ágúst 2025

  • Ráðdeild?

    Þjóðleikhúsið var reist fyrir 75 árum. Í þá daga voru möguleikar til leiksýninga fábreyttir. Þjóðleikhúsið bætti verulega úr þeim og hefur sinnt þeim ágætlega síðan. Það hafa líka á undanförnum árum verið sýnd leikverk í samkomuhúsum um allt land.

    Nú er öldin önnur. Möguleikar til hvers konar leiksýninga og annarrar dægrastyttingar hafa stóraukist með margfalt meiri tækni en kostur var á við stofnun leikhússins. Menn horfa t.d. á kvikmyndir í stórum stíl heima hjá sér í tölvum og sjónvarpstækjum. Þar er m.a. boðið upp á sýningar á mögnuðum meistaraverkum m.a. á sviði leiklistar. Á slíku var enginn kostur við stofnun Þjóðleikhússins.

    Þrátt fyrir þetta eru nú kynntar áætlanir um meiriháttar stækkun á Þjóðleikhúsinu sem á að kosta marga milljarða króna. Stjórnendur ríkisins, leikarar og aðrir unnendur leiklistar taka í fréttum sjónvarpsins andköf af hrifningu.

    Um leið og þetta gerist er ríkissjóður í miklum fjárhagsvanda, sem leiðir til þess að ekki er hægt um þessar mundir að lækka vexti í landinu. Svo eigum við t.d. ekki fyrir fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða byggingu nauðsynlegra samgöngumannvirkja, svo tekin séu dæmi af brýnum verkefnum sem ríkissjóður kostar á Íslandi.

    Ætli að í þessum fyrirætlunum um Þjóðleikhúsið felist sú ráðdeild sem þjóðin þarfnast?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Rektornum verði vikið úr starfi

    Það er ótrúlegt að heyra um framferði ofstækismanna í Háskóla Íslands þegar hleypt var upp fundi þar fyrir skemmstu. Sögðust þeir vera ósáttir við þjóðerni ræðumannsins. Það er eins og þessir ofstækismenn séu komnir aftan úr forneskju í aðgerðum sínum gegn tjáningarfrelsi hér á landi. Framferði þeirra er ósæmilegt á alla mælikvarða. Viðbrögð yfirvalda í Háskólanum eru ennþá verri. Rektor Háskóla Íslands ætti auðvitað að ganga fremstur í að fordæma þessa árás á tjáningarfrelsi á vettvangi skólans. En frá honum hefur hvorki heyrst hósti né stuna.

    Morgunblaðið birti forystugrein um þetta ofbeldi sem birtist í blaðinu í dag 25. ágúst. Hér fylgir mynd af greininni. Þar er sagt flest sem segja þarf um málið. Eitt vantar þó í frásögn blaðsins. Það er krafa um að rektor skólans, sem nýlega hefur tekið við störfum með hátíðlegum yfirlýsingum um tjáningarfrelsi á vettvangi skólans, verði þegar í stað vikið úr starfi. Það hlýtur að vera skýlaus krafa allra þeirra sem segjast styðja tjáningarfrelsi að víkja beri þessum æðsta yfirmanni skólans þegar í stað úr starfi, því hann beitir hér sýnilega þögninni til samþykkis við þessu ofbeldisverki. Í húfi er virðing Háskóla Íslands.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Greinaskrif

    Það er ágæt aðferð við að koma skoðunum sínum á framfæri að skrifa greinar í dagblöð sem birta efni um atburði líðandi stundar. Tilgangurinn með birtingu slíkra greina er auðvitað sá að fá lesendur til að lesa og þá helst sem flesta. Til þess að ná því markmiði þurfa greinarnar að vera skýrar og eins stuttar og unnt er.

    Í Morgunblaðinu síðustu daga hafa birst greinar tveggja skynugra manna sem áreiðanlega eiga báðar erindi við almenning. En þær eru allt of langar auk þess sem þær fullnægja varla markmiðinu um að vera efnislega skýrar. Önnur greinin er eftir Hannes Hólmstein Gissurarson sem mér virðist að aðallega sé skrifuð í tilefni af fyrirlitlegri framkomu manna sem hleyptu upp fræðafundi í Háskóla Íslands fyrir þá sök að þeir voru andvígir afstöðu og jafnvel þjóðerni ræðumanns. Það er ekki bara furðulegt að menn sem starfa við fræðistörf í skólanum skuli haga sér svona, heldur og ekki síður að skólayfirvöldin skuli þegja þunnu hljóði um þessi ódæmi. Grein Hannesar tekur yfir nær heila opnu í blaðinu, og er víst að fáir lesendur blaðsins hafi lagt það á sig að lesa þessi ósköp, þó að þar megi fræðast um athyglisverð sjónarmið höfundar um málefni sem tengjast aðalumræðuefninu.

    Hin greinin er eftir Vilhjálm Bjarnason og kveðst hann aðallega fjalla um ósamræmi í dómum Hæstaréttar. Þessi grein er bæði óskýr og alltof löng.

    Fróðlegt væri ef t.d. blaðið sjálft gerði könnun á því hversu margir áskrifendur hafi lesið þessar greinar. Ég tel líklegt að þeir séu fáir og þess vegna hafi þessi skrif ekki hreyft við nokkrum manni að heitið geti. Sé það rétt má spyrja: Til hvers var skrifað?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Framsal á fullveldi þjóðar

    Segja má að sjálfstæðisbaráttu Íslands hafi lokið 1. desember árið 1918, þegar samningar náðust við Danmörku um fullveldi Íslands og svonefndur sambandslagasamningur var lögtekinn í báðum löndunum. Ísland var þá orðið fullvalda og sjálfstætt ríki, eftir langa baráttu forvígismaanna þjóðarinnar fyrir þeirri stöðu.

    Fullveldi þjóðar merkir að hún njóti stjórnskipulegs sjálfstæðis; með öðrum orðum að valdið til að taka ákvarðanir um málefni hennar sé hjá innlendum stofnunum og aðilum sem sæki valdið aðeins til þjóðarinnar sjálfrar og ekkert annað. Þetta gildir um alla þætti fullveldisins, hvort sem um ræðir lagasetningu, stjórnsýslu eða dómsýslu. Vísast hér til 2. gr. stjórnarskrárinnar sem og annarra ákvæða hennar.

    Nú er tekist á um hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Slíkri aðild myndi felast framsal á veigamiklum þáttum í fullveldi þjóðarinnar. Sumir áhugamenn um þessa aðild hafa viljað gera lítið úr þessu og segjast telja þetta ekkert frábrugðið öðrum milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Þetta fær ekki staðist.

    Það er auðvitað ekkert rangt við að gera samninga við önnur ríki. Ef slíkir samningar fela það hins vegar í sér að lagasetningarvaldið sé fært til erlendra stofnana felst í því framsal á fullveldi þeirrar þjóðar sem í hlut á, því valdið til að setja lög í landinu telst, eins og áður sagði, til fullveldis þess. Það brýtur að auki gegn stjórnarskrá okkar að framselja lagasetningarvaldið með þeim hætti sem sem hér er tekist á um. Vilji menn gera það verður fyrst að breyta stjórnarskránni. Það er eins og sumir vilji ekki skilja þetta heldur tala bara um þessa aðild sem venjulegan milliríkjasamning. Við ættum að reyna að kalla hlutina réttum nöfnum. Það er til þess fallið að auka líkurnar á að við skiljum hvað við erum að tala um.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur