Þjóðleikhúsið var reist fyrir 75 árum. Í þá daga voru möguleikar til leiksýninga fábreyttir. Þjóðleikhúsið bætti verulega úr þeim og hefur sinnt þeim ágætlega síðan. Það hafa líka á undanförnum árum verið sýnd leikverk í samkomuhúsum um allt land.
Nú er öldin önnur. Möguleikar til hvers konar leiksýninga og annarrar dægrastyttingar hafa stóraukist með margfalt meiri tækni en kostur var á við stofnun leikhússins. Menn horfa t.d. á kvikmyndir í stórum stíl heima hjá sér í tölvum og sjónvarpstækjum. Þar er m.a. boðið upp á sýningar á mögnuðum meistaraverkum m.a. á sviði leiklistar. Á slíku var enginn kostur við stofnun Þjóðleikhússins.
Þrátt fyrir þetta eru nú kynntar áætlanir um meiriháttar stækkun á Þjóðleikhúsinu sem á að kosta marga milljarða króna. Stjórnendur ríkisins, leikarar og aðrir unnendur leiklistar taka í fréttum sjónvarpsins andköf af hrifningu.
Um leið og þetta gerist er ríkissjóður í miklum fjárhagsvanda, sem leiðir til þess að ekki er hægt um þessar mundir að lækka vexti í landinu. Svo eigum við t.d. ekki fyrir fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða byggingu nauðsynlegra samgöngumannvirkja, svo tekin séu dæmi af brýnum verkefnum sem ríkissjóður kostar á Íslandi.
Ætli að í þessum fyrirætlunum um Þjóðleikhúsið felist sú ráðdeild sem þjóðin þarfnast?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur