• Aðgerðaleysi

    Hvernig stendur á því að stjórnmálaflokkarnir bregðast ekki við augljósum annmörkum á lagareglum um dómstóla, þó að ítrekað hafi verið bent á þá með þeim hætti að enginn þarf að efast?

    Ég hef um árabil fjallað um þetta í ræðu og riti og fært fram lýsingu á staðreyndum sem enginn hefur getað efast um að séu réttar.

    Nú síðast sendi ég frá mér hlaðvarpsþætti (sex talsins) þar sem farið er yfir meginreglur sem dómstólum ber að virða í störfum sínum og nefni dæmi um að freklega hafi verið brotið gegn þeim.

    Í síðasta þættinum ræði ég umbætur á lögum sem auðvelt er að koma á til þess að bæta þessa þýðingarmiklu starfsemi svo um munar.

    Af einstökum breytingum er þýðingarmest að afnema sjálfdæmi dómaraelítunnar um val á nýjum dómurum í Hæstarétt.

    Á því sviði liggja fyrir handföst dæmi um misnotkun á valdi til þess arna. Þannig eru bein dæmi um að við mat á umsækjendum sé breytt um viðmiðanir milli ára í því skyni að hefja vini og kunningja upp yfir aðra sem sitjandi dómurum kann að vera í nöp við.

    Þetta hafa allir séð og margir lögfræðingar fjallað um á opinberum vettvangi.

    En það er eins og stjórnmálamönnum sé alveg sama.

    Nú er verið að mynda nýja ríkisstjórn og mætti þá ætla að fjallað væri um úrbætur á lagareglum um dómstóla sem allir sjá að eru nauðsynlegar í því skyni að reyna að uppfylla þær kröfur sem lýðræðislegt réttarríki hlýtur að gera til þessara stofnana.

    Ég spái því að ekki muni sjást orð um þetta í komandi sáttmála um stjórnarmyndun.

    Þetta er eins og logandi eldhnöttur sem enginn þorir að taka á, þó að staðreyndirnar liggi fyrir og auðvelt sé að gera lagabreytingar til umtalsverðra bóta.

    Kannski stjórnmálamennirnir séu að bíða eftir að þeir sjálfir eða ástvinir þeirra þurfi að prófa þetta spillta kerfi á sjálfum sér?

    Á meðan eru aðrir borgarar látnir bera skaðann af spillingunni.

    Reynið frekar að vakna og gera strax þær úrbætur sem gera þarf.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Dómarar aðstoða ráðherra við stjórnsýslu

    Á vefsíðu stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um réttarfarsnefnd. Fram kemur að dómsmálaráðherra skipi hana. Hún hafi það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars, m.a. þegar samin eru frumvörp og aðrar reglur á því sviði í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að nefndin veiti umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur sem varða réttarfar.

    Ljóst er að þessi verkefni flokkast undir framkvæmdavald, þ.e. svonefnd stjórnsýsluverkefni. Á lögmæti þeirra kann að reyna í dómsmálum.

    Í pistlinum um nefnd þessa á vefsíðunni kemur fram að þrír af fimm nefndarmönnum koma nú úr röðum skipaðra dómara við Hæstarétt. Tveir þeirra sátu í nefndinni þegar þeir voru skipaðir dómarar á síðasta vetri en sáu ekki ástæðu til að segja af sér þessum stjórnsýslustörfum við það tækifæri. Sá þriðji er núverandi forseti Hæstaréttar. Hann er ekki talinn líklegur til að afsala sér bitlingum sem honum hafa verið fengnir.

    Skipunartími núverandi nefndarmanna er til 28. febrúar n.k.

    Flestum hugsandi mönnum ætti að vera ljóst að ekki er við hæfi að dómarar við æðsta dómstól þjóðarinnar séu skipaðir til að veita ráðherra aðstoð við stjórnsýslu dómsmála. Þetta er ómur liðins tíma.

    Væri ekki ráð að nútímakonan, sem nú gegnir embætti dómsmálaráðherra, óskaði eftir að hæstaréttardómararnir í réttarfarsnefnd segðu af sér þessum störfum hið bráðasta? Að minnsta kosti muni hún gæta þess við endurnýjun á mannvali í nefndina eftir næstu áramót að skipa þetta fólk ekki aftur í þessa nefnd.

    Fróðlegt væri að heyra að minnsta kosti viðhorf hennar til þessa málefnis. Kannski Mogginn láti henni í té rými til þess?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Eiga dómarar að sýsla við lagasetningu?

    Á síðum Morgunblaðsins hefur á undanförnum dögum komið til umræðu hvort eðlilegt hafi verið á síðasta ári af forsætisráðherra að fela Páli Hreinssyni dómara við EFTA-dómstólinn að skrifa álitsgerð um valdheimildir heilbrigðisráðherra til „opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum“. Skilaði dómarinn álitsgerð um þetta efni 20. september s.l.

    Það er skoðun mín og fjölda annarra lögfræðinga, að ekki sé við hæfi að skipaðir dómarar sinni svona verkefnum fyrir stjórnarráðið. Skiptir þá að mínu mati ekki máli hvort um ræðir dómara við innlenda dómstóla eða fjölþjóðlega.

    Segja má að ástæður fyrir þessu séu aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi fara dómstólar með dómsvald, en það vald á samkvæmt stjórnarskrá og lögum að vera skilið frá framkvæmdarvaldi, sem ráðherrar fara með. Það skiptir því máli að dómarar gerist ekki þátttakendur í meðferð ráðherravalds. Slíkt er til þess fallið að skapa tengsl sem geta haft áhrif langt út fyrir einstök verkefni sem ráðherra felur dómara að sinna. Þetta dregur úr trausti manna á dómstólum. Í öðru lagi er auðvitað hætta á að dómari verði beinlínis vanhæfur til meðferðar einstaks máls, sem borið er upp við dómstól hans, ef deilt er um gildi eða efni lagareglna sem hann hefur átt þátt í að semja.

    Forsætisráðherra segir nú réttilega að dómari skuli sjálfur meta hæfi sitt í einstökum málum. Augljóst er að þetta mat hans beinist eingöngu að síðari þættinum, sem nefndur er að framan, en ekki þeim fyrrnefnda sem er ekki þýðingarminni en sá síðarnefndi. Og þessi staðreynd ætti ekki að skipta nokkru máli, þegar verið er að velja lögfræðinga til að skrifa álitsgerðir fyrir stjórnarráðið.

    Það er sem sagt skoðun mín að dómarar eigi alls ekki að taka að sér verkefni í stjórnsýslu á borð við það sem hér um ræðir. Með þeim eina hætti varðveita þeir hlutlausa stöðu sína og tiltrú almennings á þeim.

    Svo má spyrja: Hvers vegna leitar ráðherrann til dómarans til að fá lögfræðiálit? Páll er hinn mætasti lögfræðingur og kann ýmislegt fyrir sér. En er ekki starfandi í landinu fjöldi lögfræðinga sem segja má hið sama um? Í þeim flokki má til dæmis telja fræðimenn og kennara í lögfræði, starfandi lögmenn og jafnvel lögfræðimenntaða stjórnmálamenn. Er einhver þörf á að hætta stöðu hins mæta dómara Páls með þessu?

    Nauðsynlegt er að taka fram að þessi ámælisverði þáttur í íslenskri stjórnsýslu hefur tíðkast í landinu um langa hríð. Besta dæmið er skipun réttarfarsnefndar. Hún er fastanefnd sem m.a. hefur það hlutverk „að vera dómsmálaráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars.“ Í þessari nefnd hafa starfandi hæstaréttardómarar setið um árabil. Þetta er eins og ómur úr fortíðinni sem er ekki boðlegur nú á tímum, hafi hann einhvern tíma verið það. Dómarar sem hafa átt sæti í þessari nefnd hafa oftsinnis tekið þátt í að dæma í málum þar sem deilt hefur verið um efni réttarfarslaga sem nefndin hefur samið.

    Hvernig væri að ráðherrar beittu sér fyrir breytingu á þessum ámælisverðu þáttum í íslenskri stjórnsýslu í stað þess að hlaupa til varna og forherðast í sjónarmiðum liðins tíma?

    Jón Steinar Gunnlaugson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og nefndarmaður í réttarfarsnefnd (áður en hann var skipaður dómari)

  • Hjarðhegðun dómara

    Hvers vegna ætli kveðið sé svo á í lögum að áfrýjunardómstólar skuli skipaðir fleiri en einum dómara, sem dæma skuli mál saman, ýmist þrír, fimm eða sjö? Þetta gildir ekki bara á Íslandi heldur einnig í öðrum löndum sem og við alþjóðlega dómstóla, eins og Mannréttindadómstól Evrópu svo dæmi sé tekið. Ástæðan er augljós. Það er talið til þess fallið að tryggja rétta niðurstöðu í málinu að kveðja til nokkra vel hæfa lögfræðinga til að leggja dóm á sakarefni þess. Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú að hver og einn þeirra leggi sitt álit til grundvallar niðurstöðu sinni. Þetta beri þeim þá að gera eftir að hafa borið saman bækur sínar og verið tilbúnir til að skipta um skoðun ef einhver hinna kemur með úrlausn sem telur þeim hughvarf. Þessi skipan myndi óhjákvæmilega valda því að dómarar skrifuðu sératkvæði þegar úrlausnin, sem þeir telja rétta, er ekki hin sama og úrlausn hinna. Þetta hlyti að gerast reglulega, því úrlausnarefnin eru oft flókin og veruleg áhöld um aðferðafræðina við að dæma um þau og þar með um niðurstöðuna.

    Víða erlendis er gert ráð fyrir að einstakir dómarar skuli greiða skriflega atkvæði í máli sem til meðferðar er hverju sinni. Sé dómari sammála öðrum að öllu leyti getur hann einfaldlega vísað til röksemda annars dómara í hópnum eftir að þeir hafa komið sér saman um hvor eða hver þeirra skuli skrifa hinn efnislega rökstuðning. Þessi aðferð við samningu dóma er til þess fallin að stuðla að persónulegri ábyrgð einstakra dómara í hópnum á niðurstöðu sinni.

    Allir ættu að vita að í nokkurra manna hópi lögfræðinga hlýtur að verða alltítt að upp komi ágreiningur um þau lögfræðilegu úrlausnarefni sem fengist er við. Þetta verður augljóst þegar athugaðar eru upplýsingar um slíkt við fjölskipaða erlenda dómstóla. Þar er víða regla fremur en undantekning að sjónarmið séu að einhverju leyti mismunandi. Slíkur ágreiningur er eðlilegur og telst raunar óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skipa marga jafnsetta dómara í dóm.

    Ætli þetta sé sá háttur sem við er hafður hér á landi? Nei, ekki aldeilis. Elíta dómaranna liggur meira segja ekkert á þeirri skoðun sinni að æskilegt sé að bræða saman sjónarmiðin og forðast sératkvæði. Nú er orðið afar fátítt að sératkvæðum sé skilað og þarf ekki að fara nema nokkur ár aftur í tímann til að sjá mun skárra ástand að þessu leyti í Hæstarétti. Þegar ég átti sæti í réttinum taldi ég það skyldu mína að standa með sjálfum mér við úrlausn málanna og byggði þá á þeirri augljósu forsendu að rétt niðurstaða í lögfræðilegum ágreiningi væri aðeins ein en ekki margar sem dómari gæti valið úr. Þetta gerðu líka einstakir aðrir dómarar og nefni ég þá til sögunnar Hjördísi Hákonardóttur, Ólaf Börk þorvaldsson og Viðar Má Matthíasson.

    En bæði þá og nú hefur meginreglan verið sú að bræða saman sjónarmiðin, eða þá einfaldlega að fylgja í blindni einhverjum hinna sem skrifar atkvæði. Hátturinn sem þarna er ríkjandi felur í sér eina tegund þeirrar hjárðhegðunar sem nú tröllríður þjóðfélagi okkar og setur mark sitt á ákvarðanir og afstöðu manna. Virðist viðhorf margra dómara felast í því að þeir telji sig hafa verið skipaða í dóm til að semja við aðra lögfræðinga um hina réttu niðurstöðu í stað þess að finna hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu. Úr þessu hefur oft orðið hrein afbökun, þar sem eitt rekur sig í annars horn og engin leið verður að skilja um hvað viðkomandi dómur er fordæmi. Nefndi ég sláandi dæmi um þetta í bók minni „Veikburða Hæstiréttur“, sem kom út á árinu 2013, sjá bls. 54-78. Dæmin sýna vel fáránleikann í þessari aðferðafræði samninganna.

    Ekki deili ég við nokkurn mann um að nauðsynlegt sé að ágreiningur, sem upp kemur við samningu dóma, sé krufinn til mergjar og reynt sé að nálgast sameiginlega hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu, þannig að allir dómararnir geti sameinast um forsendur og niðurstöðu máls. Standi hins vegar eftir ágreiningur um röksemdir eða niðurstöðu að slíkri krufningu lokinni er það að mínum dómi skylda dómara að fylgja sinni bestu samvisku og greiða sératkvæði en ekki að víkja skoðun sinni til hliðar í þágu einingarinnar. Ein af meginforsendum þess að skipa marga dómara í æðsta dómstól þjóðar hlýtur að vera að tryggja að mismunandi lagaleg sjónarmið hinna hæfustu lögfræðinga séu þar til staðar. Dómarar eru ekki skipaðir til embætta í slíkum dómstól til að taka samstöðuna sín í milli fram yfir bestu einstaklingsbundna vitund um lögfræðileg úrlausnarefni. Breyting á reglum um samningu dóma í þá átt sem ég hef rakið ætti að vera til þess fallin að bæta mjög starfsemi æðri dómstólanna, hvort sem um Landsrétt eða Hæstarétt ræðir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Furðulegur dómur

    Hinn 23. júní s.l. hafnaði meirihluti Hæstaréttar í málinu nr 24/2021 kröfu sakbornings í sakamáli um að tveir af þremur dómurum við Landsrétt skyldu víkja sæti í endurtekinni meðferð á máli hans í Landsrétti, en Hæstiréttur hafði ómerkt fyrri dóm Landsréttar á þeirri forsendu að ekki hefði farið fram munnleg sönnunarfærsla í málinu. Með öðrum orðum stóð svo á að dómararnir tveir höfðu sakfellt manninn við fyrri meðferðina án þess að til hefði komið munnlegur framburður fyrir dómi. Hæstiréttur hafði ómerkt þennan fyrri dóm af þessari ástæðu.

    Sakborningur taldi eðlilega að hann þyrfti ekki að sæta því að þessir tveir dómarar, sem væru búnir að sakfella hann á ófullnægjandi grundvelli, settust í dóm í máli hans þar sem bætt yrði úr fyrri annmörkum á meðferð málsins. Gerði hann því kröfu um að þessir tveir dómarar yrðu látnir víkja sæti þegar málið yrði dæmt á ný. Í forsendum Hæstaréttar virðist koma fram skilningur á nauðsyn þess að sakborningur hafi ekki ástæðu til að vantreysta dómurum máls, því þar segir m.a.: „Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari komi að úrlausn máls ef réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.“

    Þessari einföldu hugsun sýnist svo varpað fyrir borð síðar í forsendunum þar sem segir svo orðrétt: „Þótt að sínu leyti sé skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þessir dómarar muni líta málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður getur það eitt og sér ekki talist grundvöllur undir réttmætan efa um að þeir teljist óhlutdrægir.“ Kröfu mannsins var því synjað.

    Í þessum forsendum felst alvarleg þversögn. Engin réttarfarsleg þörf er á að synja kröfu mannsins. Hann vildi bara að málið dæmdu dómarar sem hann hefði ekki ástæðu til að ætla að hefðu fyrirfram mótað afstöðu sína til sakarinnar. Það er í raun óskiljanlegt að fjórir af fimm hæstaréttardómarar skuli synja honum um þetta.

    Það er lítið hald í því fyrir manninn að einn dómaranna fimm skuli hafa skilað sératkvæði, þar sem hann færir einföld rök fyrir því að taka beri kröfu mannsins til greina. Í atkvæði hans segir m.a. svo: „Fjölmörg dæmi eru um að dómari hafi talist vanhæfur þótt afskipti hans af málefni, meðal annars við meðferð máls fyrir dómi, hafi verið mun veigaminni en að kveða upp efnisdóm í máli, …. Vanhæfisreglur laganna hafa auk þess að geyma víðtæk ákvæði sem mæla fyrir um að hlutrænt séð skuli dómarar taldir vanhæfir þótt síður en svo verði fullyrt að tengsl þeirra við mál séu með þeim hætti að áhrif þurfi að hafa á afstöðu þeirra.“

    Nefnir þessi dómari m.a. til sögunnar dæmi úr lögum, þar sem kveði er á um þetta.

    Fullyrða má að traust almennings til Hæstaréttar hafi látið verulega á sjá á undanförnum misserum og árum. Því hefur ráðið ófullnægjandi dómsýsla réttarins. Hafi dómarar við Hæstarétt áhuga á að reyna að bæta traust almennings til dómstólsins ættu þeir að reyna að forðast dóma þar sem bersýnilega er brotið freklega á rétti borgara til hlutlausrar meðferðar mála þeirra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hjarðhegðun

    Eitt stærsta meinið í samfélagi okkar er það sem kalla má hjarðhegðun flestra þegar tekin er afstaða til mála, þ.m.t. þýðingarmikilla þjóðfélagsmála. Í stað þess að leggja sjálfstæða hugsun í málefnið, sem til meðferðar er, virðast flestir móta afstöðu sína af því sem þeir telja að komi sér best fyrir þá sjálfa og persónulega hagi þeirra. Þá verður fljótlega til það sem kalla má rétttrúnað, sem er þá oftast hugsunarlaust lagður til grundvallar við umræður og ákvarðanir í okkar fámenna þjóðfélagi.

    Um þetta eru mýmörg dæmi. Ég hef oftsinnis fjallað um klíkuákvarðanir þeirra sem ráða ríkjum í dómskerfinu. Þeir sem eiga hagsmuni undir þeim ákvörðunum velja flestir þann kostinn að makka með. Ástæðan er þá gjarnan sú að viðkomandi veit að andóf af hans hálfu muni skaða hann sjálfan og persónulega hagi hans. Lögmenn eru til dæmis hræddir um að valda skaða á hagsmunum skjólstæðinga sinni í dómsmálunum og dómarar á lægri dómsstigum eru hræddir um að fá ekki þann framgang í störfum sem þeir vonast eftir.

    Í stjórnsýslunni er sömu sögu að segja. Þeir sem eiga samskipti við valdsmenn á þeim vettvangi vita um fjölmörg dæmi þess að valdi sé misbeitt. Valdið á þeim vettvangi er oftast í höndum embættismanna sem stundum hafa öll ráð yfirmanna sinna (ráðherranna) í hendi sér. Þegar ranglát ákvörðun hefur verið tekin er oft miklu „skynsamlegra“ að una henni möglunarlaust fremur en að gagnrýna hana þó að rökin fyrir gagnrýni séu augljós.

    Það er ekki á því nokkur vafi að þessi hjarðhegðun veldur miklum skaða í samfélaginu. Ákvarðanir eru teknar á ómálefnalegum grundvelli og enginn þorir að segja neitt. Það er því fyllsta ástæða til þess að hvetja alla hugsandi menn til að láta miklu meira í sér heyra og þá í því augnamiði að veita valdhöfum aðhaldið sem þeir svo sannarlega þarfnast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hvernig á dómari við Hæstarétt að starfa?

    Hann má aldrei láta huglægt mat sitt á kringumstæðum ráða dómum sínum. Hann má aldrei beita öðru en réttarheimildum til að komast að niðurstöðu.

    Hann má aldrei ganga erinda vina sinna og kunningja í bága við heimildir réttarins. Hann þarf að láta aðila máls vita fyrirfram ef hann tengist málsaðilum þannig að til vanhæfis geti leitt.

    Ef persónulegur vinur hans á hagsmuni undir dómi, þar sem til dæmis reynir á, hvort sá hinn sami fái greidda svimandi háa þóknun fyrir skiptastjórn í þrotabúi, á dómarinn ekki að hafa nein afskipti af málinu.

    Hafi persónulegir vinir hans gerst sekir um alvarleg siðferðisbrot ætti hann að forðast samskipti við þá.

    Ef samkennari hans í háskólanum rekur mál fyrir dómi til að ná fram uppgjöri við banka sem er bersýnilega utan laga og réttar, ætti hann ekki að sitja í dómi sem dæmir í málinu.

    Ef bankar hrynja og saksóknari vill fá heimild til símhlerunar hjá sökuðum manni, sem verið er að sleppa úr gæsluvarðhaldi, ætti hann að skilja að ekki eru lagaskilyrði til að verða við beiðni saksóknarans.

    Ef þekktur ríkisstarfsmaður er sakaður um innherjasvik í tengslum við bankahrun ætti hann að gæta sín á að falla ekki í þá gryfju að dæma manninn sekan einungis til að geðjast almenningi.

    Þó að dómaranum sé ekki vel við gagnrýni á starfshætti sína ætti hann að gæta sín á að hlaupa ekki af stað með meiðyrðamál gegn gagnrýnandanum sem fyrirsjáanlega mun tapast á öllum dómsstigum.

    Þeir sem þurfa að bera mál sín undir réttinn ættu ekki að verða betur settir fyrir þá sök að vera persónulegir vinir dómarans.

    Það væri óskandi að ekkert tilefni væri til þessara ábendinga. En ætli það sé raunin?

    Jón Steinar Gunnlaugsson er áhugamaður um starfsemi Hæstaréttar

  • Samningar um dómsniðurstöður

    Þegar dómstólar ljúka dómi á sakarefni dómsmáls ber brýna nauðsyn samkvæmt lögum til þess að þeir beiti öguðum og lögmætum sjónarmiðum. Í 61. gr. stjórnarskrár okkar segir þannig, að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Í þessu felst að dómendum sé óheimilt að láta ólögfest huglæg sjónarmið sín eða skoðanir hafa áhrif á niðurstöðuna. Það eru lögin sem eiga að ráða.

    Nú er ekki unnt að finna sett lagafyrirmæli um allt það sem á kann að reyna við meðferð máls fyrir dómi. Það breytir ekki kröfunni um öguð vinnubrögð. Í lögfræði er kennd sú aðferðafræði sem heimilt er að viðhafa við úrlausn ágreiningsmála. Sá efniviður sem heimilt er að beita nefnist réttarheimildir. Þar eru stjórnarskrá og sett lög efst á blaði, en gæti ekki slíkra heimilda reynir á beitingu réttlægri heimilda sem svo eru nefndar. Meðal þeirra eru heimildir sem við köllum eðli máls, fordæmi og meginreglur laga. Þegar reynir á beitingu slíkra heimilda er dómendum sem fyrr óheimilt að láta persónuleg viðhorf ráða dómum sínum. Leit að heimildum þessum og beiting þeirra verður að vera hlutlæg og laus undan persónulegum óskalista dómara.

    Frá ungum aldri mínum í lögfræðinni hef ég leitast við að beita þessum viðhorfum bæði í kenningum og framkvæmd. Ég átti til dæmis fyrir mörgum áratugum í ritdeilu við einn kennara minna í lagadeildinni um þetta en hann hélt því m.a. fram að dómstólar færu með vald til að setja nýjar lagareglur, sem fóru í bága við lög sem Alþingi hafði sett, og beita þeim síðan til lausnar ágreiningsefnis. Frá þessari deilu segi ég í endurminningabók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014.

    Ég hef haldið því fram að dómari, eða hver sá annar sem í hlut á, verði að ganga út frá þeirri forsendu að einungis ein niðurstaða sé rétt í því ágreiningsefni sem hann vill leysa úr. Verkefnið sé að finna hana. Það geti oft verið flókið og erfitt en allt að einu sé þetta markmið þess aðila sem úr skal leysa. Ég reyndi að viðhafa þetta sjónarmið í starfi mínu sem dómari við Hæstarétt á árunum 2004 til 2012. Leiddi það til þess að ég skrifaði fleiri sératkvæði en aðrir dómarar á þessu tímabili.

    Flestir hinna dómaranna töldu sig hafa rýmri heimildir í dómsstarfinu. Reglulega gætti dæma um úrlausnir þeirra sem bersýnilega voru andstæðar efni þeirra réttarheimilda sem þeim bar að mínum dómi skylda til að beita. Stundum blasti við að þeir væru að beita huglægum vildarsjónarmiðum, þó að samdar væru forsendur sem ætlað var að fela þetta.

    Merkilegt viðtal birtist í útvarpsþætti Kristjáns Kristjánssonar fréttamanns „Sprengisandur“ s.l. sunnudag. Þar var talað við einn fyrrverandi starfsbræðra minna í réttinum Eirík Tómasson. Hann lýsti í viðtalinu vinnubrögðum sem tíðkuðust í Hæstarétti þegar tekin var afstaða til sakarefnis dómsmálanna. Hann gerði að vísu allt of mikið úr því að dómarar kæmu vel undirbúnir til þess verks sem fyrir lá. Oft var það því miður ekki svo. Það sem hins vegar skipti mestu máli í ræðu Eiríks var lýsing hans á viðleitni hópsins til að ná samkomulagi um niðurstöðuna og forðast sératkvæði. Lýsti hann því hvernig dómendur gáfu eftir á sjónarmiðum sínum og sömdu við hina um niðurstöðuna. Að þessu leyti var lýsing hans rétt, enda má sjá dæmi á löngu árabili um að sumir dómaranna skiluðu aldrei sératkvæðum. Dómarnir voru byggðir á samkomulagi, þar sem einhverjir í hópnum féllust á að beita ekki þeim réttarheimildum sem þeir töldu eiga við til að finna rétta niðurstöðu og féllust á að fljóta með öðrum sem töldu að standa ætti að málum á annan veg og þá hugsanlega fyrst og fremst í þágu niðurstöðu sem þeir töldu æskilega. Líkti hann þessu við samninga á vettvangi stjórnmála.

    Ég upplifði það svo að þessi vinnubrögð leiddu til agaleysis við dómsýsluna. Það var eins og dómendur færu að trúa því að þeim væri miklu meira heimilt en stjórnarskrá og meginreglur leyfðu. Þannig urðu til dómsniðurstöður sem engan veginn stóðust. Hef ég skrifað um ýmsar þeirra og þá jafnan rökstutt nákvæmlega hvað fór úrskeiðis.

    Ég hef kvartað yfir því að gagnrýni minni hafi aldrei verið svarað af þeim sem að verki stóðu. Nú hefur Eiríkur Tómasson, einn úr hópnum, rofið þögnina og staðfest réttmæti þess sem ég hef lýst. Hafi hann þökk fyrir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Sjálfsþjónkun þar sem síst skyldi

    Landsréttur var stofnaður með lögum um dómstóla nr. 50/2016 og tók rétturinn til starfa 1. janúar 2018. Ákveðið var að Hæstiréttur skyldi starfa áfram og verða eins konar fordæmisdómstóll sem tæki aðeins mál til meðferðar samkvæmt eigin áfrýjunarleyfum.

    Við þessar breytingar varð ljóst að verkefni Hæstaréttar drógust saman svo um munaði. Fastir dómarar við réttinn voru níu fyrir breytinguna, en urðu sjö samkvæmt hinum nýju lögum. Ábendingar komu fram um að þeir þyrftu ekki að vera nema fimm eins og þeir reyndar voru lengst af á síðustu öld. Rétturinn mun sjálfur hafa óskað eftir að dómarar yrðu sjö og var það látið eftir honum.

    Hér skal fullyrt að þetta er alger óþarfi. Miðað við umfang starfa réttarins nú ættu dómarar ekki að vera fleiri en fimm sem tækju þá allir þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála sem rétturinn dæmir.

    Það er satt að segja fremur undarlegt að rétturinn skuli sjálfur hafa viljað að dómararnir yrðu fleiri en þörf er á. Í ljós er komið að þeir eru farnir að gegna umfangsmiklum störfum utan réttarins. Til dæmis eru fjórir þeirra sitjandi í föstum kennarastöðum við lagadeild Háskóla Íslands, þrír sem prófessorar og einn dósent. Þetta er nýtt í sögu réttarins. Í fortíðinni hafa kennarar sem hlotið hafa skipun í Hæstarétt jafnan sagt kennslustöðum sínum lausum. Nefna má í dæmaskyni Ármann Snævarr, Þór Vilhjálmsson, Arnljót Björnsson, Markús Sigurbjörnsson, sjálfan mig og Viðar Má Matthíasson. Fyrsta dæmið um þessa sérkennilegu nýbreytni er Benedikt Bogason, sem gegnir prófessorsstöðu við lagadeild HÍ. Það gera núna líka Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir. Karl Axelsson er dósent. Þannig sitja nú fjórir af sjö dómurum réttarins í föstum kennslustöðum við lagadeild HÍ.

    Það er líka ekki boðlegt það bandalag sem myndast með þessum hætti milli lagadeildar HÍ og réttarins. Deildin hefur því hlutverki að gegna að fjalla með gagnrýnum hætti um dómaframkvæmd í landinu. En þarna eru allir vinir. Þeir gefa út heiðursrit hinum til vegsemdar og sitja saman í nefndum, sem fara með veigamikil völd í dómskerfinu, t.d. við að meta hæfni dómaraefna. Augljós dæmi eru fyrir hendi um misnotkun á þessu síðastnefnda valdi.

    Svo gegna dómararnir einnig öðrum aukastörfum sem hljóta að teljast umfangsmikil. Einn er forseti endurupptökudóms. Tveir sitja í réttarfarsnefnd sem hefur að gegna umfangsmiklu starfi við samningu lagafrumvarpa o.fl. Hvernig geta dómarar við Hæstarétt tekið þátt í að semja lagafrumvörp með þessum hætti? Fleiri dæmi um slík aukastörf mætti telja en verður ekki gert hér.

    Þá læðist að manni grunur um að að dómararnir í Hæstarétti hafi séð sér leik á borði við stofnun Landsréttar að tryggja sjálfum sér möguleika til aukastarfa sem greiddar eru vænar þóknanir fyrir. Þess vegna hafi þeir viljað vera sjö en ekki fimm eins og við blasti að væri nóg. Væri ekki rétt að Háskóli Íslands upplýsti almenning um launagreiðslur sínar til þessara hæstaréttardómara?

    Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er að finna ákvæði um dómsvaldið. Þar er gert ráð fyrir að í landinu starfi dómarar, „sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi.“

    Í gegnum tíðina hefur verið litið svo á að dómarar Hæstaréttar hafi verið þeir einu sem þetta gat átt við um. Nú virðist það ekki gilda lengur.

    Að lokum skal þess getið að Hæstiréttur hefur því hlutverki að gegna að tilnefna fulltrúa í fjölmargar stjórnir og nefndir í stjórnsýslu. Það hefur vakið athygli manna að þar eru nær eingöngu tilnefndir lögfræðingar sem tengjast beint lagadeild HÍ en nær engir frá Háskólanum í Reykjavík. Klíkuveldið er alls ráðandi. Alþingi ætti að taka á þessu og nema með öllu úr lögum heimildir Hæstaréttar til þessara tilnefninga. Það er líka vandséð hvernig unnt er að tryggja hlutlausa stöðu dómstólsins til verka slíkra nefnda, sem hann sjálfur hefur átt þátt í að skipa, ef á slíkt reynir fyrir dóminum.

    Það er löngu kominn tími til að trúnaðarmenn almennings á Íslandi átti sig á þeirri sjálfsþjónkun sem ríkir í starfi æðsta dómstóls þjóðarinnar og grípi til ráðstafana til að uppræta hana.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

  • Grínistar í Dómarafélagi Íslands

    Það hefur vakið athygli á undanförnum misserum að Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur oftsinnis skrifað blaðagreinar um viðhorf sín til hinnar lagalegu aðferðar sem og stundum um önnur þjóðfélagsmál sem til meðferðar hafa verið í þjóðfélaginu. Að baki greinum Arnars hefur ávallt legið djúp hugsun og málefnalegur heiðarleiki. Að þeim hefur verið mikill fengur fyrir almenning.

    Nú berast þau tíðindi að Arnar hafi sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningafrelsi dómara og efni siðareglna félagsins.“ Gegnum þetta má lesa að aðrir félagsmenn í DÍ hafi amast við skrifum Arnars og vilji meina dómurum að tjá sig um þjóðfélagsmálin.

    Þetta eru kostuleg tíðindi. Auðvitað njóta dómarar allra sömu mannréttinda og aðrir borgarar, þ.m.t. tjáningarfrelsis. Hafi þeir skoðanir á málefnum sem deilum valda í þjóðfélaginu, t.d. um innfluttar reglur um orkupakka, er auðvitað heppilegt að þeir tjái þær opinberlega. Vitneskja um slíkar skoðanir getur síðan valdið því að dómari sem tjáir sig geri sig vanhæfan til að sitja í dómi í máli þar sem kann að verða tekist á um málefnið sem um ræðir. Öllu réttlæti er þá fullnægt með því að málsaðilar geta gert kröfu um að dómarinn víki sæti ef á þetta reynir. Þeir hafa nefnilega fengið að vita um skoðanir dómarans í tíma.

    Nú skulu menn ekki telja eitt augnablik að starfandi dómarar í landinu hafi ekki skoðanir á margvíslegum ágreiningsefnum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Þær hafa þeir allir og oft getur verið mikill tilfinningahiti í sálum þeirra, þó að þeir hafi aldrei tjáð sig opinberlega um slíkar skoðanir sínar. Flestir þeirra hika ekki við að taka sæti sem dómarar í málum þar sem reynir á slík ágreiningsefni. Þetta finnst þeim í lagi, þar sem enginn veit um þessar skoðanir. Hið sama gildir þegar þeir eiga beinna hagsmuna að gæta sem enginn veit um, eins og dæmin sanna. Þeir ganga svo margir í dómsstörf blygðunarlaust í þágu þeirra viðhorfa sem þeir aðhyllast eða hagsmuna sem þeir eiga. Væri nú ekki betra að þeir hefðu kunngjört opinberlega um slík atriði sín, svo að aðilar dómsmálanna geti þá krafist þess að þeir víki sæti ef þeim þykir tilefni til?

    Muna menn til dæmis eftir upplýsingunum sem komu fram fyrir nokkrum árum, um að fjöldi dómara hefði átt fjárhagsmuna að gæta sem fóru forgörðum við bankahrunið 2008? Þeir hikuðu samt ekki við að taka sæti sem dómarar í málum, þar sem menn voru sóttir til saka fyrir að hafa valdið hruninu og þar með tapi þeirra. Um þetta vissi enginn fyrr en löngu eftir að dómar voru gengnir. Nú eru að koma slag í slag óskir frá Strassburg um upplýsingar um fjárhagsmuni dómara sem svona stóð á um.

    Er þetta ekki dásamlegt? Svo sitja þessir sömu dómarar á fundum í DÍ og amast við því að aðrir dómarar komi fram af þeim heilindum sem þeir sjálfir forsmáðu. Má ég frekar biðja um grandvaran og hugsandi mann eins og Arnar Þór Jónsson í dómarasæti.

    Þess skal getið að siðareglur dómaranna voru settar á aðalfundi í nóvember 2017. Þar er m.a. að finna reglu sem mælir fyrir um háttsemi dómara sem látið hafa af störfum. Það eina sem vantaði í regluna var nafn mitt. Ég var samt ekki félagi í þessu félagi eftir að ég lét af störfum sem hæstaréttardómari á árinu 2012.

    Það eru miklir grínistar sem sækja aðalfundi Dómarafélags Íslands til að setja dómurum siðareglur.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands.