Í skáldsögunni Undirstaðan, eftir þann merka höfund Ayn Rand, ræða tvö tíu ára börn saman um ætlunarverk sín í lífinu. Annað þeirra, drengur, svaraði spurningu um hvað hann ætlaði að gera með orðunum „það sem er rétt.“1 Ekki flókið. Þó að við tileinkum okkur þetta viðhorf þurfum við samt að skilja að engin trygging er fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Og við verðum líka jafnan að vera tilbúin til að skipta um skoðun á þeim málefnum sem við tökum afstöðu til ef nýjar upplýsingar eða röksemdir birtast okkur. Þó að engin trygging sé fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur gerir það samt ekkert til svo lengi sem við reynum af einlægum huga að taka þá afstöðu sem best er. Meira verður ekki krafist af okkur. Og það sem mestu máli skiptir, við getum sjálf ekki krafist meira af okkur sjálfum. Hafi maður breytt rétt, eftir bestu samvisku, getur enginn gert manni neitt. Maður getur staðið aleinn gagnvart málæði, hávaða og fordæmingum án þess að slíkt hreyfi við manni, aðeins ef maður hefur hlýtt kalli samvisku sinnar og gert það sem fólst í svari drengsins í sögu Ayn Rand, „það sem er rétt“ — og þá eins og maður hefur metið það sjálfur eftir að hafa reynt að taka tillit til alls sem máli skiptir.
Ég hef alltaf haldið upp á orð Abrahams Lincolns lögfræðings í Notes for a Law Lecture frá 1850 en Abraham þessi gegndi, eins og menn vita, embætti forseta Bandaríkjanna nokkrum árum síðar. Orð hans hljóða svo í þýðingu minni: „Reynið alltaf að vera heiðarleg, og ef þið getið ekki að eigin dómi verið heiðarleg í starfi ykkar sem lögfræðingar, verið þá heiðarleg við að gera eitthvað annað.“
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur
1 Sjá Ayn Rand: Undirstaðan í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.