap í sjónvarpi allra landsmanna hafði ég samband við stjórnandann, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, með ósk um að hlutur minn yrði réttur með því að gefa mér kost á að skýra mína hlið á málinu. Ég var jú maðurinn sem talað hafði verið um. En óekkí. Konan svaraði því til að ég væri eitthvað sem hún kallaði „opinbera persónu“ og um slíkar persónur mætti fjalla einhliða með meiðingum án þess að gefa þeim kost á að tjá sig.

    Það er gott að geta verið dagskrárstjóri á ríkismiðlinum og fara þar með vald til að miðla almenningi hrakyrðum um menn án þess að gefa þeim möguleika til andsvara.

    Þetta er að mínum dómi í besta falli lágkúra en í því versta mannorðsmorð. Spurningin sem eftir stendur er sú hvort Íslendingar vilja að haldið sé áfram að reka fjölmiðil sem í nafni þjóðarinnar hagar sér svona.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Þingmannablaður

    Á dögunum var skýrt frá því að dómsmálaráðherra hefði falið mér að vinna að tillögum um styttingu málsmeðferðartíma í sakamálum. Þá stigu m.a. fram tvær hetjur í mannlífinu, sem trúað hefur verið fyrir sæti á Alþingi. Þær heita Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Töldu þær báðar ámælisvert af ráðherranum að hafa falið mér þetta verkefni, þar sem ég væri sérstakur andstæðingur þolenda kynferðisafbrota. Tveir annmarkar voru á þessum málflutningi. Hugmyndir þeirra um skoðanir mínar á afbrotum í þessum flokki mála eru rangar auk þess sem þær skipta engu máli um verkefnið sem mér hafði verið falið.

    Í stuttri grein sem ég fékk birta af þessu tilefni tók ég fram að í ræðu þessara kvenna kæmi fram misskilningur og jafnvel útúrsnúningur á skoðunum mínum. Óskaði ég eftir því að þessar hetjur mættu mér á opnum fundi til að ræða málið. Byggðist sú hugmynd á því að best væri að ræða ágreiningsmál á vettvangi þar sem handhafi öndverðra skoðana gæti veitt svör við því sem sagt væri og þá varið hendur sínar ef tilefni væri til.

    Þær hafa nú báðar svarað. Hvorug þeirra vill mæta á slíkan fund. Ég get ekki sagt að sú afstaða komi mér á óvart. Mig grunar nefnilega að báðar séu huglausar og treysti sér ekki í að verja blaður sitt þannig að aðrir heyri.

    Þá höfum við það.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Persónulegt yfirráðasvæði forseta Hæstaréttar?

    Lög um dómstóla nr. 50/2016 tóku gildi 1. janúar 2018. Í 17. gr. þeirra er að finna ákvæði um varadómara í Hæstarétti.

    Þar segir svo:

    „Varadómarar.

    Nú geta færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla til skamms tíma og setur þá ráðherra samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar dómara til að taka sæti í því. Varadómari skal koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.“

    Á tímanum sem liðinn er frá gildistöku þessara laga hefur oftsinnis komið fyrir að kallaðir hafi verið inn varadómarar til setu í einstökum málum. Sérstaklega var þetta áberandi á árinu 2018, þegar varadómarar sátu í nær öllum málum sem dæmd voru það ár. Í fjölmörgum tilvikum komu varadómarar úr röðum lögfræðinga sem ekki höfðu setið í dómaraembættum í Hæstarétti og töldust því ekki til fyrrverandi dómara við réttinn. Samkvæmt ársskýrslu réttarins fyrir árið 2018 voru þeir 31 talsins og voru þeir flestir kallaðir til oftar en einu sinni. Fleiri hafa svo bæst við síðan. Þessa lögfræðinga var samkvæmt lögunum því aðeins heimilt að kalla til starfa að ekki væri unnt að setja fyrrverandi dómara við réttinn til að gegna þeim.

    Ég var skipaður dómari við Hæstarétt 15. október 2004 og starfaði til 30. september 2012. Til mín hefur samt aldrei verið leitað á ofangreindu tímabili með ósk um að taka sæti sem settur varadómari. Fæ ég ekki betur séð en að í þessu efni hafi verið farið gegn fyrrgreindum lagafyrirmælum með því að kalla til setu fjölda lögfræðinga sem aldrei hafa gegnt dómaraembættum við réttinn og teljast því ekki til fyrrverandi dómara.

    Þegar ég spurðist fyrir um þetta með bréfi til réttarins á síðasta ári fékk ég svar þar sem fram kom að forseta réttarins væri „í sjálfsvald sett“ til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitaði þegar hann óskaði eftir setningu varadómara. Hann svaraði engu um hina sem ekki voru fyrrverandi dómarar við réttinn. Lögin eru alveg skýr um að heimild til að leita til þeirra er bundin við að það sé ekki unnt að fá fyrrverandi dómara til verksins.

    Ég spurði því nánar um þetta í tölvubréfi 20. október 2020. Þar segir svo:

    „Mér var að berast svarbréf yðar við tölvupósti mínum um setningu varadómara sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um dómstóla.

    Í bréfinu kemur fram að forsetinn telji sér það í sjálfsvald sett til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitar þegar hann óskar eftir setningu varadómara. Svo er að sjá að sjálfsvaldið taki aðeins til vals milli fyrrverandi dómara. Er það rétt skilið?

    Svarið fær ekki staðist. Forsetanum er auðvitað skylt að fara eftir þessum einföldu lagafyrirmælum. Í tilefni svarsins er síðan rétt að spyrja um ástæður þess að forsetinn hefur ákveðið að sniðganga mig í öll þau skipti sem á þetta hefur reynt? Ræður þar persónuleg afstaða hans til mín? Er ekki sjálfgefið að hann upplýsi mig um ástæður sínar fyrir slíkri afstöðu? Sé þetta raunin er þetta þá frambærileg forsenda við þessar ákvarðanir? Lítur forsetinn á dómstólinn sem persónulegt yfirráðasvæði sitt sem hann megi ráðskast með að vild?“

    Við þessu fékk ég svo í bréfi 23. október 2020 hrokafullt svar. Þar var sagt að erindi mínu hefði verið svarað með bréfinu 16. október. Var sagt að tölvubréf mitt kallaði ekki á frekari útskýringar eða svör af hálfu Hæstaréttar.

    Fyrir liggur að núverandi forseti Hæstaréttar er ekki meðal áköfustu aðdáenda minna, þó að ég eigi erfitt með að skilja hvers vegna það er. Þessi lestur hans á texta 17. gr. dómstólalaga er hins vegar með nokkrum ólíkindum. Forseti réttarins virðist hreinlega telja að honum sé heimilt í embættisverkum sínum að víkja til hliðar skýrum fyrirmælum settra laga í þágu geðþótta síns og persónulegrar afstöðu til einstakra manna. Er þetta réttinum sæmandi?

    Ástæða er til að taka fram að ég sækist ekki sérstaklega eftir störfum sem varadómari við Hæstarétt. Ég er hins vegar áhugamaður um að rétturinn fari að lögum í sýslan sinni.

    Upplýsingar um þetta eiga að mínum dómi erindi til almennings. Mér þótti eðlilegt og sanngjarnt að gefa forseta Hæstaréttar kost á að bregðast við framangreindum sjónarmiðum áður en ég birti opinberlega upplýsingar um þetta. Frestur sem ég gaf honum til þess er liðinn. Hann virðir mig ekki svars.

    Niðurstaðan er sú að þessi æðsti dómari landsins fer ekki eftir skýrum fyrirmælum í lögum, ef geðþótti hans stendur til annars. Er slíkum manni treystandi fyrir dómsvaldi? Gerir hann kannski bara það sem honum sýnist við meðferð þess? Kannski lesendur ættu að svara þessu hver fyrir sig?

    Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari

  • Minnisblaðið hræðilega

    Í málflutningi af hálfu Benedikts Bogasonar í málinu sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag lagði hann mikla áherslu á að ég hafi í febrúar 2012, meðan málið gegn Baldri Guðllaugssyni var til meðferðar í Hæstarétti, afhent samdómurum mínum minnisblað í því skyni að hafa áhrif á dóm þeirra. Það er vandséð hvaða þýðingu þetta hefur í máli sem höfðað er gegn mér í nóvember 2017 vegna ætlaðra meiðyrða í bókarkafla sem kom út í byrjun þess mánaðar. Samt varði lögmaður Benedikts drjúgum málflutningstíma í þetta minnisblað. Dómarar hefðu auðvitað átt að stöðva þennan málflutning, þar sem hann kom dómsmálinu ekkert við. Eins konar blaðafulltrúi dómaraelítunnar, sem starfar hjá Fréttablaðinu, gerði þetta að sérstöku frásagnarefni í frétt um sýknudóminn nú. Áður hafði Benedikt afhent fjölmiðlum minnisblaðið. Mikill bragur á því hjá starfandi hæstaréttardómara.

    Ljóst er að þessum málflutningi var einungis ætlað að sverta mig í augum dómsins og gera mig að tortryggilegri persónu. Ég sé því ástæðu að fara um þetta nokkrum orðum og birta þá um leið minnisblaðið sem átti að hafa þessi áhrif í málinu nú.

    Það hefur verið algengt að dómarar við Hæstarétt leggi til efni um mál sem þar eru til meðferðar, þó að þeir sitji ekki í dómi. Fullyrðingar um annað eru hafðar uppi í þeirri vissu að ekki sé unnt að fá réttar upplýsingar um þetta frá réttinum sjálfum.

    Málið gegn Baldri var fyrsta málið í Hæstarétti, sem varðaði ákærur á hendur einstaklingum eftir hrunið. Mér varð strax ljóst hvernig vindar blésu á dómaraganginum í Hæstarétti á þessum tíma. Menn biðu hreinlega eftir tækifæri til að láta hrunið til sín taka og sýna þjóðinni að tekið yrði fast á málum. Það var því fyrirfram ljóst að hér var hætta á að sá grandvari maður Baldur yrði fyrir spjótalögum af þessum sökum. Ég setti því niður á blað nokkur atriði um lagaleg atriði sem vörðuðu innherjasvik, en ákæran á hendur Baldri var um slík svik.

    Minnisblaðið fer á eftir í orðréttri útgáfu:

    „Spurning: Er refsivert að selja hlutabréf ef sá sem selur veit eitthvað (neikvætt) um hlutafélagið sem „markaðurinn“ veit ekki? Svar: Nei. Þetta er því aðeins refsivert, að um sé að ræða innherjaupplýsingar og sá sem selur teljist vera innherji. (Hér má hafa í huga að verðbréfamarkaður byggist hreinlega á því að þeir sem hafi viðskipti með hlutabréf hafi mismunandi vitneskju og skoðanir um viðkomandi hlutafélag; ekkert er athugavert við þetta nema annar þeirra búi yfir innherjaupplýsingum).

    Spurning: Hvað eru þá innherjaupplýsingar? Svar: Þær upplýsingar sem efnislega uppfylla skilgreiningu 120. gr. laganna (“nægilega tilgreindar upplýsingar”) og skylt er að birta almenningi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. Upplýsingarnar falla aðeins undir skilgreininguna fram að birtingu þeirra (síðari málsliður 121. gr.)

    Spurning: Voru það innherjaupplýsingar í LÍ, að breskir og hollenskir eftirlitsaðilar með fjármálafyrirtækjum létu í ljós áhyggjur af því að innistæðutryggingakerfi bankans væri ófullnægjandi fyrir hagsmuni innlánseigenda á Icesave reikningum í þessum löndum? Svar: Nei. Almenningi var kunnugt um hvernig innistæðutryggingakerfi LÍ var fyrir komið. Hugleiðingar og tilmæli hinna erlendu eftirlitsaðila sem lutu að þessu geta ekki hafa verið tilkynningaskyldar, fyrr en þessir aðilar tóku formlega ákvarðanir innan valdheimilda sinna um að takmarka starfsemi LÍ í þessum löndum. Sjálfsagt hefði LÍ orðið skylt að birta upplýsingar um slíkar ákvarðanir almenningi ef þær hefðu verið teknar.

    Spurning: Hvað þarf að liggja fyrir til þess að manni verði refsað samkvæmt 123. gr.? Svar: A. Tilgreina verður nákvæmlega með fullnægjandi rökstuðningi hvaða upplýsingar bar að birta almenningi (vafaatriði ber að túlka sakborningi í hag samkvæmt almennum reglum). B. Hinn sakaði maður verður að teljast hafa verið innherji (121. gr.). C. Sanna verður að hann hafi búið yfir upplýsingunum þegar hann seldi (123. 1. gr.).“

    Allir sem lesa þetta sjá að hér var ekki um neitt annað að ræða en hlutlausar ábendingar um lögfræðina í málinu. Ég hefði eins getað skrifað blaðagrein um þetta. Það er bara fyndið að dómarinn mikli skuli telja afhendingu þessa blaðs í febrúar 2012 skipta máli, þegar hann stefnir mér fyrir ummæli í bók sem kom út í nóvember 2017.

    Eftir stendur aðeins, að dómararnir hefðu betur tileinkað sér þann lögfræðilega fróðleik sem fram kom í minnisblaði mínu. Þá hefði ekkert dómsmorð verið framið.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Málskostnaður í máli forsetans gegn mér

    Þegar menn takast á fyrir dómi leita þeir oftast lögmannsaðstoðar við að reka málið fyrir sig. Það kostar peninga. Í lögum er að finna ákvæði um að sá sem „tapar máli í öllu verulegu“ skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Þá er átt við þann kostnað sem gagnaðilinn hefur orðið fyrir vegna málarekstursins.

    Venjulega gera báðir málsaðilar kröfu á hendur hinum um að fá málskostnað sinn greiddan úr hans hendi. Lögin gera ráð fyrir að aðili sem krefst málskostnaðar síns úr hendi gagnaðila geri grein fyrir honum með sérstökum málskostnaðarreikningi sem lagður er fram við aðalmeðferð máls.

    Fyrir kemur að í dómi sé kveðið á um að málskostnaður sé felldur niður. Í því felst ákvörðun um að hvor aðila skuli bera sinn kostnað sjálfur. Er þetta m.a. heimilt ef veruleg vafaatriði þykja vera í máli.

    Ef sá sem tapar máli, áfrýjar dómi til æðra dómstigs og svo fer að hinn áfrýjaði dómur er staðfestur er áfrýjandinn að jafnaði dæmdur til að greiða hinum kostnað hans á áfrýjunarstigi. Þetta má heita nær algild regla og þá ávallt ef forsendur æðra dóms fyrir niðurstöðu sinni eru hinar sömu og var á neðra stiginu.

    Í máli Benedikts Bogasonar gegn mér sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag höfðu báðir aðilar uppi kröfur á öllum þremur dómstigum um að gagnaðili greiddi þeim málskostnað. Af minni hálfu var, eins og menn vita, krafist sýknu af kröfum Benedikts. Var sú krafa einfaldlega byggð á því að ég hefði notið málfrelsis til að segja það sem ég hafði sagt í kafla bókar minnar um dóminn í máli Baldurs Guðlaugssonar. Héraðsdómarinn féllst á þetta og sýknaði mig af kröfum Benedikts, en felldi niður málskostnað. Það var skrýtin afgreiðsla og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.

    Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Landsréttar sem staðfesti héraðsdóminn með sömu rökum. Málskostnaður fyrir Landsrétti var samt felldur niður. Þetta var furðulegt og andstætt fyrri dómaframkvæmd. Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi. Allt fór á sama veg. Ég var sýknaður með sömu röksemdum og fyrr um að ég hefði notið tjáningarfrelsis til að segja það sem ég sagði. Samt var málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Þessi afgreiðsla er ennþá undarlegri en sú sem varð í Landsrétti.

    Niðurstaðan er þá sú að valdsmaðurinn mikli er látinn komast upp með að stefna mér fyrir dóm og valda mér á þremur dómstigum verulegum kostnaði, sem ég fæ ekki borinn uppi, þó að ég sé sýknaður á öllum þremur á þeim forsendum sem ég hafði byggt málflutning minn á frá upphafi. Þessi afgreiðsla er rökstudd með því að verulegur vafi hafi verið á að ég hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með ummælum mínum um þennan dóm. Ummæli mín hafi verið beinskeytt og hvöss eins og komist er að orði í forsendum dóms Hæstaréttar.

    Engu máli skiptir fyrir afgreiðsluna á kröfunni um málskostnað hvort ummælin teljast hafa verið hvöss eða ekki. Það sem máli skiptir er að hinn áfrýjaði dómur var á báðum áfrýjunarstigum staðfestur og það með sömu röksemdum og þar greindi og ég hafði teflt fram frá upphafi. Áfrýjandi hafði áfrýjað á tvö dómstig til að fá dómi hnekkt. Það tókst honum ekki. Hann fær ekki einu sinni breytt röksemdum dómanna. Ég er samt látinn bera háan málskostnað af þráhyggju hans við málsýfingarnar. Það er líka hreinlega ósatt að ummæli mín hafi verið eitthvað sérstaklega beinskeytt og hvöss. Þetta geta allir séð sem vilja með því einfaldlega að lesa viðkomandi kafla í bók minni. Ástæðan fyrir þessu orðagjálfri í dóminum er augljós. Dómararnir voru annað hvort hræddir við valdsmanninn eða kenndu í brjósti um hann vegna þeirrar niðurlægingar sem hann hafði orðið fyrir með afgreiðslu málsins á þremur dómstigum. Þeir sömdu því svona orðagjálfur til að réttlæta undandrátt sinn á að dæma mér þann rétt sem mér bar í þessu efni.

    Ég fullyrði að enginn Íslendingur, annar en ógnandi valdsmaðurinn, hefði losnað undan skyldu til að greiða gagnaðila sínum málskostnað í máli þar sem eins háttar og í máli Benedikts gegn mér.

    Svo er annað atriði sem þjóðin á kröfu til að fá upplýsingar um. Það vakti athygli mína og lögmanns míns að lögmaður Benedikts lagði ekki fram neinar upplýsingar fyrir dóminn um kostnaðinn sem Benedikt hefði haft af málsýfingum sínum. Hvernig stóð á því? Því hefur verið hvíslað í eyra mér að Benedikt hafi ekki greitt lögmanni sínum fyrir málastappið. Lögmaðurinn hafi verið sólginn í að fá að reka þetta mál fyrir hæstaréttardómarann, þar sem í því fælist langþráð upphefð fyrir hann. Að mínum dómi er nauðsynlegt að Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar upplýsi um þetta með nákvæmri greinargerð studdri greiðslugögnum um málskostnaðinn sem hann hafði af málinu. Grunsemdir um að þessi valdamikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lögmönnum í landinu eru ekki ásættanlegar. Þess vegna verður hann undanbragðalaust að gefa þessar upplýsingar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Til hamingju Benedikt!

    Ég hef nú verið sýknaður á þremur dómstigum af málsýfingum Benedikts Bogasonar gegn mér. Tilgangur hans virðist hafa verið að hræða menn frá því að bera fram gagnrýni á verk Hæstaréttar Íslands. Geri þeir það megi þeir eiga von á málsóknum og peningaútgjöldum.

    Dómstólar fara með afar þýðingarmikið þjóðfélagsvald. Dómarar eru æviskipaðir og þurfa því ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna eins og handhafar löggjafar- og framkvæmdavalds þurfa að gera. Þess vegna skiptir miklu máli að borgarar hafi rúmt frelsi til að gagnrýna þá fyrir meðferð þeirra á valdi sínu. Sú gagnrýni þarf að vera málefnaleg og rökstudd ef hún á að skipta máli.

    Nú gekk hæstaréttardómur í máli sem einn þeirra höfðaði gegn mér fyrir kafla í bók minni „Með lognið í fangið“ sem út kom í nóvember 2017. Ég var sýknaður eins og reyndar hafði orðið reyndin líka í héraði og Landsrétti. Í öllu talinu um þetta hefur að mestu leyti gleymst að nefna þau efnisatriði í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni á árinu 2012 sem ég gagnrýndi. Þau eru flest þannig að tilefni þeirra var augljóst og átti brýnt erindi við almenning.

    Ég taldi að Hæstiréttur hefði legið undir of miklu álagi og því ekki getað fjallað um málið á þann hátt sem nauðsynlegt var.

    Þrýstingur hefði verið á dómstólinn um að sakfella í hrunmálum. Þetta var fyrsta málið úr þeim flokki sem dómstóllinn fékk til meðferðar.

    Formaður dómsins hafi verið vanhæfur vegna hlutafjáreignar sinnar í Landsbankanum (þetta vissi enginn þegar dómurinn var kveðinn upp en kom í ljós síðar).

    Ákærði hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum.

    Landsbankinn hefði ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni ef rétt teldist að um innherjaupplýsingar hefði verið að ræða. Ákærða hefði því óbeint verið refsað fyrir brot bankans.

    Fyrir lá að Fjármálaeftirlitið hefði vitað allt sem ákærði vissi, en ekki talið ástæðu til að meta upplýsingarnar sem innherjaupplýsingar og birta þær sem slíkar, eins og þá hefði verið skylt að gera.

    Ákærði var dæmdur fyrir annað en ákært var fyrir. Munurinn skipti sköpum um vörn hans.

    Samantekt um efni dómsins var breytt á heimasíðu Hæstaréttar eftir að rétturinn hafði áttað sig á að sakfellingin í dóminum stóðst ekki. Ég birti báðar útgáfurnar í bók minni.

    Brotið var gegn reglunni um að ekki mætti ljúka máli tvisvar (ne bis in idem).

    Ítarlegan rökstuðning var að finna í bók minni um öll þessi atriði.

    Með því að segja að dómararnir hafi að minnsta kosti mátt vita um þessi atriði, þegar þeir kváðu upp dóminn, var ég í reynd að hlífa þeim við því að halda því fram að þeir hafi ekki haft næga lögfræðiþekkingu til að dæma málið. Ásökun um slíkt hefði í reynd verið mun alvarlegri fyrir þá.

    Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar ákvað að bera undir dómstóla hvort réttmætt hafi verið að kalla dómaraverk hans í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni dómsmorð. Hann hefur nú fengið spurningu sinni svarað á öllum þremur dómstigunum. Til hamingju Benedikt!

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Með hjartað í buxunum

    Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt. Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofaná hjá dómstólnum, að dómurinn sem dæmdi hér á landi í máli kærandans hafi ekki verið réttilega skipaður til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt. Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands.

    Lítum á málið:

    Farið var eftir íslenskum lagareglum við skipun dómarans í embætti. Ráðherra lagði tillögu sína um skipun 15 dómara í Landsrétt fyrir Alþingi, eins og henni bar að gera samkvæmt þeim lagareglum sem um þetta giltu. Þeir höfðu allir verið metnir hæfir til að gegna þessum embættum. Hvergi var kveðið á um neina skyldu ráðherrans til að gera tillögu um einhver tiltekin dómaraefni. Fyrir lá niðurröðun dómnefndar á umsækjendum í excelskjalinu fræga, sem er líklega vitlausasta matsgerð sem þekkst hefur í málum af þessu tagi (hér má vísa til greinar minnar „Stórisannleikur“ sem birtist í Mbl. 10. janúar 2018). Hvergi var kveðið á um að tillögur ráðherrans skyldu fara eftir þeirri uppröðun.

    Alþingi samþykkti tillögu ráðherra. Hver og einn alþingismaður hefði getað óskað eftir að atkvæði yrðu greidd um hvert dómaraefni sérstaklega. Enginn gerði slíka kröfu og voru atkvæði greidd um alla í einu, eins og heimilt var samkvæmt lögum um þingsköp.

    Forseti Íslands staðfesti afgreiðslu Alþingis að sérstaklega athuguðu máli.

    Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómarinn væri réttilega kominn í embætti.

    Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti. Manni gæti helst dottið í hug að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun eins og dómstóllinn er. Talið var að ráðherra hafi brotið gegn rannsóknarreglu. Hvað ætli hann hafi átt að rannsaka? Umsækjendur um embættið höfðu allir skilað umsóknum með ítarlegri lýsingu á verðleikum sínum og gögnum þeim til stuðnings. Ráðherra hafði þessi gögn undir höndum. Var verið að efast um að hann hefði lesið umsóknirnar?

    Var svo eitthvað formlega athugavert við að greiða atkvæði um alla 15 í einu lagi fyrst enginn alþingismanna mótmælti þeim hætti?

    Hvaða vitleysa er þetta? Er ekki augljóst að þetta eru tylliástæður sem engu vatni halda?

    Svo bætist það við að þetta mál snerist um meðferð á broti á umferðarlögum, þar sem sakborningurinn hafði játað sök. Voru reglur um hlutlausa meðferð máls brotnar með því að refsiákvörðunin var ákveðin af þrautreyndum afbragðsdómara með áratuga langa starfsreynslu?

    Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands. Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenskra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, til dæmis með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma.

    Svo er eins og hjartað sígi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá. Í stað þess að velta vöngum yfir því hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það sem nú var að okkur rétt. Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

  • Alltaf sammála

    Hér á landi starfa dómstólar á þremur dómstigum. Neðstir standa héraðsdómstólar, þar sem einn dómari dæmir yfirleitt í hverju máli, þó að heimilt sé að kveðja til tvo meðdómendur að uppfylltum lögmæltum skilyrðum.

    Landsréttur er áfrýjunardómstóll. Verður dómum héraðsdóms skotið þangað að vissum skilyrðum uppfylltum. Dómarar við Landsrétt eru 15 talsins og skulu yfirleitt þrír þeirra sitja í hverju máli (sérfróður meðdómari er stundum kvaddur til að sitja í dómi með tveimur embættisdómurum).

    Æðsti dómstóll landsins er Hæstiréttur. Hann er áfrýjunardómstóll og skipa hann sjö dómarar. Venjulega sitja fimm dómarar í einstökum málum, þó að heimilt sé að víkja frá því og setja sjö dómara í sérlega mikilvæg mál.

    Allar þjóðir sem skyldar eru okkur Íslendingum að menningu og lögum hafa þann hátt á að áfrýjunardómstólar þeirra eru fjölskipaðir eins og reyndin er hér á landi. Tilgangurinn með þessu er augljóslega sá að skjóta traustum stoðum undir dómana, ekki síst vegna fordæmisgildis þeirra og draga úr líkum á mistökum. Þetta fyrirkomulag hvílir á þeirri forsendu að hverjum og einum dómara, sem situr í fjölskipuðum dómi, beri skylda til að taka sjálfstæða afstöðu til sakarefnis málanna og greiða atkvæði í samræmi við hana. Þetta á alveg sérstaklega við um æðsta dómstólinn, Hæstarétt þar sem dómar hans hafa það gildi sem við köllum fordæmisgildi. Ákvæði 2. mgr. 165. gr. laga um meðferð einkamála eru greinilega á þessu byggð. Sé ágreiningur fyrir hendi milli dómara, er þeim að sjálfsögðu skylt að ræða hann í þaula til að öðlast nákvæman skilning á því í hverju hann liggur. Slíkar samræður geta líka orðið til að eyða ágreiningi, þegar dómarar láta sannfærast af betri rökum annarra dómenda. Sé ágreiningur enn til staðar eftir að dómarar hafa borið saman bækur sínar ber þeim sem verður í minnihluta skylda til að skila sératkvæði.

    Af reynslu minni sem dómari við Hæstarétt Íslands er mér ljóst að þessari grunnhugsun er ekki fylgt við dómsýsluna þar. Fremur er reynt að bræða saman sjónarmið dómaranna með einhvers konar samningi þeirra á milli, stundum með þeirri afleiðingu að forsendur dóms verða óskýrar og jafnvel torskildar. Raunar er það svo að þeir dómarar sem hafa leitast við að framfylgja þeirri frumskyldu sinni í störfum sínum sem hér hefur verið lýst, með því að skila sératkvæðum, hafa mátt sæta opinberri gagnrýni fyrir það, eins ótrúlega og það kann að hljóma.

    Fyrir þessari viðleitni til að bræða saman sjónarmiðin eru sjálfsagt ýmsar ástæður. Sú veigamesta er líklega málafjöldinn, eins og hann hefur verið gegnum árin. Í Hæstarétti er eins og dómarar hafi vanið sig á svona vinnubrögð og haldi þeim áfram þó að fjöldi málanna sé aðeins brot af því sem hann var áður. Gömlum hundum verður ekki svo glatt kennt að sitja. Í Landsrétti hefur írafárið orðið ofaná.

    Þegar þetta er skoðað nánar kemur í ljós að það er orðin nær algild regla að einstakir dómarar virðast nær alltaf fylgja þeim sem stýrir atkvæði dómsins eða taki þátt í eins konar samningi við hina um orðalag og niðurstöðu. Mér er nær að halda að hugarástandið sé orðið þannig að það þyki nánast vera svik við hina að skorast undan og skila sératkvæði sem sýnir ágreining í hópnum um niðurstöðuna.

    Í 1. tbl. Lögmannablaðsins 2020 var birt viðtal við Markús Sigurbjörnsson, sem var forseti Hæstaréttar um langt árabil og án efa sá dómari sem langmest áhrif hafði á vinnubrögðin. Á bls. 18 í blaðinu er þetta haft eftir honum:

    „Klassíski hugsunarhátturinn er að þetta sé stofnunin Hæstiréttur sem er að tala en ekki einhver egóisti, þessi eða hinn að láta sitt ljós skína. Þótt vissulega sé það einn maður sem semur uppistöðuna í textanum þá er þetta sameiginleg hugarsmíð fólks sem er búið að ræða málið í þaula í framhaldi af málflutningi. Þetta eru engar málamiðlanir, slíkt tal er út í hött, og það er ekki verið að sjóða saman ólík viðhorf. Fólk ræðir sig áfram að niðurstöðu og ef einhver dettur útbyrðis þá kemur bara sératkvæði.“

    Hér kemur fram viðhorfið um viðleitnina til að bræða saman niðurstöður. Ég veit vel að sumir dómarar eru einatt lítt eða ekki lesnir í sakarefninu þegar gengið er inn í dómsalinn til að hlusta á málflutninginn. Þeir ganga hreinlega til verksins í þeirri trú að frummælandinn hafi kynnt sér málið betur en þeir og unnt sé fyrir þá að treysta því, þó að ekki sé gengið frá endanlegum texta í forsendum fyrr en á dómarafundi eftir málflutning. Hér ráða málamiðlanir eða kannski öllu heldur viðhorf um að lúta forsjá frummælanda í vinnubrögðum, þó að fyrrverandi forseti réttarins setji á ofangreinda skrautræðu um þetta. Hann boðar umbúðalausa hóphyggju við dómsýsluna sem hreinlega er andstæð reglum laga um þetta.

    Nú er svo komið að sératkvæði þekkjast varla lengur. Í Hæstarétti sitja og hafa setið dómarar um margra ára skeið sem sjaldan eða aldrei hafa skilað sératkvæðum, svo ótrúlega sem það hljómar. Dómarar sem sitja í dómi hverju sinni eru nær undantekningarlaust sammála. Það er búið að venja úr þeim egóismann, svo smekklega sem forsetinn fyrrverandi orðar þetta. Ætli hann hafi ekki aðallega í huga óverðugan fyrrverandi dómarann sem skrifar þessi orð, því sá leit alltaf á það sem skyldu sína að fylgja lögfræðilegri sannfæringu sinni við afgreiðslu mála en taka ekki þátt í samningum um forsendur og niðurstöður sem hann taldi rangar.

    Hvernig má það vera að sératkvæði eru nú orðin nær óþekkt? Þetta gildir bæði í Landsrétti og Hæstarétti. Menn eru nær alltaf sammála. Samt eru sakarefni málanna oft afar flókin og mörg álitaefni uppi. Ágreiningur málsaðila byggist oftar en ekki á mjög svo frambærilegum ágreiningi um lögfræðina í málinu. Lærðir málflytjendur færa fram rök aðilanna og verður þá oft mjótt á munum um mat á þeim. En dómararnir eru alltaf sammála! Hvernig má það vera? Þessi „skortur“ á sératkvæðum sem nú ríkir segir meira en mörg orð um vinnubrögðin.

    Ég hef haldið því fram að við ættum að taka upp kerfi sem víða þekkist við erlenda áfrýjunardómstóla, að hver og einn dómari ætti að skrifa sínar eigin forsendur fyrir niðurstöðu. Þar ætti hann að geta vísað til forsendna annarra ef hugur hans stendur til þess. Þetta fyrirkomulag er samt líklegra til að halda þeim að því skylduverki að leggja sjálfir mat á sakarefni máls og gera grein fyrir því í eigin nafni. Það er hreinlega forsenda fyrir tilvist þeirra í dóminum að þannig sé unnið, svo sem farið var yfir að framan.

    Forvitnilegt og lýsandi dæmi um vinnubrögð fjölskipaðra dóma á Íslandi er að finna í máli nr. 19/2020 sem dæmt var í Hæstarétti 29. október 2020. Þetta mál var afar flókið lögfræðilega. Snerist það um endurheimtu á fjármunum í þrotabú. Má með einföldun segja að þrenns konar niðurstöður hafi komið til greina miðað við málflutning aðila. Málið hafði fyrst verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur af tveimur embættisdómurum og einum sérfróðum meðdómara. Þar var fallist á kröfu þrotabúsins um að gagnaðili þess skyldi greiða svonefndar eftirstöðvar kaupverðs fasteignar samkvæmt kaupsamningi sem um hana hafði verið gerður. Dómararnir þrír voru sammála um þessa niðurstöðu. Í Landsrétti var þessari niðurstöðu snúið við og þrotabúinu synjað um endurheimtukröfuna. Dómararnir þrír voru allir sammála um niðurstöðuna. Þrotabúið fékk áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Þar féllust fimm dómarar á kröfu þrotabúsins á grundvelli 2. mgr. 131. gr. gjaldþrotalaga, en þetta er önnur forsenda dóms en kveðið var á um í héraðsdómi. Dómararnir voru allir sammála.

    Er þetta ekki stórmerkilegt? Dómararnir sem dæmdu í málinu voru 11 talsins og skiptust á dómstigunum þremur í tvo þriggja manna hópa og einn fimm manna hóp. Niðurstöður hópanna þriggja urðu þrenns konar og voru þær byggðar á mismunandi grundvelli þar sem engir tveir voru eins. Samt voru dómarar á dómstigunum þremur ávallt sammála hinum dómurunum í sama hópi, þó að þeir væru greinilega ósammála hinum tveimur hópunum, sem þó voru hvor um sig sammála innbyrðis!! Er þetta ekki dæmalaus samstaða innan hópanna?

    Þetta dæmi segir mikla sögu um vinnubrögð fjölskipaðra dóma á Íslandi. Sýnilega er aðferðafræðin sem fyrrverandi forseti Hæstaréttar nefndi í Lögmannablaðinu orðin ráðandi, svo glórulaus sem hún er. Sjálfur tel ég marga íslenska dómara vel hæfa lögfræðinga sem hafa sýnt sig gegnum árin í að ástunda hlutlæg og vönduð vinnubrögð. Svo er til dæmis um nokkra sem gegna embættum í Landsrétti. Nú er hins vegar svo komið að þeir hafa, sýnist mér, vikið vönduðum vinnubrögðum til hliðar í þágu hóphyggjunnar. Eru annirnar kannski orðnar svo miklar að þeir hafi ekki lengur tíma til að standa með sjálfum sér í dómsýslunni? Spyr sá sem ekki veit.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Fyrirmæli eða tilmæli

    Þessa dagana er þjóðin eðlilega upptekin af veirunni sem öllu ræður. Reglulega birtast fyrirmæli eða tilmæli yfirvalda um háttsemi fólks. Þá er frekar ruglingslegt að ætla að átta sig á því hvaða fyrirmælum yfirvöldin telja mönnum skylt að fylgja og hver séu tilmæli sem menn ráða sjálfir hvort þeir fylgi.

    Núna síðast var golfvöllum lokað, þó að menn geti stundað golfið með svipuðum tengingum við annað fólk og gildir í gönguferðum. Þá virðist stefna í að Íslandsmótinu í knattspyrnu verði lokið án fleiri kappleikja en þeirra sem þegar hafa farið fram. Þetta gerist þó að ekki sé vitað annað en að knattspyrnuvellirnir séu flestir í ágætu ástandi og unnt sé að leika á þeim án áhorfenda. Til dæmis varð ekki betur séð en landsleikur í knattspyrnu sem fram fór á Laugardalsvelli fyrir fáum dögum tækist bara vel. Á ferðinni eru ríkir hagsmunir margra knattspyrnufélaga, sem ýmist eiga von um að komast á milli deilda eða jafnvel til að öðlast rétt til þátttöku í alþjóðlegum keppnum, þar sem háar tekjur eru í húfi. Fleiri dæmi mætti nefna af svipuðum toga.

    Ástæða er til að vekja athygli manna á að yfirvöld í landinu hafa afar takmarkaðar heimildir til að stjórna háttsemi manna í veirufárinu með valdboði. Í sóttvarnarlögum er ekki að finna víðtækar heimildir til slíks. Reyndar er í ýmsum tilvikum vafasamt að stjórnvöld gætu skert stjórnarskrárvarin réttindi manna með bindandi fyrirmælum til almennings, þó að styddust við sett lög. Til slíkra fyrirmæla þarf heimildir í stjórnarskránni sjálfri.

    Það er auðvitað sjálfsagt að yfirvöld heilbrigðismála beini tilmælum til borgaranna um æskilega hegðun þeirra við þessar aðstæður. Það er líka sjálfsagt fyrir almenning að fara að þessum tilmælum í flestum tilvikum, því að öll viljum við takmarka úrbreiðslu þessa vágests sem veiran er. Við ættum samt að hafa í huga að ábyrgðin er okkar sjálfra. Ef til dæmis stjórnarráðið gæfi mér fyrirmæli um að halda mig í 2ja metra fjarlægð frá eiginkonunni myndi ég ekki hlíta því. Skítt með veiruna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður