Hjarðhugsun

Það er lagt fyrir okkur á næstum hverjum degi að hafa skoðanir á málefnum þjóðfélagsins sem svonefndir fjölmiðlar fræða okkur oftast um. Við vitum að frásagnir þeirra eru oft litaðar af persónulegum skoðunum þeirra manna sem semja fréttir. Þeim ber auðvitað að reyna að vera hlutlausir í frásögnum sínum, en það getur verið erfitt, því flestir sem sinna þessum frásögnum hafa sjálfir skoðanir á því sem frá er sagt. Sumir fjölmiðlar gefa sig meira að segja út fyrir að vera talsmenn ákveðinna sjónarmiða í stjórnmálum eða öðrum málefnum sem fjallað er um.

Það getur verið erfitt að greina kjarnann frá hisminu í því sem borið er fram fyrir okkur í tilfallandi fréttafrásögnum á hverjum degi. Flest tökum við oftast afstöðu í hugarheimi okkar þó að við gerumst sjaldnast sjálf opinberir talsmenn hennar. Ætli flest okkar séu ekki undir þá sök seld að trúa oftast frásögnunum sem við heyrum. Í þeim felast oft staðhæfingar eða tilgátur um staðreyndir auk dulbúnings á persónulegum skoðunum þess sem segir frá. Verður þá stundum til eins konar hjarðhugsun sem flest okkar aðhyllast hugsunarlaust án þess að vera í nokkurri aðstöðu til að gagnrýna frásögnina af því sem um ræðir. Þetta ber okkur að forðast þó að erfitt sé því að við „vitum ekki betur“.

Sum okkar búa yfir því sem við nefnum hugsjónir. Í þeim felst oft að við reynum sjálf að leggja ákveðinn mælikvarða á það sem við heyrum, sem þá oftast samrýmist hugsjónum okkar. Við þekkjum flest nafngiftir margra þessara hugsjóna. Sumir eru sósíalistar sem vilja að valdsmenn ráði atburðum í samfélaginu að svo miklu leyti sem unnt er. Aðrir eru það sem við köllum vinstri menn, án þess að þeir vilji sjálfir kalla sig sósíalista. Enn aðrir aðhyllast frelsi og ábyrgð einstaklinganna sjálfra. Þeir eru stundum kallaðir frjálshyggjumenn. Og margir falla ekki undir þessar skilgreiningar og aðhyllast þá oftast þær hugmyndir um atburði líðandi stundar sem hyggjuvit þeirra eða kannski skorturinn á því segir þeim.

Ég er á þeirri skoðun að við ættum sem flest að reyna að gera okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem við viljum að þjóðfélagið lúti að mestu. Þessar hugmyndir ættum við að reyna að móta út frá þeim sjónarmiðum sem styðja viðleitni okkar til að vera sjálfstæðir einstaklingar sem vilja bera ábyrgð á sínum eigin gjörðum, hvort sem er í persónulegum málum eða þeim sem lúta að skipan sameiginlegra mála þjóðfélagsins. Kannski við komumst þá nær því að lúta ekki að jafnaði þeim viðhorfum sem fjölmiðlar og atkvæðamiklir einstaklingar mata okkur á með því að vera að minnsta kosti gagnrýnin á það sem við heyrum.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur