Á Íslandi ríkir sú skipan að þjóðin kýs alþingismenn. Ræðst skipting þingmanna milli flokka af úrslitum kosninga. Meirihluti þingmanna myndar ríkisstjórn og setur þjóðinni lagafyrirmæli, þó að minnihlutinn sé andvígur þeim. Minnihlutinn hefur heimild til að andmæla fyrirætlunum meirihlutans og gera grein fyrir ástæðum andmælanna við umræður á þinginu. Fari meirihlutinn fram með lagafrumvarp verður það að lögum ef þingmenn meirihlutans gefa sig ekki og samþykkja frumvarpið.
Það er að mínum dómi skylda alþingismanna sem andvígir eru setningu laga, sem meirihlutinn vill setja, að beygja sig fyrir því eftir að hafa notið málfrelsis við meðferð frumvarps á Alþingi. Valdi sett lög meirihlutans þjóðinni tjóni verða landsmenn að una því. Telji menn að lög sem sett hafa verið brjóti gegn réttindum annarra borgara og valdi þeim tjóni geta þeir eftir atvikum leitað réttar síns fyrir dómstólum. Hugsanlegt er að ekki verði unnt að skjóta tjóni af skaðlegri lagasetningu til dómstóla af réttarfarsástæðum. Þá situr þjóðin uppi með tjónið. Réttlætingin fyrir því er sú að almenningur í landinu kaus þá sem völd fengu og notuðu þau til að setja landinu lagareglur sem valda þjóðinni eða hluta hennar fjárhagslegu tjóni.
Reglurnar sem þessu valda eru það sem við nefnum lýðræði. Meirihlutinn ræður þó að reyndin verði sú að lögin sem sett eru geti talist arfavitlaus og valdið þjóðinni fjárhagslegu tjóni.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur