Um daginn setti ég hér inn á fasbókina stuttan pistil um að við andlát manna væri oftast hlaðið á þá lofi sem þeir hefðu aldrei fengið að heyra sjálfir í lifanda lífi. Við ættum að gera meira af því að hrósa öðrum fyrir það sem vel er gert meðan þeir geta ennþá fengið að heyra það sjálfir. Hrós fyrir góð verk væri til þess fallið að hvetja menn til dáða gagnvart öðrum.

Þetta er gott og gilt. Oft er helsti hvati manna til að vinna gott verk vissan um að þeim verði hrósað fyrir. Þá hækka þeir oft í áliti hjá öðrum og finnst það jákvætt og notalegt.

En hvað um að gera öðrum gott án þess að nokkur viti nema sá maður sem það gerir? Menn ættu að reyna þetta. Þá nýtur enginn vitneskjunnar um góðverkið nema sá sem “fremur það”. Ég leyfi mér að fullyrða að góðverk, sem enginn veit um nema sá sem gerir öðrum gott, mun veita honum sátt og vellíðan í sálinni. Það er reyndar oftast þannig í lífinu að sá sem stendur næst manninum, sem góðverkið vinnur, er hann sjálfur. Hann nýtur þá friðsældar og ánægju með sína eigin háttsemi þó að enginn hrópi húrra.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur