Ég starfaði sem málflutningsmaður í tæp 30 ár, áður en ég var skipaður dómari við Hæstarétt á árinu 2004. Á þessum árum rak ég aragrúa af dómsmálum fyrir íslenskum dómstólum, m.a. Hæstarétti. Ég segi frá mörgum þessara mála í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 en þá hafði ég látið af störfum sem hæstaréttardómari. Málin eru miseftirminnileg, eins og gefur að skilja.
Meðal eftirminnilegra mála sem ég annaðist var mál Magnúsar Thoroddsen sem gegndi embætti forseta Hæstaréttar fram á árið 1989, en var svo knúinn til að segja af sér embættinu í desember það ár. Í stjórnarskránni (8. gr.) er kveðið á um að forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skuli gegna embætti forseta Íslands ef hann forfallast frá störfum svo sem vegna dvalar erlendis. Þiggja þeir sérstök laun fyrir þennan starfa.
Í nokkra áratugi hafði gilt sú regla hjá ÁTVR að æðstu embættismenn ríkisins skyldu njóta þeirra fríðinda að þurfa ekki að greiða nema kostnaðarverð fyrir áfengi sem þeir keyptu hjá versluninni. Var tekið fram að þetta skyldi aðeins gilda um handhafa forsetavalds þann tíma sem forsetavaldið var í þeirra höndum.
Magnús hafði þann hátt á að kaupa áfengi á þessu verði fyrir launin sem hann hlaut fyrir störf sín sem handhafi forsetavalds. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um þennan hátt á nýtingu þessarar heimildar hjá fyrri forseta réttarins, Þór Vilhjálmssyni.
Á tíma Magnúsar í þessu embætti var Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands og fór hún tíðari ferðir til útlanda en fyrirrennarar hennar höfðu gert. Samkvæmt reglunni, sem Magnús hafði fengið upplýsingar um, keypti hann því meira áfengi á ofangreindum kjörum en fyrirrennarar hans. Engin leynd hvíldi yfir þessum kaupum hans. Hann keypti það einfaldlega yfir búðarborðið hjá áfengisversluninni.
Mikill hvellur varð í fjölmiðlum, þegar birtar voru upplýsingar um áfengiskaup Magnúsar. Síðan höfðaði dómsmálaráðherra mál á hendur honum til embættismissis sem hæstaréttardómari. Magnús vildi skiljanlega ekki sæta kröfum ráðherrans og leitaði til mín um málsvörnina.
Þetta voru aðalatriðin í vörninni:
- Magnús hafði engar reglur brotið.
- Hann keypti áfengið með einföldum viðskiptum við áfengissöluna, sem var sá aðili sem fór með framkvæmd þessara heimilda til áfengiskaupa. Aldrei var nein leynd yfir kaupum hans.
- Hann hagaði kaupum sínum í samræmi við venjur sem upplýst var að hefðu gilt um slík kaup.
- Tíðari ferðir Vigdísar Finnbogadóttur en fyrri forseta til útlanda hefðu orðið til þess að hann keypti meira en forverar hans höfðu gert.
- Fyrir lá að ráðherrar höfðu nýtt þessar áfengiskaupaheimildir í miklu meira mæli en Magnús og látið flytja mikið magn áfengis heim til sín. Þeir höfðu ekki sjálfir greitt kostnaðarverðið heldur látið ríkissjóð greiða það.
Í Hæstarétti dæmdu sjö dómarar í málinu og voru tveir þeirra hæstaréttarlögmenn sem höfðu verið kallaðir inn til setu í málinu. Fimm föstu dómararnir féllust á kröfu ráðherrans og dæmdu Magnús úr embætti, þó að hann hefði engar reglur brotið. Hinir tveir tilkvöddu lögmenn skiluðu sératkvæði og vildu sýkna Magnús. Með því sönnuðu þeir að þeir voru betri lögfræðingar en hinir fimm.
Þessi dómur er einfaldlega dæmi um að þessi æðsti dómstóll þjóðarinnar dæmdi ekki eftir gildandi lögum. Hann vildi fremur ganga í augun á almenningi.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur