október 2025

  • Spilling

    Við myndun núverandi ríkisstjórnar voru höfð uppi stór orð um að nú yrði sparað í rekstri ríkisins. M.a. hafði þá nýlega komið fram tillaga um að fækka dómurum Hæstaréttar úr sjö í fimm. Ástæðan fyrir þessu var sú að eftir stofnun Landsréttar á árinu 2018 hafði komið í ljós svo um munaði að dómstóllinn hafði svo lítið að gera að hver dómari dæmdi aðeins í 30-40 málum á ári, en þessi fjöldi hafði á árunum fyrir breytinguna verið allt að 330 málum á hvern dómara á ári. Leiddi þetta til þess að dómararnir tóku að sér að sinna öðrum embættum, m.a. hjá ríkinu, sem sjálfsagt hafa aukið tekjur þeirra um allt að helmingi.

    Strax á fyrsta degi í embætti var dómsmálaráðherrann spurður, hvort ekki stæði til að flytja frumvarp á Alþingi um þessa breytingu. Ráðherrann svaraði að bragði að ekki kæmi til greina að fækka dómurunum. Engin rök voru fyrir þessari afstöðu, en með lagabreytingu í þessa átt hefði mátt spara ríkissjóði nokkur hundruð milljónir króna á ári. Hver ætli ástæðan sé fyrir þessari óskiljanlegu afstöðu?. Mér dettur t.d. í hug að ráðherrann vilji með þessu auka líkur á að geta sjálf orðið dómari við réttinn þegar ráðherradómi lýkur.

    Er þetta ekki dæmigert? Persónulegir eigin hagsmunir eru teknir fram yfir hagsmuni þjóðarinnar af því að spara umtalsverð útgjöld í rekstri ríkisins. Þessi ráðherra hefur, bæði á þessu sviði sem öðrum, sýnt fram á vanhæfni til að sinna starfi sínu. Og aðrir ráðherrar hafa sýnilega stutt ráðherrann í þessari smánarlegu afstöðu. Er ekki þörf á að þjóðin ákveði við fyrsta tækifæri að losa þjóðina við þetta fólk úr ráðherradómi?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • „Það sem er rétt“

    Í skáldsögunni Undirstaðan, eftir þann merka höfund Ayn Rand, ræða tvö tíu ára börn saman um ætlunarverk sín í lífinu. Annað þeirra, drengur, svaraði spurningu um hvað hann ætlaði að gera með orðunum „það sem er rétt.“1 Ekki flókið. Þó að við tileinkum okkur þetta viðhorf þurfum við samt að skilja að engin trygging er fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Og við verðum líka jafnan að vera tilbúin til að skipta um skoðun á þeim málefnum sem við tökum afstöðu til ef nýjar upplýsingar eða röksemdir birtast okkur. Þó að engin trygging sé fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur gerir það samt ekkert til svo lengi sem við reynum af einlægum huga að taka þá afstöðu sem best er. Meira verður ekki krafist af okkur. Og það sem mestu máli skiptir, við getum sjálf ekki krafist meira af okkur sjálfum. Hafi maður breytt rétt, eftir bestu samvisku, getur enginn gert manni neitt. Maður getur staðið aleinn gagnvart málæði, hávaða og fordæmingum án þess að slíkt hreyfi við manni, aðeins ef maður hefur hlýtt kalli samvisku sinnar og gert það sem fólst í svari drengsins í sögu Ayn Rand, „það sem er rétt“ — og þá eins og maður hefur metið það sjálfur eftir að hafa reynt að taka tillit til alls sem máli skiptir.

    Ég hef alltaf haldið upp á orð Abrahams Lincolns lögfræðings í Notes for a Law Lecture frá 1850 en Abraham þessi gegndi, eins og menn vita, embætti forseta Bandaríkjanna nokkrum árum síðar. Orð hans hljóða svo í þýðingu minni: „Reynið alltaf að vera heiðarleg, og ef þið getið ekki að eigin dómi verið heiðarleg í starfi ykkar sem lögfræðingar, verið þá heiðarleg við að gera eitthvað annað.“

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

    1 Sjá Ayn Rand: Undirstaðan í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.

  • Ætli þeim sé sjálfrátt?

    Í síðari heimsstyrjöldinni voru framin fjöldamorð á yfir 6 milljón Gyðingum í Evrópu. Þetta fólk hafði ekki annað til saka unnið en að vera Gyðingar. Þeir sem vilja kynna sér þetta ættu að horfa á kvikmyndina „Schindler‘s list“, sem geymir trúverðuga frásögn af þessum hroðalegu morðum. Menn skulu þá hafa í huga að ekki er lengra liðið frá þessum glæpaverkum en svo að hún beindist að næstu kynslóð á undan okkar. Ég fæddist t.d. aðeins nokkrum árum (1947) eftir að þessi fjöldamorð voru framin.

    Eftir lok stríðsins var Ísraelsríki stofnað á landsvæði, þar sem margir gyðingar áttu þá þegar heimili. Það ríki byggðist frá upphafi á fyrirmynd Vesturlanda um lýðræði, mannréttindi og hlutlausa dómstóla. En hvernig sem á því stendur voru áfram starfrækt samtök sem höfðu ekki aðra hugsjón meiri en að eyða þessu nýstofnaða ríki og íbúum þess. Hryðjuverkasamtökin Hamas voru og eru dæmi um þetta. Þessi samtök voru studd af glæpsamlegum ríkjum í nágrenninu, þar sem ríki Írans er efst á blaði. Þar eru borgarar drepnir á götum úti, eins og konur fyrir að vilja bera höfuðföt sem ráðandi öflum líkar ekki, og samkynhneigðir fyrir kynhvöt sína. Ekkert réttarkerfi er til staðar í því skyni að verja borgarana fyrir morðum valdhafanna.

    Fyrir tveimur árum réðust Hamas-samtökin inn fyrir landamæri Ísraelsríkis. Þar frömdu þau hryðjuverk sem fólust í manndrápum, nauðgunum og handtökum á borgurum sem fyrir þeim urðu. Þeim var vel ljóst að við þessu myndi Ísraelsríki bregðast. En samtök þessi höfðu undirbúið viðbrögð sín sem fólust í því að sigra áróðursstríðið með því að nota óbreytta borgara sem eins konar hlífiskjöld. Þeir t.d. grófu göng undir sjúkrahús og skóla til að framkalla þetta ástand. Þeir urðu sannir að því að hindra undankomuleiðir hinna saklausu borgara í því skyni að þeir yrðu fyrstir fyrir árásum Ísraelsmanna.

    Ég hef þá persónulegu skoðun að Ísraelsmenn hefðu átt að gæta þess sérstaklega að saklausir borgarar yrðu ekki fyrir árásum þeirra, því að þau mannslíf voru, ef eitthvað er, verðmeiri en Hamas-glæpamannana. Þeir munu samt hafa gert ráðstafanir í þessa átt með því að vara fyrirfram við árásunum og einnig að koma vistum og matvælum til fólksins. Þeir urðu hins vegar undir í áróðursstríðinu.

    Nú hefur fjöldi Vesturlandabúa leikið þennan leik með hryðjuverkamönnunum. Þannig hafa þeir óbeint stutt réttarástandið í ríkjum múhameðstrúarmanna, sem varða m.a. réttarstöðu kvenna og annarra „óæskilegra“ borgara. Það er t.d. kaldhæðnislegt að sjá samtök kvenna vilja styðja þær þjóðir sem beita konur ofbeldi án laga og réttar. Þeim er ekki sjálfrátt. Svo hafa misvitrir stjórnmálamenn á Vesturlöndum látið undan áróðri glæpamannanna og sagt upp stjórnmálasambandi við Ísrael. Þeir taka með þessum hætti þátt í að grafa undan lýðræði og mannréttindum heima fyrir. Þeir láta yfirleitt undan þeim sem hæst lætur. Ætli þeim sé sjálfrátt?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Mál Magnúsar Thoroddsen

    Ég starfaði sem málflutningsmaður í tæp 30 ár, áður en ég var skipaður dómari við Hæstarétt á árinu 2004. Á þessum árum rak ég aragrúa af dómsmálum fyrir íslenskum dómstólum, m.a. Hæstarétti. Ég segi frá mörgum þessara mála í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 en þá hafði ég látið af störfum sem hæstaréttardómari. Málin eru miseftirminnileg, eins og gefur að skilja.

    Meðal eftirminnilegra mála sem ég annaðist var mál Magnúsar Thoroddsen sem gegndi embætti forseta Hæstaréttar fram á árið 1989, en var svo knúinn til að segja af sér embættinu í desember það ár. Í stjórnarskránni (8. gr.) er kveðið á um að forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skuli gegna embætti forseta Íslands ef hann forfallast frá störfum svo sem vegna dvalar erlendis. Þiggja þeir sérstök laun fyrir þennan starfa.

    Í nokkra áratugi hafði gilt sú regla hjá ÁTVR að æðstu embættismenn ríkisins skyldu njóta þeirra fríðinda að þurfa ekki að greiða nema kostnaðarverð fyrir áfengi sem þeir keyptu hjá versluninni. Var tekið fram að þetta skyldi aðeins gilda um handhafa forsetavalds þann tíma sem forsetavaldið var í þeirra höndum.

    Magnús hafði þann hátt á að kaupa áfengi á þessu verði fyrir launin sem hann hlaut fyrir störf sín sem handhafi forsetavalds. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um þennan hátt á nýtingu þessarar heimildar hjá fyrri forseta réttarins, Þór Vilhjálmssyni.

    Á tíma Magnúsar í þessu embætti var Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands og fór hún tíðari ferðir til útlanda en fyrirrennarar hennar höfðu gert. Samkvæmt reglunni, sem Magnús hafði fengið upplýsingar um, keypti hann því meira áfengi á ofangreindum kjörum en fyrirrennarar hans. Engin leynd hvíldi yfir þessum kaupum hans. Hann keypti það einfaldlega yfir búðarborðið hjá áfengisversluninni.

    Mikill hvellur varð í fjölmiðlum, þegar birtar voru upplýsingar um áfengiskaup Magnúsar. Síðan höfðaði dómsmálaráðherra mál á hendur honum til embættismissis sem hæstaréttardómari. Magnús vildi skiljanlega ekki sæta kröfum ráðherrans og leitaði til mín um málsvörnina.

    Þetta voru aðalatriðin í vörninni:

    1. Magnús hafði engar reglur brotið.
    2. Hann keypti áfengið með einföldum viðskiptum við áfengissöluna, sem var sá aðili sem fór með framkvæmd þessara heimilda til áfengiskaupa. Aldrei var nein leynd yfir kaupum hans.
    3. Hann hagaði kaupum sínum í samræmi við venjur sem upplýst var að hefðu gilt um slík kaup.
    4. Tíðari ferðir Vigdísar Finnbogadóttur en fyrri forseta til útlanda hefðu orðið til þess að hann keypti meira en forverar hans höfðu gert.
    5. Fyrir lá að ráðherrar höfðu nýtt þessar áfengiskaupaheimildir í miklu meira mæli en Magnús og látið flytja mikið magn áfengis heim til sín. Þeir höfðu ekki sjálfir greitt kostnaðarverðið heldur látið ríkissjóð greiða það.

    Í Hæstarétti dæmdu sjö dómarar í málinu og voru tveir þeirra hæstaréttarlögmenn sem höfðu verið kallaðir inn til setu í málinu. Fimm föstu dómararnir féllust á kröfu ráðherrans og dæmdu Magnús úr embætti, þó að hann hefði engar reglur brotið. Hinir tveir tilkvöddu lögmenn skiluðu sératkvæði og vildu sýkna Magnús. Með því sönnuðu þeir að þeir voru betri lögfræðingar en hinir fimm.

    Þessi dómur er einfaldlega dæmi um að þessi æðsti dómstóll þjóðarinnar dæmdi ekki eftir gildandi lögum. Hann vildi fremur ganga í augun á almenningi.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Fædd er stjarna

    Ég tók mig til og horfði aftur á kvikmyndina „A star is born“ sem gerð var á árinu 2018 og er sýnd á myndveitunni Viaplay. Ég hafði horft á þessa mynd fyrir nokkrum árum. Núna fannst mér hún áhrifameiri en þá.

    Meginviðfangsefni þessarar kvikmyndar er sjúkdómurinn alkóhólismi og sú harmræna barátta sem fórnarlömbin þurfa að heyja til ná tökum á honum. Leikarinn Bradley Cooper leikur alkóhólistann Jack Maine og segir myndin frá baráttu hans við þennan illvíga sjúkdóm. Ég sjálfur háði þessa baráttu fyrir rúmlega 46 árum og varð svo gæfusamur að ná tökum á sjúkdómnum og þar með lífi mínu. Ég þekki því á eigin skinni þau viðfangsefni sem Jack Maine þufti að fást við og lýst er í kvikmyndinni.

    Flest okkar eru kunnug fólki sem hefur þurft að heyja sömu glímu og þarna er lýst með svo trúverðugum og áhrifamiklum hætti. Það stríð getur endað bæði vel og illa eftir mikil átök sjúklingsins við sjálfan sig.

    Það eykur svo á gildi myndarinnar að í henni leikur sú frábæra söngkona Lady Gaga og flytur m.a. lögin „Shallow“, „Remember us this way“ og „I‘ll never love again“.

    Ástæða er til að benda fólki að horfa á þessa kvikmynd, hvort sem um er að ræða virka eða óvirka alkóhólista og raunar einnig aðstandendur þeirra. Í myndinni er með trúverðugum hætti lýst þessari baráttu og er sú lýsing til þess fallin að styrkja þá sem hana þurfa að heyja.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur