Það er ágæt aðferð við að koma skoðunum sínum á framfæri að skrifa greinar í dagblöð sem birta efni um atburði líðandi stundar. Tilgangurinn með birtingu slíkra greina er auðvitað sá að fá lesendur til að lesa og þá helst sem flesta. Til þess að ná því markmiði þurfa greinarnar að vera skýrar og eins stuttar og unnt er.
Í Morgunblaðinu síðustu daga hafa birst greinar tveggja skynugra manna sem áreiðanlega eiga báðar erindi við almenning. En þær eru allt of langar auk þess sem þær fullnægja varla markmiðinu um að vera efnislega skýrar. Önnur greinin er eftir Hannes Hólmstein Gissurarson sem mér virðist að aðallega sé skrifuð í tilefni af fyrirlitlegri framkomu manna sem hleyptu upp fræðafundi í Háskóla Íslands fyrir þá sök að þeir voru andvígir afstöðu og jafnvel þjóðerni ræðumanns. Það er ekki bara furðulegt að menn sem starfa við fræðistörf í skólanum skuli haga sér svona, heldur og ekki síður að skólayfirvöldin skuli þegja þunnu hljóði um þessi ódæmi. Grein Hannesar tekur yfir nær heila opnu í blaðinu, og er víst að fáir lesendur blaðsins hafi lagt það á sig að lesa þessi ósköp, þó að þar megi fræðast um athyglisverð sjónarmið höfundar um málefni sem tengjast aðalumræðuefninu.
Hin greinin er eftir Vilhjálm Bjarnason og kveðst hann aðallega fjalla um ósamræmi í dómum Hæstaréttar. Þessi grein er bæði óskýr og alltof löng.
Fróðlegt væri ef t.d. blaðið sjálft gerði könnun á því hversu margir áskrifendur hafi lesið þessar greinar. Ég tel líklegt að þeir séu fáir og þess vegna hafi þessi skrif ekki hreyft við nokkrum manni að heitið geti. Sé það rétt má spyrja: Til hvers var skrifað?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur