Fyrir nokkrum dögum birti ég hér á fasbók stutta athugasemd um sjónvarpsfrétt, þar sagt var frá því að 14 ára drengur yrði að líða matarskort vegna ástandsins á Gaza. Var svo að skilja að þetta væri Ísraelsmönnum að kenna vegna þess að þeir hindruðu flutning matvæla og annarra hjálpargagna inn á svæðið. Í fréttinni var móðir drengsins sýnd sinna honum og vakti það athygli mína að hún virtist vera í miklu betri holdum en drengurinn. Ekki tók ég neina afstöðu til þess hverjum væri um það að kenna að sveltandi fólkið fengi ekki matarsendingar sem því hafði verið ætlaðar.
Ekki stóð á viðbrögðum við þessu. Fjölmargir Íslendingar sendu mér illyrði og jafnvel hótanir vegna þessarar athugasemdar minnar. Þeir virtust vera heilaþvegnir af einhliða frásögnum íslenskra fjölmiðla um að þessar hörmungar væru allar Ísraelsmönnum að kenna. Þeir leyfðu ekki flutning matvæla inn á svæðið. Engar fréttir höfðu mér vitanlega verið fluttar á íslensku stöðvunum um afstöðu Ísraels til staðhæfinga um þetta.
Hér að neðan skulu því birtar frásagnir af þessu sem hinum hlutdrægu fréttastofum á Íslandi hefur láðst að geta um í fréttum sínum:
Færsla frá ísraelska utanríkisráðuneytinu (@IsraelMFA) á X:
„Í dag bauð IDF tugum alþjóðlegra blaðamanna til Kerem Shalom landamæranna í Gasa til að sjá með eigin augum. Hundruð hjálparbíla hafa komið inn í Gasa með samþykki Ísraels, en birgðirnar standa ónýttar og óafhentar. Ástæðan? Sameinuðu þjóðirnar neita að dreifa.“
Önnur færsla frá hjálparsamtökum sem skýrir stöðuna.
SÞ komu hjálpargögnum úr einum af þessum 950 bílum frá Ísrael til íbúa Gaza, og Hamas-liðar börðu á þeim sem komu til að þiggja aðstoðina. Færsla á X
Frásögn blaðamanns AP af ritskoðunarkröfum Hamas árið 2008, þegar fréttastofan ætlaði að greina frá því að hryðjuverkamenn samtakanna berðust í borgaralegum klæðnaði og væru taldir sem borgaraleg fórnarlömb. Færsla á X
Ég get auðvitað ekki tekið afstöðu til þess hvað er satt og rétt í umfjöllun um þetta efni. En hvers vegna ætli hinar íslensku sjónvarpsstöðvar, sem segjast vera hlutlausar í fréttaflutningi sínum, segi ekki fréttir af báðum hliðum málsins?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur