• Brugðist við með þögninni

    Ég hef um langt árabil skrifað greinar um þjóðfélagsmál og birt á opinberum vettvangi. Þar hef ég oftast birt sjónarmið sem byggjast á lífsskoðun minni. Hún felst ekki síst í því að allir eigi að njóta ríkulegs frelsis í eigin lífi en bera fulla ábyrgð á því sem þeir segja og gera.

    Viðhorf mín hafa ekki alltaf notið vinsælda hjá öðrum. Til dæmis skrifaði ég greinar um að mannréttindareglan um sakleysi uns sekt sannast ætti við í refsimálum vegna ásakana um kynferðisbrot. Þá varð ég fyrir heiftarlegum árásum á persónu mína og var jafnvel sakaður um að taka málstað brotamanna gegn réttvísinni. Þetta var auðvitað alger fjarstæða því ég er og hef alltaf verið andvígur ofbeldisbrotum og þá ekki síst í þeim málaflokki sem hér er nefndur.

    Það er bæði undarlegt og ámælisvert að geta ekki tekið þátt í umræðum um þjóðmál án þess að þau séu persónugerð með því að veitast að málshefjanda persónulega.

    Svo hef ég líka upplifað andúð annarra á sjálfum mér fyrir afstöðu mína til fleiri mála. Þá hafa jafnvel gamlir vinir mínir snúið við mér baki og hætt að tala við mig þrátt fyrir viðleitni mína til að halda góðu sambandi við þá sem hafa haft aðrar skoðanir en ég á viðkomandi málefni. Í slíkum tilvikum hef ég sjaldnast notið þess að fá að heyra hvað hafi efnislega valdið þessari andúð. Það hafa þeir einatt ekki getað vegna þess að ég hef forðast að byggja skoðanir mínar á þjónkun við aðra hvort sem er einstaklinga eða hópa. Þetta virðast þeir ekki þola sem binda trúss sitt við hagsmuni sem þeir vilja styðja, þó að skynsamlegar röksemdir mæli ekki með því. Þá virðast oft ekki vera önnur úrræði en að veitast að ræðumanni með því að tala ekki til hans eða við hann.

    Ég man til dæmis vel eftir útkomu bókar minnar „Deilt á dómarana“, á árinu 1987. Hún vakti fyrst í stað ekki nokkra athygli á opinberum vettvangi, og var lítið sem ekkert um hana talað eða skrifað, þó að hún hafi fjallað um mjög alvarleg þjóðfélagsmál. Það breyttist reyndar síðar og er ég farinn að halda að hún hafi haft raunveruleg áhrif á þau málefni sem fjallað var um.

    Mér finnst viðbrögð þagnarinnar heldur smánarleg. Menn eiga miklu fremur að fagna því í orði ef fram koma sjónarmið um þjóðfélagsmál sem þeir vilja ekki samsinna. Slíkt gefur þeim tilefni til að bregðast við þannig að aðrir heyri. Ég hef oft hvatt menn til að andmæla mér ef þeir telja efni standa til og oft lýst því að ég sé tilbúinn að mæta þeim á fundum til að ræða málin, en þá nær alltaf án árangurs. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um þjóðþekkta menn sem svona hafa brugðist við.

    Ég læt það því eftir mér, kominn á efri árin, að hvetja menn til að hika ekki við að taka til máls til andófs við skoðunum sem þeir eru andvígir en halda samt í frið og jafnvel vináttu við þá sem hafa birt aðra afstöðu en þeir hafa til þjóðfélagsmálanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður sem lagt hefur það í vana sinn að skrafa um þjóðfélagsmál.

  • Einfalt?

    Í 2. mgr. 70. gr stjórnarskrárinnar er kveðið svo á að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

    Reglulega koma upp tilvik, þar sem menn eru bornir sökum um refsiverða háttsemi, sem þeir neita að hafa framið og ekki hafa sannast. Í slíkum tilvikum eru hinir kærðu einatt beittir viðurlögum á starfsvettvangi sínum. Hinum sakaða er þá oft vikið úr starfi sem hann gegnir eða beittur öðrum viðurlögum t.d. í íþróttum og þá meinað af þeim sem stjórna íþróttastarfseminni að taka opinberlega þátt í íþrótt sinni, svo þekkt dæmi séu nefnd. Algengast er að slík tilvik snúist um ásakanir um að hafa brotið gegn öðrum einstaklingum með kynferðislegum hætti, nauðgunum eða vægari refsiverðum brotum.

    Með nokkrum rétti má halda því fram að hinn sakaði maður eigi rétt á að verða meðhöndlaður eins og hann sé saklaus vegna reglunnar um sakleysi þar til sekt hans sannast. Líklega má halda því fram að öðrum beri siðferðileg skylda til að taka þessa afstöðu til málsins.

    En ætli málið sé svona einfalt? Við vitum að svona brot eru framin án þess að þau sannist ef sakborningur neitar. Oft eru aðeins tveir sem geta borið um brot, sakborningurinn og fórnarlamb hans. Það er líka oft ólíklegt að fórnarlambið beri fram sakir á hendur brotamanni, nema brotið hafi verið framið. Og þá er algengt að meiri hluti manna í okkar ófullkomna heimi „trúi“ þeim sem ber fram sakirnar, sem aftur leiðir til þess að hinir sökuðu eru beittir viðurlögum af einkaréttarlegum toga. Þeir missa þá ef til vill atvinnu sína eða eru útilokaðir af íþróttafélögum og samböndum þeirra til að taka þátt í keppnisíþróttum á vettvangi þeirra.

    Það er vissulega svo að reglan í stjórnarskránni, sem nefnd var í upphafi þessarar greinar, fjallar fyrst og femst um sakir fyrir dómi og felur í sér bann við refsiviðurlögum dómstóla ef sök er ósönnuð. Hún gildir ekki í einkaréttarlegum samböndum, þó að hún kunni þar oft að hafa siðferðilegt vægi. T.d getur maki þess, sem sakaður er um brot, slitið sambandinu, án þess að verða talinn brjóta lagalegan rétt á hinum sakaða. Hið sama má segja um vinnuveitanda hins sakaða eða heimildir þeirra sem stjórna þátttöku hans í keppnisíþróttum. Ekkert bannar þessum aðilum að beita hinn sakaða viðurlögum, eins og mörg dæmi eru um. M.a. er hugsanlegt að fyrirtæki og félagasambönd missi viðskipti og tekjur ef þau bregðast ekki við gagnvart hinum sakaða.

    En menn þurfa ekki að halda að málið sé svo einfalt sem að framan greinir vegna þess að þessi viðhorf greiða götu þeirra sem vilja bera fram ósannar sakir á hendur öðrum gagngert til að skaða þá með því að framkalla svona einkaréttarleg viðurlög. Jafnvel væri með slíkum hætti unnt að hindra sterkasta leikmann andstæðinganna í því að geta tekið þátt í úrslitaleiknum sem framundan er. Það er svosem ekki líklegt að slíkt gerist en möguleikinn er fyrir hendi. Svo er kannski líka möguleiki á að svipta menn atvinnunni með ásökunum um refsiverð brot þeirra.

    Heimurinn er ófullkominn. Þessar síðastnefndu kringumstæður valda því að menn verða að fara fram með varfærnum hætti og muna þá eftir þeirri gildu siðferðisreglu, að menn teljist saklausir af refsiverðum brotum nema sök þeirra hafi sannast a.m.k. með sæmilegri vissu. Hver sagði að lífið væri einfalt?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Fjölskyldan

    Í dag 13. ágúst er afmælisdagur tengdaföður míns Páls Bergþórssonar. Hann er orðinn 100 ára gamall!

    Í undirbúningi fyrir afmælisveisluna hefur komið í ljós hversu öflugt fyrirbæri fjölskyldan er. Páll hefur af eðlilegum ástæðum séð á eftir nær öllum vinum sínum og kunningjum sem voru á sama aldri og hann. En þá kemur öflug fjölskyldan til sögunnar. Börnin hans hafa sinnt honum reglulega um langt árabil og nú hefur fjölskyldan stofnað til meiri háttar veislu sem haldin verður í dag á afmælisdaginn.

    Ég er á þeirri skoðun að ekki séu í mannheimi til öflugri og samstæðari hópar en fjölskyldurnar. Þær eru yfirleitt alltaf til staðar fyrir alla einstaklinga innan hópsins. Þetta hefur nú sýnt sig í fjölskyldu Páls en er líka raunin með yfirleitt allar aðrar fjölskyldur. Við þurfum því ekkert að óttast aldurinn. Okkar nánustu munu verða til staðar með umhyggju sína og væntumþykju. Heyr.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Nýting orkuauðlinda

    Náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða að una við kol og olíu til framleiðslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldóoxíðs út í andrúmsloftið.

    En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála á Íslandi ráðamenn af vinstri væng stjórnmálanna, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Þannig var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar í Þjórsá sem er mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir forhertu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjun á byggingarstað. Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.

    Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldóoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.

    Það er undarlegt svo ekki sé meira sagt að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins, sem ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn viðhorf flokksins. Kominn er tími til að losa þjóðina við þetta afturhald svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkulindir, okkur öllum til hagsbóta.

    Þótt fyrr hefði verið.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Stjórnmálastefna

    Ég hef stutt Sjálfstæðisflokkinn allt frá því ég komst til vits og ára. Nú hefur sá flokkur breyst í að verða stefnulítill flokkur sem tekst aðallega á við flokka lýðskrums og vinstrimennsku um fáfengileg dægurmál í því skyni að ná af þeim atkvæðum. Það mun auðvitað ekki takast. Flokknum ber hins vegar að fylgja gömlum stefnumálum sínum sem og öðrum nýjum sem byggja á sama hugmyndagrunni. Þá mun hann afla sér meira fylgis en hann nú virðist hafa auk þess sem stjórnmál eiga að snúast um að koma fram hugsjónum en ekki að víkja frá þeim í atkvæðasöfnun. Hér fara á eftir þau mál sem ég tel að tilheyri hugsjónum flokksins og honum ber að setja í öndvegi. Þau ættu m.a. að valda því að hann segi sig úr lögum við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn. Ég er sannfærður um að þá muni hann geta aukið fylgi sitt til mikilla muna við næstu kosningar :

    Meginviðhorf í stefnu flokksins verði að láta íslenska borgara njóta frelsis til orðs og æðis og gæta þess í leiðinni að hver og einn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

    Lögð verði áhersla á að einstakir borgarar eigi að njóta mannréttinda með ábyrgð. Sú meginregla skal gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi borgaranna. Slíkar skerðingar nái ekki til þeirra réttinda sem vernduð eru í stjórnarskrá eða styðjast við skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum.

    Náttúrulegar auðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Við eigum að nýta þessa auðlind svo sem kostur er hér innanlands eða með því að ráðstafa afrakstri hennar til erlendra aðila, annað hvort með því að þeir nýti hana hér á landi eða með því að flytja hana til þeirra sé þess kostur.

    Það á að vera meginmarkmið að íslenskir borgarar eigi og reki starfsemi atvinnufyrirtækja í landinu en ekki ríkisvaldið, stofnanir þess og fyrirtæki. Þetta á meðal annars við um margvíslega starfsemi í heilbrigðiskerfinu. Þetta er til þess fallið að uppræta spillingu, því menn fara betur með eigið fé en annarra.

    Frelsi manna til orða og athafna eiga ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Allir skulu vera jafnir fyrir lögunum. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum. Til þess hafa menn yfirleitt enga heimild.

    Dómurum við Hæstarétt verði fækkað í fimm. Fara ber yfir lagareglur um dómstóla og starfsemi þeirra. Þar er þýðingarmest að afnema með öllu aðild starfandi dómara að skipun nýrra. Þurfi að kalla inn varadómara skuli dómsmálaráðherra annast það.

    Með samdrætti á starfsemi ríkisins verður unnt að draga úr skattheimtu. Á það við hvort sem um ræðir beina skatta eða skatta sem lagðir eru á almenna neyslu manna eða afnot þeirra af eignum í eigu ríkisins eða annarra opinberra aðila.

    Flokkurinn á að fallast á að til landsins fái að flytjast erlent fólk. Þar ber aðallega að hafa tvennt í huga: Að um sé að ræða fólk sem nýtir hér starfsorku sína og athafnasemi eða þá sem hallir standa og vilja leita hingað til að forðast ofbeldi á heimaslóðum sínum.

    Binda ber opinbera aðstoð sem mest við þá sem þurfa á henni að halda í stað þess að aðstoða alla sem notið geta opinberrar aðstoðar þó að þeir hafi sjálfir fjárhagslegt bolmagn til að njóta hennar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frumkvöðuls minnst

    Afar ánægjuleg tíðindi berast nú af íslenska fyrirtækinu Kerecis og sölu hlutafjár þess til lækningavörufyrirtækisins Coloplast sem skráð er í Danmörku. Nam söluverð hlutafjárins 1,3 milljörðum bandaríkjadala, sem mun vera ein stærsta sala á íslensku fyrirtæki sem um getur.

    Coloplast er fyrirtæki sem mun nýta þorskroð í plástur til sáragræðinga á erfið húðsár. Hefur slík meðferð fengið viðurkenningu á alþjóðlegum markaði. Fyrirtækið er stofnað á Ísafirði og hefur velgengni þess verið ævintýri líkust hér á landi og erlendis.

    Þegar þessi tíðindi berast minnist ég vinar míns Jóns Braga Bjarnasonar, sem ásamt Ágústu Guðmundsdóttur prófessor í matvælaefnafræði, stofnaði á árinu 1999 fyrirtækið Ensímtækni, sem síðar varð Zymetech. Jón Bragi og Ágústa voru frumkvöðlar í nýtingu þorskensíms í húðáburð, Pensím, sem hefur notið mikillar velgengni til lækninga á húðmeinum. Er þessi áburður afar áhrifamikill við þau mein. Til dæmis hefur fjölskylda mín notað hann með miklum og góðum árangri allt frá því hann kom á markað fyrir rúmum 20 árum síðan.

    Jón Bragi var prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands. Hann fæddist 1948 en féll ótímabært frá á árinu 2011. Hann var frumkvöðull við nýtingu þorskensíma í húðvörur. Þegar nú berast tíðindi af velgengni Coloplasts við nýtingu þorskroðs, m.a. sem launúða gegn veirusýkingum í öndunarvegi er ástæða til að minnast Jóns Braga og frumkvæðis hans. Blessuð sé minning öðlingsins Jóns Braga Bjarnasonar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Spilling

    Að undanförnu hafa komið upp mál þar sem einstaklingar og hópar eru grunaðir um að hafa að ólögum náð sér í verulegar peningafjárhæðir vegna þess eins að þeir hafi komist í aðstöðu til þess.

    Nýjustu dæmin eru kennd við Íslandsbanka og Lindarhvol. Þar hafa einstaklingar náð sér í háar fjárhæðir í tengslum við sölu hlutabréfa, sem verið hafa í eigu íslenska ríkisins. Það er eins og mannfólkið hafi tilhneigingu til að falla fyrir freistingum til að skara eld að eigin köku ef það einfaldlega telur sig komið í aðstöðu til þess og þá er sama hvað lögmætinu líður.

    Mál af þessum toga hafa oft komið upp á Íslandi á undanförnum árum og áratugum. Jafnan er þolandinn þá íslenska ríkið eða með öðrum orðum almenningur í landinu. Þetta stendur gjarnan í tengslum við ráðstöfun fjár ríkisins og þá oftast í formi hlutabréfa þess eða eignarhluta í atvinnufyrirtækjum, oft í tengslum við sölu á slíkum verðmætum.

    Menn ættu að taka eftir því að misnotkun af þessu tagi kemur miklu síður upp þegar ráðstafað er eignarhlutum í fyrirtækjum í einstaklingseigu. Af hverju ætli það sé? Það er vegna þess að þá gæta eigendurnir sjálfir fjár síns og þeir sem sælast til þess verða þá að svíkja það úr höndum eigendanna sjálfra. Það er sjaldnast hægt vegna þess að eigendurnir gæta þess.

    Af þessu má draga þá almennu ályktun að við ættum að hætta að gera íslenska ríkið að þátttakanda í rekstri fyrirtækja í atvinnulífinu. Hann á heima í höndum einstaklinga og félaga þeirra. Við gagngerar breytingar í þá átt myndi strax draga verulega úr spillingu á borð við þá sem þjóðin hefur mátt líða fyrir og lýst er að framan. Nóg er nú samt.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Dulbúið misrétti

    Sá mæti blaðamaður Ásgeir Ingvarsson ritaði grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins miðvikudaginn 5. júli s.l. sem hann kallar „Ranglæti verður ekki bætt með ranglæti.“ Í grein sinni segir Ásgeir frá þróun sem orðið hefur áberandi í Bandaríkjunum, þar sem vegur einstaklinga úr þeim hópum fólks sem í fortíðinni hefur verið mismunað, hefur nýverið verið bættur svo að þeir séu nú við ráðningu í störf teknir framyfir þá sem í fortíðinni hafa notið betri stöðu vegna óskyldra eiginleika. Þar er þá um að ræða eiginleika, sem ekki hafa skipt máli í því starfi sem um ræðir, svo sem kynferði eða húðlit.

    Dæmi um þetta eru konur, sem í gegnum tíðina hafa þótt standa körlum að baki, og svarta menn sem hafa þótt eftirbátar hinna hvítu. Í fortíðinni hefur fólk úr þessum hópum verið beitt rangindum vegna þátta sem hreint ekki koma við hæfileikum þess til að gegna þeim störfum sem um ræðir.

    Hér hafa verð höfð endaskipti á hlutunum sem einatt leiða til þess að hinir hæfustu eru ekki valdir til starfanna heldur aðrir hæfileikaminni t.d. vegna húðlitar eða kynferðis. Þetta brýtur í bága við sjónarmið um jafnrétti borgaranna sem þó njóta verndar í stjórnarskrá.

    Við Íslendingar könnumst vel við þróun af þessu tagi. Einkum hefur nú síðustu árin orðið áberandi sú þróun hér á landi að konur séu teknar fram yfir hæfileikameiri karla til alls konar ábyrgðarstarfa. Ég man t.d. eftir því að við skipun tveggja dómara við Hæstarétt á árinu 2020 urðu tvær konur fyrir valinu sem vafalaust stóðu a.m.k. tveimur umsækjendum af karlkyni að baki. Kona sat þá í embætti dómsmálaráðherra. Eftir þennan gjörning lét hún mikinn í fjölmiðlum og hrósaði hún sér af því að hafa jafnað kynjahlutfall dómara í réttinum með því að skipa konurnar. Öllum sem til þekktu var hins vegar ljóst að a.m.k. tveir karlmenn, sem um sóttu, stóðu þessum, annars ágætu konum, framar að því er hæfni og starfsreynslu snerti. Sýnilegt var að ákvörðun ráðherrans byggðist á kynferði umskjendanna en ekki hæfni þeirra til að gegna þessum embættum. Kannski hefur hún verið að sverma eftir atkvæðum kvenna í kosningum?

    Finna má mörg hliðstæð dæmi um svona ráðningar fólks til starfa, bæði hjá ríkisvaldinu og einkafyrirtækjum. Þetta virðist ráðast af viðleitni þeirra, sem skipa í störfin, til að sýna hversu þeir eru hlynntir jafnrétti kynjanna. Það gerist þá á kostnað viðleitninnar til að skipa hæfustu einstaklingana. Og þjóðfélagið líður fyrir þó að ekki sé unnt aðlegga tölulegan mælikvarða á skaðann sem af þessu leiðir.

    Í raunverulegu jafnrétti felst t.d. að séu sjö konur sem um dómarastöðu sækja taldar standa karlmönnum framar, á Hæstiréttur að vera skipaður sjö konum. Hér á kynferði umsækjenda um embætti engu máli að skipta.

    Hvenær ætli mönnum lærist að raunverulegt jafnrétti til skipunar í störf næst ekki fyrr en einstaklingarnir verða metnir á grundvelli hæfileika sinna en ekki kynferðis, húðlitar eða annarra eiginleika sem engu máli skipta fyrir það starf sem í hlut á?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hugsun þrælsins?

    Hvaða heimild hefur íslenska ríkið til að banna borgurum landsins að veiða villt dýr, eins og nú hefur verið gert um hvalina? Ég lít svo á að hér sé um að ræða skerðingu á atvinnufrelsi, sem varði við 75. gr. stjórnarskrárinnar.

    Samkvæmt ákvæðinu má ekki skerða atvinnufrelsi nema almannahagsmunir krefjist þess. Heimild ríkisins til að banna hvalveiðar er þessu skilyrði háð. Samkvæmt því mætti takmarka veiðar á villtum dýrum vegna ofveiði, því þá væru möguleikar annarra til veiðanna skertir. Einnig mætti ríkið sjálfsagt mæla svo fyrir í lögum að ekki megi drepa villt dýr á svæðum sem háð eru yfirráðum einstakra manna svo sem eignarrétti. Það ætti þó ekki að vera þörf á því vegna þess að eigendurnir sjálfir ættu að vera fullfærir til að gæta hagsmuna sinna, m.a. til veiða á sínum eigin löndum og banna þar veiðar annarra.

    Þetta bann við hvalveiðum sýnist mér vera rökstutt með því að hætt sé við að hvalir finni til sársauka við veiðarnar! Þetta er ekki gild ástæða þegar af þeirri ástæðu að hið sama á við um veiðar á öðrum villtum dýrum sem og reyndar á drápi dýra almennt.

    Margir Íslendingar virðast vera búnir að temja sér þá hugsun að handhafar ríkisvalds megi vasast í hvers manns koppi, m.a. með því að banna mönnum hvers kyns háttsemi sem valdamönnum mislíkar, sama hvaða ástæður eru hafðar fyrir því. Landsmenn ættu fremur að átta sig á því meginviðhorfi í ríki sem verndar mannréttindi, að skerðingar á þeim samkvæmt heimildum laga skulu sæta þröngri lögskýringu, sé á annað borð heimilt að setja þau.

    Hvernig væri að Íslendingar hættu að lúta hugsun þrælsins og tækju til við að lifa eins og frjálsir menn?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Aðferðir í lögfræði

    Eins og ég hef áður lagt áherslu á verður dómari sem leitar að réttri niðurstöðu í máli sem hann dæmir, að ganga út frá því aðeins ein niðurstaða sé rétt. Þó að fleiri en ein niðurstaða komi til greina má hann ekki telja sér trú um að hann megi velja þá sem honum hugnast best. Beiting réttarheimilda ræður en ekki persónuleg afstaða dómarans.

    Dómstólar mega ekki byggja dóma sína á öðru en beitingu réttarheimilda sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Margir lögfræðingar telja að honum sé heimilt að byggja dóma sína á lögum sem síðar voru sett en voru ekki komin í gildi þegar atvik máls urðu. Þetta er honum óheimilt.

    Viðurkenndir fræðimenn í lögfræði, halda því fram að dómstólum sé heimilt að setja ný lög; jafnvel að þeir takist á við löggjafann um lagasetninguna. Þetta er fjarstæða. Dómstólar hafa enga slíka heimild enda er skýrt í stjórnarskránni að þeir skuli starfa eftir lögum. Þá er auðvitað átt við lög sem í gildi voru þegar atvik máls urðu. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá almenningi til lagasetningar, eins og alþingismenn hafa.

    Þessi sannindi um lögfræðilegar úrlausnir ættu sem flestir að þekkja, til þess að geta forðast misnotkun af hálfu þeirra sem fara með dómsvaldið í landinu. Hafa skal nokkur orð um þetta.

    Við úrlausn deilumála fyrir dómi er beitt því sem við lögfræðingar köllum réttarheimildir. Þeim og einungis þeim má beita þegar leyst er úr málum. Þýðingarmikið er að menn átti sig á því að í þessu felst mikil takmörkun á því valdi sem dómarar fara með. Þeir hafa ekki nokkra heimild til að láta persónulega eða pólitíska afstöðu hafa áhrif á niðurstöðu sína um sakarefni dómsmálanna. Þar á efni viðeigandi réttarheimildar að ráða, en stundum þurfa dómstólar að leysa úr ágreiningi um hvert það sé.

    En hverjar eru þá réttarheimildirnar sem við nefnum svo? Þar standa efst á blaði hin settu lög; æðst er stjórnarskráin en síðan þau lagafyrirmæli sem löggjafinn, Alþingi, hefur sett og birt hafa verið almenningi með lögmæltum hætti. Almenn lög verða að samþýðast stjórnarskrá og eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort svo sé ef á þetta reynir í málum sem réttilega eru fyrir þá lögð. Á grundvelli heimilda í settum lögum setja svo handhafar framkvæmdavalds stjórnsýslufyrirmæli, sem nefnd eru reglugerðir, tilskipanir o.fl. Falla slík stjórnsýslufyrirmæli undir það sem lögfræðingar kalla „sett lög í rýmri merkingu.“ Allar þessar settu reglur verður að birta almenningi áður en þær taka gildi. Er kveðið á um skylduna til þess í 27. gr. stjórnarskrárinnar.

    Dómstólar verða auðvitað að leggja dóm á málin þó að ekki sé til að dreifa settri lagareglu um þann ágreining sem fyrir dóm er lagður. Þá koma til „réttlægri“ heimildir. Fræðimenn getur greint á um hvernig eigi að skilgreina að minnsta kosti sumar þeirra. Yfirleitt eru hér að minnsta kosti nefndar sem réttarheimildir, réttavenja, fordæmi og meginreglur laga og jafnvel eðli máls, sem svo er nefnt.

    Ekki er það ætlun mín hér að fara ofan í saumana á skilgreiningum á þessum heimildum réttarins en í því efni geta menn haft mismunandi sjónarmið. Ég legg hins vegar áherslu á meginatriði sem ég tel að ávallt verði að leggja til grundvallar við úrlausn á réttarágreiningi, það er að reglan sem beitt er hafi verið til þegar þau lögskipti áttu sér stað sem ágreiningi valda. Málið snúist um að finna hana. Það geti aldrei komið til greina að dómstóllinn hafi heimild til að búa til nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt á ágreiningsefnið.

    Svo undarlega sem það kann að hljóma í huga lesandans eru uppi kenningar meðal lögfræðinga um að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. Þessu hafna ég alfarið. Það er eins og menn haldi því þá fram í alvöru að leysa skuli úr réttarágreiningi með því að fela úrlausn hans mönnum sem hafi heimild til að móta nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt til lausnar á honum. Slíkt gengur aldrei upp.

    Það er til dæmis þýðingarmikil grunnregla í réttarríki að lög séu birt áður en þeim er beitt. Við Íslendingar höfum, svo sem fyrr var nefnt, lögfest í stjórnarskrá fyrirmæli um þetta. Afturvirk „dómaralög“ geta aldrei uppfyllt þá þýðingarmiklu kröfu. Kannski telja sumir að deila um þetta skipti ekki miklu máli. Þar er ég á öðru máli. Sá maður sem starfar sem dómari verður að gera sér skýra grein fyrir mörkum þess mikla þjóðfélagsvalds sem hann fer með. Hugsun hans um þetta er til þess fallin að hafa bein og óbein áhrif á öll hans störf.

    Í umræðum íslenskra lögfræðinga um réttarheimildir og starfsemi dómstóla hef ég sagt að menn verði ávallt að ganga út frá því að einungis ein niðurstaða sé rétt í dómsmálinu. Réttarheimildin sem beita beri hafi verið til staðar þegar atvik málsins urðu. Málið snúist um að finna hana og beita henni til úrlausnar á ágreiningi málsaðila. Ganga verði út frá því við leitina að ein niðurstaða sé rétt. Dómarinn megi aldrei telja sér trú um að hann eigi val milli fleiri kosta. Raunar hljóta þeir sem telja hann eiga slíkt val að þurfa þá að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir telja að honum beri að beita við valið. Nema þeir telji hann eiga „frjálst“ val.

    Það er að mínum dómi undarlegt ef skoðanir um þetta eru skiptar meðal lögfræðinga, svo augljóst sem þetta ætti að vera. Hefur til dæmis einhver einhvern tíma séð í forsendum dóms lýst tveimur jafngóðum niðurstöðum, þar sem dómari hefur klykkt út með því að lýsa yfir því að hann hafi ákveðið að taka aðra fram yfir hina? Auðvitað ekki. Er þetta þá vegna þess að þessi aðferðafræði sé leyndarmál? Dómarinn megi gera þetta en bara ekki segja frá því? Það er satt að segja ótrúlegt að menn skuli heyra alvörugefna lögfræðinga, jafnvel meðal starfandi dómara, láta uppi það sjónarmið að dómarar eigi svona valrétt.

    Ég hef ekki legið á skoðunum mínum á þessu. Ég hef aldrei sagt að þessi leit að hinni einu réttu niðurstöðu sé ávallt auðveld eða kunni ekki að orka tvímælis. Ég hef hins vegar talið afar þýðingarmikið að þeim, sem með dómsvaldið fara, sé ljós sú takmörkun á valdi þeirra sem felst í því að þeir eru að leita viðeigandi réttarheimildar en ekki skapa hana.

    Það getur sjálfsagt verið freistandi fyrir þá sem fara með þjóðfélagsvald á ákveðnu sviði að beita því án þeirra takmarkana sem við eiga. Þannig geta þeir komið fram áhugamálum sínum hvort sem þau eru af stjórnmálalegum toga eða tengjast persónulegum áhugamálum. Einhvern tíma heyrði ég tilbúna dæmisögu um Bandaríkjamann sem vildi banna almenningi þar í landi að eiga skotvopn. Hann bauð sig fram til þings með baráttumál sitt á vörunum og var fjarri því að ná kjöri því mikill meirihluta Bandaríkjamanna vildi fá að eiga skotvopn. Maðurinn fór þá bara í lögfræðinám, tók lögfræðipróf og varð dómari. Í því starfi fékk hann tækifæri til að komast að þeirri niðurstöðu sem dómari að almenn skotvopnaeign væri óheimil. Til rökstuðnings bjó hann bara til nýja reglu sem kvað á um þetta. Ætli það sé svona sem menn vilja að dómstólar starfi?

    Svo undarlegt sem það kann að virðast hef ég á undanförnum áratugum nokkrum sinnum orðið fyrir hálfgerðum árásum fyrir skoðanir mínar á meðferð réttarheimilda og þeirri viðmiðun að sá sem leysir úr hafi ekki val milli margra kosta heldur verði að ganga út frá því að hann sé að leita að einni réttri niðurstöðu. Sérstaklega virtist orðræða mín um þetta hafa farið fyrir brjóstið á gömlum kennara mínum, Sigurði Líndal prófessor, sem beinlínis veittist að mér á opinberum vettvangi vegna þess arna. Í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014 (sjá bls. 113-136), gerði ég nokkra grein fyrir deilum mínum við Sigurð meðal annars um þetta, því mér finnst hún sýna ákveðinn kjarna í álitaefnum sem þessu tengjast og þá einnig í skoðunum mínum um réttarheimildirnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður