• Heilræði

    Eftir að hafa lifað langa ævi tel ég mig hafa lært eftirfarandi sannindi: Ekki leita hamingjunnar hjá öðrum. Leitið hennar í sjálfum ykkur með því að breyta ávallt rétt að ykkar eigin mati. Hlustið á skoðanir annarra en ekki láta þær ráða skoðunum ykkar fyrr en þið hafið að yfirveguðu ráði lagt mat á þær. Munið líka að lífshamingjan er ekki fólgin í að sækjast eftir ríkidæmi og völdum. Hún er fólgin í ástinni og þá fyrst og fremst á þeim sem næstir ykkur standa, oftast maka ykkar og börnum. Leyfið ykkur sjálfum að sofna að kvöldi sátt við afstöðu ykkar og gjörðir á deginum sem liðinn er. Þá mun svefninn veita ykkur hvíld og styrk til að fást við verkefni næsta dags.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Sjálftaka

    Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum að einstakir lögmenn og stofur þeirra hafi tekið tugi milljóna króna í þóknun á mánuði fyrir að hafa stýrt skiptum á slitabúum félaga sem komin eru í þrot. M.a. var nú sagt frá því í blaði að þekktur lögmaður á stórri stofu hefði haft 25 milljónir í tekjur á mánuði við slit á svona búi á árinu 2015. Þá hefur komið í ljós að lögmannsstofa þessa manns hafi tekið viðlíka þóknanir fyrir slitastjórn í öðrum þrotabúum. Hið sama mun eiga við í tilvikum þar sem aðrar stofur eiga hlut að máli.

    Þetta er með miklum ólíkindum og er stétt lögmanna til mikils vansa. Svo mun standa á að slitastjórarnir sjálfir skammta sér svona þóknanir. Þeir sem eiga fjárhagsmuni í búunum virðast ekki vilja að bera þessa sjálftöku undir dóm, hverju sem þar er um að kenna.

    Þetta framferði lögmannanna er stórlega vítavert og hlýtur að brjóta gróflega gegn starfsskyldum þeirra við að gæta þeirra hagsmuna, sem þeim er trúað fyrir. Ekki er ólíklegt að í þetta kunni að varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Í ofanálag hefur þessi háttsemi þau áhrif að lögmannastéttin er stimpluð sem hópur ræningja sem notfærir sér aðstöðu sína til að féfletta aðila sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir.

    Ástæða er til að skora á alla þá sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari sjálftöku lögmanna til að bregðast nú við og leita allra lögmætra leiða til að draga þessa sjálftökumenn til ábyrgðar fyrir háttsemi sína.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

    Viðbót: Þó að ekki komi það fram í pistli mínum var þar verið að fjalla um skiptameðferð á Straumi í textanum. Ég byggði það sem ég skrifaði á pistli úr Mannlífi. Nú hefur mér verið bent á að nauðasamningum fyrir Straum-Burðarás lauk á árinu 2010. Hef ég sannreynt að það er rétt. Lögmaðurinn, sem er að vísu ekki heldur nafngreindur, hafði því ekki þær þóknunartekjur sem ég taldi í þessari frásögn. Biðst ég velvirðingar á þessu því öll viljum við hafa það sem sannara reynist. Hvað sem þessu líður er samt stóra málið að margir lögmenn notuðu tækifærið við slitameðferð, einkum banka eftir hrunið, að sjálftaka sér þóknanir sem fóru fram úr öllu velsæmi.

  • Ég er ekki að grínast

    Eins og ég hef skrifað um áður, komu í nóvember 2016 opinberlega fram upplýsingar um að nokkrir dómarar Hæstaréttar hefðu átt umtalsverðar hlutafjáreignir í íslensku bönkunum í hruninu svonefnda. Höfðu þessir dómarar þá orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni. Allt að einu höfðu þeir setið í dómi gegn bankamönnum sem voru sakaðir og dæmdir fyrir að hafa valdið hruni bankanna og þar með tjóni dómaranna. Fengu bankamennirnir þunga refsidóma fyrir þessar sakir. Við meðferð málanna vissi enginn um þessa hagsmuni dómaranna. Við blasti að þeir höfðu af þessum sökum verið vanhæfir til setu í dómi yfir þessum sakborningum.

    Svo furðulegt sem það má teljast töldu einhverjir að þetta hefði ekki valdið vanhæfi dómaranna í sakmálunum. Meðal þeirra var þáverandi formaður dómarafélagsins. Kom hann fram í fjölmiðlum til að verja dómarana og mótmælti því harðlega að þeir hefðu af þessum sökum verið vanhæfir til meðferðar dómsmálanna yfir bankamönnunum. Hann hét og heitir ennþá Skúli Magnússon. Situr hann nú í embætti umboðsmanns Alþingis og skilaði nýverið áliti um að fjármálaráðherra hefði verið vanhæfur til að skrifa uppá sölu ríkisbanka sem bankasýslan hafði samið um við kaupendur hans, þ.m.t. við félag sem faðir ráðherrans hafði átt hlut í. Aðild ráðherrans að þessum samningum var einungis formlegs eðlis og hafði hann ekkert haft með þessa sölu að gera.

    Allir ættu að sjá að þessar sakir ráðherrans voru hreinir smámunir við hliðina á hæfi dómaranna í málunum á hendur bankamönnunum. Samt skrifaði umboðsmaðurinn núna álit þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði verið vanhæfur við uppáskrift á samninginn um sölu bankans. Var umboðsmaðurinn greinilega búinn að skipta um skoðun á reglum um vanhæfi og hafði þar snúist um heilan hring.

    Ég birti fyrir nokkrum dögum á fasbókarsíðu minni slóð að Kastljósþætti frá 7. desember 2016, þar sem þáverandi formaðurinn hafði af ákafa varið dómarana gegn ásökun um að hafa verið vanhæfir við meðferð sakamálanna sem þá voru til umræðu. Hér er þátturinn.

    Og ég er ekki að grínast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hegningarlög umskrifuð

    Þættir RÚV um hrunið á síðustu dögum hafa verið fróðlegir og þar hefur ýmislegt komið fram sem skýrir hluta af þeirri atburðarás sem varð. Tvennt fannst mér þó vanta í frásögnina, sem hvort tveggja snertir framgöngu Hæstaréttar í sakamálunum sem voru höfðuð gegn stjórnendum bankanna.

    Það fyrra voru dómar á hendur þeim fyrir að hafa gerst sekir um brot sem nefnast umboðssvik. Þessi brot eru gerð refsiverð með 248. gr almennra hegningarlaga, þar sem lýst er svonefndum auðgunarbrotum. Í upphafi kaflans um auðgunarbrot er svofellt ákvæði sem á við öll brot sem kaflinn tekur til: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“

    Í 248. gr. er umboðssvikabrotinu lýst svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

    Af þessum ákvæðum leiðir að ekki má refsa fyrir umboðssvik nema tilgangur brotamanns til auðgunar með broti sé sannaður í málinu. Í forsendum dóms ber þá að skýra með fullnægjandi hætti hvernig sú sönnun er fundin.

    Margir þeir sem sakfelldir voru í þessum hrunmálum voru taldir hafa gerst sekir um umboðssvik. Í forsendum dómanna var þó hvergi skýrt hvernig sönnun um tilgang til auðgunar væri fundin, enda liggur fyrir að slíkur tilgangur vakti ekki fyrir þessum mönnum. Þeir voru einfaldlega að reyna að bjarga bönkunum frá fjártjóni þó að viðleitni þeirra til þess hafi sjálfsagt ekki verið gáfuleg eða vel heppnuð.

    Í forsendum Hæstaréttar í þessum málum var annað skilyrði sett í staðinn fyrir skilyrðið um auðgunarásetning. Í staðinn var sakfellingin sögð byggjast á því að hinir ákærðu hefðu með háttsemi sinni valdið mikilli hættu á að viðkomandi banki yrði fyrir fjártjóni. Þetta geta dómstólar ekki gert. Þeir verða beita ströngum mælikvarða á lögákveðin skilyrði fyrir refsingum og er auðvitað algerlega óheimilt að setja inn ný skilyrði í stað þeirra sem lagaákvæði kveður á um. Í dómum réttarins er að finna mörg dæmi um að ekki sé unnt að refsa mönnum nema sannað sé að öll skilyrði refsireglu séu uppfyllt.

    Ég þekki engin önnur dæmi um að Hæstiréttur hafi farið fram með þessum hætti. Það er eins og dómurunum við réttinn hafi legið mikið á um að sakfella hina ákærðu. Kannski til að sýna landsmönnum að rétturinn væri nú ekki feiminn við að beita þá hörðum viðurlögum fyrir fall bankanna og það fjártjón sem margir biðu fyrir vikið. Dómstólar mega hins vegar aldrei láta meinta afstöðu almennings til sakbornings hafa minnstu áhrif á dóma sína.

    ______________

    Í beinu framhaldi af þessu síðastnefnda kemur hitt atriðið sem aðeins var lítillega minnst á í sjónvarpsþáttunum en var samt grafalvarlegt. Þar á ég við beina hagsmuni sumra dómara Hæstaréttar af fjárhag bankanna, þar sem dómararnir höfðu sjálfir tapað háum fjárhæðum við hrunið. Þetta hefði auðvitað átt að leiða til vanhæfis þeirra dómara sem svona stóð á um. Verið var að dæma um sakir bankamanna fyrir að hafa valdið þessu tjóni. Um þetta vissi enginn þegar dómarnir voru kveðnir upp, því dómararnir þögðu um þetta og dæmdu svo sakborningana til frelsissviptinga. Þetta var ljótur leikur.

    Stórtækastur í þessu virðist hafa verið Markús Sigurbjörnsson þáverandi forseti Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum úr Glitni-banka hf. hafði hann átt 13.832 hluti í Glitni-banka hf. sjálfum. Síðan hafði hann afhent þessum sama banka 61.450.000 krónur til svonefndrar eignastýringar í janúar og febrúar 2008. Lá fyrir að þessir fjármunir höfðu rýrnað um 7.607.000 krónur (verðbréfasjóðir) í hruninu.

    Hér tek ég dæmi af dómi yfir einum hinna sakfelldu M, sem hafði verið dæmdur af Hæstarétti 3. desember 2015 fyrir umboðssvik til að sæta fangelsi í 2 ár (H.478/2014). Þrír aðrir sakborningar voru í sama dómi dæmdir fyrir umboðssvik. Þessar sakfellingar voru allar byggðar á því að ákærðu hefðu valdið bankanum verulegri fjártjónsáhættu við lánveitingu til fyrirtækisins BK-44 ehf. Ekki var í forsendum dómsins minnst á auðgunartilgang.

    Einn dómaranna í þessu máli var Markús Sigurbjörnsson forseti Hæstaréttar. Eftir að fram voru komnar upplýsingar um ofangreint fjártjón hans í hruninu, freistaði M þess að fá mál sitt endurupptekið vegna vanhæfis þessa dómara. Beindi hann beiðni sinni til endurupptökunefndar á árinu 2017. Féllst nefndin á beiðnina með úrskurði 23. október 2020. Ekki er þörf á því hér að reifa forsendur nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni. Mál M var svo endurupptekið og dæmt með hæstaréttardómi 25. júní 2022 (mál nr. 35/2020). Var ekki fallist á að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í máli M og var hinu endurupptekna máli því vísað frá Hæstarétti.

    Þetta var kostuleg niðurstaða svo ekki sé meira sagt. Byggðist hún á því að fjártjón Markúsar dómara yrði ekki talið verulegt, þegar „horft er til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings þurfti að þola á þessum tíma“. Þá gæti umrædd rýrnun heldur ekki talist veruleg í íslensku samhengi og „þegar litið er til þess óstöðugleika í efnahagsmálum sem gætt hefur hér á landi á liðnum áratugum í samanburði við nágrannalönd.“

    Ekki er á því nokkur vafi að fjártjón dómara, á borð við það sem Markús Sigurbjörnsson varð fyrir, veldur vanhæfi dómara, þegar maður, sem talinn er hafa átt þátt í að valda tjóninu, er sóttur til saka vegna þess. Þegar þessi dómur var kveðinn upp hafði Markús Sigurbjörnsson látið af störfum. Dóminn kváðu upp hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson auk tveggja settra dómara af neðri dómsstigum. Skal minnt á að Markús Sigurbjörnsson hafði verið eins konar guðfaðir dómaranna, þ.m.t. þeirra sem kváðu upp dóminn.

    Mannréttindadómstóll Evrópu mun hafa til meðferðar kæru, þar sem hæfi Markúsar til meðferðar hrunmálanna er borið undir dóminn. Hefur meðferð málsins þar ytra tekið langan tíma en talið er líklegt að heyrast muni frá dómstólnum innan tíðar.

    Þetta er einfaldlega enn eitt dæmið um misnotkun Hæstaréttar í þágu annarlegra viðhorfa dómaranna, sem alls ekki eiga né mega koma við sögu við úrlausn mála hjá dómstólum og þá allra síst hjá æðsta dómstól þjóðarinnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Vonlaus aðferð

    Það er ekkert minna en skelfilegt að sjá hvernig flestar þjóðir heimsins hafa á undanförnum áratugum fengist við þann vanda sem vissulega fylgir notkun manna á fíkniefnum. Í sjónvarpsþáttum, t.d. þáttaveitunni Netflix, hafa m.a. verið sýndir fróðlegir þættir sem bera nafnið Narcos. Þetta eru leiknir þættir sem styðjast við raunverulega framvindu mála í Kólumbíu í Suður-Ameríku á síðari hluta 20. aldar. Þar var háð blóðug styrjöld stjórnvalda í landinu gegn glæpamönnum sem framleiddu og dreifðu fíkniefnum. Þessi efni voru í stórum stíl flutt ólöglega til Bandaríkjanna, þar sem salan var gríðarleg og stjórnvöld réðu ekki neitt við neitt í að hindra dreifinguna.

    Þetta er harmþrungin saga. Í stríðinu gegn fíkniefnum hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og margs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu gegn fíkniefnunum. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan hafi mildast er árangurinn af þessari skelfilegu stefnu smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann.

    Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

    Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Svar við grein lögmanns

    Á Vísi er í dag, 29. sept., að finna grein eftir Sævar Þór Jónsson lögmann, þar sem hann skrifar um gagnrýni, sem ég birti á fasbókarsíðu minni um daginn. Notar greinarhöfundur fyrirsögnina: „Jón Steinar tekur upp hanskann“. Er svo að skilja á honum að ég hafi verið efnislega fylgjandi niðurstöðu dómarans.

    Þessi málflutningur er auðvitað afbökun á efni greinar minnar. Ég var að gagnrýna fréttaflutning RÚV. Þar var fjallað um afgreiðslu dómsins á refsikröfu á hendur sakborningnum. Gagnrýni mín laut að því að í fr,ett RÚV hefði við þessa umfjöllun um dóminn ekki verið vikið að ítarlegum rökstuðningi héraðsdómarans um ástæður þess að refsingin var felld niður.

    Sérfræðilæknir mat þennan sakborning ósakhæfan og var það meginástæða dómsins um niðurfellingu refsingarinnar, eins og dómarinn gerði grein fyrir í forsendum sínum. Í grein minni var spurt:

    „Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum?“

    Í forsendum dómsins var vísað til ákvæðis í 15. gr almennra hegningarlaga þar sem segir: „Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“

    Með þessum skrifum var ég ekki að taka upp neinn hanska fyrir efnislega niðurstöðu dómarans einfaldlega vegna þess að ég gat auðvitað ekki lagt neinn dóm á réttmæti þeirrar niðurstöðu hans að telja manninn ósakhæfan. Ég var að gagnrýna fréttaflutninginn um dóminn, þar sem ekki var gerð nein grein fyrir þessu.

    Höfundur greinarinnar í Vísi er starfandi lögmaður. Hann virðist vilja breyta almennum hegningarlögum á þann veg að refsa megi mönnum sem eru ósakhæfir vegna óskar brotaþola um það. Um þetta var ég ekki að fjalla, en get af þessu tilefni látið í ljósi þá skoðun mína að mér finnst slík breyting á lögunum ekki koma til greina. Vill lögmaðurinn afnema þessa reglu, sem gildir hvarvetna í hinum vestræna heimi? Hann hefur auðvitað fulla heimild til þeirrar afstöðut, þó að ég efist um að hann fái marga kunnáttumenn til að taka undir það sjónarmið.

    Óþarfi er að hafa mörg orð um þá staðreynd að ofbeldi sem fólk er beitt inni á heimilum þess er með því auvirðislegasta sem þekkist. Á heimilum sínum eiga allir að geta notið öryggis fyrir ofbeldismönnum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Íslenskt velferðarmál

    Í Morgunblaðinu í dag 27. september er birt frétt um að Landsvirkjun hafi á ný sótt um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Svonefnd úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála hafði með úrskurði 15. júní 2023 sl. fellt fyrra leyfi Landsvirkjunar úr gildi en það leyfi hafði Orkustofnun veitt 6. desember 2022. Þessi úrskurður nefndarinnar er mikill langhundur, þar sem menn vefja málæðinu utan um höfuð sitt til að geta komist að þessari skaðlegu niðurstöðu.

    Ég hef skrifað um það áður að umhverfisvænar náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga, á sama tíma og fæstar aðrar þjóðir eiga sama kost á að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða margar hverjar að una við kol og olíu til vinnslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið.

    En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála nefndir og ráðamenn, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Með úrskurðinum frá í sumar var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar sem er augljóslega mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir áhrifamiklu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjum á byggingarstað. Húsbyggingar í Reykjavík eru gott dæmi um það! Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.

    Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldíoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.

    Það er undarlegt svo ekki sé meira sagt að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins og jafnvel undir yfirstjórn hans. Sá flokkur ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn sjónarmið hans. Kominn er tími til að losa þjóðina við afturhald langhundanna svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkulindir, okkur öllum til hagsbóta.

    Það er óskandi að afturhaldinu muni ekki takast að hindra framgang þessarar nýju umsóknar Landsvirkjunar. Verði það reyndin ætti Alþingi án tafar að veita sérstaka lagaheimild til að unnt verði að hrinda þessu þjóðþrifamáli í framkvæmd.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Afbökuð frétt hjá RÚV

    Það er varla frambærilegt að fréttastofa RÚV skuli segja fréttir af dómi í alvarlegu sakamáli á þann hátt sem gert var s.l. sunnudagskvöld. Um er að ræða dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. ágúst s.l. þar sem sakborningi var ekki gerð refsing fyrir endurtekin og alvarleg brot með líkamsárásum á sambýliskonu sína. Sjónvarpað var viðtali við brotaþolann til að lýsa þeirri afstöðu hennar að refsa hefði átt manninum með þungum fangelsisdómi en þvert á móti hefði refsing verið felld niður. Ekkert væri í dóminum tekið tillit til sjónarmiða hennar um að fella hefði átt þungan refsidóm yfir manninum fyrir þessi alvarlegu brot. Svo var að sjá sem fréttamaðurinn sem tók viðtalið við brotaþolann tæki undir þessi sjónarmið. Að minnsta kosti var ekkert reynt að skýra fyrir áhorfendum hvers vegna dómsniðurstaðan var með þessum hætti þó að það sé ítarlega skýrt og rökstutt í forsendum dómsins. Samt var verið að fjalla um refsiákvörðun dómsins.

    Tekið skal fram að svona mál skiptast í tvo þætti. Annars vegar er leyst úr um refsingu brotamanns og hins vegar um bótakröfu brotaþola. Brotaþolinn í þessu máli fékk sér tildæmdar bætur þó að ég geti tekið undir með henni að þær voru alltof lágar. Þær koma refsingu brotamannsins hins vegar ekkert við. Aðildin að refsikröfunni er í höndum saksóknara sem í þessu máli krafðist refsingar yfir manninum eins og venjulegt er.

    Í almennum hegningarlögum er í 15. gr. að finna svofellt ákvæði:

    „Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“

    Í forsendum þessa dóms kemur fram að ákærði hafi játað brot sín undanbragðalaust. Hins vegar væri hann ekki sakhæfur því þar sagði orðrétt:

    „Undir rekstri málsins var X geðlæknir dómkvaddur til að framkvæma
    geðrannsókn á ákærða og leggja læknisfræðilegt mat á hvort andlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ennfremur hvort fangelsisrefsing geti borið árangur í skilningi 16. gr. sömu laga. Er skemmst frá því að segja að matsmaður telur að ákærði hafi frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann alls ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann er ákærður fyrir á ákærutímabilinu. Þá hafi ákærða frá vetri 2020 versnað enn frekar og hann verið fárveikur 17. maí 2020 við lok lýsts ákærutímabils. Þá telur
    matsmaður útilokað að refsing í formi fangelsisvistar geti gert ákærða minnsta gagn og líklegt að slík refsing yrði honum skaðleg. Loks telur matsmaður að ekki sé ástæða til að gera frekari ráðstafanir til að hindra að samfélagslegur skaði verði af ákærða, enda sé hann nú í föstu og reglulegu eftirliti hjá Y, sem og hjá geðlækni og taki virkan þátt í flókinni lyfjameðferð til að halda viðvarandi, geðrænum vandamálum í skefjum.“

    Í ákvæðum dómsins um refsinguna segir svo:

    „Með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknargögnum
    máls, er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök ….. og .. þykir rétt heimfærð til refsiákvæða. Með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns um að hann telji að ákærði hafi verið ósakhæfur á ákærutímabilinu vegna alvarlegra geðrænna vandamála, sbr. 15. gr. almennra hegningalaga og að þess utan telji matsmaður að fangelsisrefsing geti ekki borið árangur…, sem og að ekki þjóni tilgangi að láta ákærða taka út refsingu á sérstakri stofnun, sbr. 1. og 2. mgr. 16. gr. sömu laga, er það niðurstaða dómsins að hvorki beri að gera ákærða refsingu í málinu né heldur að kveða á um sérstakar ráðstafanir samkvæmt 62. gr. laganna.“

    Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum? Flestir þeirra sem hlustuðu á þessa furðulegu frétt hafa sjálfsagt talið að mannvonsku dómarans hafi verið um að kenna að manninum var ekki refsað. Er fréttamönnum óskylt að kynna sér málin sem þeir segja fréttir af í því skyni að geta gefið afar ranga mynd af þeim? Ætli þetta falli undir það sem nefnt hefur verið æsifréttamennska? Væri ekki nær að fréttastofa sem rekin er af sjálfu ríkisvaldinu leitist að minnsta kosti við að veita réttar og hlutlausar upplýsingar frekar en að afbaka þær eins og hér var gert?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Brugðist við með þögninni

    Ég hef um langt árabil skrifað greinar um þjóðfélagsmál og birt á opinberum vettvangi. Þar hef ég oftast birt sjónarmið sem byggjast á lífsskoðun minni. Hún felst ekki síst í því að allir eigi að njóta ríkulegs frelsis í eigin lífi en bera fulla ábyrgð á því sem þeir segja og gera.

    Viðhorf mín hafa ekki alltaf notið vinsælda hjá öðrum. Til dæmis skrifaði ég greinar um að mannréttindareglan um sakleysi uns sekt sannast ætti við í refsimálum vegna ásakana um kynferðisbrot. Þá varð ég fyrir heiftarlegum árásum á persónu mína og var jafnvel sakaður um að taka málstað brotamanna gegn réttvísinni. Þetta var auðvitað alger fjarstæða því ég er og hef alltaf verið andvígur ofbeldisbrotum og þá ekki síst í þeim málaflokki sem hér er nefndur.

    Það er bæði undarlegt og ámælisvert að geta ekki tekið þátt í umræðum um þjóðmál án þess að þau séu persónugerð með því að veitast að málshefjanda persónulega.

    Svo hef ég líka upplifað andúð annarra á sjálfum mér fyrir afstöðu mína til fleiri mála. Þá hafa jafnvel gamlir vinir mínir snúið við mér baki og hætt að tala við mig þrátt fyrir viðleitni mína til að halda góðu sambandi við þá sem hafa haft aðrar skoðanir en ég á viðkomandi málefni. Í slíkum tilvikum hef ég sjaldnast notið þess að fá að heyra hvað hafi efnislega valdið þessari andúð. Það hafa þeir einatt ekki getað vegna þess að ég hef forðast að byggja skoðanir mínar á þjónkun við aðra hvort sem er einstaklinga eða hópa. Þetta virðast þeir ekki þola sem binda trúss sitt við hagsmuni sem þeir vilja styðja, þó að skynsamlegar röksemdir mæli ekki með því. Þá virðast oft ekki vera önnur úrræði en að veitast að ræðumanni með því að tala ekki til hans eða við hann.

    Ég man til dæmis vel eftir útkomu bókar minnar „Deilt á dómarana“, á árinu 1987. Hún vakti fyrst í stað ekki nokkra athygli á opinberum vettvangi, og var lítið sem ekkert um hana talað eða skrifað, þó að hún hafi fjallað um mjög alvarleg þjóðfélagsmál. Það breyttist reyndar síðar og er ég farinn að halda að hún hafi haft raunveruleg áhrif á þau málefni sem fjallað var um.

    Mér finnst viðbrögð þagnarinnar heldur smánarleg. Menn eiga miklu fremur að fagna því í orði ef fram koma sjónarmið um þjóðfélagsmál sem þeir vilja ekki samsinna. Slíkt gefur þeim tilefni til að bregðast við þannig að aðrir heyri. Ég hef oft hvatt menn til að andmæla mér ef þeir telja efni standa til og oft lýst því að ég sé tilbúinn að mæta þeim á fundum til að ræða málin, en þá nær alltaf án árangurs. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um þjóðþekkta menn sem svona hafa brugðist við.

    Ég læt það því eftir mér, kominn á efri árin, að hvetja menn til að hika ekki við að taka til máls til andófs við skoðunum sem þeir eru andvígir en halda samt í frið og jafnvel vináttu við þá sem hafa birt aðra afstöðu en þeir hafa til þjóðfélagsmálanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður sem lagt hefur það í vana sinn að skrafa um þjóðfélagsmál.

  • Einfalt?

    Í 2. mgr. 70. gr stjórnarskrárinnar er kveðið svo á að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

    Reglulega koma upp tilvik, þar sem menn eru bornir sökum um refsiverða háttsemi, sem þeir neita að hafa framið og ekki hafa sannast. Í slíkum tilvikum eru hinir kærðu einatt beittir viðurlögum á starfsvettvangi sínum. Hinum sakaða er þá oft vikið úr starfi sem hann gegnir eða beittur öðrum viðurlögum t.d. í íþróttum og þá meinað af þeim sem stjórna íþróttastarfseminni að taka opinberlega þátt í íþrótt sinni, svo þekkt dæmi séu nefnd. Algengast er að slík tilvik snúist um ásakanir um að hafa brotið gegn öðrum einstaklingum með kynferðislegum hætti, nauðgunum eða vægari refsiverðum brotum.

    Með nokkrum rétti má halda því fram að hinn sakaði maður eigi rétt á að verða meðhöndlaður eins og hann sé saklaus vegna reglunnar um sakleysi þar til sekt hans sannast. Líklega má halda því fram að öðrum beri siðferðileg skylda til að taka þessa afstöðu til málsins.

    En ætli málið sé svona einfalt? Við vitum að svona brot eru framin án þess að þau sannist ef sakborningur neitar. Oft eru aðeins tveir sem geta borið um brot, sakborningurinn og fórnarlamb hans. Það er líka oft ólíklegt að fórnarlambið beri fram sakir á hendur brotamanni, nema brotið hafi verið framið. Og þá er algengt að meiri hluti manna í okkar ófullkomna heimi „trúi“ þeim sem ber fram sakirnar, sem aftur leiðir til þess að hinir sökuðu eru beittir viðurlögum af einkaréttarlegum toga. Þeir missa þá ef til vill atvinnu sína eða eru útilokaðir af íþróttafélögum og samböndum þeirra til að taka þátt í keppnisíþróttum á vettvangi þeirra.

    Það er vissulega svo að reglan í stjórnarskránni, sem nefnd var í upphafi þessarar greinar, fjallar fyrst og femst um sakir fyrir dómi og felur í sér bann við refsiviðurlögum dómstóla ef sök er ósönnuð. Hún gildir ekki í einkaréttarlegum samböndum, þó að hún kunni þar oft að hafa siðferðilegt vægi. T.d getur maki þess, sem sakaður er um brot, slitið sambandinu, án þess að verða talinn brjóta lagalegan rétt á hinum sakaða. Hið sama má segja um vinnuveitanda hins sakaða eða heimildir þeirra sem stjórna þátttöku hans í keppnisíþróttum. Ekkert bannar þessum aðilum að beita hinn sakaða viðurlögum, eins og mörg dæmi eru um. M.a. er hugsanlegt að fyrirtæki og félagasambönd missi viðskipti og tekjur ef þau bregðast ekki við gagnvart hinum sakaða.

    En menn þurfa ekki að halda að málið sé svo einfalt sem að framan greinir vegna þess að þessi viðhorf greiða götu þeirra sem vilja bera fram ósannar sakir á hendur öðrum gagngert til að skaða þá með því að framkalla svona einkaréttarleg viðurlög. Jafnvel væri með slíkum hætti unnt að hindra sterkasta leikmann andstæðinganna í því að geta tekið þátt í úrslitaleiknum sem framundan er. Það er svosem ekki líklegt að slíkt gerist en möguleikinn er fyrir hendi. Svo er kannski líka möguleiki á að svipta menn atvinnunni með ásökunum um refsiverð brot þeirra.

    Heimurinn er ófullkominn. Þessar síðastnefndu kringumstæður valda því að menn verða að fara fram með varfærnum hætti og muna þá eftir þeirri gildu siðferðisreglu, að menn teljist saklausir af refsiverðum brotum nema sök þeirra hafi sannast a.m.k. með sæmilegri vissu. Hver sagði að lífið væri einfalt?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður