desember 2023

  • Friðvænlegasta ráðið

    Á nánast hverjum degi fáum við skelfilegar fréttir af ofbeldisverkum manna sem telja sig þurfa að ná sér niðri á öðrum. Þetta geta verið glæpaverk innan okkar eigin samfélags en stærst eru samt ofbeldisverkin sem eitt ríki fremur á öðrum ríkjum og þar með lifandi fólki sem þar býr. Það er ekki auðvelt að benda á ráðin sem duga best gegn svona háttsemi. Ég held samt að eitt ráð dugi frekar en önnur, en það er að kynnast af heilum hug þeim sem ofbeldinu beita og þeim sem þurfa að þola það; reyna að öðlast skilning á viðhorfum þeirra og lífsháttum. Skilningur á þessu er friðvænlegasta ráðið í heimi mannanna, því sérhver maður er ólíklegur til að vilja fremja ofbeldisverk á öðru fólki ef hann þekkir þarfir þess og sjónarmið.

    Þó að við getum ekki hvert og eitt valdið neinum straumhvörfum í þessu getum við kannski með sameiginlegu átaki haft áhrif til að draga úr ofbeldinu. Hvert og eitt okkar hefur fyrst og fremst áhrifavald yfir sjálfum sér. Nýtum þau yfirráð til að kynnast öðrum og skilja þarfir þeirra. Gerum þetta sem flest að fyrirheiti fyrir árið sem er nú að hefjast.

    Gleðilegt ár.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Um réttarheimildir

    Einhverjum gæti þótt fróðlegt að fá yfirlit yfir þær aðferðir sem dómstólum er heimilt að beita við lausn á réttarágreiningi. Þar ber þeim að beita því sem við köllum heimildir réttarins eða réttarheimildir. Sjálf stjórnarskráin er þar efst á blaði og gildir framar almennum lögum ef á milli ber. Ef þessar heimildir duga ekki er gripið til annarra réttlægri heimilda svo sem stjórnvaldsfyrirmæla, sem verða að hafa stoð í settum lögum, meginreglna laga og eðlis máls, svo nefndar séu þær heimildir sem mestu máli skipta.

    Margir Íslendingar, þ.m.t. sumir lögfræðingar, telja að hér á landi sé Maréttindasáttmáli Evrópu (MSE) æðri íslenskum lögum. Þannig eigi lög sem Alþingi setur að víkja fyrir sáttmálanum ef ekki er samræmi þar á milli.

    Lög nr. 62/1994 kváðu á um að MSE skyldi hafa lagagildi hér á landi. Þessi lög hafa ekki að geyma sjálf ákvæði MSE heldur aðeins almenna tilvísun til þeirra. Samt hafa sumir haldið því fram lögin um sáttmálann hafi meira gildi en önnur almenn lög. Þau bindi hendur löggjafans (þess sama og samþykkti þau) til framtíðar og standi jafnvel framar sjálfri stjórnarskránni.

    Þessi skoðun fær ekki staðist. Þegar athuguð er forgangsröð réttarheimilda er kannski einfaldast að athuga hvernig reglu, sem byggist á tiltekinni heimild, verði breytt. Stjórnarskráin stendur almennum lögum ofar og getur almenni löggjafinn (Alþingi) ekki breytt henni. Almenn lög standa réttarheimildum, eins og t.d. venjum, framar og verður þeim að sjálfsögðu breytt með settum lögum. Ef almenni löggjafinn gerði breytingu á lögunum frá 1994, t.d. með því að takmarka einhver réttindi sem MSE tryggir, kæmi það eitt til skoðunar, hvort slík breyting færi í bága við íslensku stjórnarskrána. Ef niðurstaðan yrði sú, að breytingin gerði það ekki, hefði hún fullt gildi að innanlandsrétti.

    Það stenst ekki að telja lögin frá 1994, standa framar yngri almennum lögum. Í því fælist sú afstaða, að alþingismennirnir, sem lögin settu 1994, hafi bundið hendur þeirra alþingismanna sem á eftir þeim hafa komið. Hvergi er í stjórnlögum að finna neina heimild fyrir svona ályktun. Sama er að segja um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), þær verða ekki sjálfkrafa að innanlandsrétti á Íslandi. Þetta er raunar berum orðum tekið fram í 2. gr. laganna frá 1994. Það breytir engu um þetta, þó að finna megi dæmi um ónákvæmni í orðalagi nokkurra dóma Hæstaréttar sem gætu talist gefa þetta til kynna.

    Ástæðurnar fyrir því, að sumum íslenskum lögfræðingum virðist hafa orðið hált á þessu svelli réttarheimildanna eru líklega tvær. Í fyrsta lagi hefur íslenska stjórnarskráin inni að halda sérstakan kafla, þar sem mannréttindi eru vernduð. Sá kafli var reyndar „hresstur við“ 1995, m.a. til að samræma hann betur ákvæðum MSE. Ákvæðin um vernd mannréttindanna í þessum stjórnarskrárkafla eru auðvitað æðri almennum lögum, sem mega ekki fara í bága við þau. Það er eins og sumir lögfræðingar telji þessa æðri stöðu ákvæða um mannréttindi liggja í lögunum frá 1994 en ekki stjórnarskránni, og þá líklega vegna þess að um sams konar réttindi er fjallað í MSE, sem lögin frá 1994 vísa til. Hin ástæðan er líklega sú, að hér innanlands er fyrir hendi ríkur pólitískur vilji til að bregðast við úrlausnum MDE og breyta landsrétti ef dómstóllinn ytra telur að landsréttur brjóti í bága við ákvæði sáttmálans. Raunar höfum við gengist undir þjóðréttarlega skuldbindingu gagnvart öðrum aðildarríkjum sáttmálans um að gera þetta. Þennan pólitíska vilja er örugglega að finna hjá öllum stjórnmálaflokkum í landinu. Af þeim fáu dæmum sem fyrir liggja, hefur þetta jafnan orðið raunin. Við hefur verið brugðist hér innanlands af réttum aðilum. Kannski þetta sé í og með einnig ástæða fyrir þeirri torkennilegu skoðun, að almenni löggjafinn hafi bundið sínar eigin hendur í framtíðinni með setningu laga á árinu 1994?

    Fyrir nokkrum árum flutti þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason,  ræðu um Mannréttindasáttmálann á fundi með lögfræðingum. Fór hann þá yfir  meginatriði sem varða tengsl landsréttarins hjá fullvalda ríkjum og sáttmálans. Það sem hann sagði þar samræmdist því sem að framan segir og ætti að geta verið óumdeilt, svo skýrt sem það var og augljóst. Þá brá svo við að dagblað skrifaði forsíðugrein (26. september 2003), þar sem helst var gefið í skyn, að ráðherrann væri á móti mannréttindum! Naut blaðið þar tilstyrks frá lögfræðiprófessor, sem rétt áður hafði sótt um embætti hæstaréttardómara en ekki fengið. Lagði hann út af orðum ráðherrans á þann hátt, að „sumir valdhafar … virðist hafa tilhneigingu til að hafa horn í síðu Mannréttindadómstólsins, þar sem hann takmarkar vald þeirra“.

    Þetta var sérkennilegur málflutningur svo ekki sé meira sagt. Þáverandi dómsmálaráðherra var stjórnmálamaður sem í starfi sínu hafði sýnt, að hann væri mikill áhugamaður um að tryggja vernd borgara fyrir misbeitingu ríkisvaldsins. Hann verðskuldaði ekki að menn veittust að honum með þeim hætti sem þarna var gert. Hann átti miklu fremur hrós skilið fyrir að vilja leggja áherslu á það meginatriði, sem íslensk stjórnskipan byggir á, að Ísland sé fullvalda ríki og það heyri undir lýðræðislega kjörin löggjafa í landinu að taka ákvarðanir um innlenda lagasetningu og alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hætt við málsókn

    Nú hafa umbjóðendur okkar á lögmannsstofunni hætt við fyrirhugaða málsókn á hendur ríkinu til að fá hnekkt banni við því að þeir tækju á ný yfirráð yfir fasteignum sínum í Grindavík. Ekki veit ég gjörla hver er ástæða þeirra fyrir þessu.

    Eins og flestir vita byggðu þessir menn sjónarmið sín á því að ríkisvaldið hefði ekki heimild til að vísa þeim á brott úr bænum og þar með úr húsum sínum. Lá fyrir að ástæða yfirvaldanna fyrir þessari ákvörðun var sú að hætta væri á eldgosi í bænum, sem gæti orðið þeim að fjörtjóni, ef þeir byggju þar, þegar það gerðist. Þeir höfðu hins vegar byggt fyrirætlanir sínar um málsókn aðallega á því að ekki væri unnt að banna þeim afnot af eigum sínum af þessari ástæðu. Þeir nytu réttar til að nýta eignir sínar, enda væri þeim kunnugt um hugsanlega hættu sem vísað væri til og bæru því sjálfir ábyrgðina á því að flytja aftur inn í hús sín. Töldu þeir að þessi réttur þeirra væri varinn af stjórnarskránni og gengi því framar reglum í lögum um almannavarnir sem yfirvöldin byggðu á ákvarðanir sínar um bann við fastri búsetu í húsunum.

    Þetta mál hefur vakið upp spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Nokkur orð um þetta.

    Frumeiningar í ríki okkar eru mennirnir sem búa á vettvangi þess. Vald ríkisins stafar frá þeim, þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir, sem felur það í sér að stjórnendurnir draga vald sitt frá fólkinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart þeim. Borgararnir eiga í grunninn að fara sjálfir með vald í sínum eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra. Þrátt fyrir þetta fer ríkið með vald í málefnum sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla getur verið dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja.

    Margir virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er að mínum dómi mikill misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra.

    Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með málefni sem öðrum koma ekki við og vilja ekki taka þátt í.

    Þegar grannt er skoðað gekk Grindavíkurmálið út á þetta. Höfðu handhafar ríkisvaldsins heimildir til að banna mönnum nýtingu eigna sinna á þann hátt að ekki skaðaði aðra? Kannski hvorki sjá menn né skilja takmarkanirnar á valdi ríkisins á þann veg sem að framan greinir? Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Ef þetta eru almenn viðhorf almennings í landi okkar er málum illa komið.

    Við skulum vona að svo sé ekki.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Réttur íbúa í Grindavík

    Lagaleg sjónarmið um rétt íbúa í Grindavík til að fara til heimila sinna þrátt fyrir bann stjórnvalda:

    1. Óheimilt er að meina mönnum að fara til heimila sinna nema að lágmarki sé sýnt fram á að öðrum mönnum stafi hætta af för þeirra þangað. Líklega halda stjórnvöldin því ekki einu sinni fram að slík hætta stafi af heimförinni. Þannig eru ákvæðin í 3. mgr 71. gr. stjórnarskrár um að takmarka megi friðhelgi heimilis klárlega bundin við að ógnað sé réttindum annarra. Stjórnvöldin virðast einungis styðja bann sitt við þörf á að vernda eigendur húsa í Grindavík fyrir sjálfum sér. Til þess hafa þau ekki heimild ef á annað borð verður talið, eins og hér á landi, að borgarar búi almennt við persónulegt frelsi. Ákvæði 23. og 24. gr laga um almannavarnir, sem stjórnvöld sjálfsagt vísa til, hljóta því að víkja fyrir þessum ákvæðum stjórnarskrár. Persónulegt frelsi eigendanna heimilar þeim m.a. að stofna sjálfum sér í hættu ef einhver hætta er ferðinni á annað borð. Benda má á í framhjáhlaupi að ekkert í settum lögum bannar mönnum t.d. að svipta sjálfa sig lífi ef því er að skipta enda verður engum refsað fyrir þann gjörning.

    2. Engar forsendur eru til að telja einu sinni að eigendunum eða fjölskyldum þeirra stafi sjálfum hætta af því að fara á heimili sín. Sönnunarbyrði um þetta hlýtur að hvíla á stjórnvöldunum sem byggja bann sitt á þessu. Sé svona hætta talin vera fyrir hendi hlýtur hún líka að teljast smávægileg og getur hreint ekki talist nægileg til að standa framar rétti eigendanna til nýtingar á eignum sínum.

    3. Jafnvel þó að talið verði að eigendurnir stofni lífi sínu í verulega hættu með heimför sinni hafa stjórnvöld ekki heimild til að banna þeim förina. Engin almenn regla bannar mönnum að stofna lífi sínu í hættu og gera menn það iðulega án afskipta stjórnvalda svo sem við iðkun alls kyns íþrótta. Má þar t.d. nefna fjallgöngur við hættulegar aðstæður, langsund í köldum sjó, flug úr mikilli hæð með tilbúnum vængjabúnaði o.m.fl.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Orka og náttúruvernd

    Á afmælisdegi mínum, 27. september síðasta haust, birti ég neðangreinda grein á Facebook. Nú stendur til að hefja skömmtun á rafmagni í landinu. Svonefndir náttúruverndarsinnar hafa margir barist með áberandi hætti gegn því að við hagnýtum þessi verðmæti í landinu. Þetta er sérstaklega undarlegt vegna þess að virkjun orkuauðlinda okkar er framar öllu öðru til þess fallin að draga, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar, úr framleiðslu á svonefndu jarðefnaeldsneyti, olíu og kolum, sem veldur skaðlegri mengun á umhverfinu. Þeir vilja á þessu sviði auka mengunina í þágu sjónarmiða sem eru alveg út í hött í stað þess að berjast gegn henni.

    „Ég hef skrifað um það áður að umhverfisvænar náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga, á sama tíma og fæstar aðrar þjóðir eiga sama kost á að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða margar hverjar að una við kol og olíu til vinnslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið.

    En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála nefndir og ráðamenn, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Með úrskurðinum frá í sumar var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar sem er augljóslega mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir áhrifamiklu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjum á byggingarstað. Húsbyggingar í Reykjavík eru gott dæmi um það! Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.

    Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldíoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.“

    Það er furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins og jafnvel undir yfirstjórn hans. Sá flokkur ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn sjónarmið hans. Kominn er tími til að losa þjóðina við afturhald langhundanna svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkuauðlindir, okkur öllum til hagsbóta.

    Alþingi ætti án tafar að veita sérstakar lagaheimildir til að unnt verði að hrinda þessu þjóðþrifamáli í framkvæmd eins og nefnt var í greininni frá s.l. hausti.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ofbeldi og sönnun

    Við hjónin sáum leikritið „Orð gegn orði“, sem sýnt hefur verið í Þjóðleikhúsinu að undanförnu. Þetta er áhrifamikil og vel gerð sýning. Meginefni hennar er lýsing ungrar konu á andlegum áhrifum nauðgunar karlmanns sem hún starfaði með. Einungis einn leikari kemur á svið sýningarinnar, leikarinn Ebba Katrín Finnsdóttir, og er frammistaða hennar ekkert minna en stórkostleg.

    Mér sýnist að boðskapur þessarar sýningar sé annars vegar að fjalla um áhrif þessa glæpaverks á andlega heilsu þolandans og hins vegar hugleiðing um að taka þurfi upp ný viðhorf til sönnunar brota af þessu tagi þannig að unnt sé að draga fleiri afbrotamenn til ábyrgðar fyrir dómi. Um er að ræða mjög alvarlegt ofbeldisbrot, sem líklega er algengara í samfélagi okkar heldur en menn gera sér almennt grein fyrir.

    Lýsingin á áhrifum brotsins, sem þessi kona verður fyrir, er hrikaleg. M.a. liggur fyrir að þau áhrif muni lita allt líf þolandans um ókomna framtíð, og þá meðal annars vegna þess að ekki reynist unnt að draga afbrotamanninn til ábyrgðar þar sem hann neitar sök. Ekki er öðrum sönnunargögnum til að dreifa en framburði þeirra beggja, konunnar og ofbeldismannsins. Við þekkjum flest umræður um þann vanda sem við er að glíma við að sanna brotin þegar svona stendur á. Veldur hann í flestum tilvikum því að ekki er unnt að sanna sökina. Þá krefjast lögin þess að sakborningurinn verði sýknaður.

    Þessar lyktir málsins byggjast á reglu sem við Íslendingar, sem og aðrar þjóðir í kringum okkur, hafa sett og reist er á þeirri forsendu að sanna þurfi sök í sakamálum. Þannig er í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar svofellt ákvæði: „Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“ Um þetta ákvæði hefur verið sagt að betra sé að tíu sekir séu sýknaðir, heldur en að einn saklaus sé sakfelldur og látinn taka út refsingu. Reglan er í 1. gr 109. gr laga um meðferð sakamála orðuð svo: „Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“.

    Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að ekki megi gera þá aðför að sökuðum mönnum að beita þá viðurlögum, þ.m.t. að svipta þá frelsi sínu, án þess að sök þeirra hafi verið sönnuð með þeim hætti að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum (en. „beyond reasonable doubt“) og hvílir þá sönnunarbyrði á handhafa ríkisvalds í málinu, saksóknaranum.

    Það er að mínum dómi vafalaust að miklu fleiri nauðgunarbrot séu drýgð heldur en sannast þannig að afbrotamennirnir séu látnir bera ábyrgð á þeim fyrir dómi. Það er einkum vegna hinnar afdráttarlausu kröfu laga um að sanna þurfi brotin með þeim hætti sem nefndur var að framan. Þetta veldur því, að fleiri brotamenn sleppa, en vera myndi ef slakað yrði á kröfunum til sönnunar brotanna. Sjálfsagt væri samt unnt að ná til fleiri brotamanna með því að gera ríkari kröfur til rannsóknar þessara mála en nú er gert.

    Í leikritinu „Orð gegn orði“ er lýst þeim áhrifum sem þetta ofbeldisbrot hefur á fórnarlambið. Það er svo sannarlega þýðingarmikið að lýsa þessum áhrifum á þann hátt sem gert er, þó ekki væri til annars en að geta veitt fórnarlömbunum þá hjálp sem mildað gæti afleiðingarnar. Til að skilja betur vandann sem við er að glíma þyrfti snjall leikritahöfundur að skrifa leikrit um þær hörmungar sem ákærður maður þyrfti að þola ef hann yrði ranglega sakfelldur fyrir svona brot. Hvað sem því líður er ástæða til að þakka þeim sem að leikritinu standa fyrir frábæra leiksýningu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður