Kerfi á kostnað fólks

Ég held að ég hafi strax á ungum aldri dottið niður á ágætis áttavita í stjórnmálum, um að það sé betra að fólk haldi um taumana í eigin lífi en að aðrir hafi vit fyrir því og taki af því völdin í ýmiskonar ákvörðunum.

Ég tel mig á lífsleiðinni hafa rekist á margt sem styður gagnsemi þessa áttavita. Til dæmis hef ég ekki rekist á marga vænlega pólitíkusa síðustu misseri. Mér sýnast þeir flestir, jafnvel allir, byggja á þeirri grundvallarforsendu í málflutningi sínum, að þeim sjálfum sé betur treystandi en almenningi í mörgum málum. Mismörgum, auðvitað, en almennt hefur þetta ágæta fólk tilhneigingu til forsjárhyggju. Til dæmis vann stærsti „hægri flokkurinn“ ómældan skaða á íslensku samfélagi með ýmsum þvingunaraðgerðum í þeirri ríkisstjórn sem var við völd á undan þessari.

Það vakti fyrst í stað von í brjósti að sjá marga öndvegismenn í Viðreisn taka í kosningabaráttunni upp hanskann fyrir einkarekstur, þegar þáverandi ráðamenn létu til dæmis rothöggin dynja á frjálsu framtaki og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Þeir áttu heiður skilinn fyrir það, en virðast nú hafa skipt um kúrs.

Það veldur núna vonbrigðum að fylgjast með þessu sama góða fólki standa fyrir því að færa fjármuni í miklum mæli úr blómstrandi grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, þar sem einkaframtakið hefur staðið sig frábærlega í að finna nýjar lausnir og framleiða vöru á hagkvæman hátt. Féð er núna fært yfir í þunglamalegan hramm ríkisvaldsins; til kerfis sem er ekki líklegt til að nýta það til þess að draga vagninn í verðmætasköpun fyrir þjóðina og stuðla að bættum lífskjörum á Íslandi.

Eins og einhver orðaði það svo vel í kosningabaráttunni fyrir rúmu hálfu ári:

„Hversu langt geta stjórnsamir stjórnmála- og embættismenn gengið í að verja kerfi á kostnað fólks?“

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur