Tilveruréttur lýðveldisins?

Einn af varaforsetum Alþingis, Hildur Sverrisdóttir, stjórnaði fundi Alþingis þriðjudaginn 8. júlí s.l. Um miðnætti frestaði hún fundi. Stjórnarliðar hafa haldið því fram að Hildur hafi ekki haft heimild til að gera þetta. Af því tilefni skal tekið fram að í 8. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis segir svo um störf varaforseta: „Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað“. Það átti því undir valdsvið Hildar að stjórna fundinum og þ.m.t. að slíta honum.

Strax í upphafi fyrsta fundar morguninn eftir (í gær 10. júlí) brá svo við að forsætisrráðherra, Kristrún Frostadóttir, fór fyrst þingmanna í ræðustól og lýsti því að framganga stjórnarandstöðunnar við meðferð á frumvarpinu um veiðigjöldin, væri í andstöðu við lýðræðislega stjórnskipan á Íslandi. Ýmsir stjórnarþingmenn fylgdu þessu eftir með ræðum um að Hildur Sverrisdóttir varaforseti hefði ekki haft heimild til að fresta fundinum kvöldið áður. Öll þessi afstaða þingmanna meirihlutans virðist byggjast á því að minnihlutinn geti haldið þinginu í herkví með málþófinu og stjórn þingfunda. Er það svo? Í 71. gr þingskaparlaganna er kveðið skýrt á um að unnt sé að knýja fram lok umræðna á Alþingi. Geta níu þingmenn krafist þess að greidd skuli atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu sé lokið.

Hvers vegna beitir meirihluti Alþingis ekki þessari heimild? Í stað þess að gera það hverfa þingmenn meirihlutans unnvörpum úr þingsalnum meðan minnihlutaþingmenn tala.

Forsætisráðherrann virtist í ræðu sinni telja að skollin væri á styrjöld milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Tekist væri á um tilverurétt lýðveldisins. Það munaði ekki um það. Af hverju lætur hún lið sitt ekki beita lagaheimild til að binda endi á þessar umræður? Er hún hrædd við að bera ábyrgð á slíkri ákvörðun? Það vekur svo athygli að forsætisráðherrann hefur sagt að málið snúist um þingrof. Veit hún ekki hvað það hugtak merkir? Hyggst hún rjúfa þingið og efna til kosninga ef ríkisstjórnin kemur ekki fram málum sínum?

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur