• Baktjaldamakk?

    Í gær skrifaði ég á fasbók pistil um „afrek“ Katrínar Jakobsdóttur í stjórnmálasögu undanfarinna ára og áratuga. Kom þar fram að ég teldi hana hafa verið eindreginn sameignarsinna og að gjörðir hennar hefðu verið í beinni andstöðu við stefnumál Sjálfstæðisflokksins um frelsi, ábyrgð og takmörkuð ríkisafskipti. Síðustu árin hefði hún af hálfu Vinstri grænna stýrt óvinsælli ríkisstjórn með aðild þessara tveggja flokka og komist þar upp með gjörðir sem samstarfsflokkurinn ætti alls ekki að hafa þolað. Lýsti ég m.a. undrun minni á að forystumenn Sjálfstæðismanna hefðu nú hver af öðrum lýst stuðningi sínum við forsetaframboð Katrínar, þar sem þessi viðhorf hennar væru líkleg til að hafa áhrif á gjörðir hennar í forsetaembættinu. Við greiningu á fylgi hennar í könnunum hefur komið fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins væru stærsti pólitíski hópurinn sem styður hana.

    Svo laust allt í einu niður í höfuð mér skýringin á þessu furðuverki. Hér lágu slóttugir samningar að baki. Að því er Katrínu snerti var orðið ljóst að hún og flokkur hennar myndi fá hroðalega útkomu í Alþingiskosningum sem haldnar verða á næsta ári. Metnaðarfull konan vissi að hún myndi eiga erfitt með að sætta sig við slík örlög. Fyrirsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins áttuðu sig líka á að þeirra biði afhroð í kosningunum framundan nema þeim tækist að gera breytingar á stöðunni þannig að kosningabaráttan yrði vænlegri.

    Og var nú ekki sjálfsagt að semja? Katrín færi í forsetaframboð en Bjarni formaður íhaldsins forsætisráðherrastólinn. Þetta myndi henta báðum. Til þess að þetta gengi upp yrðu Sjálfstæðismennirnir að lofa Katrínu stuðningi í forsetakjörinu. Og það hefur gengið eftir. Morgunblaðið hefur greinilega tekið þátt í þessum slægvitru brögðum, því ekki verður annað séð en það styðji Katrínu til forsetakjörs svo undarlegt sem það er. Og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnilega gert ráðstafanir til að fá stuðningsmenn sína til að kjósa Katrínu til forseta.

    Er þetta það sem þjóðin vill? Baktjaldamakk til að tryggja sem best stöðu óvinsælla stjórnmálamanna? Ég skora á fjölmiðla að beina spurningum til þessara þátttakenda í makkinu um þetta, því vonir ættu að standa til þess að fæstir þeirra vilji taka áhættuna af að svara með ósannindum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Villir á sér heimildir

    Katrín Jakobsdóttir hefur látið af starfi sem forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna og boðið sig fram í embætti forseta sem kjósa skal næsta laugardag, 1. júní.

    Katrín ber auðvitað fulla ábyrgð á verkum þeirrar ríkisstjórnar sem hún stýrði og þá kannski sérstaklega eigin verkum og ráðherranna úr hennar eigin flokki.

    Katrín hefur á stjórnmálaferli sínum verið einn harðasti alræðissinni í landinu og hefur það reglulega komið fram í pólitísku starfi hennar undanfarin ár og áratugi. Meðal þeirra afreka sem hún hefur drýgt eða átt beinan þátt í að drýgja eru eftirtalin:

    Hún hefur verið andvíg öllum einkarekstri í landinu. Sérstaklega hefur borið á andúð hennar á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Þetta hefur leitt til mun hærri kostnaðar fyrir skattgreiðendur en ella hefði verið.

    Hún hefur tekið þátt í andúð á náttúruvænum orkuvirkjunum. Hefur aðferðin þá verið sú að láta margmennar nefndir umhverfissinna fjalla um ákvarðanir um virkjanir og tefja þær. Hefur ekki verið ráðist í virkjanir um margra ára skeið.  T.d. hefur ekki verið ráðist í að reisa Hvammsvirkjun í Þjórsá þó að fyrir hafi legið að í þá virkjun hafi mátt ráðast fyrir mörgum árum. Nú er svo komið að framleiða þarf raforku með olíu víða í landinu með þeim skaðlegu áhrifum sem slíkt hefur haft, þegar haft er í huga að einna verðmætustu auðlindir þjóðarinnar eru fólgnar í virkjunum vatnsorku og jarðhita.

    Hún greiddi á Alþingi atkvæði með aðförinni að Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra eftir hrunið 2008. Sú aðför mistókst með öllu en verður þjóðinni til ævarandi skammar.

    Hún telur að leyfa eigi fóstureyðingar alveg fram að fæðingu barna.

    Hún tók þátt í fyrirvaralausri aðför að hvalveiðum við landið. Beindist aðförin eingöngu að einu fyrirtæki sem hafði lagt stund á þessar veiðar. Liggur ljóst fyrir að þessi aðför mun leiða til bótagreiðslna úr ríkissjóði sem talið er að muni nema einhverjum milljörðum króna. 

    Hún vill ekki að heimiluð verði heimiluð smásala á áfengi í matvöruverslunum.

    Fleiri mál má sjálfsagt nefna þar sem afstaða hennar byggist á alræðishyggju á borð við þá sem ræður í ríkjum sem sósíalistar ráða í heiminum.

    Líklegt er að hún kunni sem forseti að beita neitunarvaldi á lagasetningu í þágu nefndra verkefna gefist henni tækifæri til.

    Þegar kjósendur gera upp á milli frambjóðenda í kosningu forseta um næstu helgi verður ekki hjá því komist að leggja mat á fortíð þeirra því ekki er unnt að gera ráð fyrir að þeir muni umbreyta persónu sinni og skoðunum nái þeir kjöri.

    Í skoðanakönnunum að undanförnu hefur komið fram að kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðismanna muni verða stærsti stuðningshópur þessa frambjóðanda. Fyrir liggur að nokkrir áhrifamestu forystumenn flokksins styðja hana. Virðist m.a. Morgunblaðið gera það þótt með óbeinum hætti sé.

    Ástæða er til að vekja athygli þjóðarinnar á þessum undarlegu kringumstæðum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Mannréttindabrot

    Einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar, Albert Guðmundsson, er ekki gjaldgengur í landsliðið. KSÍ segir ástæðuna vera þá að á kjörtímabili síðustu stjórnar hafi menn vandað sig svo við reglusetningu að kæra um kynferðisbrot leiði til þess að leikmenn skuli sæta svona viðurlögum. Skiptir þá engu máli hvort brot hafi sannast. Í tilviki Alberts stendur svo á að kæran á hendur honum mun hafa hlotið meðferð hjá saksóknara með þeirri niðurstöðu að málið var fellt niður. Pilturinn neitaði sök og engin sönnunargögn voru til staðar um að hann hefði framið brotið. Kærandi brotsins mun hafa kært þessa niðurfellingu til ríkissaksóknara, sem hefur þá takmarkaðan tíma til að afgreiða málið. Þetta skiptir engu máli að lögum. Albert telst því saklaus af brotinu og ber öllum sem málið varðar að miða við þá réttarstöðu.

      En ekki KSÍ! Þar er hann beittur viðurlögum fyrir brot sem hann telst vera saklaus af! Nú ætti kæra um brot ekki að geta ein sér varðað menn nokkrum viðurlögum, því á Íslandi teljast menn saklausir þar til sekt er sönnuð. KSÍ beitir piltinn samt þungum viðurlögum. Það eru auðvitað þung viðurlög fyrir ungan knattspyrnumann að vera ekki talinn gjaldgengur af knattspyrnusambandinu í landslið okkar. Hann getur ekki leitað annað um landsliðssæti. Svo mun standa á í máli Alberts að konan sem kærði hann er sögð hafa skotið kæru sinni til ríkissaksóknara. Það málskot skiptir auðvitað engu máli um réttarstöðu leikmannsins. Hann telst saklaus af því refsiverða broti sem hann var kærður fyrir að hafa framið.

      KSÍ brýtur hreinlega á mannréttindum þessa pilts með því að ákveða að hann sé ekki gjaldgengur í landsliðið. Einstaklingar njóta mannréttinda, ekki hópar. Þessi leikmaður getur að mínum dómi höfðað mál á hendur þessu dæmalausa sambandi og gert kröfur a.m.k. um miskabætur. Mér er ekki kunnugt um fordæmi fyrir slíkri málsókn í réttarstöðu eins og þessari þar sem aðrir en sjálft ríkisvaldið brýtur á sökuðum manni, en tel líklegt að hún sé heimil. Reglur KSÍ um svona viðurlög án nokkurrar sönnunar um brot eru hreinlega ógildar. Menn geta ekki komið sér saman um að brjóta rétt á manni, sem samkvæmt lögum telst ekkert hafa brotið af sér.

      Hvernig stendur á því að landssamband íþróttaiðkenda í tiltekinni grein hagar sér svona? Þetta er ótrúlegt mál. Kannski handhafi saksóknarvalds ætti að freista þess að höfða opinbert mál á hendur fyrirsvarsmönnum KSÍ og krefjast þess að þeim verði refsað fyrir brot sín gegn leikmanninum?

      Íslendingar verða að láta af svona hátterni. Á mörgum sviðum, virðast menn telja rétt að brjóta á einstaklingum vegna fullyrðinga um afbrot sem viðkomandi maður telst saklaus af. Þeir sem slíkt gera eru hræddir um að valkyrjur af báðum kynjum muni ekki una réttlætinu, og þess vegna verði þeir að beita ranglæti til að ganga í augun á þeim. Vonandi taka landsmenn sig á.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Arnar Þór Jónsson

    Nú styttist í forsetakosningar. Hinir 12 frambjóðendur hafa verið áberandi í fjölmiðlunum í viðtölum og kappræðum eins og við mátti búast. Sumir þeirra virðast helst leggja áherslu á að geðjast kjósendum og þá oftast í málefnum sem koma embætti forseta ekkert við.

    Einn frambjóðenda sker sig úr að því leyti að hann fjallar yfirleitt um málefni sem snerta beinlínis starf forseta m.a við gæslu hagsmuna okkar í samskiptum við aðrar þjóðir. Hann er traustvekjandi og þekkir til starfsskyldna embættisins vegna menntunar sinnar. Kjósendur hafa séð að hann leitast frekar en hinir við að vera málefnalegur í kosningabaráttu sinni og hann reynir ekki að afbaka mál sitt í þeim eina tilgangi að ganga í augun á fólki.

    Það hefur til dæmis verið áherslumál hjá honum að vilja styrkja persónulegt frelsi manna og verja fullveldi okkar gegn yfirgangi annarra ríkja sem nú fer sífellt vaxandi.

    Þetta er Arnar Þór Jónsson. Furðulegt nokk hefur hann ekki skorað hátt í skoðanakönnunum. Af kosningabaráttunni má samt vera ljóst að hann hefur meiri þekkingu á þeim verkefnum sem falla undir forsetaembættið.

    Kjósendur ráða auðvitað atkvæðum sínum sjálfir. Kannski ættu þeir að veita Arnari Þór meiri athygli vegna þeirra málefna sem hann stendur fyrir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Söngvakeppni Evrópu

    Aldrei þessu vant fylgdist ég með Júróvisjón í gærkvöldi. Eftir að dómnefndir höfðu skilað af sér en ekki var búið að telja atkvæði hlustenda var staðan þessi:

    1.     Sviss 365 stig

    2.     Frakkland 218 stig

    3.     Króatía 210 stig

    4.     Ítalía 164 stig

    12. Ísrael 52 stig

    Svo komu tölurnar frá hlustendum:

    1.     Króatía 337 stig eða samtals 547 sem gaf 2. sæti í keppninni

    2.     Ísrael 323 stig eða samtals 375 sem gaf 5. sæti

    3.     Úkraína 307 stig eða samtals 453 sem gaf 3. sæti

    4.     Frakkland 227 stig eða samtals 445 sem gaf 2. sæti

    5.     Sviss 226 stig eða samtals 591 stig sem gaf 1. sæti

    Haft skal í huga að búið er hér að ofan að smætta tölurnar frá hlustendum til þess að þær vegi samtals helming heildarstiganna á móti dómnefndarstigunum. Innbyrðis röð stiga frá hlustendum er samt sú sem greinir töflunni að ofan.

    Í heildina samkvæmt tölunum frá hlustendum varð Ísrael í 2. sæti (!) en hafði verið í 12. sæti hjá dómnefndunum. Sigurvegarinn Sviss varð í 5. sæti hjá hlustendum 

    Þetta sýnir að þessi keppni er einhvers konar grín. Dómnefndirnar, sem eru skipaðar fulltrúum valdsins, ráða niðurstöðunni en ekki fólkið sem leggur það á sig að skila inn atkvæðum. Nú virðist þetta hafa þjónað þeim tilgangi að hindra að ísraelska lagið gæti sigrað. Það mætti ætla að þetta kerfi hafi verið samið hér á landi því við Íslendingar erum sérstaklega slungnir í að afbaka úrslit (sbr. vægi atkvæða í alþingiskosningum) þannig að geðþóttinn fái að ráða en ekki stjórnlaus lýðurinn., sem sýnilega taldi hér að þetta væri söngvakeppni en ekki vinsældakeppni milli stríðsaðila á Gasa. Þar að auki virðast dómnefndirnar hafa sameinast um eitt lag sem átti að vinna. Það er mín skoðun að svissneska lagið hafi ekki verið upp á marga fiska og hið ísraelska verið miklu áheyrilegra.

     Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

     

  • 45 ár án áfengis

    Fyrir 45 árum, þann 10. maí 1979, hætti ég að drekka áfengi og hef ekki sett dropa af því inn fyrir mínar varir síðan. Og mikið breyttist líf mitt við þetta.

    Helsti bjargvættur minn í því verkefni sem ég þarna tókst á hendur var mín ástsæla eiginkona, en við höfðum búið saman frá hausti 1972.

    Við eignuðumst fimm börn. Tveir synir fæddust áður en ég hætti að drekka en þrjú eftir það. Ég er viss um að það hefði ekki gerst ef ég hefði haldið áfram áfengisneyslu minni. Líklega hefðum við hjónin þá skilið að skiptum og líf mitt orðið allt annað en raunin varð. Börnin okkar og þeirra börn eru það dýrmætasta sem við eigum.

    Þennan dag fyrir 45 árum fór ég í svonefnda meðferð hjá æskuvini mínum Þórarni Tyrfingssyni á Silungapolli hér ofan við Reykjavík. Þar var ég í eina viku og dugði það mér til þeirra betrumbóta á lífi mínu sem að framan greinir. Í meðferðinni lærði ég viss sannindi um sjálfan mig. Ég held að ég hafi alltaf átt erfitt með að trúa ósannindum, hvort sem var um mig sjálfan eða önnur málefni yfirleitt. Á Silungapolli var ég leiddur í sannleikann, sem leiddi til þeirra breytinga á lífi mínu sem ég nefndi. Fyrir þær er ég eilíflega þakklátur.

    Mestan þátt í þessum umbótum á samt konan mín.

    Ég fæ seint þakkað forsjóninni fyrir það líf sem við hjónin höfum átt saman allan þennan tíma. Ætli einhver samsettur æðri máttur hafi stjórnað þessu? Mér er nær að halda að svo sé.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Synjunarvald gegn virkjunum

    Ég hef tekið það fram í skrifum mínum á fasbók, að dýrustu verðmæti þjóðarinnar fælust í þeim auðlindum náttúrunnar sem unnt væri að virkja til okuframleiðslu án þess að grípa þyrfti til kola eða olíu eins og nauðsynlegt er víðast hvar erlendis.

    Í gær skrifaði ég á fasbók greinarstubb til stuðnings framboði Höllu Hrundar Logadóttur til embættis forseta Íslands. Tók ég þá fram að stuðningurinn væri „að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn.“ Ég féll svo frá þessum stuðningi, þegar ég taldi mig hafa fengið vitneskju um að þetta væri ekki rétt. Hefði ég þá fengið heimildir, sem ég taldi traustar fyrir því að hún væri andvíg virkjunum til orkuframleiðslu.

    Nú hef ég fengið úr herbúðum hennar heimildir fyrir því að þessi skoðanaskipti mín stæðust ekki. Konan væri fylgjandi virkjunum á náttúruvænum orkugjöfum rétt eins og ég. Legg ég nú til við hana að taka afdráttarlaust fram opinberlega, að hún styðji náttúruvænar virkjanir á orku og muni ekki beita synjunarvaldi forseta á lög frá Alþingi um slíkar virkjanir ef til kæmi. Þetta ættu líka aðrir forsetaframbjóðendur að gera.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Afturhald og siðleysi

    Það er furðulegt að nær helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hyggist samkvæmt könnun Morgunblaðsins kjósa Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands í komandi kosningum. Þessi kona hefur verið í forystu þeirra sem hafa árum saman hindrað virkjun okkar náttúruvænu orku til rafmagnsframleiðslu í landinu, þannig að nú þurfum við að framleiða raforku með olíu. Í orku fallvatna og jarðvarma felast einhverjar verðmætustu auðlindir landsins. Svo hefur hún verið í forystu fyrir þá landsmenn sem hafa viljað drepa börn í móðurkviði alveg fram að fæðingu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda

    Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018. Löngu var tímabært að stofna þetta dómstig til að létta of miklu álagi af æðsta dómstólnum Hæstarétti. Sagt hefur verið frá því í fréttum að núverandi dómsmálaráðherra sé með fækkun dómara Hæstaréttar til athugunar. Þær hugmyndir að fækka þurfi dómurunum við réttinn eru sjálfsagðar og hafa verið uppi um margra ára skeið en ávallt sætt andmælum forseta réttarins.

    Fyrir breytingarnar 2018 störfuðu 9 dómarar í föstum stöðum við Hæstarétt. Lá auðvitað fyrir að þeim yrði fækkað vegna stórfellds samdráttar í verkefnum réttarins. Sýnilega voru efni til að hverfa aftur til þess fjölda dómara við Hæstarétt sem skipuðu dóminn fyrst eftir stofnun hans árið 1920, en þá voru þeir 3 eða  5 talsins. Tekið var að fjölga þeim upp úr 1970 vegna málafjöldans sem þá hafði verið mjög vaxandi og varð síðar meginástæða þess að Landsréttur var stofnaður.

    Fyrir tilverknað dómaranna í Hæstarétti var samt ákveðið að skipaðir yrðu 7 dómarar í réttinn eftir breytinguna 2018, en ekki 5 eins og bersýnilega hefði verið meira en nægilegt. Þetta hefur haft þau áhrif að eftir að Landsréttur tók til starfa hafa dómendur í Hæstarétti verið fleiri en þörf er á og hafa þeir því, eins og kunnugt er, sinnt öðrum störfum meðfram dómsstörfunum. Sumir þeirra eru meira að segja fast skipaðir í kennarastöður við lagadeild Háskóla Íslands. Aðrir hafa gegnt öðrum störfum, aðallega hjá ríkinu. Auk þess fá þeir miklu meiri tíma en áður til orlofsferða til annarra landa og hafa a.m.k. sumir þeirra nýtt sér þann möguleika.

    Landsmönnum er flestum ljóst að brýn þörf er og hefur verið á því að spara útgjöld ríkisins. Það samrýmist varla viðleitni til þess, að hafa starfandi hátt launaða embættismenn, sem hafa ekki nóg að gera og geta þess vegna gamnað sér við aðra sýslan á kostnað ríkisins. Nú er liðinn nægur tími til að unnt sé að meta störf dómaranna og bera starfsálagið saman við stöðuna fyrir breytingarnar 2018. Við samantektina sem hér fylgir er eingöngu stuðst við ársskýrslur Hæstaréttar sem birtar eru eftirá um hvert ár fyrir sig. Af handahófi voru borin saman árin 2010 og 2022, þ.e. fyrir og eftir stofnun Landsréttar.

    Þá kemur þetta m.a. í ljós:

    Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar en 60 dómar árið 2022. Dæmdum málum hefur því fækkað um 650 eða ca. 88%. Beiðnum um áfrýjunarleyfi hefur hins vegar fjölgað, en hafa verður í huga að vinna við afgreiðslu þeirra er miklu minni en við þau mál sem ganga til dóms. Ef fjölda þessara beiðna er bætt við fjölda dæmdra mála kemur í ljós að málunum fækkar (milli áranna 2010 og 2022) úr 767 í 232, þ.e.a.s. um meira en tvo þriðju hluta.

    Að því er snertir starfsálag á einstaka dómara við Hæstarétt eru hér á eftir bæði taldir dómar og málsskotsbeiðnir. Gert er ráð fyrir að 5 dómarar sinni hverju máli þrátt fyrir að sjaldan sitji nema 3 við afgreiðslu málsskotsbeiðna. En þær eru, eina og áður sagði, miklu fleiri en áður eftir breytinguna 2018.

    Í ljós kemur að árið 2010 tók hver dómari þátt í 426 afgreiðslum (bæði dómum og málsskotsbeiðnum) en árið 2022 í 165 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi afgreiðslum á hvern dómara fjölga í 232. Hér minnkar fjöldi málanna um rúmlega 50% en þá ber að hafa í huga að afgreiðslur á málsskotsbeiðnum voru miklu fleiri á árinu 2022 en var á viðmiðunarárinu 2010.

    Með fylgir fylgiskjal með tölum úr ársskýrslum Hæstaréttar.

    Það er hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli láta undan kröfum Hæstaréttar um að 7 dómarar skuli skipa réttinn eftir fyrrnefndar breytingar, sem hafa haft í för með sér að þessir hátekjumenn ríkisins hafa haft jafn rúman tíma til starfa sinna og fram kemur í ársskýrslum réttarins. Þeir hafa bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda. Hér er að finna enn eitt dæmið um sóun á fjármunum ríkisins. Sýnilega þykir þeim sem um þinga sjálfsagt að skattgreiðendur beri kostnaðinn af lystisemdum dómaranna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

    Fylgiskjal

    Upplýsingar úr ársskýrslum Hæstaréttar Íslands.

      Fjöldi upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti fyrir og eftir stofnun Landsréttar, sem tók til starfa 1. janúar 2018.

      Við stofnun Landsréttar var dómurum í Hæstarétti fækkað úr 9 í 7.

      Hér er gerður samanburður á fjölda upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti, annars vegar á árinu 2010 og hins vegar á árinu 2022.

      Haft skal í huga að starf að málskotsbeiðnum er að jafnaði mun veigaminna en starf í dæmdum málum.

      Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar og 57 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 767 mál afgreidd. Settir voru 4 varadómarar til þess að setjast í einstök mál, líklega oftast vegna vegna vanhæfis fastra dómara.

      Á árinu 2022 voru kveðnir upp 60 dómar og 172 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 232 mál afgreidd. Settir voru 11 varadómarar til að setjast í einstök mál. Ekki er líklegt að það hafi alltaf verið vegna vanhæfis fastra dómara.

      Ef meðaltöl eru notuð við samanburð á starfsálagi einstakra dómara og gert ráð fyrir 5 dómurum í hverju máli (varadómarar ekki meðtaldir) lítur dæmið svona út og eru þá afgreiðslur málskotsbeiðna taldar með:

      Árið 2010:

    5 dómarar í 767 málum: Samtals 3835 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 9 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 426 afgreiðslum.

      Árið 2022:

    5 dómarar í 232 málum: Samtals 1160 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 7 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 166 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi hver dómari taka þátt í 232 afgreiðslum.

      Í tölunum hér að ofan er ekki talinn sá fjöldi mála, þar sem varadómarar voru settir. Þeir voru mun fleiri á árinu 2022 (8) en á árinu 2010 (4). Ekki er unnt að sjá í ársskýrslum réttarins í hve mörgum málum varadómarar sátu en þau hafa sýnilega verið mun fleiri á árinu 2022 en á árinu 2010. Eitt og sér er það mjög undarlegt því málin sem til meðferðar komu á árinu 2022 voru miklu færri en 2010.

      Þessar upplýsingar ætti dómsmálaráðherra að hafa í huga þegar hann flytur frumvarp sitt um fækkun dómaranna. 

  • Fróðlegir sjónvarpsþættir

    Ég horfði nýlega á fjóra sjónvarpsþætti sem Þóra Arnórsdóttir gerði um hrunið 2008. Þættirnir eru sagðir að mestu byggðir á bók sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson skrifaði um atburðina og kom út á árinu 2009.

    Sjálfsagt hafa menn mismunandi skoðanir á umfjöllun Þóru og Guðna á ýmsu sem varðar þessa harmrænu atburðarás í sögu þjóðarinnar. En eitt finnst mér sérstaklega áhugavert. Það er lýsingin sem þarna birtist á háttsemi fjölmargra Íslendinga þegar ráðist var að ýmsum ráðamönnum þjóðarinnar með offorsi og upphrópunum og þeim kennt um þessa hörmulegu atburði. Þar bar mest á ósanngjörnum og beinlínis ósæmilegum árásum á ýmsa menn, sem gegnt höfðu stjórnunarstörfum á þeim tíma þegar þessi ósköp dundu yfir. Þeir voru úthrópaðir á fjöldafundum, einkum á Austurvelli og skiltum veifað þar sem þeim var lýst sem óþokkum sem valdið hefðu þeim ósköpum sem dunið höfðu á þjóðinni. Og ekki nóg með það. Veist var að þeim með líkamlegu ofbeldi þannig að kalla varð til lögreglu.

    Í þáttunum kemur fram að hatrammastar voru árásirnar á Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra á þessum tíma og Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Helst mátti skilja á háttsemi mótmælendanna að þessir menn hefðu valdið hruninu af ásetningi í því skyni að skaða almenning og hlaða undir svonefnda útrásarvíkinga sem rekið höfðu nokkur fyrirtækja sinna erlendis og orðið þar fyrir stórfelldum áföllum. Þessar ásakanir voru fáránlegar. Atburðir voru alþjóðlegir og hreint ekki bundnir við Ísland.

    Framganga margra manna á þessum tíma var að mínum dómi ósæmileg. Vera má að eftirá hafi mátt gagnrýna stjórntök trúnaðarmanna almennings í aðdraganda hrunsins, en fráleitt var að ráðast að þeim með þeim hætti sem lýst var í þáttum Þóru. Engin ástæða er til að efast um að þessir menn höfðu borið hag almennings á Íslandi fyrir brjósti í störfum sínum fyrir hrunið, þó að æskilegt hefði verið að þeir hefðu séð fyrir þá atburði sem skullu á. Um þá vissu þeir ekki meira en ráðamenn í öðrum löndum.

    Það er sorglegt að sjá myndræna lýsingu á skrílshætti margra Íslendinga á þessum tíma. Þeir sem tóku þátt í að veitast að trúnaðarmönnum almennings á þann hátt, sem lýst er í þáttunum, ættu nú að skammast sín fyrir framkomu sína og heita því með sjálfum sér að haga sér ekki svona aftur, þó að skaðlegir atburðir á borð við hrunið verði í landinu. Þá er málefnaleg gagnrýni sjálfsögð en ekki þau viðbrögð sem lýst er að framan. Reynum að haga okkur eins og siðmenntað fólk fremur en að taka þátt í skrílslegri háttsemi sem beinist að þeim meðbræðrum okkar sem við sjálf höfum valið til trúnaðarstarfa. Sjálfsagt hafa þeir gert mistök við stjórnsýslu sína en það fær auðvitað ekki staðist að þessir menn hafi valdið hörmungum þjóðarinnar á þessum tíma af ásetningi. Og ofbeldisfull hegðun, eins og lýst er í vönduðum þáttum Þóru, á einfaldlega aldrei rétt á sér.

    Svo vill til að ég þekki persónulega til þeirra manna, sem urðu helst fyrir fyrrnefndum árásum, og veit að störf þeirra byggðust allan tímann á því sem þeir töldu vera almenningi fyrir bestu, þó að það hafi ekki heppnast sem skyldi. Ég var með þeim í þeim hópi manna sem kenndur hefur verið við Eimreiðina og veit því hvað ég er að tala um. Hörmungar hrunsins hafa áreiðanlega valdið þeim miklum harmi, rétt eins og öðrum Íslendingum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður