Sumir Íslendingar, jafnvel lögfræðimenntaðir, halda því fram að dómstólar fari með vald til að setja lög og þá í einhvers konar samkeppni við Alþingi, en samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi með lagasetningarvaldið. Lítum aðeins á þetta.
Samkvæmt þessari sömu stjórnarskrá gildir lýðræðisleg skipan á Íslandi. Í því felst að ríkisvaldið er komið frá þjóðinni. Þessu er sinnt með almennum alþingiskosningum, sem haldnar eru á 4 ára fresti. Ríkisvaldinu er þrískipt. Það greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hin lýðræðislega skipan felst í því að handhafar löggjafarvaldsins eru kosnir af almenningi og fara því með beint umboð frá henni. Þeir þurfa svo að bera gjörðir sínar undir þjóðina í almennum kosningum, sem haldnar eru með reglulegu millibili. Ráðherrar fara með framkvæmdavaldið. Þeir fara með óbeint umboð frá þjóðinni vegna þess að hinir þjóðkjörnu fulltrúar velja þá á hverjum tíma.
Dómarar eru einu handhafar ríkisvalds sem ekki hafa lýðræðislegt umboð til starfa sinna. Enda er kveðið á um það berum orðum í 61. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar skuli einungis dæma eftir lögunum (sem Alþingi setur). Samt halda margir lögfræðingar, meira að segja dómarar, því fram að dómstólar hafi heimildir til að setja lög og þá jafnvel í samkeppni við Alþingi. Þetta fær ekki staðist, enda byggist vald dómstólanna ekki á lýðræðislegum grundvelli, eins og hinna valdhafanna. Þessi réttarstaða dómaranna kemur svo líka fram í því að þeir eru æviskipaðir og þurfa því ekki að bera verk sín undir almenning, eins og handhafar hinna valdþáttanna þurfa að gera.
Ég átti fyrir nokkrum áratugum í ritdeilu við kennarann í heimildafræði við lagadeild Háskóla Íslands um þetta efni. Hann hélt því m.a. fram að dómstólar tækjust á við handhafa löggjafarvaldsins um lagasetninguna. Það er því kannski ekki skrítið að sumir dómarar telji sig mega kveða upp dóma sem ekki styðjast við sett lög og eru jafnvel í beinni andstöðu við þau. Þeim hafði þannig verið kennd þessi speki í laganáminu. Í sumum erlendum ríkjum gildir sú skipan að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. En ekki á Íslandi. Hér gildir sú einfalda skipan á skiptingu ríkisvaldsins sem að framan er lýst. Menn ættu að láta í sér heyra ef þeir telja sig verða vara við að dómendur brjóti þessar reglur, en um það eru regluleg dæmi í landi okkar.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur