Í síðari heimsstyrjöldinni voru framin fjöldamorð á yfir 6 milljón Gyðingum í Evrópu. Þetta fólk hafði ekki annað til saka unnið en að vera Gyðingar. Þeir sem vilja kynna sér þetta ættu að horfa á kvikmyndina „Schindler‘s list“, sem geymir trúverðuga frásögn af þessum hroðalegu morðum. Menn skulu þá hafa í huga að ekki er lengra liðið frá þessum glæpaverkum en svo að hún beindist að næstu kynslóð á undan okkar. Ég fæddist t.d. aðeins nokkrum árum (1947) eftir að þessi fjöldamorð voru framin.
Eftir lok stríðsins var Ísraelsríki stofnað á landsvæði, þar sem margir gyðingar áttu þá þegar heimili. Það ríki byggðist frá upphafi á fyrirmynd Vesturlanda um lýðræði, mannréttindi og hlutlausa dómstóla. En hvernig sem á því stendur voru áfram starfrækt samtök sem höfðu ekki aðra hugsjón meiri en að eyða þessu nýstofnaða ríki og íbúum þess. Hryðjuverkasamtökin Hamas voru og eru dæmi um þetta. Þessi samtök voru studd af glæpsamlegum ríkjum í nágrenninu, þar sem ríki Írans er efst á blaði. Þar eru borgarar drepnir á götum úti, eins og konur fyrir að vilja bera höfuðföt sem ráðandi öflum líkar ekki, og samkynhneigðir fyrir kynhvöt sína. Ekkert réttarkerfi er til staðar í því skyni að verja borgarana fyrir morðum valdhafanna.
Fyrir tveimur árum réðust Hamas-samtökin inn fyrir landamæri Ísraelsríkis. Þar frömdu þau hryðjuverk sem fólust í manndrápum, nauðgunum og handtökum á borgurum sem fyrir þeim urðu. Þeim var vel ljóst að við þessu myndi Ísraelsríki bregðast. En samtök þessi höfðu undirbúið viðbrögð sín sem fólust í því að sigra áróðursstríðið með því að nota óbreytta borgara sem eins konar hlífiskjöld. Þeir t.d. grófu göng undir sjúkrahús og skóla til að framkalla þetta ástand. Þeir urðu sannir að því að hindra undankomuleiðir hinna saklausu borgara í því skyni að þeir yrðu fyrstir fyrir árásum Ísraelsmanna.
Ég hef þá persónulegu skoðun að Ísraelsmenn hefðu átt að gæta þess sérstaklega að saklausir borgarar yrðu ekki fyrir árásum þeirra, því að þau mannslíf voru, ef eitthvað er, verðmeiri en Hamas-glæpamannana. Þeir munu samt hafa gert ráðstafanir í þessa átt með því að vara fyrirfram við árásunum og einnig að koma vistum og matvælum til fólksins. Þeir urðu hins vegar undir í áróðursstríðinu.
Nú hefur fjöldi Vesturlandabúa leikið þennan leik með hryðjuverkamönnunum. Þannig hafa þeir óbeint stutt réttarástandið í ríkjum múhameðstrúarmanna, sem varða m.a. réttarstöðu kvenna og annarra „óæskilegra“ borgara. Það er t.d. kaldhæðnislegt að sjá samtök kvenna vilja styðja þær þjóðir sem beita konur ofbeldi án laga og réttar. Þeim er ekki sjálfrátt. Svo hafa misvitrir stjórnmálamenn á Vesturlöndum látið undan áróðri glæpamannanna og sagt upp stjórnmálasambandi við Ísrael. Þeir taka með þessum hætti þátt í að grafa undan lýðræði og mannréttindum heima fyrir. Þeir láta yfirleitt undan þeim sem hæst lætur. Ætli þeim sé sjálfrátt?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur