Ég verð að viðurkenna að mér finnst það vera afbökun á tungumáli okkar að breyta birtingarmynd sagnorða og lýsingarorða sem fylgja nafnorðum í eintölu sem í sjálfu sér geta tekið til fleiri en eins einstaklings eða þá einstaklinga af báðum kynjum. Fyrir nokkru var t.d. fjallað um þá venju hjá mörgum að tala ekki um ráðherra í karlkyni, þó að orðið ráðherra sé karlkynsorð. T.d. gæti einhver átt það til að segja að ráðherra væri glaðbeitt en ekki glaðbeittur. Þetta virðist vera gert vegna þess að bæði karlar og konur geta verið ráðherrar. Annað dæmi eru lýsingar á íþróttakappleikjum þar sem íþróttalið eiga hlut að máli er það nánast orðin regla að tala um liðið í fleirtölu, þó að aðeins sé verið að lýsa því sem liðið gerir inni á vellinum þegar notað er nafn liðsins í eintölu. Íþróttafréttamenn segja t.d. yfirleitt að Manchester United sækja upp völlinn þó að nafn liðsins sé eintöluorð. Málfræðilega væri rétt að segja að MU sæki upp völlinn þó að í liðinu séu margir leiknenn.
Mér er nær að halda að þetta sé orðin regla hjá þeim sem lýsa athöfnum annars kappliðsins, þó að notað sé eintöluorð um liðið eins og vera ber. Þar er samt jafnan notuð fleirtala í lýsingunni og þá sjálfsagt vegna þess að fleiri en einn leikmaður skipi liðið inni á vellimum eða þá að þeim sem talað er um sé lýst með eintöluorði af því kyni sem orðið sjálft segir til um. Svo er líka á ferðinni ósamræmi í notkun tungumálsins að þessu leyti. Ef t.d. nafn viðkomandi liðs er kvenkynsorð, t.d. Gerpla, er sagt að Gerpla sýni góðan leik í fimleikum í stað þess að Gerpla sýna slíkan leik.
Ég lærði íslenska málfræði í Menntaskólanum í Reykjavík. Þessi framangreindi háttur nútímans sker í eyrun. Mér finnst óþarfi að afbaka tungumálið með þeim hætti sem hér er nefnt. Ég held líka að í rituðu máli sé þetta síður gert þó að þess sjáist þar sjálfsagt merki. Hefðbundinn háttur í notkun tungumálsins held ég að hafi dugað ágætlega fram til þessa og felur ekki í sér neina mismunun kynjanna.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur