Nú hefur Alþingi lögfest frumvarp sitt um aukna skattheimtu á útgerðina í landinu. Ég hef sagt að meirihlutinn á Alþingi hafi haft umboð frá þjóðinni til þessarar lagasetningar, þar sem hann var kosinn í lýðræðislegum kosningum í nóvember á síðasta ári.
Minnihluti þingsins reyndi að hindra framgang málsins með málþófi eins og allir vita. Þar kom að meirihlutinn stöðvaði málþófið með því að beita til þess lagaheimild í 71. gr. þingskaparlaga. Sumir stjórnarandstæðingar hafa talað stórt um þessa þessa aðgerð stjórnarmeirihlutans og talið hana takmarka málfrelsi þeirra.
Mér hefur verið legið á hálsi fyrir að benda annars vegar á lýðræðislegan rétt meirihlutans til að setja þessi lög og hins vegar á augljósa og ámælisverða tregðu hans til að skoða og fjalla um alls kyns efnislega annmarka á þessari lagasetningu sem minnihlutinn hefur borið fram. Hafa verið lagðar fram allmargar skýrslur sérfræðinga um þetta efni. Sá sérfræðingur hér á landi, sem ég met hvað mest, er Ragnar Árnason prófessor emeritus í hagfræði. Í Morgunblaðinu í dag 17. júlí er birt viðtal við Ragnar, þar sem hann tíundar allmargar rökstuddar athugasemdir sínar við efni þessara nýsettu laga. Telur hann m.a. að þau muni draga úr efnahagslegum afrakstri þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni.
Það er auðvitað grafalvarlegt mál ef þessi lög hafa verið sett án þess að taka nægilegt tillit til þeirra neikvæðu afleiðinga sem Ragnar og margir fleiri sérfræðingar hafa bent á. Meirihlutinn á Alþingi hefur auðvitað heimild til að setja lög sem valda tjóni á verðmætum hagsmunum þjóðarinnar. Synjun hans á að skoða og taka tillit til ofangreinda annmarka á þessum lögum er hins vegar mjög ámælisverð og hlýtur í fyllingu tímans að bitna á honum við kosningar. Þetta hef ég bent á og brýtur sú ábending ekki með neinum hætti gegn þeirri skoðun minni að meirihluti Alþingis hafi haft heimild til að setja lögin.
Þá er einnig nauðsynlegt að benda á að stjórnarmeirihlutinn hafði fulla heimild til að nýta 71. gr. þingskaparlaga til að binda endi á málþóf minnihlutans, sem hafði fengið miklu meira en nægilegt ráðrúm til að gera grein fyrir annmörkunum á þessari lagasetningu. Stóru orðin um þetta eru tilhæfulaus enda var ekki annað gert en að nýta lagaheimild til að stöðva svona aðferð við að standa í vegi fyrir lagasetningu meirihlutans. Sakar ekki í þessu sambandi að benda á að samkvæmt almennum fundarsköpum getur meirihluti fundarmanna stöðvað umræður á fundum þess félags sem í hlut á og þannig knúið fram atkvæðagreiðslu um fundarefnið.
Mér þætti vænt um að menn áttuðu sig á því að ég er ekki í neinu liði í þessum átökum en hef aðeins reynt að skýra lögfræðilegar hliðar málsins.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur