• Mál Magnúsar Thoroddsen

    Ég starfaði sem málflutningsmaður í tæp 30 ár, áður en ég var skipaður dómari við Hæstarétt á árinu 2004. Á þessum árum rak ég aragrúa af dómsmálum fyrir íslenskum dómstólum, m.a. Hæstarétti. Ég segi frá mörgum þessara mála í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 en þá hafði ég látið af störfum sem hæstaréttardómari. Málin eru miseftirminnileg, eins og gefur að skilja.

    Meðal eftirminnilegra mála sem ég annaðist var mál Magnúsar Thoroddsen sem gegndi embætti forseta Hæstaréttar fram á árið 1989, en var svo knúinn til að segja af sér embættinu í desember það ár. Í stjórnarskránni (8. gr.) er kveðið á um að forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skuli gegna embætti forseta Íslands ef hann forfallast frá störfum svo sem vegna dvalar erlendis. Þiggja þeir sérstök laun fyrir þennan starfa.

    Í nokkra áratugi hafði gilt sú regla hjá ÁTVR að æðstu embættismenn ríkisins skyldu njóta þeirra fríðinda að þurfa ekki að greiða nema kostnaðarverð fyrir áfengi sem þeir keyptu hjá versluninni. Var tekið fram að þetta skyldi aðeins gilda um handhafa forsetavalds þann tíma sem forsetavaldið var í þeirra höndum.

    Magnús hafði þann hátt á að kaupa áfengi á þessu verði fyrir launin sem hann hlaut fyrir störf sín sem handhafi forsetavalds. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um þennan hátt á nýtingu þessarar heimildar hjá fyrri forseta réttarins, Þór Vilhjálmssyni.

    Á tíma Magnúsar í þessu embætti var Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands og fór hún tíðari ferðir til útlanda en fyrirrennarar hennar höfðu gert. Samkvæmt reglunni, sem Magnús hafði fengið upplýsingar um, keypti hann því meira áfengi á ofangreindum kjörum en fyrirrennarar hans. Engin leynd hvíldi yfir þessum kaupum hans. Hann keypti það einfaldlega yfir búðarborðið hjá áfengisversluninni.

    Mikill hvellur varð í fjölmiðlum, þegar birtar voru upplýsingar um áfengiskaup Magnúsar. Síðan höfðaði dómsmálaráðherra mál á hendur honum til embættismissis sem hæstaréttardómari. Magnús vildi skiljanlega ekki sæta kröfum ráðherrans og leitaði til mín um málsvörnina.

    Þetta voru aðalatriðin í vörninni:

    1. Magnús hafði engar reglur brotið.
    2. Hann keypti áfengið með einföldum viðskiptum við áfengissöluna, sem var sá aðili sem fór með framkvæmd þessara heimilda til áfengiskaupa. Aldrei var nein leynd yfir kaupum hans.
    3. Hann hagaði kaupum sínum í samræmi við venjur sem upplýst var að hefðu gilt um slík kaup.
    4. Tíðari ferðir Vigdísar Finnbogadóttur en fyrri forseta til útlanda hefðu orðið til þess að hann keypti meira en forverar hans höfðu gert.
    5. Fyrir lá að ráðherrar höfðu nýtt þessar áfengiskaupaheimildir í miklu meira mæli en Magnús og látið flytja mikið magn áfengis heim til sín. Þeir höfðu ekki sjálfir greitt kostnaðarverðið heldur látið ríkissjóð greiða það.

    Í Hæstarétti dæmdu sjö dómarar í málinu og voru tveir þeirra hæstaréttarlögmenn sem höfðu verið kallaðir inn til setu í málinu. Fimm föstu dómararnir féllust á kröfu ráðherrans og dæmdu Magnús úr embætti, þó að hann hefði engar reglur brotið. Hinir tveir tilkvöddu lögmenn skiluðu sératkvæði og vildu sýkna Magnús. Með því sönnuðu þeir að þeir voru betri lögfræðingar en hinir fimm.

    Þessi dómur er einfaldlega dæmi um að þessi æðsti dómstóll þjóðarinnar dæmdi ekki eftir gildandi lögum. Hann vildi fremur ganga í augun á almenningi.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Fædd er stjarna

    Ég tók mig til og horfði aftur á kvikmyndina „A star is born“ sem gerð var á árinu 2018 og er sýnd á myndveitunni Viaplay. Ég hafði horft á þessa mynd fyrir nokkrum árum. Núna fannst mér hún áhrifameiri en þá.

    Meginviðfangsefni þessarar kvikmyndar er sjúkdómurinn alkóhólismi og sú harmræna barátta sem fórnarlömbin þurfa að heyja til ná tökum á honum. Leikarinn Bradley Cooper leikur alkóhólistann Jack Maine og segir myndin frá baráttu hans við þennan illvíga sjúkdóm. Ég sjálfur háði þessa baráttu fyrir rúmlega 46 árum og varð svo gæfusamur að ná tökum á sjúkdómnum og þar með lífi mínu. Ég þekki því á eigin skinni þau viðfangsefni sem Jack Maine þufti að fást við og lýst er í kvikmyndinni.

    Flest okkar eru kunnug fólki sem hefur þurft að heyja sömu glímu og þarna er lýst með svo trúverðugum og áhrifamiklum hætti. Það stríð getur endað bæði vel og illa eftir mikil átök sjúklingsins við sjálfan sig.

    Það eykur svo á gildi myndarinnar að í henni leikur sú frábæra söngkona Lady Gaga og flytur m.a. lögin „Shallow“, „Remember us this way“ og „I‘ll never love again“.

    Ástæða er til að benda fólki að horfa á þessa kvikmynd, hvort sem um er að ræða virka eða óvirka alkóhólista og raunar einnig aðstandendur þeirra. Í myndinni er með trúverðugum hætti lýst þessari baráttu og er sú lýsing til þess fallin að styrkja þá sem hana þurfa að heyja.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Góðar kveðjur

    Ég átti afmæli fyrir tveimur dögum, 27. september. Varð 78 ára. Sjálfum fannst mér þetta ekki neitt merkisafmæli að öðru leyti en því að ég gladdist yfir því að vera ennþá á lífi og við góða heilsu.

    Svo fékk ég sendar afmæliskveðjur í stórum stíl. Mörgum þeirra fylgdu falleg orð til mín, sérstaklega vegna skrifa minna, m.a. á fasbókina sem margir höfðu lesið og líkað vel við.

    Mikið er ég þakklátur fyrir allar þessar hlýlegu kveðjur. Hafið einlægar þakkir mínar fyrir.

    Svo bauð mín ástkæra eiginkona mér í skemmtiferð til Akureyrar, en við höfum núna fylgst að í 53 ár. Hún er gersemi, sem hefur hugsað um mig öll þessi ár auk þess sem við eigum saman 5 börn og 15 barnabörn. Á Akureyri fórum við á tónleika í Hofi, þar sem íslenskir tónlistarmenn fluttu tónlist sjálfra Bítlanna í meira en tvær klukkustundir, en við erum bæði miklir aðdáendur þeirra.

    Því verður ekki lýst með orðum hversu mikil lífsgæfa fylgir því að eiga svona maka eins og ég hef orðið svo gæfusamur að eiga öll þessi ár. Við höfum verið samherjar allan þennan tíma, þó að fyrir hafi komið að hún hafi sagt mér til syndanna þegar ég hef átt það skilið. Það hefur tvisvar komið fyrir! (grín).

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Skipting valdsins á Íslandi

    Sumir Íslendingar, jafnvel lögfræðimenntaðir, halda því fram að dómstólar fari með vald til að setja lög og þá í einhvers konar samkeppni við Alþingi, en samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi með lagasetningarvaldið. Lítum aðeins á þetta.

    Samkvæmt þessari sömu stjórnarskrá gildir lýðræðisleg skipan á Íslandi. Í því felst að ríkisvaldið er komið frá þjóðinni. Þessu er sinnt með almennum alþingiskosningum, sem haldnar eru á 4 ára fresti. Ríkisvaldinu er þrískipt. Það greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hin lýðræðislega skipan felst í því að handhafar löggjafarvaldsins eru kosnir af almenningi og fara því með beint umboð frá henni. Þeir þurfa svo að bera gjörðir sínar undir þjóðina í almennum kosningum, sem haldnar eru með reglulegu millibili. Ráðherrar fara með framkvæmdavaldið. Þeir fara með óbeint umboð frá þjóðinni vegna þess að hinir þjóðkjörnu fulltrúar velja þá á hverjum tíma.

    Dómarar eru einu handhafar ríkisvalds sem ekki hafa lýðræðislegt umboð til starfa sinna. Enda er kveðið á um það berum orðum í 61. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar skuli einungis dæma eftir lögunum (sem Alþingi setur). Samt halda margir lögfræðingar, meira að segja dómarar, því fram að dómstólar hafi heimildir til að setja lög og þá jafnvel í samkeppni við Alþingi. Þetta fær ekki staðist, enda byggist vald dómstólanna ekki á lýðræðislegum grundvelli, eins og hinna valdhafanna. Þessi réttarstaða dómaranna kemur svo líka fram í því að þeir eru æviskipaðir og þurfa því ekki að bera verk sín undir almenning, eins og handhafar hinna valdþáttanna þurfa að gera.

    Ég átti fyrir nokkrum áratugum í ritdeilu við kennarann í heimildafræði við lagadeild Háskóla Íslands um þetta efni. Hann hélt því m.a. fram að dómstólar tækjust á við handhafa löggjafarvaldsins um lagasetninguna. Það er því kannski ekki skrítið að sumir dómarar telji sig mega kveða upp dóma sem ekki styðjast við sett lög og eru jafnvel í beinni andstöðu við þau. Þeim hafði þannig verið kennd þessi speki í laganáminu. Í sumum erlendum ríkjum gildir sú skipan að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. En ekki á Íslandi. Hér gildir sú einfalda skipan á skiptingu ríkisvaldsins sem að framan er lýst. Menn ættu að láta í sér heyra ef þeir telja sig verða vara við að dómendur brjóti þessar reglur, en um það eru regluleg dæmi í landi okkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Vilja geðjast almenningi?

    Komið hefur fyrir að ég hafi á liðnum árum gagnrýnt dóma fyrir að hafa sakfellt sakborninga í sakamálum án þess að öllum lögmætum skilyrðum hafi verið fullnægt. Þá er stundum eins og dómstólar hafi viljað geðjast almenningi fremur en að láta dómana ráðast af agaðri meðferð þeirra réttarreglna sem þeim ber að beita.

    Fyrir kemur að almenningur taki afstöðu til þess, hvort dómar í refsimálum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess þá umkomna að telja sakborninga seka þó að dómstóll hafi sýknað þá af ákæru.

    Færri telja sakborninga saklausa ef dómstóll hefur sakfellt þá.

    Þessir „utanréttardómar“ eiga sjaldan rétt á sér og ættu menn ekki að taka þátt í að fella þá.

    Á árinu 2020 tók ég saman lista með upptalningu á þeim atriðum sem dómarar þurfa að aðgæta að séu allir í lagi áður en sakborningur er sakfelldur í sakamáli. Mér finnst að gefnu tilefni ástæða til að endurbirta þennan lista:

    1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

    2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

    3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

    4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

    5. Við meðferð máls á áfrýjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

    6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

    7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar,

    8. Dómarar verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Mál er að linni

    Menn ættu að hlusta á viðtal á Bylgjunni s.l. mánudagsmorgun (8. sept.), en þá töluðu Heimir og Lilja við Sigríði Indriðadóttur framkvæmdastjóra um afar bágborið ástand á vinnustöðum opinberra aðila, þar sem fjölmargir starfsmenn eru sýnilega ónytjungar sem vinna lítið sem ekkert. Hafði Sigríði m.a. verið falið að kanna þetta og eru niðurstöður hennar hrikalegar.

    Svo voru líka nýlega birtar opinberlega upplýsingar um veikindaforföll starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að um 8-900 starfsmenn væru forfallaðir vegna veikinda dag hvern. Eru það um 8% allra starfsmanna borgarinnar. Munu þetta vera miklu meiri veikindi en þekkjast á vinnustöðum einkarekinna fyrirtækja. Það skyldi þó ekki vera að í þessum tölum leynist mikil vinnusvik þar sem frískir starfsmenn úthluta sjálfum sér fríi frá vinnu í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda. Við þetta bætist svo það ástand sem Sigríður Indriðadóttir lýsti í viðtalinu á Bylgjunni.

    Allir sjá að þetta ástand er ekki viðunandi. Það er sýnilega fyrir löngu komin brýn þörf á að tekið verði hraustlega á starfsmannamálum hjá hinu opinbera, ríkinu og sveitarfélögunum. Segja ber upp þeim starfsmönnum sem sinna ekki nema að litlum hluta þeim störfum sem þeir eru ráðnir til að sinna. Mál er að linni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hugleiðing að gefnu tilefni

    Láttu ekki fordóma og „rétthugsun“ annarra takmarka vitsmuni þína. Reyndu ávallt að vera sjálfum þér trúr í stað þess að elta það sem aðrir láta frá sér fara, nema þú hafir sjálfur sannfæringu fyrir réttmæti þess. Mundu að aðrir keppa um fylgispekt þína, án þess að skeyta um það sem þú raunverulega telur rétt. Stattu með sjálfum þér, þó að það kunni að valda vinslitum við aðra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Réttlætir ofbeldi

    Það var dapurlegt að sjá í gær 1/9 þátt í RÚV sjónvarpinu (Silfrinu) þar sem fréttakona talaði við Háskólarektor. Rektorinn komst án andmæla upp með að segja að ofbeldisfull framkoma aðgerðarsinna til að hindra ræðumann við að flytja erindi jafnaðist á við rétt til tjáningarfrelsis þeirra, Og hin sat á móti henni og virtist dást af þessum boðskap. Þessi umfjöllun var ekki í lagi. Sá sem vill tjá sig öndvert við ræðumann verður að tjá sig með nýtingu málfrelsis síns en ekki beita ofbeldi til að hindra ræðu. Þessi rektor er sýnilega ófær um að gegna því starfi. Beiting ofbeldis er að hennar mati og fréttastofunnar sýnilega orðið fullgild tjáningaraðferð innan Háskólans. Ótrúlegt!

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ráðdeild?

    Þjóðleikhúsið var reist fyrir 75 árum. Í þá daga voru möguleikar til leiksýninga fábreyttir. Þjóðleikhúsið bætti verulega úr þeim og hefur sinnt þeim ágætlega síðan. Það hafa líka á undanförnum árum verið sýnd leikverk í samkomuhúsum um allt land.

    Nú er öldin önnur. Möguleikar til hvers konar leiksýninga og annarrar dægrastyttingar hafa stóraukist með margfalt meiri tækni en kostur var á við stofnun leikhússins. Menn horfa t.d. á kvikmyndir í stórum stíl heima hjá sér í tölvum og sjónvarpstækjum. Þar er m.a. boðið upp á sýningar á mögnuðum meistaraverkum m.a. á sviði leiklistar. Á slíku var enginn kostur við stofnun Þjóðleikhússins.

    Þrátt fyrir þetta eru nú kynntar áætlanir um meiriháttar stækkun á Þjóðleikhúsinu sem á að kosta marga milljarða króna. Stjórnendur ríkisins, leikarar og aðrir unnendur leiklistar taka í fréttum sjónvarpsins andköf af hrifningu.

    Um leið og þetta gerist er ríkissjóður í miklum fjárhagsvanda, sem leiðir til þess að ekki er hægt um þessar mundir að lækka vexti í landinu. Svo eigum við t.d. ekki fyrir fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða byggingu nauðsynlegra samgöngumannvirkja, svo tekin séu dæmi af brýnum verkefnum sem ríkissjóður kostar á Íslandi.

    Ætli að í þessum fyrirætlunum um Þjóðleikhúsið felist sú ráðdeild sem þjóðin þarfnast?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Rektornum verði vikið úr starfi

    Það er ótrúlegt að heyra um framferði ofstækismanna í Háskóla Íslands þegar hleypt var upp fundi þar fyrir skemmstu. Sögðust þeir vera ósáttir við þjóðerni ræðumannsins. Það er eins og þessir ofstækismenn séu komnir aftan úr forneskju í aðgerðum sínum gegn tjáningarfrelsi hér á landi. Framferði þeirra er ósæmilegt á alla mælikvarða. Viðbrögð yfirvalda í Háskólanum eru ennþá verri. Rektor Háskóla Íslands ætti auðvitað að ganga fremstur í að fordæma þessa árás á tjáningarfrelsi á vettvangi skólans. En frá honum hefur hvorki heyrst hósti né stuna.

    Morgunblaðið birti forystugrein um þetta ofbeldi sem birtist í blaðinu í dag 25. ágúst. Hér fylgir mynd af greininni. Þar er sagt flest sem segja þarf um málið. Eitt vantar þó í frásögn blaðsins. Það er krafa um að rektor skólans, sem nýlega hefur tekið við störfum með hátíðlegum yfirlýsingum um tjáningarfrelsi á vettvangi skólans, verði þegar í stað vikið úr starfi. Það hlýtur að vera skýlaus krafa allra þeirra sem segjast styðja tjáningarfrelsi að víkja beri þessum æðsta yfirmanni skólans þegar í stað úr starfi, því hann beitir hér sýnilega þögninni til samþykkis við þessu ofbeldisverki. Í húfi er virðing Háskóla Íslands.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur