Frelsi til orða og athafna

Flestum Íslendingum er ljóst að hér á landi eru í gildi stjórnarskrárvarðar reglur sem teljast vernda frelsi borgaranna (sjá t.d. 73. gr, stjórnarskrárinnar um umtjáningarfrelsi). Telja má þessar reglur grunnstoðir hér á landi um samskipti milli manna. Ef einhver tjáir t.d. skoðun, sem okkur líkar ekki, er okkar aðferð fólgin í að njóta réttar til að tjá öndverða skoðun og færa fram rök fyrir henni. Við viljum forðast í lengstu lög að banna skoðanir annarra þó að við samsinnum þeim ekki. Samt er að finna í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár ákveðnar heimildir löggjafans til að setja tjáningarfrelsinu skorður í þágu tiltekinna réttinda annarra „enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum“. Öllum er ljóst að þessi heimild til takmörkunar frá meginreglunni er afar þröng þó að sjá megi þess merki í framkvæmd dómstóla að of langt hafi verið gengið í takmörkunum.

Frelsi með ábyrgð er einstaklega vel lukkað fyrirbæri. Samt hefur þeim öflum vaxið ásmegin hin síðari ár sem vilja takmarka þetta frelsi í þágu skoðana sem þeir hinir sömu telja „réttari“ en skoðanir annarra. Birst hafa greinar sem boða viðhorf um að íslenskir borgarar brjóti af sér með því að tjá skoðanir sem á einhvern hátt geta talist neikvæðar gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Þá virðast höfundar til dæmis vilji reisa skorður við því að menn tjái sig um hættu sem þeir telja að okkur steðja af þeim sem aðhyllast trúarbrögð múslima á þeirri forsendu að í múslimaríkjum séu almenn mannréttindi brotin, t.d. á konum. Vera má að okkur Íslendingum stafi ekki hætta af slíku fólki. Engar líkur séu á að það muni reyna að koma hér á framfæri viðhorfum mannfyrirlitningar sem virðast vera ráðandi í heimalöndum þess. Á þessu höfum við sjálfsagt mismunandi skoðanir. Okkar aðferð gengur út á að banna engar þeirra. Þvert á móti viljum við að fram fari skoðanaskipti um þetta. Það er eins og sumir vilji frekar banna skoðanir um þessi málefni sem þeir lýsa sig andvíga. Ganga þeir þá stundum svo langt að nafngreina Íslendinga sem hafa tjáð skoðanir, sem höfundunum líka ekki, og tala niðrandi um þá. Það er eins og þessir höfundar séu andvígir því andlega frelsi sem felst í frelsi okkar til tjáningar. Þetta er þá oft einhvers konar fagnaðarerindi höfundanna.

Við skulum frekar leggja áherslu á að frelsi bætir lífskjör þeirra sem minnst hafa að bíta og brenna. Í því fyrirkomulagi sem verndar frelsi borgaranna felast ekki bara gæði á hinu andlega sviði sem við sem einstaklingar ættum að þakka fyrir. Í því felast líka bestu kostir sem mannkynið hefur kynnst til framfara og velferðar í þágu allra manna. Í gervallri mannkynssögunni er ekki unnt að finna annað eins framfaraskeið og við höfum notið eftir að meginreglan um frelsið varð ráðandi í samfélagi okkar ásamt vernd einstaklingsbundinna mannréttinda. Fyrst og fremst hefur hagur þeirra sem minnst hafa í samfélaginu tekið stórstígum framförum. Lífskjör þeirra hafa frá upphafi 20. aldar batnað svo um munar. Um þetta má til dæmis vísa til bókarinnar Framfarir, eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg, sem út kom í íslenskri þýðingu á árinu 2017. Þessi velferð á rót að rekja til meginreglunnar um frelsi í viðskiptum. Menn ættu að leggja sig fram um að skilja að hagur almennings batnar ekki með opinberum tilskipunum. Ef litið er til lengri tíma batnar hann aðeins með aukinni velgengni fyrirtækja í atvinnurekstri. Þannig ættu t.d. fyrirsvarsmenn launþega að reyna að sameinast um það markmið að efla kapítalismann. Aukinn árangur í atvinnurekstri er eina leiðin til bættra lífskjara borgaranna. Þau munu ekki batna með aukinni skattheimtu og úthlutun til almennings úr sameiginlegum sjóðum. Slík aðferðafræði leggur deyfandi hönd á viðgang þeirra sem skapa tekjur, okkur öllum til hagsbóta.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur