Ég átti afmæli fyrir tveimur dögum, 27. september. Varð 78 ára. Sjálfum fannst mér þetta ekki neitt merkisafmæli að öðru leyti en því að ég gladdist yfir því að vera ennþá á lífi og við góða heilsu.
Svo fékk ég sendar afmæliskveðjur í stórum stíl. Mörgum þeirra fylgdu falleg orð til mín, sérstaklega vegna skrifa minna, m.a. á fasbókina sem margir höfðu lesið og líkað vel við.
Mikið er ég þakklátur fyrir allar þessar hlýlegu kveðjur. Hafið einlægar þakkir mínar fyrir.
Svo bauð mín ástkæra eiginkona mér í skemmtiferð til Akureyrar, en við höfum núna fylgst að í 53 ár. Hún er gersemi, sem hefur hugsað um mig öll þessi ár auk þess sem við eigum saman 5 börn og 15 barnabörn. Á Akureyri fórum við á tónleika í Hofi, þar sem íslenskir tónlistarmenn fluttu tónlist sjálfra Bítlanna í meira en tvær klukkustundir, en við erum bæði miklir aðdáendur þeirra.
Því verður ekki lýst með orðum hversu mikil lífsgæfa fylgir því að eiga svona maka eins og ég hef orðið svo gæfusamur að eiga öll þessi ár. Við höfum verið samherjar allan þennan tíma, þó að fyrir hafi komið að hún hafi sagt mér til syndanna þegar ég hef átt það skilið. Það hefur tvisvar komið fyrir! (grín).
Jón Steinar Gunnlaugsson