nóvember 2025

  • Trúverðugleiki

    Þessa dagana hefur mikið verið fjallað á netinu um dóm Landsréttar í máli, þar sem piltur var ákærður fyrir kynferðisbrot á stúlku í samkvæmi, sem þau voru stödd í. Hafði hann verið sýknaður í Héraðsdómi og var sú niðurstaða staðfest af tveimur dómurum í Landsrétti en einn vildi sakfella piltinn. Forsendur þess síðast nefnda fyrir sakfellingunni eru satt að segja með ólíkindum.

    Svo stóð á að brotaþoli og ákærði voru ein til frásagnar um atvikin að hinu meinta broti. Lá fyrir af beggja hálfu að kynmök höfðu átt sér stað. Þau gáfu hins vegar mismunandi framburð um atvikin og bar stúlkan að þau hefðu haldið áfram eftir að hún hafi verið orðin þeim afhuga. Pilturinn neitaði þessu og sagðist hafa hætt strax og hann varð þess var að stúlkan vildi hverfa frá.

    Engin vitni voru að atvikum og tók dómarinn, sem skilaði sératkvæðinu, sér fyrir hendur að meta trúverðugleika framburðar aðilanna og byggði dóm sinn á því að framburður stúlkunnar hafi verið trúverðugri en piltsins.

    Allir sem fást við svona mál vita að mat á trúverðugleika aðila, þegar þeir lýsa atvikum á mismunandi leið, er afar varhugavert til sönnunar á atvikum í málum af þessu tagi. Stafar það auðvitað af því að báðir eru hlutdrægir í lýsingum sínum. Eins og menn vita hvílir sönnunarbyrðin um hina refsiverðu háttsemi á ákæruvaldinu. Vafa ber að meta hinum ákærða í hag. Stafar það af því að dómstólum er óheimilt að sakfella ákærðan mann nema sökin sé vafalaus. Þarf varla að hafa mörg orð um harminn sem hann og aðstandendur hans þurfa að þola sé hann dæmdur að ósekju.

    Dómarinn sem skilaði þessu sératkvæði lét þessa meginreglu ekki aftra sér. Hann sagðist meta framburð stúlkunar henni í hag, svo varhugaverð sem slík afgreiðsla er hjá manni sem fer með dómsvald í refsimálum. Og ekki nóg með það. Við lestur á atvikum málsins er ljóst að framburður piltsins var að mun trúverðugri en stúlkunnar. Framburður hans hafði haldist óbreyttur frá upphafi en hennar ekki. Hún bar á mismunandi vegu um ýmis atvik málsins við meðferð þess.

    Í sjálfu sér getur ekki nokkur maður fullyrt um atvikin að kynmökunum. Vegna reglunnar um sönnunarbyrðina er dómurunum skylt að sýkna sakborninginn ef sökin sannast ekki. Þessa reglu hljóta allir dómarar að þekkja. Mikla harmleiki hefur leitt af röngum dómum sem kveðnir hafa verið upp án fullnægjandi sönnunarfærslu. Sá dómari sem gerist sekur um slíkt, þó að í sératkvæði sé, ætti að leita sér að öðru starfi. Í reynd er lögbrot hans alvarlega heldur en brotið sem ákært var fyrir í málinu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frelsi til orða og athafna

    Flestum Íslendingum er ljóst að hér á landi eru í gildi stjórnarskrárvarðar reglur sem teljast vernda frelsi borgaranna (sjá t.d. 73. gr, stjórnarskrárinnar um umtjáningarfrelsi). Telja má þessar reglur grunnstoðir hér á landi um samskipti milli manna. Ef einhver tjáir t.d. skoðun, sem okkur líkar ekki, er okkar aðferð fólgin í að njóta réttar til að tjá öndverða skoðun og færa fram rök fyrir henni. Við viljum forðast í lengstu lög að banna skoðanir annarra þó að við samsinnum þeim ekki. Samt er að finna í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár ákveðnar heimildir löggjafans til að setja tjáningarfrelsinu skorður í þágu tiltekinna réttinda annarra „enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum“. Öllum er ljóst að þessi heimild til takmörkunar frá meginreglunni er afar þröng þó að sjá megi þess merki í framkvæmd dómstóla að of langt hafi verið gengið í takmörkunum.

    Frelsi með ábyrgð er einstaklega vel lukkað fyrirbæri. Samt hefur þeim öflum vaxið ásmegin hin síðari ár sem vilja takmarka þetta frelsi í þágu skoðana sem þeir hinir sömu telja „réttari“ en skoðanir annarra. Birst hafa greinar sem boða viðhorf um að íslenskir borgarar brjóti af sér með því að tjá skoðanir sem á einhvern hátt geta talist neikvæðar gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Þá virðast höfundar til dæmis vilji reisa skorður við því að menn tjái sig um hættu sem þeir telja að okkur steðja af þeim sem aðhyllast trúarbrögð múslima á þeirri forsendu að í múslimaríkjum séu almenn mannréttindi brotin, t.d. á konum. Vera má að okkur Íslendingum stafi ekki hætta af slíku fólki. Engar líkur séu á að það muni reyna að koma hér á framfæri viðhorfum mannfyrirlitningar sem virðast vera ráðandi í heimalöndum þess. Á þessu höfum við sjálfsagt mismunandi skoðanir. Okkar aðferð gengur út á að banna engar þeirra. Þvert á móti viljum við að fram fari skoðanaskipti um þetta. Það er eins og sumir vilji frekar banna skoðanir um þessi málefni sem þeir lýsa sig andvíga. Ganga þeir þá stundum svo langt að nafngreina Íslendinga sem hafa tjáð skoðanir, sem höfundunum líka ekki, og tala niðrandi um þá. Það er eins og þessir höfundar séu andvígir því andlega frelsi sem felst í frelsi okkar til tjáningar. Þetta er þá oft einhvers konar fagnaðarerindi höfundanna.

    Við skulum frekar leggja áherslu á að frelsi bætir lífskjör þeirra sem minnst hafa að bíta og brenna. Í því fyrirkomulagi sem verndar frelsi borgaranna felast ekki bara gæði á hinu andlega sviði sem við sem einstaklingar ættum að þakka fyrir. Í því felast líka bestu kostir sem mannkynið hefur kynnst til framfara og velferðar í þágu allra manna. Í gervallri mannkynssögunni er ekki unnt að finna annað eins framfaraskeið og við höfum notið eftir að meginreglan um frelsið varð ráðandi í samfélagi okkar ásamt vernd einstaklingsbundinna mannréttinda. Fyrst og fremst hefur hagur þeirra sem minnst hafa í samfélaginu tekið stórstígum framförum. Lífskjör þeirra hafa frá upphafi 20. aldar batnað svo um munar. Um þetta má til dæmis vísa til bókarinnar Framfarir, eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg, sem út kom í íslenskri þýðingu á árinu 2017. Þessi velferð á rót að rekja til meginreglunnar um frelsi í viðskiptum. Menn ættu að leggja sig fram um að skilja að hagur almennings batnar ekki með opinberum tilskipunum. Ef litið er til lengri tíma batnar hann aðeins með aukinni velgengni fyrirtækja í atvinnurekstri. Þannig ættu t.d. fyrirsvarsmenn launþega að reyna að sameinast um það markmið að efla kapítalismann. Aukinn árangur í atvinnurekstri er eina leiðin til bættra lífskjara borgaranna. Þau munu ekki batna með aukinni skattheimtu og úthlutun til almennings úr sameiginlegum sjóðum. Slík aðferðafræði leggur deyfandi hönd á viðgang þeirra sem skapa tekjur, okkur öllum til hagsbóta.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Réttlæti úthlutað

    Það er stundum næstum því sorglegt að fylgjast með stjórnmálaátökum dagsins í landi okkar og virða fyrir sér forsendurnar sem þau byggjast á. Núna eru sagðar fréttir af launatilfærslum fyrir milligöngu ríkissjóðs. Þeir fjármunir eru auðvitað sóttir í vasa skattgreiðenda. Tilfærslur fjár eiga sér stað í stórum stíl m.a. með auknum álögum á eigendur bifreiða o.fl. Um leið hefjast svo auðvitað deilur um þá úthlutun réttlætis sem í þessum ráðstöfunum felst. Sumir telja sig hlunnfarna. Þeir hefðu átt að fá stærri skerf af nægtaborði úthlutunarsinna. Það var allt fyrirséð. Lítið er hins vegar talað um þann hugmyndafræðilega grundvöll sem þessar aðgerðir með reglusetningu byggjast á, hvað þá að menn velti fyrir sér hvert við stefnum með því að haga skipan mála með þeim hætti sem hér um ræðir.

    Þeir sem kveðast nú styðja svona ráðstafanir í þágu ætlaðs réttlætis ættu að spyrja sjálfa sig hver sé grundvöllurinn fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk. Erum við ekki sjálf grunneiningin? Við höfum auðvitað aldrei verið beðin um að semja okkur inn í samfélag við aðra. Flest teljum við samt að okkur beri siðferðileg skylda til þátttöku í slíku samfélagi. Ástæðan er nábýlið við aðra og óhjákvæmileg sameiginleg viðfangsefni okkar og þeirra. Þess vegna beygjum við okkur flest undir að teljast þátttakendur í sameiginlegu skipulagi með öðru fólki.

    Meginhugmyndin hlýtur samt að vera sú að einstaklingurinn í slíku samfélagi sé grunneiningin. Hann verður ekki til fyrir samfélagið heldur verður samfélagið til vegna hans og annarra einstaklinga sem þar er að finna. Hlutverk þess getur aldrei orðið að taka ákvarðanir um sérstök málefni hans eða aflétta ábyrgð hans á ákvörðunum sem hann sjálfur hefur tekið um sín eigin málefni. Það hefur miklu fremur því hlutverki að gegna að vernda réttindi hans fyrir ásókn annarra. Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Samt reyna atkvæðakaupendur stjórnmálanna daglega að þynna þessi viðhorf út með aðgerðum sínum. Og kjósendur hafa í skammsýni sinni tilhneigingu til að selja atkvæðin þeim sem best býður. Pyngja dagsins er þyngri hjá þeim flestum en fylgispekt við hugsjónir frelsis og ábyrgðar.

    Það skiptir sköpum fyrir velferð og hamingju manna að njóta frelsis til að stjórna eigin lífi og taka ákvarðanir um hagi sjálfs sín. Þessu verður að fylgja ábyrgð þess manns sjálfs sem í hlut á. Það er lykilatriði. Í samfélagi mannanna er auðvelt að greina alls kyns vandamál sem einstaklingar og hópar eiga við að stríða. Úrræði dagsins felast í að vilja taka á vandanum með opinberum afskiptum og forsjá og forða mönnum frá að bera ábyrgð á sjálfum sér. Úthlutun réttlætis nú vegna „skuldavanda heimilanna“ er af þessum toga. Kannski á stjórnmálastefna ríkisafskipta, sem ráðið hefur málum í landinu undanfarna áratugi, sinn þátt í að menn sjá ekkert athugavert við það þjóðskipulag sem úthlutar réttlæti með lagareglum. Menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Allir stjórnmálaflokkar taka þátt í þeirri forsjárhyggju sem í þessu felst. Enginn valkostur býðst um annað.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Undirlægjuháttur

    Þjóðin hefur undanfarin ár fengið fréttir af átökum ríkissaksóknara, Sigríðar J. Friðjónsdóttur, við vararíkissaksóknarann, Helga Magnús Gunnarsson. Hófust þessar stælur með áminningu Sigríðar við Helga Magnús í ágústmánuði árið 2022. Hrakti hún í framhaldinu Helga Magnús úr starfi sínu og hefur neitað honum um að fá aðstöðu við embættið og verkefni til að sinna starfsskyldum sínum.

    Þetta mál er allt hið undarlegasta. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skipar ráðherra vararíkissaksóknara ótímabundið.

    Í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er kafli um lausn starfsmanna frá embætti. Þar segir í 1. mgr. 26. gr. að stjórnvald sem skipar í embætti veiti og lausn frá því um stundarsakir. Undanfari lausnar um stundarsakir er áminning. Í 21. gr. laganna frá 1988 er kveðið á um að forstöðumaður stofnunar skuli veita áminningu. Ef um ráðherraskipaðan starfsmann er að ræða verður að telja það falla undir verksvið ráðherra að veita honum áminningar, því þær eru auðvitað haldlausar ef embættismaður sem ekki hefur skipunarvaldið veitir áminningarnar. Hann getur nefnilega ekki fylgt þeim eftir með uppsögn starfsmannsins úr starfi gefi atvik málsins tilefni til.

    Af þessu leiðir að áminning ríkissaksóknara á hendur Helga Magnúsi, sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, hefur enga þýðingu fyrir starf hans við embættið. Hann virðist hins vegar hafa látið þetta yfir sig ganga og hefur nú látið af starfi sínu sem vararíkissaksóknari. Undanfari þessarar niðurstöðu er ólögmæt áminning ríkissaksóknarans og undirlægjuháttur sitjandi dómsmálaráðherra.

    Við hefur blasað allan þennan tíma að persónuleg andúð ríkissaksóknarans á Helga Magnúsi hefur valdið þessu uppnámi við starfrækslu þessa embættis. Persónuleg andúð getur ekki orðið tilefni til brottvikningar starfsfólks. Hér hefur ríkissaksóknarinn að auki orðið til þess að embættið er verr búið en áður til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Sýnist ráðherrann hafa haft fullt tilefni til að áminna ríkissaksóknarann og víkja honum síðan úr starfi hefði hann ekki látið sér segjast við áminninguna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Góðar kvikmyndir

    Þegar aldurinn færist yfir og menn hafa látið af fyrri störfum getur verið gott að finna sér eitthvað uppbyggilegt að gera til að stytta sér stundir. Nú orðið er boðið upp á allmargar myndveitur í sjónvarpi, þar sem sýndur er mýgrútur af kvikmyndum bæði góðum og slæmum. Mér finnst svo sem flestar þeirra frekar þunnar í roðinu en inn á milli eru samt allmargar sem eru svo sannarlega þess virði að taka frá stundarkorn til að horfa á.

    Kannski má segja að kvikmyndirnar greinist margar aðallega í tvenns konar efni, annars vegar mannleg samskipti og ástina sem er auðvitað sígilt viðfangsefni í sönnum og skálduðum sögum. Hins vegar eru svo myndir sem sýna kannski aðallega ofbeldi og átök sem kalla að sér áhorfendur.

    Hér á eftir birti ég nöfn kvikmynda sem ég tel góðar og hafa vakið jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir hjá flestum áhorfendum. A.m.k. gildir það um mig. Verið getur að einhverjum lesendum þessa pistils þyki fengur að því að fá ábendingar um nokkrar slíkra mynda:

    1. Notebook.
    2. Beautiful Mind (byggð á lífshlaupi þekkts vísindamanns, Johns Nash)
    3. Forrest Gump.
    4. As Good as It Gets.
    5. Good Will Hunting.
    6. A Star Is Born.
    7. Atonement.

    Finnist mönnum jákvætt að klökkna svolítið yfir góðum lýsingum á ástinni og öðrum mannlegum samskiptum gætu þetta verið nytsamar ábendingar. Góða skemmtun.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hjarðhegðun og fleira

    Hér á Íslandi er margt sem betur mætti og ætti að fara. Lítum á nokkur dæmi:

    1. Hjarðhegðun. Menn taka alltof oft undir skoðanir og háttsemi annarra án þess að hafa sjálfir aflað upplýsinga og lagt málefnalegt mat á það sem um ræðir. Þannig er tekið undir með þeim sem hæst láta.
    2. Flestir stjórnmálamenn eru stefnulausir, en með því á ég við að þeir styðjast sjaldnast við ákveðna pólitíska línu, sem oft er nauðsynlegt að kynna fyrir kjósendum fyrirfram svo þeir viti hvers vænta megi af þeim sem þeir kjósa.
    3. Embættismenn í þjónustu ríkisins ráða mörgum (flestum?) ákvörðunum í málefnum almennings og stofnana sem ríkisvaldið er í fyrirsvari fyrir. Kosnir fulltrúar telja það aðalskyldu sína að byrja störf sín í embætti með því að kynna sér viðhorf embættismanna sem fyrir sitja í t.d. ráðuneytunum og eru reyndar miklu fleiri en þörf er á. Hér eiga kjörnir fulltrúar að halda um stjórnartauma en gera það oft lítt eða ekki. Þeim finnst þá þægilegra að lúta forsjá embættismanna sem hafa oft meiri vitneskju en þeir um kringumstæður mála.
    4. Birtar hafa verið upplýsingar um að starfsmenn ríkisins séu margir verklausir eða verklitlir. Mikill mannafli fer í að gera lítið sem ekkert í vinnunni. Þetta kostar almenning stórfé. Lagareglur torvelda þeim, sem almenningur hefur kosið til áhrifa, að segja upp opinberum starfsmönnum sem engin þörf er fyrir.
    5. Stór hluti almennings hikar ekki við að fullyrða að þeir, sem hafa verið sakaðir um afbrot, hafi framið brotin, þó að sök þeirra hafi ekki verið sönnuð fyrir þeim stofnunum sem um það eiga að fjalla (dómstólum). Af þessu hafa hlotist miklir harmleikir.
    6. Það er einkenni á störfum kjörinna fulltrúa að vilja takast á hendur forsjá fyrir ýmsum málefnum þjóðarinnar, þó að engin þörf sé fyrir slíkt. Með þessari háttsemi telja þeir sig vinna að hagsmunum almennings þó að reyndin af þessu sé öndverð og gangi ekki út á annað en að hafa vit fyrir fólkinu og vernda það fyrir sjálfu sér. Meginreglan á að vera sú að menn taki sjálfir ábyrgð á ákvörðunum sem varða eigin hagsmuni þeirra og beri síðan sjálfir ábyrgð á því sem aflaga kann að fara.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hátíðlegar stellingar

    Það er þarft að setja sig stundum í hátíðlegar stellingar og velta fyrir sér grundvellinum fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk.

    Meginhugmyndin hlýtur að vera sú að einstaklingurinn sé grunneiningin í slíku samfélagi. Hann verður ekki til fyrir samfélagið, heldur verður samfélagið til vegna hans og annarra einstaklinga sem þar er að finna. Hlutverk þess getur aldrei orðið að drottna yfir honum. Það hefur miklu fremur því hlutverki að gegna að vernda réttindi hans fyrir ásókn annarra.

    Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmark ast af öðru en réttindum annarra. Við teljum líka þá meginreglu gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi einstaklinga og jafnvel að slík heimild dugi ekki til ef skert eru réttindi sem njóta ríkari verndar samkvæmt sérstökum ákvæðum sem við höfum sett í stjórnarskrá okkar um það. Ég tel að miklu máli skipti fyrir þá sem starfa að úrlausn mála í réttarkerfinu að átta sig vel á þessum hugmyndagrundvelli stjórnskipunarinnar.

    Einnig er sérstök ástæða til að nefna annan þátt, sem að mínum dómi er óaðskiljanlegur hluti af þeirri lífsskoðun sem hér er lýst, en það er virðing fyrir öðru fólki og skilyrðislaus viðurkenning á rétti þess til að haga eigin lífi á þann hátt sem það sjálft kýs, eins lengi og það skaðar ekki aðra. Mannfólkið er fjölbreytilegt og einstakir menn hafa ólíkar kenndir, hvatir og langanir í lífinu. Allir eiga þar að mínum dómi sama rétt. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum og láta menn njóta misjafns réttar eftir því hverjum þessara „flokka“ þeir tilheyra. Til þess hafa menn ekki heimild af þeirri einföldu ástæðu að einn á ekki að ráða neinu um einkahagi annars.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur