Þegar aldurinn færist yfir og menn hafa látið af fyrri störfum getur verið gott að finna sér eitthvað uppbyggilegt að gera til að stytta sér stundir. Nú orðið er boðið upp á allmargar myndveitur í sjónvarpi, þar sem sýndur er mýgrútur af kvikmyndum bæði góðum og slæmum. Mér finnst svo sem flestar þeirra frekar þunnar í roðinu en inn á milli eru samt allmargar sem eru svo sannarlega þess virði að taka frá stundarkorn til að horfa á.
Kannski má segja að kvikmyndirnar greinist margar aðallega í tvenns konar efni, annars vegar mannleg samskipti og ástina sem er auðvitað sígilt viðfangsefni í sönnum og skálduðum sögum. Hins vegar eru svo myndir sem sýna kannski aðallega ofbeldi og átök sem kalla að sér áhorfendur.
Hér á eftir birti ég nöfn kvikmynda sem ég tel góðar og hafa vakið jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir hjá flestum áhorfendum. A.m.k. gildir það um mig. Verið getur að einhverjum lesendum þessa pistils þyki fengur að því að fá ábendingar um nokkrar slíkra mynda:
- Notebook.
- Beautiful Mind (byggð á lífshlaupi þekkts vísindamanns, Johns Nash)
- Forrest Gump.
- As Good as It Gets.
- Good Will Hunting.
- A Star Is Born.
- Atonement.
Finnist mönnum jákvætt að klökkna svolítið yfir góðum lýsingum á ástinni og öðrum mannlegum samskiptum gætu þetta verið nytsamar ábendingar. Góða skemmtun.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur