Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Samningar um dómsniðurstöður

    Þegar dómstólar ljúka dómi á sakarefni dómsmáls ber brýna nauðsyn samkvæmt lögum til þess að þeir beiti öguðum og lögmætum sjónarmiðum. Í 61. gr. stjórnarskrár okkar segir þannig, að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Í þessu felst að dómendum sé óheimilt að láta ólögfest huglæg sjónarmið sín eða skoðanir hafa áhrif á niðurstöðuna. Það eru lögin sem eiga að ráða.

    Nú er ekki unnt að finna sett lagafyrirmæli um allt það sem á kann að reyna við meðferð máls fyrir dómi. Það breytir ekki kröfunni um öguð vinnubrögð. Í lögfræði er kennd sú aðferðafræði sem heimilt er að viðhafa við úrlausn ágreiningsmála. Sá efniviður sem heimilt er að beita nefnist réttarheimildir. Þar eru stjórnarskrá og sett lög efst á blaði, en gæti ekki slíkra heimilda reynir á beitingu réttlægri heimilda sem svo eru nefndar. Meðal þeirra eru heimildir sem við köllum eðli máls, fordæmi og meginreglur laga. Þegar reynir á beitingu slíkra heimilda er dómendum sem fyrr óheimilt að láta persónuleg viðhorf ráða dómum sínum. Leit að heimildum þessum og beiting þeirra verður að vera hlutlæg og laus undan persónulegum óskalista dómara.

    Frá ungum aldri mínum í lögfræðinni hef ég leitast við að beita þessum viðhorfum bæði í kenningum og framkvæmd. Ég átti til dæmis fyrir mörgum áratugum í ritdeilu við einn kennara minna í lagadeildinni um þetta en hann hélt því m.a. fram að dómstólar færu með vald til að setja nýjar lagareglur, sem fóru í bága við lög sem Alþingi hafði sett, og beita þeim síðan til lausnar ágreiningsefnis. Frá þessari deilu segi ég í endurminningabók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014.

    Ég hef haldið því fram að dómari, eða hver sá annar sem í hlut á, verði að ganga út frá þeirri forsendu að einungis ein niðurstaða sé rétt í því ágreiningsefni sem hann vill leysa úr. Verkefnið sé að finna hana. Það geti oft verið flókið og erfitt en allt að einu sé þetta markmið þess aðila sem úr skal leysa. Ég reyndi að viðhafa þetta sjónarmið í starfi mínu sem dómari við Hæstarétt á árunum 2004 til 2012. Leiddi það til þess að ég skrifaði fleiri sératkvæði en aðrir dómarar á þessu tímabili.

    Flestir hinna dómaranna töldu sig hafa rýmri heimildir í dómsstarfinu. Reglulega gætti dæma um úrlausnir þeirra sem bersýnilega voru andstæðar efni þeirra réttarheimilda sem þeim bar að mínum dómi skylda til að beita. Stundum blasti við að þeir væru að beita huglægum vildarsjónarmiðum, þó að samdar væru forsendur sem ætlað var að fela þetta.

    Merkilegt viðtal birtist í útvarpsþætti Kristjáns Kristjánssonar fréttamanns „Sprengisandur“ s.l. sunnudag. Þar var talað við einn fyrrverandi starfsbræðra minna í réttinum Eirík Tómasson. Hann lýsti í viðtalinu vinnubrögðum sem tíðkuðust í Hæstarétti þegar tekin var afstaða til sakarefnis dómsmálanna. Hann gerði að vísu allt of mikið úr því að dómarar kæmu vel undirbúnir til þess verks sem fyrir lá. Oft var það því miður ekki svo. Það sem hins vegar skipti mestu máli í ræðu Eiríks var lýsing hans á viðleitni hópsins til að ná samkomulagi um niðurstöðuna og forðast sératkvæði. Lýsti hann því hvernig dómendur gáfu eftir á sjónarmiðum sínum og sömdu við hina um niðurstöðuna. Að þessu leyti var lýsing hans rétt, enda má sjá dæmi á löngu árabili um að sumir dómaranna skiluðu aldrei sératkvæðum. Dómarnir voru byggðir á samkomulagi, þar sem einhverjir í hópnum féllust á að beita ekki þeim réttarheimildum sem þeir töldu eiga við til að finna rétta niðurstöðu og féllust á að fljóta með öðrum sem töldu að standa ætti að málum á annan veg og þá hugsanlega fyrst og fremst í þágu niðurstöðu sem þeir töldu æskilega. Líkti hann þessu við samninga á vettvangi stjórnmála.

    Ég upplifði það svo að þessi vinnubrögð leiddu til agaleysis við dómsýsluna. Það var eins og dómendur færu að trúa því að þeim væri miklu meira heimilt en stjórnarskrá og meginreglur leyfðu. Þannig urðu til dómsniðurstöður sem engan veginn stóðust. Hef ég skrifað um ýmsar þeirra og þá jafnan rökstutt nákvæmlega hvað fór úrskeiðis.

    Ég hef kvartað yfir því að gagnrýni minni hafi aldrei verið svarað af þeim sem að verki stóðu. Nú hefur Eiríkur Tómasson, einn úr hópnum, rofið þögnina og staðfest réttmæti þess sem ég hef lýst. Hafi hann þökk fyrir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Sjálfsþjónkun þar sem síst skyldi

    Landsréttur var stofnaður með lögum um dómstóla nr. 50/2016 og tók rétturinn til starfa 1. janúar 2018. Ákveðið var að Hæstiréttur skyldi starfa áfram og verða eins konar fordæmisdómstóll sem tæki aðeins mál til meðferðar samkvæmt eigin áfrýjunarleyfum.

    Við þessar breytingar varð ljóst að verkefni Hæstaréttar drógust saman svo um munaði. Fastir dómarar við réttinn voru níu fyrir breytinguna, en urðu sjö samkvæmt hinum nýju lögum. Ábendingar komu fram um að þeir þyrftu ekki að vera nema fimm eins og þeir reyndar voru lengst af á síðustu öld. Rétturinn mun sjálfur hafa óskað eftir að dómarar yrðu sjö og var það látið eftir honum.

    Hér skal fullyrt að þetta er alger óþarfi. Miðað við umfang starfa réttarins nú ættu dómarar ekki að vera fleiri en fimm sem tækju þá allir þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála sem rétturinn dæmir.

    Það er satt að segja fremur undarlegt að rétturinn skuli sjálfur hafa viljað að dómararnir yrðu fleiri en þörf er á. Í ljós er komið að þeir eru farnir að gegna umfangsmiklum störfum utan réttarins. Til dæmis eru fjórir þeirra sitjandi í föstum kennarastöðum við lagadeild Háskóla Íslands, þrír sem prófessorar og einn dósent. Þetta er nýtt í sögu réttarins. Í fortíðinni hafa kennarar sem hlotið hafa skipun í Hæstarétt jafnan sagt kennslustöðum sínum lausum. Nefna má í dæmaskyni Ármann Snævarr, Þór Vilhjálmsson, Arnljót Björnsson, Markús Sigurbjörnsson, sjálfan mig og Viðar Má Matthíasson. Fyrsta dæmið um þessa sérkennilegu nýbreytni er Benedikt Bogason, sem gegnir prófessorsstöðu við lagadeild HÍ. Það gera núna líka Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir. Karl Axelsson er dósent. Þannig sitja nú fjórir af sjö dómurum réttarins í föstum kennslustöðum við lagadeild HÍ.

    Það er líka ekki boðlegt það bandalag sem myndast með þessum hætti milli lagadeildar HÍ og réttarins. Deildin hefur því hlutverki að gegna að fjalla með gagnrýnum hætti um dómaframkvæmd í landinu. En þarna eru allir vinir. Þeir gefa út heiðursrit hinum til vegsemdar og sitja saman í nefndum, sem fara með veigamikil völd í dómskerfinu, t.d. við að meta hæfni dómaraefna. Augljós dæmi eru fyrir hendi um misnotkun á þessu síðastnefnda valdi.

    Svo gegna dómararnir einnig öðrum aukastörfum sem hljóta að teljast umfangsmikil. Einn er forseti endurupptökudóms. Tveir sitja í réttarfarsnefnd sem hefur að gegna umfangsmiklu starfi við samningu lagafrumvarpa o.fl. Hvernig geta dómarar við Hæstarétt tekið þátt í að semja lagafrumvörp með þessum hætti? Fleiri dæmi um slík aukastörf mætti telja en verður ekki gert hér.

    Þá læðist að manni grunur um að að dómararnir í Hæstarétti hafi séð sér leik á borði við stofnun Landsréttar að tryggja sjálfum sér möguleika til aukastarfa sem greiddar eru vænar þóknanir fyrir. Þess vegna hafi þeir viljað vera sjö en ekki fimm eins og við blasti að væri nóg. Væri ekki rétt að Háskóli Íslands upplýsti almenning um launagreiðslur sínar til þessara hæstaréttardómara?

    Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er að finna ákvæði um dómsvaldið. Þar er gert ráð fyrir að í landinu starfi dómarar, „sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi.“

    Í gegnum tíðina hefur verið litið svo á að dómarar Hæstaréttar hafi verið þeir einu sem þetta gat átt við um. Nú virðist það ekki gilda lengur.

    Að lokum skal þess getið að Hæstiréttur hefur því hlutverki að gegna að tilnefna fulltrúa í fjölmargar stjórnir og nefndir í stjórnsýslu. Það hefur vakið athygli manna að þar eru nær eingöngu tilnefndir lögfræðingar sem tengjast beint lagadeild HÍ en nær engir frá Háskólanum í Reykjavík. Klíkuveldið er alls ráðandi. Alþingi ætti að taka á þessu og nema með öllu úr lögum heimildir Hæstaréttar til þessara tilnefninga. Það er líka vandséð hvernig unnt er að tryggja hlutlausa stöðu dómstólsins til verka slíkra nefnda, sem hann sjálfur hefur átt þátt í að skipa, ef á slíkt reynir fyrir dóminum.

    Það er löngu kominn tími til að trúnaðarmenn almennings á Íslandi átti sig á þeirri sjálfsþjónkun sem ríkir í starfi æðsta dómstóls þjóðarinnar og grípi til ráðstafana til að uppræta hana.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

  • Grínistar í Dómarafélagi Íslands

    Það hefur vakið athygli á undanförnum misserum að Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur oftsinnis skrifað blaðagreinar um viðhorf sín til hinnar lagalegu aðferðar sem og stundum um önnur þjóðfélagsmál sem til meðferðar hafa verið í þjóðfélaginu. Að baki greinum Arnars hefur ávallt legið djúp hugsun og málefnalegur heiðarleiki. Að þeim hefur verið mikill fengur fyrir almenning.

    Nú berast þau tíðindi að Arnar hafi sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningafrelsi dómara og efni siðareglna félagsins.“ Gegnum þetta má lesa að aðrir félagsmenn í DÍ hafi amast við skrifum Arnars og vilji meina dómurum að tjá sig um þjóðfélagsmálin.

    Þetta eru kostuleg tíðindi. Auðvitað njóta dómarar allra sömu mannréttinda og aðrir borgarar, þ.m.t. tjáningarfrelsis. Hafi þeir skoðanir á málefnum sem deilum valda í þjóðfélaginu, t.d. um innfluttar reglur um orkupakka, er auðvitað heppilegt að þeir tjái þær opinberlega. Vitneskja um slíkar skoðanir getur síðan valdið því að dómari sem tjáir sig geri sig vanhæfan til að sitja í dómi í máli þar sem kann að verða tekist á um málefnið sem um ræðir. Öllu réttlæti er þá fullnægt með því að málsaðilar geta gert kröfu um að dómarinn víki sæti ef á þetta reynir. Þeir hafa nefnilega fengið að vita um skoðanir dómarans í tíma.

    Nú skulu menn ekki telja eitt augnablik að starfandi dómarar í landinu hafi ekki skoðanir á margvíslegum ágreiningsefnum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Þær hafa þeir allir og oft getur verið mikill tilfinningahiti í sálum þeirra, þó að þeir hafi aldrei tjáð sig opinberlega um slíkar skoðanir sínar. Flestir þeirra hika ekki við að taka sæti sem dómarar í málum þar sem reynir á slík ágreiningsefni. Þetta finnst þeim í lagi, þar sem enginn veit um þessar skoðanir. Hið sama gildir þegar þeir eiga beinna hagsmuna að gæta sem enginn veit um, eins og dæmin sanna. Þeir ganga svo margir í dómsstörf blygðunarlaust í þágu þeirra viðhorfa sem þeir aðhyllast eða hagsmuna sem þeir eiga. Væri nú ekki betra að þeir hefðu kunngjört opinberlega um slík atriði sín, svo að aðilar dómsmálanna geti þá krafist þess að þeir víki sæti ef þeim þykir tilefni til?

    Muna menn til dæmis eftir upplýsingunum sem komu fram fyrir nokkrum árum, um að fjöldi dómara hefði átt fjárhagsmuna að gæta sem fóru forgörðum við bankahrunið 2008? Þeir hikuðu samt ekki við að taka sæti sem dómarar í málum, þar sem menn voru sóttir til saka fyrir að hafa valdið hruninu og þar með tapi þeirra. Um þetta vissi enginn fyrr en löngu eftir að dómar voru gengnir. Nú eru að koma slag í slag óskir frá Strassburg um upplýsingar um fjárhagsmuni dómara sem svona stóð á um.

    Er þetta ekki dásamlegt? Svo sitja þessir sömu dómarar á fundum í DÍ og amast við því að aðrir dómarar komi fram af þeim heilindum sem þeir sjálfir forsmáðu. Má ég frekar biðja um grandvaran og hugsandi mann eins og Arnar Þór Jónsson í dómarasæti.

    Þess skal getið að siðareglur dómaranna voru settar á aðalfundi í nóvember 2017. Þar er m.a. að finna reglu sem mælir fyrir um háttsemi dómara sem látið hafa af störfum. Það eina sem vantaði í regluna var nafn mitt. Ég var samt ekki félagi í þessu félagi eftir að ég lét af störfum sem hæstaréttardómari á árinu 2012.

    Það eru miklir grínistar sem sækja aðalfundi Dómarafélags Íslands til að setja dómurum siðareglur.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands.

  • Misskilningur veirufróðra

    Alþingi hefur nú sett lög til breytingar á sóttvarnarlögum. Með lögunum er ráðherra veitt meira vald en áður til að skylda ferðamenn til dvalar í sóttvarnarhúsi meðan þeir sæta einangrun.

    Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við að ráðherra sé tímabundið veitt aukið vald í þessum efnum, þar sem beita þarf nauðsynlegum úrræðum til að fást við veiruskrattann sem hefur gert okkur lífið leitt að undanförnu.

    Það er hins vegar dálítið undarlegt að sjá gagnrýni á lögin beinast að því að óeðlilegt sé að veita ráðherra þetta vald. Þekktir vísindamenn hafa birt skoðanir af þessu tagi. Nær væri að sóttvarnarlæknir hefði það beint sjálfur. Og það sjónarmið sést jafnvel skjóta upp kollinum að stjórnmálamenn séu til bölvunar, þegar beita þarf lagavaldi til skerðingar á frelsi borgara, þeim sjálfum til verndar.

    Hér virðast einhverjir hafa gleymt meginreglum sem samfélag okkar vinnur eftir. Í fyrsta lagi kjósum við stjórnmálamenn til að beita ríkisvaldi þegar við á. Tilgangurinn með því að kjósa þá er að fela þeim slíkt vald í hendur, enda bera þeir stjórnskipulega ábyrgð á meðferð þess, m.a. með því að vera kosnir til ákveðins takmarkaðs tíma.

    Ætla verður að gagnrýni af þessu tagi eigi rót sína að rekja til misskilnings á því hvernig lýðræðislegu valdi er fyrir komið í því samfélagi sem við byggjum. Veirufróðir vísindamenn ættu því að einskorða orðræðu sína við það sem þeir hafa vit á en leiða hjá sér athugasemdir um að aðrir en lýðræðislega kjörnir fulltrúar eigi að ráða vegferð annarra manna í sóttarvörnunum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Með mildu hjartalagi

    Í stuttri grein minni sem birtist í Morgunblaðinu og víðar í gær 12. apríl undir heitinu „Að virkja óttann“ er að finna samlíkingar sem ég fellst á að hafi verið óviðeigandi og óþarfar til að skýra mál mitt.

    Þar á ég í fyrsta lagi við val á dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti manna var virkjaður í pólitískum tilgangi. Ég nefndi dæmi um að Þjóðverjum hafi staðið svo mikill beygur af Hitler að þeir hafi nánast lagt blessun sína yfir voðaverk hans gagnvart gyðingum. Út úr þessum ummælum mínum var reyndar snúið, því ég var auðvitað ekki að líkja ákvörðunum um sóttvarnir á Íslandi við gyðingamorðin í Þýskalandi á stríðsárunum. Það hefði samt frekar verið viðeigandi hjá mér nefna mildari dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti var notaður til að fá borgara til að bakka upp gerðir valdhafa sinna. Þar er af nógu að taka.

    Það var heldur ekki sanngjarnt að líkja Kára Stefánssyni við Trump fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, jafnvel þó að Kári hafi áður með niðrandi hætti líkt vini mínum Brynjari Níelssyni við Trump. Það er nefnilega óþarfi að láta annað fólk draga sig niður á umræðuplan, eins og ég gerðist þarna sekur um. Bið ég Kára Stefánsson því velvirðingar á þessu fráviki mínu á góðum umræðuháttum.

    Þá tek ég fram að ég er hreint ekki andvígur því að samfélagslegt vald sé notað af hófsemd til að varna útbreiðslu á smitandi veiru, eins og raunin hefur verið hér á landi að undanförnu, auðvitað að því tilskildu að ávallt sé farið að lögum.

    Bið ég lesendur að meðtaka þessa yfirbót mína með mildu hjartalagi sínu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Að virkja óttann

    Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu.

    Sagan segir t.d. að almenningur í Þýskalandi á tímum Hitlers hafi verið svo hræddur að fólkið hafi nánast lagt blessun sína yfir illvirki hans við útrýmingu á milljónum gyðinga á árunum síðari heimstyrjaldar.

    Íslenska dæmið sem nú skellur á okkur er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýska dæmi. En það er af sömu tegund. Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilags við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni. Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennings við hina skaðvænlegu veiru. Þetta framferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá sem fallast ekki á ruglið í honum. Sigríður Andersen alþingismaður hitti naglann á höfuðið þegar hún lýsti þversögninni sem felst í því að moldríkur orðhákurinn sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr Vesturheimi fremur en sjálfum sér.

    Hvernig halda menn að múgsefjunin virkaði ef ausið væri yfir þjóðina stöðugum áróðri um skaðsemi sóttvarnaraðgerða? T.d. um aukna tíðni sjálfsvíga, þunglyndi, atvinnuleysi, ógreinda sjúkdóma, frestaðar skurðaðgerðir og heimilisofbeldi, en lítið væri talað um skaðsemi veirunnar. Ætli múgsefjunin gæti þá snúist við?

    Þó að nauðsynlegt sé að fást við veiruna ættum við að muna að önnur verðmæti eru í gildi í okkar landi sem við ættum ekki að fórna í hennar þágu. Þar á ég við lýðræðislegt skipulag, þar sem leitast er við að vernda frelsi og mannréttindi borgaranna. Látum ekki orðháka af ætt Trumps spilla þeim verðmætum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

    Í stjórnarskrá okkar er kveðið svo á að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þar er síðan að finna frekari ákvæði um réttarstöðu manna gagnvart frelsisskerðingum, m.a. um rétt til að leita til dómstóla vegna hennar.

    Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu beitt íslenska ríkisborgara því valdi að meina þeim að fara heim til sín til að „afplána“ sóttkví þar, en skipa þeim þess í stað að vistast í „sóttvarnarhúsi“ þann tíma sem sóttkví varir.

    Nokkrir borgarar hafa ekki viljað una þessu möglunarlaust og hafa þeir því borið þessa valdbeitingu undir dómstóla. Þar hafa fengist þær niðurstöður að þetta ofbeldi standist ekki fyrrgreinda meginreglu.

    Aðrir Íslendingar ættu að fagna því að einstakir samborgarar þeirra skuli ekki sitja þegjandi undir þessari valdbeitingu og kalla eftir dómsúrlausnum um að hún standist ekki. Við ættum síðan einnig að fagna niðurstöðunum, því þær byggjast á því að hér séu að minnsta kosti að einhverju leyti í gildi raunveruleg borgaraleg frelsisréttindi sem snerta grundvöll stjórnskipunar okkar.

    Ekki geri ég lítið úr því að gera þurfi ráðstafanir til að hemja veiruskrattann. En menn mega ekki missa stjórn á hugsunum sínum af því tilefni. Svo hefur nú brugðið við að hávaðasamar raddir hafa ekki bara veist að þeim einstaklingum sem hafa staðið vaktina í þessu heldur einnig að lögmönnum þeirra persónulega. Í hópi þeirra sem svona hafa talað er að finna ýmsa sem fram til þessa hafa viljað láta líta á sig sem frjálshuga borgara, sem vilji andæfa ofríki stjórnvalda, þegar við á.

    Það er eins og veiran hafi heltekið þá. Hvað ætla þeir að gera við prinsippið um frelsi þegar á að beita þá frelsissviptingum vegna stjórnmálaskoðana eins og gert er um víða veröldina. Kannski þeir telji að skoðanafrelsi sé bundið við „réttar“ skoðanir.

    Stundum er þessi blinda kölluð „að sjá ekki skóginn fyrir trjánum“.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Níð í boði RÚV

    Það er dálítið undarleg lífsreynsla að þurfa að hlusta á hreinan róg um sjálfan sig sem borinn er fram á opinberum vettvangi, fleytt áfram af slúðrandi alþingismönnum og sjónvarpað í umræðuþætti í sjónvarpi allra landsmanna, Ríkisútvarpinu. Þar á ég við skrafþáttinn „Silfrið“ sem sjónvarpað var sunnudaginn 14. mars.

    Tilefnið fyrir þessum ódæmum er að ég var notaður til pólitískra árása á dómsmálaráðherrann fyrir þær sakir að hafa falið mér verkefni að tillögum um hröðun meðferðar sakamála. Ég væri nefnilega óvildarmaður þolenda kynferðisbrota og verndari ofbeldismanna á því sviði. Þessar ásakanir á mínar hendur voru með öllu tilhæfulausar. Virðast þær hafa átt rót sína að rekja til þess að ég hef talið nauðsynlegt að sanna brot á sakborninga í slíkum málum ef dæma á þá til refsingar. M.a. er kveðið á um þetta í stjórnarskránni. Töldu rógberar ekki stætt á að fela mér verkefnið um meðferð sakamála, þó að engin leið væri að skilja sambandið á milli þessara ósönnu ávirðinga minna og verkefnisins.

    Mér sýnist að orðgapar samfélagsins séu farnir að ganga út frá ávirðingum mínum sem vísum án þess að þurfa að finna þeim stað hverju sinni. Þannig var það til dæmis í silfraða þættinum í sjónvarpi allra landsmanna, þar sem þrír af fjórum viðmælenda í þættinum töluðu fyrirvaralaust um mig sem þrjót sem beitti sér gegn þolendum ofbeldisbrota. Ekki þótti ástæða til að gefa mér kost á að koma fram mínum sjónarmiðum um sjálfan mig í þessum þætti.

    Eftir að hafa hlustað á þennan boðskap í sjónvarpi allra landsmanna hafði ég samband við stjórnandann, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, með ósk um að hlutur minn yrði réttur með því að gefa mér kost á að skýra mína hlið á málinu. Ég var jú maðurinn sem talað hafði verið um. En óekkí. Konan svaraði því til að ég væri eitthvað sem hún kallaði „opinbera persónu“ og um slíkar persónur mætti fjalla einhliða með meiðingum án þess að gefa þeim kost á að tjá sig.

    Það er gott að geta verið dagskrárstjóri á ríkismiðlinum og fara þar með vald til að miðla almenningi hrakyrðum um menn án þess að gefa þeim möguleika til andsvara.

    Þetta er að mínum dómi í besta falli lágkúra en í því versta mannorðsmorð. Spurningin sem eftir stendur er sú hvort Íslendingar vilja að haldið sé áfram að reka fjölmiðil sem í nafni þjóðarinnar hagar sér svona.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Þingmannablaður

    Á dögunum var skýrt frá því að dómsmálaráðherra hefði falið mér að vinna að tillögum um styttingu málsmeðferðartíma í sakamálum. Þá stigu m.a. fram tvær hetjur í mannlífinu, sem trúað hefur verið fyrir sæti á Alþingi. Þær heita Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Töldu þær báðar ámælisvert af ráðherranum að hafa falið mér þetta verkefni, þar sem ég væri sérstakur andstæðingur þolenda kynferðisafbrota. Tveir annmarkar voru á þessum málflutningi. Hugmyndir þeirra um skoðanir mínar á afbrotum í þessum flokki mála eru rangar auk þess sem þær skipta engu máli um verkefnið sem mér hafði verið falið.

    Í stuttri grein sem ég fékk birta af þessu tilefni tók ég fram að í ræðu þessara kvenna kæmi fram misskilningur og jafnvel útúrsnúningur á skoðunum mínum. Óskaði ég eftir því að þessar hetjur mættu mér á opnum fundi til að ræða málið. Byggðist sú hugmynd á því að best væri að ræða ágreiningsmál á vettvangi þar sem handhafi öndverðra skoðana gæti veitt svör við því sem sagt væri og þá varið hendur sínar ef tilefni væri til.

    Þær hafa nú báðar svarað. Hvorug þeirra vill mæta á slíkan fund. Ég get ekki sagt að sú afstaða komi mér á óvart. Mig grunar nefnilega að báðar séu huglausar og treysti sér ekki í að verja blaður sitt þannig að aðrir heyri.

    Þá höfum við það.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Persónulegt yfirráðasvæði forseta Hæstaréttar?

    Lög um dómstóla nr. 50/2016 tóku gildi 1. janúar 2018. Í 17. gr. þeirra er að finna ákvæði um varadómara í Hæstarétti.

    Þar segir svo:

    „Varadómarar.

    Nú geta færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla til skamms tíma og setur þá ráðherra samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar dómara til að taka sæti í því. Varadómari skal koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri.“

    Á tímanum sem liðinn er frá gildistöku þessara laga hefur oftsinnis komið fyrir að kallaðir hafi verið inn varadómarar til setu í einstökum málum. Sérstaklega var þetta áberandi á árinu 2018, þegar varadómarar sátu í nær öllum málum sem dæmd voru það ár. Í fjölmörgum tilvikum komu varadómarar úr röðum lögfræðinga sem ekki höfðu setið í dómaraembættum í Hæstarétti og töldust því ekki til fyrrverandi dómara við réttinn. Samkvæmt ársskýrslu réttarins fyrir árið 2018 voru þeir 31 talsins og voru þeir flestir kallaðir til oftar en einu sinni. Fleiri hafa svo bæst við síðan. Þessa lögfræðinga var samkvæmt lögunum því aðeins heimilt að kalla til starfa að ekki væri unnt að setja fyrrverandi dómara við réttinn til að gegna þeim.

    Ég var skipaður dómari við Hæstarétt 15. október 2004 og starfaði til 30. september 2012. Til mín hefur samt aldrei verið leitað á ofangreindu tímabili með ósk um að taka sæti sem settur varadómari. Fæ ég ekki betur séð en að í þessu efni hafi verið farið gegn fyrrgreindum lagafyrirmælum með því að kalla til setu fjölda lögfræðinga sem aldrei hafa gegnt dómaraembættum við réttinn og teljast því ekki til fyrrverandi dómara.

    Þegar ég spurðist fyrir um þetta með bréfi til réttarins á síðasta ári fékk ég svar þar sem fram kom að forseta réttarins væri „í sjálfsvald sett“ til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitaði þegar hann óskaði eftir setningu varadómara. Hann svaraði engu um hina sem ekki voru fyrrverandi dómarar við réttinn. Lögin eru alveg skýr um að heimild til að leita til þeirra er bundin við að það sé ekki unnt að fá fyrrverandi dómara til verksins.

    Ég spurði því nánar um þetta í tölvubréfi 20. október 2020. Þar segir svo:

    „Mér var að berast svarbréf yðar við tölvupósti mínum um setningu varadómara sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um dómstóla.

    Í bréfinu kemur fram að forsetinn telji sér það í sjálfsvald sett til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitar þegar hann óskar eftir setningu varadómara. Svo er að sjá að sjálfsvaldið taki aðeins til vals milli fyrrverandi dómara. Er það rétt skilið?

    Svarið fær ekki staðist. Forsetanum er auðvitað skylt að fara eftir þessum einföldu lagafyrirmælum. Í tilefni svarsins er síðan rétt að spyrja um ástæður þess að forsetinn hefur ákveðið að sniðganga mig í öll þau skipti sem á þetta hefur reynt? Ræður þar persónuleg afstaða hans til mín? Er ekki sjálfgefið að hann upplýsi mig um ástæður sínar fyrir slíkri afstöðu? Sé þetta raunin er þetta þá frambærileg forsenda við þessar ákvarðanir? Lítur forsetinn á dómstólinn sem persónulegt yfirráðasvæði sitt sem hann megi ráðskast með að vild?“

    Við þessu fékk ég svo í bréfi 23. október 2020 hrokafullt svar. Þar var sagt að erindi mínu hefði verið svarað með bréfinu 16. október. Var sagt að tölvubréf mitt kallaði ekki á frekari útskýringar eða svör af hálfu Hæstaréttar.

    Fyrir liggur að núverandi forseti Hæstaréttar er ekki meðal áköfustu aðdáenda minna, þó að ég eigi erfitt með að skilja hvers vegna það er. Þessi lestur hans á texta 17. gr. dómstólalaga er hins vegar með nokkrum ólíkindum. Forseti réttarins virðist hreinlega telja að honum sé heimilt í embættisverkum sínum að víkja til hliðar skýrum fyrirmælum settra laga í þágu geðþótta síns og persónulegrar afstöðu til einstakra manna. Er þetta réttinum sæmandi?

    Ástæða er til að taka fram að ég sækist ekki sérstaklega eftir störfum sem varadómari við Hæstarétt. Ég er hins vegar áhugamaður um að rétturinn fari að lögum í sýslan sinni.

    Upplýsingar um þetta eiga að mínum dómi erindi til almennings. Mér þótti eðlilegt og sanngjarnt að gefa forseta Hæstaréttar kost á að bregðast við framangreindum sjónarmiðum áður en ég birti opinberlega upplýsingar um þetta. Frestur sem ég gaf honum til þess er liðinn. Hann virðir mig ekki svars.

    Niðurstaðan er sú að þessi æðsti dómari landsins fer ekki eftir skýrum fyrirmælum í lögum, ef geðþótti hans stendur til annars. Er slíkum manni treystandi fyrir dómsvaldi? Gerir hann kannski bara það sem honum sýnist við meðferð þess? Kannski lesendur ættu að svara þessu hver fyrir sig?

    Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari