• Kulnun í vinnunni

    Nú berast tíðindi af því að ríkisstarfsmenn, sem eiga að sjá um endurgreiðslur á virðisaukaskatti, geti ekki sinnt starfi sínu til fulls vegna kulnunar! Má fræðast um þessi skelfilegu tíðindi í frétt Morgunblaðsins laugardaginn 27. janúar s.l.

    Í frétt blaðsins kemur fram að fyrirbærið kulnun hafi fyrst komið fram á árinu 1974. Vandamál hafi skapast við skilgreiningu á fyrirbærinu og mun fræðimenn hafa greint á um það efni. Meginskýringin virðist vera sú að starfsmennirnir verði þreyttir. Virðast þeir hafa notið veikindaforfalla vegna þess arna.

    Ég trúi því vel að vinna við endurgreiðslu á virðisaukaskatti valdi því að starfsmenn verði loppnir í vinnunni, sérstaklega ef þeir eru látnir vinna við opna glugga í kuldunum sem hafa herjað á okkur að undanförnu.

    Ekki munu finnast dæmi um að starfsmenn fyrri tíðar hafi kulnað svona heiftarlega í kroppnum eins og nú tíðkast hjá skattinum. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að þessa sjúkdóms gæti hjá starfsmönnum einkafyrirtækja sem ekki fá laun sín greidd úr ríkissjóði.

    Við þessu verður snarlega að bregðast. Réttast væri að fjölga ríkisstarfsmönnum verulega og þá sérstaklega þeim sem kólnar hjá skattinum. Fyrirtæki sem fá virðisaukaskatt endurgreiddan munar sjálfsagt ekkert um að endurgreiðslurnar verði lækkaðar svo nota megi aurana sem sparast til að greiða laun þeirra sem bætast við hjá skattinum og verður kalt í vinnunni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Séra Friðrik

    Reglan um að menn skuli teljast saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð gildir á Íslandi (2. mgr. 70. gr stjórnarskrár). Þetta er ekki bara lagaregla heldur einnig siðferðisregla sem við teljum flest að gildi um samskipti okkar. Ég þekki dæmi um að margir telji orðróm duga til að fella á menn sök. Orðrómur hefur tilhneigingu til að magnast, því mannfólkið smjattar á honum og eykur við hann ósannindum frá eigin brjósti. Um þetta þekki ég skýr dæmi. M.a. heyrast raddir sem telja menn seka um brot, þó að dómstólar hafi sýknað þá, þar sem sökin sé ósönnuð. Engin sök hefur sannast á séra Friðrik Friðriksson. Nú er fjarlægð stytta af honum, sem stóð við Lækjargötu í Reykjavík. Þeir sem hafa svívirt minninguna um þennan góða mann, eins og t.d borgaryfirvöld í Reykjavík, sem láta nú fjarlægja styttuna, ættu að skammast sín.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Að gæta orða sinna

    Það er eins og íslenska þjóðin hafi orðið fyrir miklu áfalli við 8 marka tap landsliðs okkar í leiknum við Ungverja á Evrópumótinu í handbolta sem nú stendur yfir. Hvers vegna ætli að svo sé? Við erum á þessu móti að etja kappi við mörg af bestu landsliðum heims í handbolta. Það má vissulega fallast á að liðsmenn okkar hafi oft sýnt betri leik en birtist okkur þarna. Við getum hins vegar varla gert fyrirfram ráð fyrir að sigra alla andstæðinga okkar á svona sterku móti. Okkar leikmenn eiga góða daga og slæma eins og gerist í öllum íþróttum. Þetta var einn af þeim slæmu.

    Ég held að ástæðan fyrir þessu mikla áfalli þjóðarinnar vegna þessa taps eigi aðallega rót sína að rekja til þess að fyrirsvarsmenn liðsins, leikmenn þess sem og fréttamenn og fjölmargir aðrir „sérfræðingar“ hafi verið búnir að skapa allt of glaðbeittar væntingar um sigur okkar manna. Allir töluðu þeir fyrir leikinn eins og það væri öruggt mál að okkar lið myndi sigra. Málið snerist eingöngu um að spá um úrslitin í tölum, þar sem við höfðum alltaf betur. Ég held að menn ættu nú að hugsa ráð sitt. Þegar framundan er leikur við eina af sterkustu þjóðum Evrópu ættum við ekki að gera ráð fyrir því að sigur okkar manna sé fyrirsjáanlegur. Í þessu eins og öðru má fullyrða að menn ættu að gæta orða sinna. Og kannski gætu okkar liðsmenn átt betri dag í kappleikjum sínum ef fyrirfram hefur verið gert ráð fyrir þeim möguleika að viðkomandi leikur kunni að tapast. Fyrirfram sigrar í viðfangsefnum lífsins hafa aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Þeir geta miklu fremur lagt álag á keppnismenn okkar sem þeir a.m.k. stundum geta ekki staðið undir. Hér sem endranær er auðmýkt og lítillæti áreiðanlega besta veganestið. Sigur er líka miklu ánægjulegri þegar hann hefur unnist á leikvellinum en ekki í sjálfumgleði okkar fyrirfram.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ógnvænleg barátta gegn fíkniefnum

    Að undanförnu hafa í sjónvarpi birst myndir sem sýna blóðuga styrjöld stjórnvalda gegn glæpamönnum sem framleiða og dreifa fíkniefnum. Þetta á sér ekki síst stað í ríkjum Suður-Ameríku. Nú síðast hafa borist ógnvænlegar fréttir um þetta frá Ekvador. Þar er fólk úr fíkniefnaheiminum svipt lífi í stórum stíl.

    Baráttan gegn þessum efnum veldur líka miklum hörmungum á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi. Þannig sjáum við hér á landi afbrotamenn fremja glæpi undir áhrifum þessara efna, þ.m.t. manndráp. Þessa dagana er í fréttum sagt frá hörmulegum örlögum konu á Selfossi sem fékk ekki læknishjálp um langan tíma vegna þess að maður, sem er jafnvel talinn hafa banað henni, kallaði ekki á hjálp, þar sem hann var upptekinn við að fela fíkniefni sín.

    Sagan af baráttunni gegn fíkniefnunum er harmþrungin. Í stríðinu gegn þeim hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem margir hverjir hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi e.t.v. mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og margs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu gegn fíkniefnunum. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan kunni að hafa mildast er árangurinn af þeirri viðleitni smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann.

    Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

    Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • „Í pólitík“

    Fyrir liggur að matvælaráðherra braut af ásetningi gegn lögum þegar hún bannaði hvalveiðar s.l. sumar. Eftir að Umboðsmaður Alþingis gaf út álit sitt, en efni þess er hafið yfir allan vafa, hefur hún lýst berum orðum yfir, að lögin um hvalveiðar frá 1949 séu svo gömul að hún hafi ekki þurft að fara eftir þeim. Hún sé „í pólitík“ og þurfi hvorki að hlíta lögum né beita meðalhófi, svo sem henni var skylt að gera.

    Fyrir liggur að fram verður borin þingsályktunartillaga um vantraust á ráðherrann, þegar Alþingi kemur saman eftir jólaleyfi síðar í þessum mánuði. Að undanförnu hafa fjölmiðlar, eins og eðlilegt er, spurt þingmenn stjórnarflokkanna hvort þeir hyggist styðja tillöguna. Þá víkur svo við að þeir, hver af öðrum, segjast ekki vera búnir að ákveða sig. Hvers vegna ætli það sé? Er einhver vafi á því að ráðherrann braut freklega gegn lögunum, eins og hann hefur sjálfur viðurkennt, og olli með því háu fjártjóni sem skattgreiðendum verður gert að greiða eftir að dómur hefur gengið um skyldu ríkissjóðs til að greiða þær?

    Og þá kemur spurningin sem rís ef og þegar afgreiða á tillöguna um vantraust í þinginu. Málið liggur alveg ljóst fyrir. Ráðherrann braut gróflega af sér með þeim hætti að alþingismenn geta ekki verið í nokkrum vafa um afstöðu sína til tillögunnar um vantraust. Eru þingmennirnir „bara í pólitík“, eins og ráðherrann, þannig að hrossakaup milli stjórnarflokka geti valdið því að þingmennirnir muni skrifa upp á framferði ráðherrans með því að greiða atkvæði gegn tillögunni? Er pólitíkin í landinu svona gjörspillt?

    Ástæða er til að taka fram að háttsemi ráðherrans braut bersýnilega gegn lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, sbr. 2.-4. og 8.-10. gr. þeirra. Samkvæmt þessum lögum geta brot gegn þeim bæði varðað ráðherra refsingu (11. gr.) og skaðabótaskyldu (13. gr.) vegna þess tjóns sem hann hefur valdið ríkissjóði. Kannski ráðherrann telji þessi lög svo gömul að þau gildi ekki lengur?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Lögin of gömul?

    Það var ótrúlegt að heyra í hvalveiðiráðherranum í kvöldfréttum sjónvarps. Hún sagði að lögin um hvalveiðarnar væru frá 1949 og þess vegna þyrfti ekki að fara eftir þeim; þau væru svo gömul. Svo væri efni þeirra ómögulegt og hún væri á öðru máli en lögin um hvernig standa ætti að málum. Hún hefði því ákveðið að fara ekki eftir lögunum. Svo hún hefði því bannað hvalveiðar með dags fyrirvara og valdið stórfelldu tjóni hjá þeim sem höfðu stundað þessar veiðar og hugðust halda því áfram. Loks kvaðst hún ekki ætla að taka neina ábyrgð á ólögmætri aðför sinni að veiðimönnum. Og sjáið til; hún mun sitja áfram. Þjóð sem á ráðherra sem haga sér svona án þess að bera nokkra ábyrgð. hlýtur að vera vel sett, eða hvað? Kannski er þetta bara grín?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Stjórnsýsla án ábyrgðar

    Það fór eins og ég spáði. Ráðherra hvalveiða mun ekki þurfa að víkja úr embætti, þó að fyrir liggi að hann (hún) hafi valdið ríkissjóði bótagreiðslum vegna ólögmætrar stöðvunar hvalveiða s.l. sumar, Þessar greiðslur munu væntanlega kosta þjóðina tugi milljóna króna. Flokkssystir ráðherrans, sem situr í embætti forsætisráðherra, hefur komist að þessari niðurstöðu og formenn hinna stjórnarflokkanna lagt blessun sína yfir. Þetta er ótrúlegt. Stór hluti þjóðarinnar virðist í þokkabót vilja kjósa forsætisráðherrann í embætti forseta Íslands og er því spáð að hún sé liklegri öðrum til að ná kjöri. Þá liggur það fyrir. Einstakir ráðherrar eru ekki bundnir af landslögum við embættisfærslur sínar ef þeir eru persónulega þeirrar skoðunar að lögin ættu að vera annars efnis en þau eru. Getur verið að þjóðin verðskuldi þessa stjórnendur? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Friðvænlegasta ráðið

    Á nánast hverjum degi fáum við skelfilegar fréttir af ofbeldisverkum manna sem telja sig þurfa að ná sér niðri á öðrum. Þetta geta verið glæpaverk innan okkar eigin samfélags en stærst eru samt ofbeldisverkin sem eitt ríki fremur á öðrum ríkjum og þar með lifandi fólki sem þar býr. Það er ekki auðvelt að benda á ráðin sem duga best gegn svona háttsemi. Ég held samt að eitt ráð dugi frekar en önnur, en það er að kynnast af heilum hug þeim sem ofbeldinu beita og þeim sem þurfa að þola það; reyna að öðlast skilning á viðhorfum þeirra og lífsháttum. Skilningur á þessu er friðvænlegasta ráðið í heimi mannanna, því sérhver maður er ólíklegur til að vilja fremja ofbeldisverk á öðru fólki ef hann þekkir þarfir þess og sjónarmið.

    Þó að við getum ekki hvert og eitt valdið neinum straumhvörfum í þessu getum við kannski með sameiginlegu átaki haft áhrif til að draga úr ofbeldinu. Hvert og eitt okkar hefur fyrst og fremst áhrifavald yfir sjálfum sér. Nýtum þau yfirráð til að kynnast öðrum og skilja þarfir þeirra. Gerum þetta sem flest að fyrirheiti fyrir árið sem er nú að hefjast.

    Gleðilegt ár.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Um réttarheimildir

    Einhverjum gæti þótt fróðlegt að fá yfirlit yfir þær aðferðir sem dómstólum er heimilt að beita við lausn á réttarágreiningi. Þar ber þeim að beita því sem við köllum heimildir réttarins eða réttarheimildir. Sjálf stjórnarskráin er þar efst á blaði og gildir framar almennum lögum ef á milli ber. Ef þessar heimildir duga ekki er gripið til annarra réttlægri heimilda svo sem stjórnvaldsfyrirmæla, sem verða að hafa stoð í settum lögum, meginreglna laga og eðlis máls, svo nefndar séu þær heimildir sem mestu máli skipta.

    Margir Íslendingar, þ.m.t. sumir lögfræðingar, telja að hér á landi sé Maréttindasáttmáli Evrópu (MSE) æðri íslenskum lögum. Þannig eigi lög sem Alþingi setur að víkja fyrir sáttmálanum ef ekki er samræmi þar á milli.

    Lög nr. 62/1994 kváðu á um að MSE skyldi hafa lagagildi hér á landi. Þessi lög hafa ekki að geyma sjálf ákvæði MSE heldur aðeins almenna tilvísun til þeirra. Samt hafa sumir haldið því fram lögin um sáttmálann hafi meira gildi en önnur almenn lög. Þau bindi hendur löggjafans (þess sama og samþykkti þau) til framtíðar og standi jafnvel framar sjálfri stjórnarskránni.

    Þessi skoðun fær ekki staðist. Þegar athuguð er forgangsröð réttarheimilda er kannski einfaldast að athuga hvernig reglu, sem byggist á tiltekinni heimild, verði breytt. Stjórnarskráin stendur almennum lögum ofar og getur almenni löggjafinn (Alþingi) ekki breytt henni. Almenn lög standa réttarheimildum, eins og t.d. venjum, framar og verður þeim að sjálfsögðu breytt með settum lögum. Ef almenni löggjafinn gerði breytingu á lögunum frá 1994, t.d. með því að takmarka einhver réttindi sem MSE tryggir, kæmi það eitt til skoðunar, hvort slík breyting færi í bága við íslensku stjórnarskrána. Ef niðurstaðan yrði sú, að breytingin gerði það ekki, hefði hún fullt gildi að innanlandsrétti.

    Það stenst ekki að telja lögin frá 1994, standa framar yngri almennum lögum. Í því fælist sú afstaða, að alþingismennirnir, sem lögin settu 1994, hafi bundið hendur þeirra alþingismanna sem á eftir þeim hafa komið. Hvergi er í stjórnlögum að finna neina heimild fyrir svona ályktun. Sama er að segja um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), þær verða ekki sjálfkrafa að innanlandsrétti á Íslandi. Þetta er raunar berum orðum tekið fram í 2. gr. laganna frá 1994. Það breytir engu um þetta, þó að finna megi dæmi um ónákvæmni í orðalagi nokkurra dóma Hæstaréttar sem gætu talist gefa þetta til kynna.

    Ástæðurnar fyrir því, að sumum íslenskum lögfræðingum virðist hafa orðið hált á þessu svelli réttarheimildanna eru líklega tvær. Í fyrsta lagi hefur íslenska stjórnarskráin inni að halda sérstakan kafla, þar sem mannréttindi eru vernduð. Sá kafli var reyndar „hresstur við“ 1995, m.a. til að samræma hann betur ákvæðum MSE. Ákvæðin um vernd mannréttindanna í þessum stjórnarskrárkafla eru auðvitað æðri almennum lögum, sem mega ekki fara í bága við þau. Það er eins og sumir lögfræðingar telji þessa æðri stöðu ákvæða um mannréttindi liggja í lögunum frá 1994 en ekki stjórnarskránni, og þá líklega vegna þess að um sams konar réttindi er fjallað í MSE, sem lögin frá 1994 vísa til. Hin ástæðan er líklega sú, að hér innanlands er fyrir hendi ríkur pólitískur vilji til að bregðast við úrlausnum MDE og breyta landsrétti ef dómstóllinn ytra telur að landsréttur brjóti í bága við ákvæði sáttmálans. Raunar höfum við gengist undir þjóðréttarlega skuldbindingu gagnvart öðrum aðildarríkjum sáttmálans um að gera þetta. Þennan pólitíska vilja er örugglega að finna hjá öllum stjórnmálaflokkum í landinu. Af þeim fáu dæmum sem fyrir liggja, hefur þetta jafnan orðið raunin. Við hefur verið brugðist hér innanlands af réttum aðilum. Kannski þetta sé í og með einnig ástæða fyrir þeirri torkennilegu skoðun, að almenni löggjafinn hafi bundið sínar eigin hendur í framtíðinni með setningu laga á árinu 1994?

    Fyrir nokkrum árum flutti þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason,  ræðu um Mannréttindasáttmálann á fundi með lögfræðingum. Fór hann þá yfir  meginatriði sem varða tengsl landsréttarins hjá fullvalda ríkjum og sáttmálans. Það sem hann sagði þar samræmdist því sem að framan segir og ætti að geta verið óumdeilt, svo skýrt sem það var og augljóst. Þá brá svo við að dagblað skrifaði forsíðugrein (26. september 2003), þar sem helst var gefið í skyn, að ráðherrann væri á móti mannréttindum! Naut blaðið þar tilstyrks frá lögfræðiprófessor, sem rétt áður hafði sótt um embætti hæstaréttardómara en ekki fengið. Lagði hann út af orðum ráðherrans á þann hátt, að „sumir valdhafar … virðist hafa tilhneigingu til að hafa horn í síðu Mannréttindadómstólsins, þar sem hann takmarkar vald þeirra“.

    Þetta var sérkennilegur málflutningur svo ekki sé meira sagt. Þáverandi dómsmálaráðherra var stjórnmálamaður sem í starfi sínu hafði sýnt, að hann væri mikill áhugamaður um að tryggja vernd borgara fyrir misbeitingu ríkisvaldsins. Hann verðskuldaði ekki að menn veittust að honum með þeim hætti sem þarna var gert. Hann átti miklu fremur hrós skilið fyrir að vilja leggja áherslu á það meginatriði, sem íslensk stjórnskipan byggir á, að Ísland sé fullvalda ríki og það heyri undir lýðræðislega kjörin löggjafa í landinu að taka ákvarðanir um innlenda lagasetningu og alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hætt við málsókn

    Nú hafa umbjóðendur okkar á lögmannsstofunni hætt við fyrirhugaða málsókn á hendur ríkinu til að fá hnekkt banni við því að þeir tækju á ný yfirráð yfir fasteignum sínum í Grindavík. Ekki veit ég gjörla hver er ástæða þeirra fyrir þessu.

    Eins og flestir vita byggðu þessir menn sjónarmið sín á því að ríkisvaldið hefði ekki heimild til að vísa þeim á brott úr bænum og þar með úr húsum sínum. Lá fyrir að ástæða yfirvaldanna fyrir þessari ákvörðun var sú að hætta væri á eldgosi í bænum, sem gæti orðið þeim að fjörtjóni, ef þeir byggju þar, þegar það gerðist. Þeir höfðu hins vegar byggt fyrirætlanir sínar um málsókn aðallega á því að ekki væri unnt að banna þeim afnot af eigum sínum af þessari ástæðu. Þeir nytu réttar til að nýta eignir sínar, enda væri þeim kunnugt um hugsanlega hættu sem vísað væri til og bæru því sjálfir ábyrgðina á því að flytja aftur inn í hús sín. Töldu þeir að þessi réttur þeirra væri varinn af stjórnarskránni og gengi því framar reglum í lögum um almannavarnir sem yfirvöldin byggðu á ákvarðanir sínar um bann við fastri búsetu í húsunum.

    Þetta mál hefur vakið upp spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Nokkur orð um þetta.

    Frumeiningar í ríki okkar eru mennirnir sem búa á vettvangi þess. Vald ríkisins stafar frá þeim, þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir, sem felur það í sér að stjórnendurnir draga vald sitt frá fólkinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart þeim. Borgararnir eiga í grunninn að fara sjálfir með vald í sínum eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra. Þrátt fyrir þetta fer ríkið með vald í málefnum sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla getur verið dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja.

    Margir virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er að mínum dómi mikill misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra.

    Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með málefni sem öðrum koma ekki við og vilja ekki taka þátt í.

    Þegar grannt er skoðað gekk Grindavíkurmálið út á þetta. Höfðu handhafar ríkisvaldsins heimildir til að banna mönnum nýtingu eigna sinna á þann hátt að ekki skaðaði aðra? Kannski hvorki sjá menn né skilja takmarkanirnar á valdi ríkisins á þann veg sem að framan greinir? Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Ef þetta eru almenn viðhorf almennings í landi okkar er málum illa komið.

    Við skulum vona að svo sé ekki.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður