• Vöndum okkur

    Öll erum við miðpunktar í eigin lífi. Þegar við horfum yfir mikinn mannfjölda sem kannski hefur safnast saman til að fagna atburði, njóta flutnings á listaverki eða hlusta á ræðu, ættum við að hugsa til þess að í hverjum einstaklingi í fjöldanum er miðpunktur, sem sá hinn sami miðar alla sína upplifun við. Okkur er kennt að vanda háttsemi okkar og gjörðir, því við verðum að bera sjálf ábyrgð á eigin gjörðum. Þetta er auðvitað skynsamlegt og rétt en umhyggja okkar fyrir okkur sjálfum gengur oftast miklu lengra en þetta. Við höfum nefnilega tilhneigingu til að réttlæta eftirá það sem við gerum, jafnvel þó að það sé eitthvað sem við ekki hefðum átt að gera; við réttlætum jafnvel glæpi sem við kunnum að hafa framið.

    Þegar efri árin ganga í garð ættum við að horfa yfir farinn veg og reyna að leggja mat á líf okkar og gjörðir gegnum tíðina. Ekki vegna þess að við fáum einhverju um þær breytt, því það er auðvitað oftast orðið of seint. Við kunnum samt í einhverjum tilvikum að eiga þess kost að bæta fyrir gjörðir okkar. Þá þurfum við að vera tilbúin til að játa sök okkar fyrir okkur sjálfum og síðan að biðja þá afsökunar sem við kunnum að hafa brotið gegn sé þess kostur.

    Síðan ættum við að reyna að brýna fyrir þeim sem yngri eru, hversu mikilvægt það sé í lífinu að vanda sig, sýna öðru fólki skilning og tillitssemi og taka ábyrgð á eigin gjörðum. Stundum kunnum við jafnvel sjálf að sakna þess að hafa ekki verið í stakk búin á yngri árum að skynja að breytni okkar hefur áhrif á aðra og þá ekki síst sú breytni sem kann að teljast til misgjörða eða rangrar túlkunar á atvikum í lífi okkar sjálfra. Hversu vel þekkjum við ekki fjölda manna sem aldrei endurmeta nokkurn hlut og jafnvel forherðast í réttlætingum á breytni sem bersýnilega braut rétt á öðrum? Ef okkur tekst að opna augu þeirra sem yngri eru fyrir verðmætum lífsins, sem hér eru nefnd, er til nokkurs unnið. Ég hef stundum reynt að brýna fyrir sjálfum mér að markmiðið sé ekki að fá húrrahróp frá öðrum fyrir það sem maður kann að hafa gert vel, heldur miklu heldur að vera sjálfur sáttur og geta sofnað vært að kvöldi, þó að enginn annar viti um þá breytni sem um ræðir.

    Ef við verðum vitni að því að annar maður fremji misgjörðir sem annað hvort bitna á honum sjálfum eða öðrum ættum við að fara varlega gagnvart þeim sem í hlut á. Það dugir sjaldnast að halda yfir honum tilfinningaþrungnar ræður um háttsemina og hvar honum hafi orðið á. Slíkt vekur oft aðeins upp andsvör viðkomandi manns og framkallar réttlætingar frá honum á misgjörðunum. Miklu árangursríkara er að reyna að hafa áhrif á hann með eigin breytni og afstöðu og þá jafnvel með að sýna honum fordæmi sem hann ætti að skilja. Mikilvægast er fyrir okkur að skynja að áhrifasvæði okkar er umfram allt hið innra með okkur sjálfum. Þar þurfum við fyrst og fremst að vanda okkur og taka ábyrgð. Það er oft svo ósköp lítið sem við getum stjórnað hjá öðrum, annað en þá að hafa óbein áhrif á þá með því að sýna gott fordæmi með okkar eigin hegðun.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Við hornið á heygarðinum

    Jónas Haraldsson lögfræðingur sendir mér kveðju í Morgunblaðinu í gær, mánudag. Tekur hann mig á beinið fyrir að „niðra einstaka dómara Hæstaréttar“ um langa hríð á opinberum vettvangi. Kallar hann grein sína „Við sama heygarðshornið“. Við erum þá báðir staddir þar núna.

    Ekki felst í grein Jónasar nein viðhlítandi athugun á skrifum mínum undanfarin ár um meðferð dómsvaldsins í landinu, en vissulega er það rétt hjá honum að skrifin hafa verið gagnrýnin, enda tel ég afar þýðingarmikið að meðferð þess sé vönduð og þar láti menn ekki persónuleg sjónarmið eða hagsmuni villa sig af leið. Hef ég jafnan talið mig færa nákvæm rök fyrir gagnrýni minni og um leið hvatt menn til að svara hafi þeir fram að færa röksemdir fyrir andstæðum sjónarmiðum. Ég mótmæli hins vegar ásökunum Jónasar um að ég hafi sýnt af mér sjálfbirgingshátt og hroka. Ég er samt ekki hlutlaus dómari í þeirri sök.

    Jónas nefnir tvö dæmi máli sínu til stuðnings. Þar er annars vegar grein mín 10. febrúar s.l. „Minna en hálf sagan sögð“, þar sem fjallað var af gefnu tilefni um afmælisrit Hæstaréttar, sem út kom á dögunum. Í grein minni var vikið að framferði sitjandi dómara við Hæstarétt á árinu 2004, þegar þeir reyndu að hindra skipun mína í dómaraembætti við réttinn. Um þetta lét ég nægja að vísa til ítarlegrar frásagnar í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014, bls. 267-289.

    Mér er nær að halda að Jónas hafi ekki lesið það sem þar stendur, því það fær varla staðist að hann vilji verja það framferði sem þar er lýst. Nokkur orð um það.

    Á þessum árum stóð svo á að Hæstiréttur sjálfur veitti umsagnir um þá sem sóttu um embætti við dóminn. Ráðherra skipaði síðan einn þeirra. Þegar sagt var frá því í fjölmiðlum sumarið 2004 að ég hygðist sækja um embætti urðu allnokkrar umræður um þetta. Þá gerðist það að einn af sitjandi dómurum við réttinn, sem verið hafði kunningi minn um langan tíma, kom til viðtals við mig á skrifstofu mína og tjáði mér að meiri hluti dómaranna við réttinn (8 af 9) hygðist skaða mig með umsögn sinni, þó að margir þeirra hefðu áður hvatt mig til að sækja um embætti. Nú væri málum svo komið að þeir vildu ekki fá mig sem samstarfsmann sinn og réði því persónulega afstaða þeirra til mín. Þetta var auðvitað ekkert annað en ódulbúin hótun um að rétturinn hygðist misbeita valdi sínu í annarlegum tilgangi. Ég hváði við þessu, en þá endurtók maðurinn þessa hótun.

    Þegar ég sótti svo um stóðu þessir heiðursmenn við hótun sína og skrifuðu mjög hlutdræga umsögn um mig. Þessu lýsi ég í bók minni og þá m.a. skrif mín um þessa umsögn þeirra sem ég birti þó ekki opinberlega, en afhenti þeim sjálfum. Í afmælisriti Hæstaréttar, sem út kom um daginn, var hins vegar talið að skipun mín í embætti hefði verið af pólitískum toga og var þar ekki minnst á augljós lögbrot sem meiri hluti dómaranna drýgði með framferði sínu, þó að frásögn um þau lægi fyrir á prenti. Þegar Jónas lögfræðingur tekur að sér að verja þetta framferði, er ég næstum viss um að hann hefur ekki lesið bók mína, því ég trúi því að hann vilji ekki skrifa upp á svona framferði, þó að honum kunni að liggja á með að halla orðinu á mig.

    Hitt dæmi Jónasar er um grein sem ég birti í maí 2021. Fjallaði hún um úrsögn sómamannsins Arnars Þórs Jónssonar úr Dómarafélag Íslands, þar sem fram hafði komið gagnrýni á hann á félagsfundi fyrir að hafa tjáð sig um þjóðfélagsmál, auk þess sem hann hafði andmælt undarlegum ákvæðum í siðareglum félagsins. Nefndi ég í grein minni að dómarar vildu sýnilega ekki að félagsmenn tjáðu sig opinberlega um þjóðfélagsmál, þar sem slíkt gæti valdið vanhæfi þeirra við dómarastörfin. Ég gagnrýndi þetta viðhorf og nefndi þá m.a. að ýmsir dómarar höfðu orðið uppvísir að því að sitja sem dómarar í málum, þar sem fjallað var um beina hagsmuni þeirra sjálfra. Ýmsir þeirra hefðu t.d. dæmt í sakamálum gegn fyrirsvarsmönnum bankanna fyrir að hafa valdið viðskiptamönnum þeirra miklu fjártjóni í störfum sínum. Síðar komu fram á opinberum vettvangi upplýsingar um að þessir sömu dómarar hefðu tapað háum fjárhæðum við hrun bankanna. Þetta vissi hins vegar enginn, þegar þeir kváðu upp dóma sína. Þeir virtust telja vanhæfið í lagi ef enginn vissi um það. Kannski Jónas lögfræðingur telji þetta framferði teljast til vandaðrar dómsýslu. Svo mætti núna skilja árásir hans á mig fyrir að hafa skrifað blaðagrein, þar sem á þetta var bent. Samviska Arnars Þórs sýndist mér vera drifhvít við hliðina á „öðrum samviskum“ svo notað sé málfar yngri kynslóðarinnar um þessar mundir.

    Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

  • Minna en hálf sagan sögð

    Nýlega kom út bókin „Hæstiréttur Íslands í hundrað ár“. Fram kemur í formála bókarinnar að rétturinn standi sjálfur fyrir þessari útgáfu. Sagnfræðingurinn Arnþór Gunnarsson var fenginn til að skrifa bókina en yfir honum sat ritnefnd sem Hæstiréttur skipaði. Í henni áttu m.a. sæti fyrrverandi dómarar við réttinn.

    Í nýjustu útgáfu netmiðilsins Stundarinnar er að finna grein um hluta af efni þessarar bókar. Þar er einkum fjallað um það sem í bókinni segir um skipan tveggja dómara að réttinum á árunum 2003 og 2004. Þeir eru Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem ennþá er starfandi, og undirritaður, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem var skipaður á árinu 2004 en lét af störfum 2012.

    Meginefni þessarar umfjöllunar er að halda því fram að þessir tveir dómarar hafi verið skipaðir á pólitískum forsendum og ekki verðskuldað starfið. Er m.a. reynt að gera lítið úr þekkingu þeirra á lögfræði. Þetta skaðar mig svo sem ekki mikið því ég hef sjálfur gefið út allmargar bækur sem eru vitnisburður um hvað ég kann fyrir mér í fræðunum. Er mér kunnugt um að flestir þeir sem hafa áhuga á lögfræðinni og beitingu hennar við réttinn hafa kynnt sér efni bóka minna og kvarta ég ekki yfir ummælum þeirra um efni skrifa minna. Slíkt hið sama á ekki við um Ólaf Börk. Ég hef hins vegar látið uppi þá skoðun mína, að hann standi líklega öllum öðrum dómurum, sem nú starfa við réttinn, framar í lögfræðilegum efnum. Kannski það eigi eftir að skýrast betur í framtíðinni, þegar hann verður laus undan þeim hömlum á tjáningu sem setan í dómaraembætti leggur á menn.

    Það er óvenjulegt í svona afmælisriti að taka fyrir einstaka menn sem starfað hafa við stofnunina sem um er fjallað og halla á þá orðinu með þeim hætti sem Stundin greinir frá. Mikið hefur blessuðum mönnunum legið á og þá líklega helst þeim sem nú, furðulegt nokk, gegnir embætti forseta réttarins. Þessu ræður rökstudd og efnismikil gagnrýni mín á störf réttarins í fortíðinni, m.a. störf hans. Mér er kunnugt um að forsetinn og sumir hinna kveinka sér undan gagnrýni minni, þó að þeir hafi ekki treyst sér til að svara henni. Mér finnist að þeir hefðu átt að vera menn til að standa beint og milliliðalaust að tjáningu sinni um það. Þeir hafa ekki treyst sér til þess en fengið í staðinn sakleysingja úr röðum sagnfræðinga til að tala fyrir sína hönd og látið réttinn borga kostnaðinn um leið og þeir komu sér upp fyrirkomulagi til að stjórna skrifum hans. Þetta er hins vegar undarlegra þegar sómamaðurinn Ólafur Börkur á í hlut. Hann er nú á 61. aldursári og hefur starfað sem dómari við réttinn í nær 20 ár. Skemmst er frá því að segja að hann hefur sýnt afburðahæfni til þessa starfs og á flekklausan feril allan þennan tíma. Oft kann málum að vera svo háttað að þeir sem minna mega sín á viðkomandi sviði veitast að þeim sem standa þeim framar. Kannski það sé reyndin hér.

    Hitt er svo rétt að við skipun mína á árinu 2004 var svo sannarlega brotið gegn lögum. Fólst það í ólögmætum ráðstöfunum dómara, sem þá sátu í réttinum, til að reyna að hindra skipun mína. Var það sýnilega vegna gagnrýni minnar sem þeir höfðu ekki treyst sér til að svara. Líklega hefur háttsemi sumra þeirra þá hreinlega verið refsiverð, þó að ég hafi á sínum tíma ákveðið að fylgja því máli ekki eftir. Ég segi frá þessari atburðarás í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 og vísast þar til 14. kafla bókarinnar á bls. 267-289. Þar geta menn lesið reyfarakennda frásögn af háttsemi nafngreindra manna úr dómaraaðlinum, sem aldrei hafa þurft að bera neina ábyrgð á henni. Þar á meðal voru nokkrir sem áður höfðu beinlínis óskað eftir að ég sækti um embætti en ég ekki viljað á þeim tíma. Man ég vel eftir því, þegar áhrifamesti dómarinn á þessum árum, Markús Sigurbjörnsson, spurði mig með hvíslandi rödd sinni í símtali, hvort hann mætti ekki skrifa fyrir mig umsókn um embætti við réttinn. Síðar hefur hann velt sér á hina hliðina í bæli sínu og fer ég í bók minni yfir atvik sem sýnilega hafa ráðið því.

    Þeir sem nú ráða réttinum munu ekki ríða feitum hesti af framferði sínu við að segja sögu af þeim atburðum sem hér er fjallað um. Ég minni þá samt á orðatiltækið um að batnandi mönnum sé best að lifa, og óska að þeim takist að bæta ráð sitt svo verða megi réttinum til framdráttar og virðingar meðan þeir gegna ennþá embættum sínum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Fyrirmynd

    Nú liggur fyrir að Ísland náði ekki að tryggja sér rétt til að leika í fjögurra liða úrslitum í Evrópumótinu í handknattleik, þó að nærri hafi legið. Allt að einu er ljóst að íslenska liðið stóð sig með afbrigðum vel og aflaði sér virðingar annarra þjóða sem þátt tóku í mótinu og reyndar allra þeirra sem fylgdust með framvindu mála.

    Við erum stolt af leikmönnum okkar, sem voru sjálfum sér og þjóð sinni til sóma. Einn er samt sá maður sem við ættum að hrósa og þakka öðrum framar. Þar á ég við Guðmund Guðmundsson þjálfara. Hann sýndi og sannaði að þar fer einn besti handboltaþjálfari heims. Þó að liðið okkar hreppti mikinn mótbyr vegna einangrunar leikmanna lét hann það ekki á sig fá. Hann tefldi fram þeim leikmönnum sem voru til reiðu hverju sinni og náði að draga fram styrkleika liðsins sem enginn hefði trúað fyrirfram að unnt væri við þessar aðstæður.

    Hugmyndafræðin sem hann vinnur eftir fór ekki framhjá okkur sem fylgdumst með mótinu á sjónvarpsskjánum. Hann eyðir ekki tíma í atriði sem hann getur ekki haft áhrif á. Hann einbeitir sér að því verkefni sem hann hverju sinni þarf að sinna og fær félaga sína til að vinna heilshugar að þeim. Honum tekst svo vel upp að árangurinn gengur kraftaverki næstur. Ég held að hann geri leikmenn sína betri en þeir voru áður með eldmóði sínum og einbeitingu að verkefnunum hverju sinni. Í reynd er hann fyrirmynd hverjum þeim sem vill ná árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum vettvangi.

    Ég býst við að ég tali fyrir munn íslensku þjóðarinnar þegar ég segi: Þakka þér fyrir Guðmundur. Þú ert frábær íþróttaþjálfari en ekki síður sem fyrirmynd fyrir hvern sem er.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frelsi í stað valdbeitingar

    Nú hefur legið fyrir um hríð að smit af kórónuveirunni verða nær eingöngu af því afbrigði sem nefnt hefur verið Omicron. Þar með liggur fyrir að vel yfir 99% af þeim sem smitast verða lítt eða ekki veikir. Samt er haldið áfram að skerða frelsi manna í stórum stíl.

    Atvinnufyrirtækjum er lokað og einstaklingum er bannað að fara út úr húsi. Þetta er allt saman fullfrískt fólk sem stjórnvöld segjast beita þessu valdi til að forðast útbreiðslu smits. Beitt er hræðsluáróðri til að halda þessum stjórntökum uppi. Talað er um að „hópsmit“ sé yfirvofandi, án þess að gera grein fyrir hættunni sem af því á að stafa. Það er eins og sumir læknar telji sjálfsagt að beita menn þessu valdi. Þeir viti betur en sauðsvartur almúginn hvað honum er fyrir bestu. Samt eru það gömul og ný sannindi að bestu varðmenn hagsmuna einstaklinga eru þeir sjálfir.

    Eins og bent hefur verið á, er ekki nein þörf á að beita þessum brögðum til að hindra útbreiðslu smitsins. Einfaldlega vegna þess að lítil sem engin áhætta fylgir því að smitast. Kannski er bara best að sem flestir smitist af veirunni sem nú orðið má telja saklausa. Þannig hlýtur svonefnt hjarðónæmi að nást fyrr en ella.

    Múgsefjunin sem stjórnar þessu er ekki bara ráðandi hér á landi. Við sjáum að á Evrópumótinu í handbolta er leikmönnum, sem hafa smitast, skipað að halda sig inni á hóteli og bannað að taka þátt í kappleikjunum, þó að þeir séu fullfrískir. Má segja að mótið hafi verið eyðilagt með þessum furðulegu háttum. Höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af þessu.

    Hér er alltof miklu fórnað fyrir lítið. Persónulegt frelsi með ábyrgð telst til þeirra lífshátta sem við viljum viðhafa. Látum ekki einsýna lækna villa okkur sýn. Kannski eru þeir bara að búa til stöðu sem þeir telja að þrýsti á um hærri framlög úr ríkissjóði (les: frá skattgreiðendum) til Landspítalans? Hlustum frekar á þá virðingarverðu starfsbræður þeirra sem vilja ekki taka þátt í þessu ofríki og mæla með afléttingu valdbeitingarinnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson styður frelsi einstaklinga

  • Ofríki án tilefnis

    Hafa menn áttað sig á hvers konar ástandi hefur verið komið á hér á landi um þessar mundir?

    Stjórnvöld í landinu reyna að hefta útbreiðslu veiru með því að fyrirskipa mönnum að fara í svokallaða sóttkví eða einangrun og er þá ekki skilyrði að viðkomandi maður beri í sér veiruna; nóg er að hann hafi hitt einhvern sem gerir það.

    Fyrir liggur að veiran sem um ræðir veldur ekki veikindum, eða svo litlum og hjá svo fáum að engu máli skiptir.

    En sóttvarnarlæknir tekur ákvarðanir um þetta og stjórnmálamennirnir sem við höfum kosið yfir okkur þora ekki annað en að hlýða.

    Engu máli skiptir við þessar tilgangslausu ákvarðanir að fjöldi manna verður fyrir alvarlegu tjóni vegna þeirra. Þar eru drykkjuskapur, heimilisofbeldi, sjálfsvíg og gjaldþrot ofarlega á blaði.

    Og ef þú hlýðir ekki þessum fyrirmælum stjórnvaldanna verður þú sektaður.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er andvígur ofríki valdamanna

  • Hverjir eru hagsmunir þeirra?

    Þegar mönnum er gert að taka ákvarðanir, sem geta varðað öryggi annarra manna, jafnvel alls almennings, hafa þeir ríka tilhneigingu til að ganga lengra en skynsamleg rök mæla fyrir um að sé nauðsynlegt. Á ensku máli er spurt: „What´s in it for them?“ sem á íslensku getur útlagst „hverjir eru hagsmunir þeirra sjálfra?“.

    Stjórnvöld sem taka ákvarðanir um frelsisskerðingar almennings vegna ótta við veiruna hafa þannig tilhneigingu til að ganga alls ekki skemur en sérfræðingarnir ráðleggja. Gangi þeir skemur finnst þeim þeir taka áhættu á að fá á sig gagnrýni, jafnvel embættismissi fyrir að hafa ekki farið eftir ráðum sérfræðinganna, sérstaklega ef framvindan verður verri en útlit var fyrir.

    Sama er að segja um sérfræðingana. Þeir vilja ekki láta gagnrýna sig eftirá fyrir að hafa ekki gengið nógu langt í ráðgjöf sinni um aðgerðir.

    Þessar aðstæður fela það þess vegna í sér, að til staðar er eins konar sjálfvirkni sem veldur því að jafnan er gengið lengra í ráðstöfunum, þ.m.t. skerðingum frelsis manna, en þörf er á.

    Stjórnvöld þurfa að átta sig vel á þessu og reyna svo að axla þá ábyrgð sem felst í því að taka ákvarðanir sem ganga ekki lengra gegn frelsi og daglegu lífi borgaranna en brýna nauðsyn ber til. Embættisskyldur þeirra gera kröfu til þess að svona sé farið að við þessar ákvarðanir. Hugsanleg hætta á gagnrýni eftirá og jafnvel embættismissi er hégómi við hliðina á þessari skyldu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hættið þessu

    Ráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum. Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt að jafnvel þeim sem hafa smitast af veirunni stafar ekki hætta af henni. Meira en 95% þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni. Þeir sem eftir standa veikjast lítillega en nær enginn alvarlega. Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember s.l. (bls. 6).

    Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem það er, beittir frelsisskerðingum til að hindra að smit berist milli manna. Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma. Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa. Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitast af veirunni. Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum sem hefur smitast. Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar. Samt segja yfirvöld að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag. Svo er að skilja að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 4-500?

    Og þá skal spurt: Til hvers? Það liggur nefnilega fyrir að fáir þeirra sem smitast verða veikir og nær enginn, sem hefur nýtt sér þau úrræði sem gefist hafa, að láta sprauta sig. Þar að auki geta þeir sem veikjast að sjálfsögðu leitað til lækna eða heilbrigðisstofnana og skiptir þá engu máli hvort þeir hafi verið sviptir frelsi í aðdragandanum eður ei.

    Þeir sem hafa smitast eru síðan beittir enn meiri þvingunum, settir í svokallaða einangrun um lengri tíma.

    Þessi stjórntök á þjóðinni eru að mínum dómi fyrir neðan allar hellur. Og til að heilaþvo þjóðina er hættan mikluð með orðskrúði og með áskorunum til almennings um að sýna nú samstöðu. Hið sama gerist í öðrum löndum. Þeir sem þessu ráða virðast ekki hafa af því neinar áhyggjur að ráðstafanir þeirra valda miklu tjóni meðal annars hjá stórum hópi manna, sem þurfa að sæta fjöldatakmörkunum á viðskiptavinum og er í ofanálag bannað að halda fyrirtækjum sínum opnum nema afar takmarkaðan tíma á degi hverjum, nema þeim sé þá skipað að loka alveg. Þetta veldur fjárhagslegum þrengingum og jafnvel gjaldþrotum sem leiða til mikilla hörmunga hjá þeim sem í hlut eiga, jafnvel þannig að þeir gefast bara upp. Þá eru teikn á lofti um að áfengissala til heimila hafi vaxið til muna á síðustu tveimur árum, heimilisofbeldi hafi aukist, kvíði hafi orðið útbreiddari hjá viðkvæmu fólki, margir hafi veigrað sér við að leita til læknis vegna ástandsins og aðrir sjúkdómar þannig fengið að grassera ómeðhöndlaðir, svo nokkur dæmi séu tekin. Stjórnvöld hafa ekki enn birt tölur um fjölda þessara fórnarlamba sinna.

    Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna. Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar.

    Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: HÆTTIÐ ÞESSU, og það strax.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Draumsýn verður að veruleika

    Á fyrri hluta síðustu aldar orti Jóhannes úr Kötlum nafntogað kvæði „Sovét Ísland – óskalandið – hvenær kemur þú?“ Hér var á ferðinni ákall eða draumsýn þeirra tíma kommúnista um sæluríkið sem þeir vildu koma á fót.

    Nú vita allir að þetta var í raun ákall um stofnun alræðisríkis, þar sem valdhafar færu með allt þjóðfélagsvald og drottnuðu yfir borgurum. Við þekkjum núna átakanlegar frásagnir af lífi manna og skelfilegum örlögum þeirra í þeim ríkjum sem komu á hinu sovéska stjórnskipulagi. Kvæði Jóhannesar fól í sér ákall um að koma slíku skipulagi á hér á landi. Að vísu verður að ætla að hvorki honum né skoðanabræðrum hans á Íslandi hafi verið ljóst hvers kyns ógnir og mannréttindabrot reyndust óhjákvæmilegir fylgifiskar draumsýnarinnar um sovétið. Það fól samt í sér samsöfnun alls þjóðfélagsvalds í hendur manna sem höfðu náð völdum. Mannkynssagan er uppfull af dæmunum um hvernig alræðisvald í höndum fárra fer með borgara sína.

    Þó að mannkynið eigi að hafa lært af reynslunni eru samt margir, kannski flestir, borgarar á þeirri skoðun að viðspyrna gegn vá, eins og t.d. veiru sem fólk smitast af, felist í því að koma á sovésku skipulagi. Í því felst að heimild borgara til að ráða sér sjálfir er afnumin eða skert og valdið falið handhöfum ríkisvalds í hendur. Sérfræðingar leggja ráðamönnum til hugmyndir um frelsisskerðingar undir þeim formerkjum að verið sé að vernda fólkið. Einkenni sovétsins leyna sér ekki. Þau felast meðal annars í að tjáskipti ríkis og borgara fara aðallega fram í aðra áttina, þ.e. frá ríkinu og til borgara, sem oft eiga engan kost á að fá svör við spurningum um réttlætingu þessarar valdbeitingar gagnvart þeim sjálfum.

    Ætla verður að þessi ráð séu vanmáttug. Besta vörnin felst áreiðanlega í að bjóða fram lyf og bóluefni sem hver og einn borgari á kost á að fá, en gera síðan í meginatriðum ráð fyrir að hver og einn passi upp á sjálfan sig. Það er að minnsta kosti allt of mikið í húfi til að réttlætanlegt sé að taka völdin af borgurum um eigin hag þeirra og fá þau í hendur misviturra stjórnmálamanna.

    Við ættum því að snúa af þessari leið og taka aftur til við að treysta borgurum fyrir forræði sinna eigin mála.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hópvinna í fræðiskrifum

    Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fræðimenn í lögfræði, sem vilja láta verk sín á þrykk út ganga, geri það í félagi við aðra fræðimenn. Tvö nýleg dæmi eru „Hrunréttur“ eftir Ásu Ólafsdóttur, Eyvind G. Gunnarsson og Stefán Má Stefánsson og „Eignarnám“ eftir Karl Axelsson og Ásgerði Ragnarsdóttur. Þessi rit eru sögð ritrýnd en í því felst ábending um að hin fræðilega hlið þeirra hafi gengið í gegnum hreinsunareld, sem geri viðkomandi rit sérlega trúverðugt.

    Ég læt það eftir mér að gagnrýna þennan hátt á fræðiskrifum. Með því að skrifa með öðrum draga höfundar úr persónulegri ábyrgð sínni á skrifunum. Ég hef til dæmis orðið var við misfellur í báðum þessum bókum. Þegar ég hef haft samband við einhverja höfundanna til að benda á þetta, hef ég fengið þau svör að viðmælandi minn hafi ekki tekið eftir misfellunni, þar sem hún sé frá samhöfundi komin, og hafi viðmælandinn treyst á vinnubrögð hans án þess að yfirfara þau sérstaklega.

    Þetta er ekki gott. Það er þýðingarmikið að fræðimaður sem gefur út fræðibók beri beina og óskoraða ábyrgð á efni bókarinnar. Fræðimenn eiga að vinna sjálfstætt að rannsóknum sínum og fræðiskrifum, þó að þeir nýti sér auðvitað útgefin verk annarra fræðimanna og vitni til þeirra. Hópvinna á ekki vel við um fræðilegar rannsóknir og skrif.

    Svo ég beini því til fræðimanna sem hafa hugsað sér að gefa fræði sín út í skrifuðu formi, hvort sem er í bókum eða fræðiritum, að standa þar einir að verki svo ábyrgð þeirra á því sem þeir skrifa sé skýr, eins og hún þarf að vera.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi prófessor í lögfræði