Við hjónin sáum leikritið „Orð gegn orði“, sem sýnt hefur verið í Þjóðleikhúsinu að undanförnu. Þetta er áhrifamikil og vel gerð sýning. Meginefni hennar er lýsing ungrar konu á andlegum áhrifum nauðgunar karlmanns sem hún starfaði með. Einungis einn leikari kemur á svið sýningarinnar, leikarinn Ebba Katrín Finnsdóttir, og er frammistaða hennar ekkert minna en stórkostleg.
Mér sýnist að boðskapur þessarar sýningar sé annars vegar að fjalla um áhrif þessa glæpaverks á andlega heilsu þolandans og hins vegar hugleiðing um að taka þurfi upp ný viðhorf til sönnunar brota af þessu tagi þannig að unnt sé að draga fleiri afbrotamenn til ábyrgðar fyrir dómi. Um er að ræða mjög alvarlegt ofbeldisbrot, sem líklega er algengara í samfélagi okkar heldur en menn gera sér almennt grein fyrir.
Lýsingin á áhrifum brotsins, sem þessi kona verður fyrir, er hrikaleg. M.a. liggur fyrir að þau áhrif muni lita allt líf þolandans um ókomna framtíð, og þá meðal annars vegna þess að ekki reynist unnt að draga afbrotamanninn til ábyrgðar þar sem hann neitar sök. Ekki er öðrum sönnunargögnum til að dreifa en framburði þeirra beggja, konunnar og ofbeldismannsins. Við þekkjum flest umræður um þann vanda sem við er að glíma við að sanna brotin þegar svona stendur á. Veldur hann í flestum tilvikum því að ekki er unnt að sanna sökina. Þá krefjast lögin þess að sakborningurinn verði sýknaður.
Þessar lyktir málsins byggjast á reglu sem við Íslendingar, sem og aðrar þjóðir í kringum okkur, hafa sett og reist er á þeirri forsendu að sanna þurfi sök í sakamálum. Þannig er í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar svofellt ákvæði: „Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“ Um þetta ákvæði hefur verið sagt að betra sé að tíu sekir séu sýknaðir, heldur en að einn saklaus sé sakfelldur og látinn taka út refsingu. Reglan er í 1. gr 109. gr laga um meðferð sakamála orðuð svo: „Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“.
Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að ekki megi gera þá aðför að sökuðum mönnum að beita þá viðurlögum, þ.m.t. að svipta þá frelsi sínu, án þess að sök þeirra hafi verið sönnuð með þeim hætti að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum (en. „beyond reasonable doubt“) og hvílir þá sönnunarbyrði á handhafa ríkisvalds í málinu, saksóknaranum.
Það er að mínum dómi vafalaust að miklu fleiri nauðgunarbrot séu drýgð heldur en sannast þannig að afbrotamennirnir séu látnir bera ábyrgð á þeim fyrir dómi. Það er einkum vegna hinnar afdráttarlausu kröfu laga um að sanna þurfi brotin með þeim hætti sem nefndur var að framan. Þetta veldur því, að fleiri brotamenn sleppa, en vera myndi ef slakað yrði á kröfunum til sönnunar brotanna. Sjálfsagt væri samt unnt að ná til fleiri brotamanna með því að gera ríkari kröfur til rannsóknar þessara mála en nú er gert.
Í leikritinu „Orð gegn orði“ er lýst þeim áhrifum sem þetta ofbeldisbrot hefur á fórnarlambið. Það er svo sannarlega þýðingarmikið að lýsa þessum áhrifum á þann hátt sem gert er, þó ekki væri til annars en að geta veitt fórnarlömbunum þá hjálp sem mildað gæti afleiðingarnar. Til að skilja betur vandann sem við er að glíma þyrfti snjall leikritahöfundur að skrifa leikrit um þær hörmungar sem ákærður maður þyrfti að þola ef hann yrði ranglega sakfelldur fyrir svona brot. Hvað sem því líður er ástæða til að þakka þeim sem að leikritinu standa fyrir frábæra leiksýningu.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður