• Almenn lög og kunningjalög

    Hinn 22. júní s.l. kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Markús Sigurbjörnsson hefði uppfyllt hæfiskröfur til að dæma í sakamáli gegn manni, sem hafði ásamt fleirum verið sakaður um að bera ábyrgð á falli Íslandsbanka hf. á árinu 2008. Fyrir lá að Markús hafði tapað 7,6 milljónum króna við fall bankans, en fjárhæðin var að verðgildi um 13-14 milljónir, þegar hann tók þátt í að kveða upp dóm yfir manninum á árinu 2015. Um þetta vissi enginn þá.

    Nú er rætt um að starfandi dómarar hyggist bera undir dómstóla réttmæti frádráttar frá launum sínum vegna ofgreiðslu á síðustu þremur árum, sem mun standa til að framkvæma á næstu 12 mánuðum. Fjárhæðir hjá hverjum og einum dómara nema aðeins nokkur hundruð þúsund krónum, eða broti af fjárhæðinni hjá Markúsi dómara.

    Samt virðast allir vera sammála um að starfandi dómarar verði vegna hagsmuna sinna vanhæfir til að sitja í dómi þar sem um þetta verður dæmt.

    Kannski að í landinu gildi tvenn lög, almenn lög og kunningjalög?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Tvískinnungur

    Við lagasetningu um útlendinga var samstaða í þinginu um að láta stjórnsýslustofnanir fjalla um óskir um landvist hér en ekki ráðherra. Ein af ástæðum fyrir þessu var sú að ekki þótti heppilegt að ákvarðanir um þetta væru í höndum pólitískra ráðherra. Þær væru betur komnar í höndum hlutlausra aðila sem létu afstöðu til stjórnmála ekki villa sér sýn.

    Í árásum á dómsmálaráðherra nú hefur því m.a. heyrst fleygt að hann hafi vald til að setja nýjar reglugerðir á grundvelli heimilda í lögunum, sem myndu leysa mál þeirra sem nú á að senda úr landi. M.a. heyrði ég ummæli lögmanns fólksins í þessa átt.

    Þetta er undarlegur málflutningur. Er verið að óska eftir að ráðherra setji sérstaka reglugerð fyrir þennan afmarkaða hóp? Allir ættu að sjá að það er ekki unnt að gera. Reglugerðir verða að vera almenns eðlis en mega ekki beinast sérstaklega að hagsmunum tiltekinna manna sem vilja fá aðra afgreiðslu mála en aðrir hafa fengið.

    Allt ber þetta að sama brunni. Dómsmálaráðherra hefur ekki vald til að taka yfir ákvarðanir um mál þessa fólks, nema breytt lög komi til. Heimild til að leggja fram lagafrumvörp er í höndum alþingismanna, meðal annarra þeirra sem hæst láta um þessar mundir.

    Er það ekki dálítið dæmigert að sumir stjórnmálamenn séu fyrst, meðan fjallað er almennt um skipan þessara mála, sammála um að ráðherra skuli ekki hafa þetta vald í höndum, en ráðast síðan á hann við fyrsta tækifæri fyrir að beita ekki því valdi sem hann hefur ekki?

    Eru þeir stjórnmálamenn trúverðugir sem haga sér svona? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Krafa um geðþóttavald

    Lög um útlendinga eru frá árinu 2016. Þar er kveðið á um málsmeðferð þegar útlendingar óska eftir að fá vist á Íslandi. Svo er að sjá sem afgreiðsla mála hafi frestast vegna farsóttarinnar, sem gengið hefur yfir síðastliðin tvö ár. Nú er sá tími liðinn og eðlilegt ástand þessara mála hefur komist á.

    Samkvæmt lögunum afgreiða sérstakar stjórnsýslustofnanir beiðnir útlendinga um landvist og búsetu hér. Þar fer kærunefnd útlendingamála með vald á áfrýjunarstigi. Henni ber auðvitað að starfa eftir íslenskum lögum. Nú hefur hún synjað allmörgum útlendingum um leyfi til að setjast hér að.

    Þá er eins og stór hluti þjóðarinnar fari á límingunum. Ráðist er á dómsmálaráðherrann sem ekki hefur tekið þessar umdeildu ákvarðanir, heldur kveðst aðeins vilja fara að lögum landsins og framfylgja þeim ákvörðunum sem rétt stjórnvöld hafa tekið. Hann sætir nú hreinum ofsóknum. Þar ganga m.a. fast fram alþingismenn, sem sumir hverjir tóku þátt í lagasetningunni. Biskup Íslands og a.m.k. einn hempuklæddur orðafeykir taka þátt í árásununum.

    Krafan virðist vera sú að því aðeins beri að fara eftir lögum að mönnum líki efni þeirra í einstökum málum. Grunnreglum, t.d. um þrískiptingu ríkisvaldsins, skal vikið til hliðar fyrir geðþóttann. Alþingismenn ættu að hrósa ráðherra fyrir að virða lögin í stjórnsýslu sinni. Þeir geta svo á vettvangi löggjafans, ef þeir vilja, flutt frumvörp um breytingar á lögunum sem ráðherra hefur heitið að fara eftir.

    Það er stundum átakanlegt að fylgjast með menningarstiginu sem birtist í almennum umræðum á Íslandi um málefni þjóðfélagsins.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hagsmunir allra

    Ég starfaði sem dómari við Hæstarétt í átta ár, 2004-2012. Áður en ég tók til þessara starfa hafði ég séð til verka réttarins ýmislegt sem ég var ekki sáttur við. Ég hafði lýst þessu í ræðu og riti, þegar ég tók þá ákvörðun að sækja um dómarastarf fyrst og fremst í því skyni að kanna hvort mér yrði eitthvað ágengt við að bæta úr því sem ég taldi aðallega að hefði farið aflaga. Ég var skipaður til starfans, þó að sitjandi dómarar við réttinn hefðu reynt hvað þeir gátu til að hindra skipun mína. Þeim athöfnum lýsti ég í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Sú saga þolir varla birtingu, svo ósæmileg sem hún var, sérstaklega þar sem æðsti dómstóll þjóðarinnar átti í hlut.

    Eftir að hafa starfað í réttinum þennan tíma varð mér betur ljóst en áður hvar

    skórinn kreppti. Ég lét því ekki bara við það sitja að segja deili á dómaraverkum sem ég taldi ekki standast, heldur setti ég fram tillögur um hverju mætti breyta í lögum um Hæstarétt til að stuðla að vandaðri vinnubrögðum réttarins og gagnsæi við starfsemina. Ég gaf út ritgerðina „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð var ítarleg grein fyrir hugmyndum mínum um lagabreytingar í þessu skyni og rökstuðningi fyrir þeim. Segja má að meginstefið í tillögum mínum hafi verið gagnsæi, bæði við skipun nýrra dómara og einnig við ritun atkvæðanna í fjölskipuðum dóminum. Ég taldi þá m.a. að afnema þyrfti áhrif sitjandi dómara og vinahóps þeirra á skipun dómara og svo ættu dómarar að skila skriflegum atkvæðum þar sem gerð yrði grein fyrir lögfræðilegum rökstuðningi þeirra hvers og eins í stað þess að kveða upp hópdóma, þar sem öll áhersla lægi á því að vera allir sammála í öllum málum.

    Þeir sem tjáðu sig um þessar hugmyndir tóku þeim vel. Menn virtust sjá að tillögurnar lutu aðeins að því að bæta og styrkja starfsemi réttarins. Allt að einu náðu þær ekki fram að ganga að því sinni. Ástæðan var hatrömm andstaða dómaranna við réttinn. Kom þá í ljós hið sama og einatt er ráðandi, þ.e. undirgefni við þá sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þágu sjálfra sín og berjast gegn endurbótunum.

    Mér er kunnugt um að núverandi dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson hefur tekið tillögur um endurbætur á dómstólum til athugunar og hugar að breytingum á lögum um dómstóla í því skyni. Ég hvet hann til dáða í því efni og bendi á að allir stjórnmálaflokkar hljóta að vilja styðja lagasetningu sem hefur þau markmið að styrkja starfsemi þeirra þýðingarmiklu stofnana sem dómstólarnir eru og þá ekki síst æðsti dómstóllinn, Hæstiréttur.

  • Þeir fórna trúverðugleika sínum

    Ég hitti alþingismann á förnum vegi á dögunum og tókum við tal saman. Hann er þingmaður flokks sem um þessar mundir er í stjórnarandstöðu. Talið barst að störfum þingsins. Hann sagði mér að forysta flokks síns ætlaðist til þess að hann tæki þátt í andófi við ríkisstjórninni, hvert sem málefnið væri og hvaða skoðun hann kynni að hafa á því. Hann sagði mér að flokksfélagar hans leituðust við að vinna svona. Þeir settu á langar ræður, sem ekki þjónuðu neinum öðrum tilgangi en þeim að andæfa ríkisstjórninni. Þetta gerðist m.a. í málum sem þeir væru hlynntir en teldu skyldu sína að mótmæla og tefja fyrir vegna þess að þeir væru í stjórnarandstöðu.

    Þetta eru slæm tíðindi. Sést hefur að vísu málþóf í þinginu sem engum tilgangi virðist þjóna. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem ég heyri vitnisburð um að forysta stjórnarandstöðuflokka ætlist til þess að þingmenn þeirra viðhafi framferði af þessu tagi. Viðmælandi minn kvaðst að vísu ekki taka þátt í þessu sjálfur en félagar hans í þingflokknum gerðu það í stórum stíl. Stundum stæðu þingfundir miklu lengur en þörf væri á vegna þess að málþófsmenn misnotuðu málfrelsi sitt á þennan hátt.

    Þeir þingmenn sem taka þátt í svona framferði ættu að skilja að þeir skaða trúverðugleika sinn með því. Það er eins og þeir haldi að almenningur sem fylgist með sé sauðheimskur og sjái ekki í gegnum ruglið. Það er mikill misskilningur. Það er ekki ólíklegt að fólkið í landinu missi trúna á heiðarleika þingmanna sem haga sér svona og taki síður mark á þeim þegar þeir segja eitthvað sem þeim sjálfum finnst skipta raunverulegu máli.

    Ég ráðlegg þeim því að láta af þessum vinnubrögðum. Það er ekkert athugavert við að fallast á réttmæti þingmáls sem maður er hlynntur, þó að þingmaður eða ráðherra úr öðrum flokki flytji það. Með því hækka þeir bara í áliti en lækka ekki, eins og þeir virðast telja.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Farsi

    Sagt er að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hafi sagt eitthvað miður fallegt í viðurvist annarra.

    Enginn hefur hins vegar skýrt frá því hvað hann sagði nákvæmlega; ekki einu sinni hann sjálfur. Gefið er í skyn að hann hafi ekki viljað taka þátt í að tollera stúlku sem til stóð að heiðra með tolleringu. Komið hafi fram hjá honum að hún væri svört án þess að fyrir liggi að það hafi verið ástæðan fyrir að hann færðist undan þátttöku í tolleringunni.

    Stúlkan er ekki svört. Hún er hins vegar af erlendu bergi brotin og mun húðlitur hennar vera dekkri en dæmigerðra innfæddra Íslendinga. Enginn veit hvað á að vera athugavert við það.

    Ásökunin á hendur Sigurði felst í því að hann hafi sýnt af sér kynþáttafordóma með ummælum sínum.

    Það er frekar undarlegt að telja kynþáttafordóma felast í því að segja að svartir menn séu svartir, ef það er á annað borð sagt. Til dæmis er stór hluti Bandaríkjamanna svartur og er ekki annað vitað en jafnan sé talað um þá sem svarta menn, án þess að nokkur telji slíkt athugavert.

    Sigurður hefur sjálfur sagt að ummæli hans hafi verið óviðeigandi, án þess að skýra nánar í hverju það hafi verið fólgið. Engar upplýsingar liggja fyrir um að Sigurður eða flokkur hans hafi nokkru sinni viljað mismuna borgurum vegna húðlitar þeirra. Í umræðum um málið nefnir hann þetta ekki, heldur viðurkennir á sig sök, sem engin leið er að skilja í hverju á að hafa falist.

    Upp rísa ræðumenn og veitast að Sigurði fyrir ummælin. Í þeim hópi eru alþingismenn. Þeir krefjast þess að Sigurður segi af sér ráðherradómi. Framganga hans sjálfs gefur þeim byr undir vængi. Ræðumenn leggja engan sjálfstæðan dóm á atvikið sjálft en segja bara við mannfólkið: „Sjáið hvað ég er góð manneskja, og miklu betri en Sigurður“.

    Þessi vitleysa felur í sér vitnisburð um risið á þjóðfélagsumræðum hér á landi. Eina gilda ástæða Sigurðar fyrir að segja af sér er kannski að hann skuli ekki vera maður til að verja sig fyrir svona innihaldslausum dylgjum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Réttarríki í þröng?

    Ég tel vera þýðingarmikið fyrir alla menn að hafa einhverjar grundvallarreglur (prinsipp) til að styðjast við í lífinu og við tjáningu um þjóðfélagsmálin.

    Þær sem snúa að gerð þjóðfélags okkar og mér finnst skipta mestu máli má oftast fella undir orðin lýðræði og réttarríki. Í þessum hugtökum felast þau meginatriði sem við flest viljum virða og teljum að eigi að vera ráðandi í samskiptum okkar á milli. Til þeirra heyrir til dæmis að láta hlutlægar lagareglur ráða réttarstöðu manna en ekki persónulegar skoðanir okkar á þeim.

    Á þessi viðhorf reyndi m.a. í sakamálum sem höfðuð voru eftir „hrunið“, þar sem fyrirsvarsmenn og stjórnendur banka voru sóttir til saka fyrir þær hörmungar sem margir máttu þá líða. Þessir menn voru ekki mjög vinsælir á þessum tíma og hugsuðu margir þeim þegjandi þörfina. Meðal þeirra voru áhrifamenn í þjóðfélaginu sem leyndu ekki óvild sinni á þessum sakborningum. Allt var þetta skiljanlegt enda ekkert sem bannar mönnum að hafa skoðanir á öðru fólki og gjörðum þess svo lengi, sem það er ekki sakað um refsiverða háttsemi sem ekki hefur verið sönnuð eða viðurkennd.

    Þessar hugsanir mega hins vegar ekki ná inn í réttarsalina eins og þær þó gerðu. Þar voru menn sakfelldir á ófullnægjandi forsendum, eins og ég hef sýnt fram á í skrifum um nokkra dóma. Ekki varð betur séð en dómararnir væru að friðþægja almenningi með því að fella dóma sína án þess að lögfull skilyrði væru til þess. Og málsmetandi menn fögnuðu þessu og töldu réttlætinu fullnægt.

    Fjölmörg önnur dæmi má finna um þá frumstæðu hegðun sem huglæg afstaða til sakborninga eða sakarefnis dómsmála framkallar hjá fólki. Dæmi um það eru kynferðisbrotin. Í þeim málaflokki gildir auðvitað sú gullvæga meginregla, sem við varðveitum m.a. í stjórnarskrá okkar og kveður á um að menn skuli teljast saklausir af refsiverðum brotum þar til sekt þeirra hafi verið sönnuð, þannig að ekki sé skynsamlegur vafi á sökinni.

    Við þekkjum öll vel það ófremdarástand sem tekið hefur að ráða ríkjum í samfélaginu, þegar einstakir menn hafa verið sakaðir um svona afbrot, sem þeir neita sjálfir að hafa drýgt, og engin sönnun liggur fyrir um. Þeir eru einatt látnir taka öllum hinu verstu samfélagsáhrifum af meintum brotum, án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Dæmin eru þau að þeir missi atvinnu sína og eigi þess engan kost að fá nýtt starf annars staðar. Hér er í reynd vikið til hliðar þeim þýðingarmiklu grundvallarreglum, sem standa undir því að við getum kallað samfélag okkar siðmenntað og talið það til réttarríkja. Og ráðist er á þá borgara sem leyfa sér að koma svona sakborningum til varnar á þeim grundvelli að sök þeirra sé ósönnuð, og að okkur beri að virða hvers kyns réttindi þeirra meðan svo er. Sjálfur hef ég haldið uppi málflutningi um þetta í þágu hins siðaða samfélags og hef af því tilefni orðið fyrir ásökunum um að vilja styðja ofbeldismenn. Ég er bara bláeygur drengur úr Hlíðunum sem hefur megna óbeit á hvers kyns ofbeldi og þá ekki síst því ofbeldi sem beitt er inni á heimilum sakborninganna og oft er erfitt að sanna. Við sem viljum að réttarríkið ráði líka á erfiðum málasviðum, eins og þeim sem hér um ræðir, viljum ekki láta undan þeirri framkomu fjölmargra borgara að sakfella yfirleitt alla sem bornir hafa verið sökum af þessu tagi. Ég segi bara við mannfólkið: Reynið að skilja að miklu þýðingarmeiri verðmæti eru í húfi en þau sem leyfa ykkur að bera ósannaðar refsiverðar sakir á samborgara ykkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Tilefnislaust málavafstur

    Mikið veður hefur verið gert úr því í fjölmiðlum að undanförnu að nokkrum fréttamönnum hefur verið gefin réttarstaða sakborninga við rannsókn á máli sem varðar frásagnir þeirra af ætluðu ámælisverðu framferði stuðningsmanna fyrirtækisins Samherja hf. Hafa einhverjir þessara fréttamanna borið undir dómstóla spurninguna um hvort gefa megi þeim þessa réttarstöðu. Hafa þeir þá talið að lögverndaður trúnaður þeirra við heimildarmenn sína standi því í vegi, að þeir svari spurningum við rannsóknina. Féllst héraðsdómari á kröfu þeirra en Landsréttur breytti þeirri niðurstöðu fyrir fáum dögum og taldi dómstólum ekki heimilt að taka fram fyrir hendur lögreglu og ákæruvalds um þetta.

    Ég verð að játa að ég sé ekki tilganginn með þessu vafstri og hávaða kringum það. Ástæðan er sú að þeim sem fengin hefur verið réttarstaða sakborninga, eins og þessum fréttamönnum, er heimilt að neita að svara spurningum við meðferð mála fyrir lögreglu og dómstólum. Vísast hér um rannsókn sakamála til 64. gr. laga nr. 88/2008 og um meðferðina fyrir dómi til 113. gr. sömu laga. Samkvæmt þessum lagaákvæðum er sökuðum mönnum heimilt að neita að svara spurningum um sakarefni máls. Staða þeirra er að þessu leyti sterkari en vitna sem ber skylda til að gefa vitnisburð við rannsókn og dómsmeðferð sakamála.

    Af þessu er ljóst að einfaldast hefði verið fyrir fréttamennina að mæta og neita að svara spurningum sem þeir töldu sér óskylt að svara. Einfalt og fagurt.

    Eftir stendur spurningin um tilganginn með þessum upphrópum og málavafstri um rannsóknina á hendur þeim. Var tilgangur þeirra kannski að geta skrifað fleiri fréttir um þetta?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Vöndum okkur

    Öll erum við miðpunktar í eigin lífi. Þegar við horfum yfir mikinn mannfjölda sem kannski hefur safnast saman til að fagna atburði, njóta flutnings á listaverki eða hlusta á ræðu, ættum við að hugsa til þess að í hverjum einstaklingi í fjöldanum er miðpunktur, sem sá hinn sami miðar alla sína upplifun við. Okkur er kennt að vanda háttsemi okkar og gjörðir, því við verðum að bera sjálf ábyrgð á eigin gjörðum. Þetta er auðvitað skynsamlegt og rétt en umhyggja okkar fyrir okkur sjálfum gengur oftast miklu lengra en þetta. Við höfum nefnilega tilhneigingu til að réttlæta eftirá það sem við gerum, jafnvel þó að það sé eitthvað sem við ekki hefðum átt að gera; við réttlætum jafnvel glæpi sem við kunnum að hafa framið.

    Þegar efri árin ganga í garð ættum við að horfa yfir farinn veg og reyna að leggja mat á líf okkar og gjörðir gegnum tíðina. Ekki vegna þess að við fáum einhverju um þær breytt, því það er auðvitað oftast orðið of seint. Við kunnum samt í einhverjum tilvikum að eiga þess kost að bæta fyrir gjörðir okkar. Þá þurfum við að vera tilbúin til að játa sök okkar fyrir okkur sjálfum og síðan að biðja þá afsökunar sem við kunnum að hafa brotið gegn sé þess kostur.

    Síðan ættum við að reyna að brýna fyrir þeim sem yngri eru, hversu mikilvægt það sé í lífinu að vanda sig, sýna öðru fólki skilning og tillitssemi og taka ábyrgð á eigin gjörðum. Stundum kunnum við jafnvel sjálf að sakna þess að hafa ekki verið í stakk búin á yngri árum að skynja að breytni okkar hefur áhrif á aðra og þá ekki síst sú breytni sem kann að teljast til misgjörða eða rangrar túlkunar á atvikum í lífi okkar sjálfra. Hversu vel þekkjum við ekki fjölda manna sem aldrei endurmeta nokkurn hlut og jafnvel forherðast í réttlætingum á breytni sem bersýnilega braut rétt á öðrum? Ef okkur tekst að opna augu þeirra sem yngri eru fyrir verðmætum lífsins, sem hér eru nefnd, er til nokkurs unnið. Ég hef stundum reynt að brýna fyrir sjálfum mér að markmiðið sé ekki að fá húrrahróp frá öðrum fyrir það sem maður kann að hafa gert vel, heldur miklu heldur að vera sjálfur sáttur og geta sofnað vært að kvöldi, þó að enginn annar viti um þá breytni sem um ræðir.

    Ef við verðum vitni að því að annar maður fremji misgjörðir sem annað hvort bitna á honum sjálfum eða öðrum ættum við að fara varlega gagnvart þeim sem í hlut á. Það dugir sjaldnast að halda yfir honum tilfinningaþrungnar ræður um háttsemina og hvar honum hafi orðið á. Slíkt vekur oft aðeins upp andsvör viðkomandi manns og framkallar réttlætingar frá honum á misgjörðunum. Miklu árangursríkara er að reyna að hafa áhrif á hann með eigin breytni og afstöðu og þá jafnvel með að sýna honum fordæmi sem hann ætti að skilja. Mikilvægast er fyrir okkur að skynja að áhrifasvæði okkar er umfram allt hið innra með okkur sjálfum. Þar þurfum við fyrst og fremst að vanda okkur og taka ábyrgð. Það er oft svo ósköp lítið sem við getum stjórnað hjá öðrum, annað en þá að hafa óbein áhrif á þá með því að sýna gott fordæmi með okkar eigin hegðun.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Við hornið á heygarðinum

    Jónas Haraldsson lögfræðingur sendir mér kveðju í Morgunblaðinu í gær, mánudag. Tekur hann mig á beinið fyrir að „niðra einstaka dómara Hæstaréttar“ um langa hríð á opinberum vettvangi. Kallar hann grein sína „Við sama heygarðshornið“. Við erum þá báðir staddir þar núna.

    Ekki felst í grein Jónasar nein viðhlítandi athugun á skrifum mínum undanfarin ár um meðferð dómsvaldsins í landinu, en vissulega er það rétt hjá honum að skrifin hafa verið gagnrýnin, enda tel ég afar þýðingarmikið að meðferð þess sé vönduð og þar láti menn ekki persónuleg sjónarmið eða hagsmuni villa sig af leið. Hef ég jafnan talið mig færa nákvæm rök fyrir gagnrýni minni og um leið hvatt menn til að svara hafi þeir fram að færa röksemdir fyrir andstæðum sjónarmiðum. Ég mótmæli hins vegar ásökunum Jónasar um að ég hafi sýnt af mér sjálfbirgingshátt og hroka. Ég er samt ekki hlutlaus dómari í þeirri sök.

    Jónas nefnir tvö dæmi máli sínu til stuðnings. Þar er annars vegar grein mín 10. febrúar s.l. „Minna en hálf sagan sögð“, þar sem fjallað var af gefnu tilefni um afmælisrit Hæstaréttar, sem út kom á dögunum. Í grein minni var vikið að framferði sitjandi dómara við Hæstarétt á árinu 2004, þegar þeir reyndu að hindra skipun mína í dómaraembætti við réttinn. Um þetta lét ég nægja að vísa til ítarlegrar frásagnar í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014, bls. 267-289.

    Mér er nær að halda að Jónas hafi ekki lesið það sem þar stendur, því það fær varla staðist að hann vilji verja það framferði sem þar er lýst. Nokkur orð um það.

    Á þessum árum stóð svo á að Hæstiréttur sjálfur veitti umsagnir um þá sem sóttu um embætti við dóminn. Ráðherra skipaði síðan einn þeirra. Þegar sagt var frá því í fjölmiðlum sumarið 2004 að ég hygðist sækja um embætti urðu allnokkrar umræður um þetta. Þá gerðist það að einn af sitjandi dómurum við réttinn, sem verið hafði kunningi minn um langan tíma, kom til viðtals við mig á skrifstofu mína og tjáði mér að meiri hluti dómaranna við réttinn (8 af 9) hygðist skaða mig með umsögn sinni, þó að margir þeirra hefðu áður hvatt mig til að sækja um embætti. Nú væri málum svo komið að þeir vildu ekki fá mig sem samstarfsmann sinn og réði því persónulega afstaða þeirra til mín. Þetta var auðvitað ekkert annað en ódulbúin hótun um að rétturinn hygðist misbeita valdi sínu í annarlegum tilgangi. Ég hváði við þessu, en þá endurtók maðurinn þessa hótun.

    Þegar ég sótti svo um stóðu þessir heiðursmenn við hótun sína og skrifuðu mjög hlutdræga umsögn um mig. Þessu lýsi ég í bók minni og þá m.a. skrif mín um þessa umsögn þeirra sem ég birti þó ekki opinberlega, en afhenti þeim sjálfum. Í afmælisriti Hæstaréttar, sem út kom um daginn, var hins vegar talið að skipun mín í embætti hefði verið af pólitískum toga og var þar ekki minnst á augljós lögbrot sem meiri hluti dómaranna drýgði með framferði sínu, þó að frásögn um þau lægi fyrir á prenti. Þegar Jónas lögfræðingur tekur að sér að verja þetta framferði, er ég næstum viss um að hann hefur ekki lesið bók mína, því ég trúi því að hann vilji ekki skrifa upp á svona framferði, þó að honum kunni að liggja á með að halla orðinu á mig.

    Hitt dæmi Jónasar er um grein sem ég birti í maí 2021. Fjallaði hún um úrsögn sómamannsins Arnars Þórs Jónssonar úr Dómarafélag Íslands, þar sem fram hafði komið gagnrýni á hann á félagsfundi fyrir að hafa tjáð sig um þjóðfélagsmál, auk þess sem hann hafði andmælt undarlegum ákvæðum í siðareglum félagsins. Nefndi ég í grein minni að dómarar vildu sýnilega ekki að félagsmenn tjáðu sig opinberlega um þjóðfélagsmál, þar sem slíkt gæti valdið vanhæfi þeirra við dómarastörfin. Ég gagnrýndi þetta viðhorf og nefndi þá m.a. að ýmsir dómarar höfðu orðið uppvísir að því að sitja sem dómarar í málum, þar sem fjallað var um beina hagsmuni þeirra sjálfra. Ýmsir þeirra hefðu t.d. dæmt í sakamálum gegn fyrirsvarsmönnum bankanna fyrir að hafa valdið viðskiptamönnum þeirra miklu fjártjóni í störfum sínum. Síðar komu fram á opinberum vettvangi upplýsingar um að þessir sömu dómarar hefðu tapað háum fjárhæðum við hrun bankanna. Þetta vissi hins vegar enginn, þegar þeir kváðu upp dóma sína. Þeir virtust telja vanhæfið í lagi ef enginn vissi um það. Kannski Jónas lögfræðingur telji þetta framferði teljast til vandaðrar dómsýslu. Svo mætti núna skilja árásir hans á mig fyrir að hafa skrifað blaðagrein, þar sem á þetta var bent. Samviska Arnars Þórs sýndist mér vera drifhvít við hliðina á „öðrum samviskum“ svo notað sé málfar yngri kynslóðarinnar um þessar mundir.

    Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands