Grettir bróðir hefði orðið áttræður í dag, 24. júlí. Ég var tveimur árum yngri og ólumst við því upp saman fyrstu árin. Við vorum nánir vinir og samherjar og hélst það verðmæta samband allt fram að því að hann féll fyrir illvígum sjúkdómi haustið 2002, aðeins 57 ára gamall. Þá máttu Þura og börnin þeirra þola missi sem ekki varð bættur.
Grettir var hreinasti öðlingur. Við brölluðum margt saman þó að við færum mismunandi leiðir í lífinu. Hann var athafnasamur byggingameistari sem tók að sér fjölda verka á því sviði. Minn vettvangur var hins vegar lögfræðin. Þó að störfin væru ólík brustu bönd æskunnar aldrei. Allt frá því að selja jólatré á stéttinni við heimili okkar að Blönduhlíð 2, þar sem móðurafi okkar rak matvöruverslun, og yfir í að vera í fyrirsvari fyrir Svartá í Húnavatnssýslu, sem ég hafði á leigu í nokkur ár ásamt nokkrum vina minna. Grettir var þar miðpunktur veiðimennskunnar, sem hann alla tíð hafði lifandi ástríðu fyrir. Hann var góður teiknari og dró upp kort af ánni sem veiðimenn höfðu við hendina við veiðarnar og gera ennþá eftir því sem ég best veit. Svo tók hann að sér nýgræðinga við veiðarnar, leiðbeindi þeim og studdi á alla lund. Hann lét sína eigin ástundun við veiðarnar þá oft að víkja. Mér fannst það jafnvel gleðja hann meira að ná árangri við leiðsögnina heldur en að veiða sjálfur.
Lífið er stundum miskunnarlaust. Hvaða vit var í því að þessi öðlingur þyrfti að láta í minni pokann aðeins 57 ára gamall? Eftir standa kona hans, börnin þeirra fjögur og afkomendur þeirra. Hann væri áreiðanlega yfir sig stoltur af þessu frábæra fólki. Svo mikið er víst að arfleifð þessa öðlings hefur lifað í þeim og mun gera um ókomna tíð.
Blessuð sé minning Grettis Gunnlaugssonar.
Jón Steinar Gunnlaugsson