Framsal á fullveldi þjóðar

Segja má að sjálfstæðisbaráttu Íslands hafi lokið 1. desember árið 1918, þegar samningar náðust við Danmörku um fullveldi Íslands og svonefndur sambandslagasamningur var lögtekinn í báðum löndunum. Ísland var þá orðið fullvalda og sjálfstætt ríki, eftir langa baráttu forvígismaanna þjóðarinnar fyrir þeirri stöðu.

Fullveldi þjóðar merkir að hún njóti stjórnskipulegs sjálfstæðis; með öðrum orðum að valdið til að taka ákvarðanir um málefni hennar sé hjá innlendum stofnunum og aðilum sem sæki valdið aðeins til þjóðarinnar sjálfrar og ekkert annað. Þetta gildir um alla þætti fullveldisins, hvort sem um ræðir lagasetningu, stjórnsýslu eða dómsýslu. Vísast hér til 2. gr. stjórnarskrárinnar sem og annarra ákvæða hennar.

Nú er tekist á um hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Slíkri aðild myndi felast framsal á veigamiklum þáttum í fullveldi þjóðarinnar. Sumir áhugamenn um þessa aðild hafa viljað gera lítið úr þessu og segjast telja þetta ekkert frábrugðið öðrum milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Þetta fær ekki staðist.

Það er auðvitað ekkert rangt við að gera samninga við önnur ríki. Ef slíkir samningar fela það hins vegar í sér að lagasetningarvaldið sé fært til erlendra stofnana felst í því framsal á fullveldi þeirrar þjóðar sem í hlut á, því valdið til að setja lög í landinu telst, eins og áður sagði, til fullveldis þess. Það brýtur að auki gegn stjórnarskrá okkar að framselja lagasetningarvaldið með þeim hætti sem sem hér er tekist á um. Vilji menn gera það verður fyrst að breyta stjórnarskránni. Það er eins og sumir vilji ekki skilja þetta heldur tala bara um þessa aðild sem venjulegan milliríkjasamning. Við ættum að reyna að kalla hlutina réttum nöfnum. Það er til þess fallið að auka líkurnar á að við skiljum hvað við erum að tala um.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur