september 2025

  • Góðar kveðjur

    Ég átti afmæli fyrir tveimur dögum, 27. september. Varð 78 ára. Sjálfum fannst mér þetta ekki neitt merkisafmæli að öðru leyti en því að ég gladdist yfir því að vera ennþá á lífi og við góða heilsu.

    Svo fékk ég sendar afmæliskveðjur í stórum stíl. Mörgum þeirra fylgdu falleg orð til mín, sérstaklega vegna skrifa minna, m.a. á fasbókina sem margir höfðu lesið og líkað vel við.

    Mikið er ég þakklátur fyrir allar þessar hlýlegu kveðjur. Hafið einlægar þakkir mínar fyrir.

    Svo bauð mín ástkæra eiginkona mér í skemmtiferð til Akureyrar, en við höfum núna fylgst að í 53 ár. Hún er gersemi, sem hefur hugsað um mig öll þessi ár auk þess sem við eigum saman 5 börn og 15 barnabörn. Á Akureyri fórum við á tónleika í Hofi, þar sem íslenskir tónlistarmenn fluttu tónlist sjálfra Bítlanna í meira en tvær klukkustundir, en við erum bæði miklir aðdáendur þeirra.

    Því verður ekki lýst með orðum hversu mikil lífsgæfa fylgir því að eiga svona maka eins og ég hef orðið svo gæfusamur að eiga öll þessi ár. Við höfum verið samherjar allan þennan tíma, þó að fyrir hafi komið að hún hafi sagt mér til syndanna þegar ég hef átt það skilið. Það hefur tvisvar komið fyrir! (grín).

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Skipting valdsins á Íslandi

    Sumir Íslendingar, jafnvel lögfræðimenntaðir, halda því fram að dómstólar fari með vald til að setja lög og þá í einhvers konar samkeppni við Alþingi, en samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi með lagasetningarvaldið. Lítum aðeins á þetta.

    Samkvæmt þessari sömu stjórnarskrá gildir lýðræðisleg skipan á Íslandi. Í því felst að ríkisvaldið er komið frá þjóðinni. Þessu er sinnt með almennum alþingiskosningum, sem haldnar eru á 4 ára fresti. Ríkisvaldinu er þrískipt. Það greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hin lýðræðislega skipan felst í því að handhafar löggjafarvaldsins eru kosnir af almenningi og fara því með beint umboð frá henni. Þeir þurfa svo að bera gjörðir sínar undir þjóðina í almennum kosningum, sem haldnar eru með reglulegu millibili. Ráðherrar fara með framkvæmdavaldið. Þeir fara með óbeint umboð frá þjóðinni vegna þess að hinir þjóðkjörnu fulltrúar velja þá á hverjum tíma.

    Dómarar eru einu handhafar ríkisvalds sem ekki hafa lýðræðislegt umboð til starfa sinna. Enda er kveðið á um það berum orðum í 61. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar skuli einungis dæma eftir lögunum (sem Alþingi setur). Samt halda margir lögfræðingar, meira að segja dómarar, því fram að dómstólar hafi heimildir til að setja lög og þá jafnvel í samkeppni við Alþingi. Þetta fær ekki staðist, enda byggist vald dómstólanna ekki á lýðræðislegum grundvelli, eins og hinna valdhafanna. Þessi réttarstaða dómaranna kemur svo líka fram í því að þeir eru æviskipaðir og þurfa því ekki að bera verk sín undir almenning, eins og handhafar hinna valdþáttanna þurfa að gera.

    Ég átti fyrir nokkrum áratugum í ritdeilu við kennarann í heimildafræði við lagadeild Háskóla Íslands um þetta efni. Hann hélt því m.a. fram að dómstólar tækjust á við handhafa löggjafarvaldsins um lagasetninguna. Það er því kannski ekki skrítið að sumir dómarar telji sig mega kveða upp dóma sem ekki styðjast við sett lög og eru jafnvel í beinni andstöðu við þau. Þeim hafði þannig verið kennd þessi speki í laganáminu. Í sumum erlendum ríkjum gildir sú skipan að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. En ekki á Íslandi. Hér gildir sú einfalda skipan á skiptingu ríkisvaldsins sem að framan er lýst. Menn ættu að láta í sér heyra ef þeir telja sig verða vara við að dómendur brjóti þessar reglur, en um það eru regluleg dæmi í landi okkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Vilja geðjast almenningi?

    Komið hefur fyrir að ég hafi á liðnum árum gagnrýnt dóma fyrir að hafa sakfellt sakborninga í sakamálum án þess að öllum lögmætum skilyrðum hafi verið fullnægt. Þá er stundum eins og dómstólar hafi viljað geðjast almenningi fremur en að láta dómana ráðast af agaðri meðferð þeirra réttarreglna sem þeim ber að beita.

    Fyrir kemur að almenningur taki afstöðu til þess, hvort dómar í refsimálum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess þá umkomna að telja sakborninga seka þó að dómstóll hafi sýknað þá af ákæru.

    Færri telja sakborninga saklausa ef dómstóll hefur sakfellt þá.

    Þessir „utanréttardómar“ eiga sjaldan rétt á sér og ættu menn ekki að taka þátt í að fella þá.

    Á árinu 2020 tók ég saman lista með upptalningu á þeim atriðum sem dómarar þurfa að aðgæta að séu allir í lagi áður en sakborningur er sakfelldur í sakamáli. Mér finnst að gefnu tilefni ástæða til að endurbirta þennan lista:

    1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

    2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

    3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

    4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

    5. Við meðferð máls á áfrýjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

    6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

    7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar,

    8. Dómarar verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Mál er að linni

    Menn ættu að hlusta á viðtal á Bylgjunni s.l. mánudagsmorgun (8. sept.), en þá töluðu Heimir og Lilja við Sigríði Indriðadóttur framkvæmdastjóra um afar bágborið ástand á vinnustöðum opinberra aðila, þar sem fjölmargir starfsmenn eru sýnilega ónytjungar sem vinna lítið sem ekkert. Hafði Sigríði m.a. verið falið að kanna þetta og eru niðurstöður hennar hrikalegar.

    Svo voru líka nýlega birtar opinberlega upplýsingar um veikindaforföll starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þar kom fram að um 8-900 starfsmenn væru forfallaðir vegna veikinda dag hvern. Eru það um 8% allra starfsmanna borgarinnar. Munu þetta vera miklu meiri veikindi en þekkjast á vinnustöðum einkarekinna fyrirtækja. Það skyldi þó ekki vera að í þessum tölum leynist mikil vinnusvik þar sem frískir starfsmenn úthluta sjálfum sér fríi frá vinnu í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda. Við þetta bætist svo það ástand sem Sigríður Indriðadóttir lýsti í viðtalinu á Bylgjunni.

    Allir sjá að þetta ástand er ekki viðunandi. Það er sýnilega fyrir löngu komin brýn þörf á að tekið verði hraustlega á starfsmannamálum hjá hinu opinbera, ríkinu og sveitarfélögunum. Segja ber upp þeim starfsmönnum sem sinna ekki nema að litlum hluta þeim störfum sem þeir eru ráðnir til að sinna. Mál er að linni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hugleiðing að gefnu tilefni

    Láttu ekki fordóma og „rétthugsun“ annarra takmarka vitsmuni þína. Reyndu ávallt að vera sjálfum þér trúr í stað þess að elta það sem aðrir láta frá sér fara, nema þú hafir sjálfur sannfæringu fyrir réttmæti þess. Mundu að aðrir keppa um fylgispekt þína, án þess að skeyta um það sem þú raunverulega telur rétt. Stattu með sjálfum þér, þó að það kunni að valda vinslitum við aðra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Réttlætir ofbeldi

    Það var dapurlegt að sjá í gær 1/9 þátt í RÚV sjónvarpinu (Silfrinu) þar sem fréttakona talaði við Háskólarektor. Rektorinn komst án andmæla upp með að segja að ofbeldisfull framkoma aðgerðarsinna til að hindra ræðumann við að flytja erindi jafnaðist á við rétt til tjáningarfrelsis þeirra, Og hin sat á móti henni og virtist dást af þessum boðskap. Þessi umfjöllun var ekki í lagi. Sá sem vill tjá sig öndvert við ræðumann verður að tjá sig með nýtingu málfrelsis síns en ekki beita ofbeldi til að hindra ræðu. Þessi rektor er sýnilega ófær um að gegna því starfi. Beiting ofbeldis er að hennar mati og fréttastofunnar sýnilega orðið fullgild tjáningaraðferð innan Háskólans. Ótrúlegt!

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur