Sitjandi ríkisstjórn hefur í skjóli meirihluta síns á Alþingi komið fram vilja sínum um hækkun veiðigjalda. Mikið hefur gengið á:
Í lýðræðislegum kosningum varð niðurstaðan sú að nýr stjórnarmeirihluti náði völdum í þjóðfélaginu.
Nýi meirihlutinn vildi hækka skattana sem útgerðin skyldi þurfa að greiða fyrir aðganginn að fiskimiðunum við landið.
Ríkisstjórnin flutti frumvarp á Alþingi um þetta.
Illa var staðið að gerð frumvarpsins. Meiri hlutinn vildi svo við þingmeðferðina ekki taka tillit til tillagna minnihlutans. Þær voru sagðar byggjast á gagnaöflum um málið sem með réttu hefði átt að liggja fyrir við gerð frumvarpsins.
Á Alþingi var tekist harkalega á um þetta frumvarp. Minnihlutinn hélt uppi málþófi til að andmæla frumvarpinu og koma fram tillögum sínum um breytingar á því í því augnamiði að draga úr skaðlegum áhrifum þess á afkomu þjóðarinnar.
Meirihlutinn lýsti því að hann væri staðráðinn í að koma frumvarpinu í lög hvað sem öllum sjónarmiðum um skaðleg áhrif þess liði. Þingsalurinn var svo gott sem tómur þegar minnihlutinn flutti óteljandi ræður sínar. Lá fyrir að efni þeirra myndi engu breyta.
Meirihluti almennings í landinu virtist styðja frumvarpið en þó að slepptum þeim íbúum dreifðra byggða sem töldu að afkoma sín myndi rýrna við lögfestingu þess. Stuðningur manna við þetta frumvarp virtist byggjast á sjónarmiðum um að pyngjur þeirra myndu þyngjast við lögfestingu þess.
Kannanir liðinna ára hafa sýnt að íslenska stjórnkerfið á fiskveiðum hefur skilað íslensku þjóðinni meiri arði en þekkist í öðrum löndum. Þetta breytti engu um fyrirætlanir meirihlutans á Alþingi.
Meirihlutinn á Alþingi, sem studdist við meirihluta þjóðarinnar í síðustu Alþingiskosningum, hafði auðvitað lýðræðislega heimild til að koma frumvarpi sínu í lög. Fyrir lá að málþóf minnihlutans myndi þar engu um breyta. Þegar það var orðið ljóst var gefin forsenda fyrir málþófinu brostin. Því var haldið áfram þrátt fyrir þetta. Meirihluti þingsins ákvað þá að beita heimild í lögum til að stöðva málþófið og láta þingið ganga til atkvæða um frumvarpið, Til þess hafði hann heimild samkvæmt lögum.
Komi í ljós að þessi lagasetning hafi valdið þjóðinni tjóni verður tekist á um þetta í stjórnmálabaráttunni við næstu Alþingiskosningar.
Fyrir liggur að meirihluti á Alþingi getur sett lög sem valda þjóðinni tjóni. Ef einhver telur sig verða fyrir slíku tjóni getur hann leitað til dómstóla ef hann á hagsmuni, sem unnt er að bera undir þá. Að öðru leyti verður gert út um þennan ágreining við næstu kosningar til Alþingis.
Það er ástæðulaust fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar að lýsa þessari atburðarás sem árás á lýðveldið af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hún gerði bara það sem lög heimiluðu henni. Efni máls og talað orð fela í sér þau átök sem málefnið gefur tilefni til í ríki sem viðhefur þá skipan sem við teljum lýðræði.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur