Allir ættu að vita að mennirnir með dómsvaldið fylgja ekki alltaf þeirri aðferðafræði sem bókstafurinn segir þeim. Ég hef fjallað um þetta í skrifum mínum og þá m.a. nefnt dæmi um dómsúrlausnir sem virðast frekar miðast við að gera almenningi til geðs heldur en að styðjast við gildar réttarheimildir sem stundum geta leitt til úrlausna sem falla ekki vel í kramið hjá fólkinu. Sú regla gildir hins vegar um dómstóla að þeir mega aðeins byggja úrlausnir sínar á settum lögum eða öðrum réttarheimildum ef settum lögum er ekki til að dreifa um það efni sem dæma skal.
Við hrun bankanna á árinu 2008 voru kröfur á hendur þeim aðallega í eigu tveggja hópa. Kröfur beggja þessara hópa töldust til eignarréttinda þeirra og nutu þær því verndar viðeigandi ákvæða stjórnarskrárinnar. Annars vegar voru eigendur innlána en hins vegar almennir kröfuhafar sam veitt höfðu bönkunum lán til reksturs þeirra. Við fall bankanna naut hvorugur þessara hópa lögmælts forgangs fram yfir hinn. Vilji manna stóð hins vegar til þess að veita innlánskröfunum forgang fram yfir hinar almennu kröfur, enda voru eigendur innlánanna að miklu leyti almenningur í landinu sem stofnað hafði innlánsreikninga, aðallega til varðveislu á neyslufé sínu. Dæmt var um þetta í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 þann 28. október 2011. Sátu 7 dómarar í málinu og var ég einn þeirra. Taldi ég mér skylt að dæma málið eftir gildandi réttarheimildum en ekki hagsmunum almennings sem vildi eðlilega vernda innlán sín í bönkunum. Var ég einn dómaranna um úrlausn mína.
Fyrir lá, að með lögum sem sett voru eftir hrun bankanna, voru eignarréttindi almennra kröfuhafa í hinum gömlu bönkum skert í því skyni að tryggja stöðu innlána við slit þeirra með því að veita þeim forgang fram yfir kröfur almennra kröfuhafa. Þannig voru eignarréttindi hinna almennu kröfuhafa beinlínis notuð til að standa straum af greiðslu innlánanna. Má því segja að með setningu laga nr. 125/2008 hafi einfaldlega verið fluttar eignir frá almennum kröfuhöfum til innlánaeigenda í því skyni að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin. Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar leyfir ekki tilflutning eignarréttinda milli manna nema að uppfylltum ströngum skilyrðum, sem meðal annars eru talin upp í ákvæðinu, þar með skilyrði um að fullt verð skuli koma fyrir þá eign sem sætir skerðingu. Ekki verður heldur talið að þær ráðstafanir sem gerðar voru geti talist til almennra takmarkana á eignarréttindum, sem teljast heimilar án bóta, enda voru einungis kröfuréttindi tiltekinna kröfuhafa takmörkuð.
Innlánaeigendur héldu því fram að löggjafanum hafi verið lagasetningin sem hér um ræðir heimil þar sem þeir hefðu orðið fyrir alvarlegra tjóni en hinir almennu kröfuhafar. Mætti jafna tjóni þeirra við neyðarástand. Ef löggjafarvaldi er beitt til að bregðast við neyðarástandi, eins og hér var reyndin, hlýtur meginregla að vera sú að fjár til að standa undir kostnaði við slíkar aðgerðir sé aflað með almennum hætti samkvæmt lögum. Ég tel að ekki fái staðist að leggja þennan kostnað svo til eingöngu á hina almennu kröfuhafa bankanna, þó að eignir þeirra, sem skertar eru í þessu skyni, tengist bönkunum sérstaklega með því að vera fólgnar í kröfuréttindum á hendur þeim. Með slíkum úrræðum er þessum aðilum mismunað gagnvart þeim sem áttu innlánskröfur á hendur bönkunum þar sem báðir kröfuhafahóparnir stóðu jafnfætis til forgangs úr hinum fjárvana bönkum. Dómstólar verða að leggja til grundvallar að réttarheimildir leyfi þessa mismunun. Það gerðu þær ekki.
Eignarréttur er verndaður í 72. gr. stjórnarskrár. Til efnisþátta ákvæðisins telst regla um jafnrétti, hliðstæð þeirri sem felst í 65. gr. stjórnarskrár. Með vísan til þess sem að framan greinir var það niðurstaða mín að ekki fengi staðist þá vernd eignarréttinda, sem tryggð er með 72. gr. stjórnarskrárinnar, að skerða kröfuréttindi sóknaraðila við slit bankanna á þann hátt að veita innlánskröfunum forgangsrétt gagnvart þeim svo sem fallist var á með hinum kærða úrskurði Hæstaréttar. Með setningu hinna nýju lagaákvæða voru skert þau eignarréttindi sem almennir kröfuhafar áttu á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., þannig að í bága fór við nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Var því að mínum dómi óhjákvæmilegt að taka til greina kröfur þessara kröfuhafa með því að hafna viðurkenningu á forgangsrétti innlánskrafnanna.
Kannski er þetta skýrasta dæmið í dómasögu réttarins undanfarin ár um að vildarsjónarmið, sem almenningi voru þóknanleg, væru tekin fram yfir gildandi lagareglur sem skylt var að leggja til grundvallar dómi í málinu. Margir Íslendingar urðu til þess að fagna dómsniðurstöðunni.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur