júlí 2025

  • Fréttir af Gaza

    Fyrir nokkrum dögum birti ég hér á fasbók stutta athugasemd um sjónvarpsfrétt, þar sagt var frá því að 14 ára drengur yrði að líða matarskort vegna ástandsins á Gaza. Var svo að skilja að þetta væri Ísraelsmönnum að kenna vegna þess að þeir hindruðu flutning matvæla og annarra hjálpargagna inn á svæðið. Í fréttinni var móðir drengsins sýnd sinna honum og vakti það athygli mína að hún virtist vera í miklu betri holdum en drengurinn. Ekki tók ég neina afstöðu til þess hverjum væri um það að kenna að sveltandi fólkið fengi ekki matarsendingar sem því hafði verið ætlaðar.

    Ekki stóð á viðbrögðum við þessu. Fjölmargir Íslendingar sendu mér illyrði og jafnvel hótanir vegna þessarar athugasemdar minnar. Þeir virtust vera heilaþvegnir af einhliða frásögnum íslenskra fjölmiðla um að þessar hörmungar væru allar Ísraelsmönnum að kenna. Þeir leyfðu ekki flutning matvæla inn á svæðið. Engar fréttir höfðu mér vitanlega verið fluttar á íslensku stöðvunum um afstöðu Ísraels til staðhæfinga um þetta.

    Hér að neðan skulu því birtar frásagnir af þessu sem hinum hlutdrægu fréttastofum á Íslandi hefur láðst að geta um í fréttum sínum:

    Færsla frá ísraelska utanríkisráðuneytinu (@IsraelMFA) á X:

    „Í dag bauð IDF tugum alþjóðlegra blaðamanna til Kerem Shalom landamæranna í Gasa til að sjá með eigin augum. Hundruð hjálparbíla hafa komið inn í Gasa með samþykki Ísraels, en birgðirnar standa ónýttar og óafhentar. Ástæðan? Sameinuðu þjóðirnar neita að dreifa.“

    Önnur færsla frá hjálparsamtökum sem skýrir stöðuna.

    SÞ komu hjálpargögnum úr einum af þessum 950 bílum frá Ísrael til íbúa Gaza, og Hamas-liðar börðu á þeim sem komu til að þiggja aðstoðina. Færsla á X

    Frásögn blaðamanns AP af ritskoðunarkröfum Hamas árið 2008, þegar fréttastofan ætlaði að greina frá því að hryðjuverkamenn samtakanna berðust í borgaralegum klæðnaði og væru taldir sem borgaraleg fórnarlömb. Færsla á X

    Ég get auðvitað ekki tekið afstöðu til þess hvað er satt og rétt í umfjöllun um þetta efni. En hvers vegna ætli hinar íslensku sjónvarpsstöðvar, sem segjast vera hlutlausar í fréttaflutningi sínum, segi ekki fréttir af báðum hliðum málsins?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Grettir bróðir

    Grettir bróðir hefði orðið áttræður í dag, 24. júlí. Ég var tveimur árum yngri og ólumst við því upp saman fyrstu árin. Við vorum nánir vinir og samherjar og hélst það verðmæta samband allt fram að því að hann féll fyrir illvígum sjúkdómi haustið 2002, aðeins 57 ára gamall. Þá máttu Þura og börnin þeirra þola missi sem ekki varð bættur.

    Grettir var hreinasti öðlingur. Við brölluðum margt saman þó að við færum mismunandi leiðir í lífinu. Hann var athafnasamur byggingameistari sem tók að sér fjölda verka á því sviði. Minn vettvangur var hins vegar lögfræðin. Þó að störfin væru ólík brustu bönd æskunnar aldrei. Allt frá því að selja jólatré á stéttinni við heimili okkar að Blönduhlíð 2, þar sem móðurafi okkar rak matvöruverslun, og yfir í að vera í fyrirsvari fyrir Svartá í Húnavatnssýslu, sem ég hafði á leigu í nokkur ár ásamt nokkrum vina minna. Grettir var þar miðpunktur veiðimennskunnar, sem hann alla tíð hafði lifandi ástríðu fyrir. Hann var góður teiknari og dró upp kort af ánni sem veiðimenn höfðu við hendina við veiðarnar og gera ennþá eftir því sem ég best veit. Svo tók hann að sér nýgræðinga við veiðarnar, leiðbeindi þeim og studdi á alla lund. Hann lét sína eigin ástundun við veiðarnar þá oft að víkja. Mér fannst það jafnvel gleðja hann meira að ná árangri við leiðsögnina heldur en að veiða sjálfur.

    Lífið er stundum miskunnarlaust. Hvaða vit var í því að þessi öðlingur þyrfti að láta í minni pokann aðeins 57 ára gamall? Eftir standa kona hans, börnin þeirra fjögur og afkomendur þeirra. Hann væri áreiðanlega yfir sig stoltur af þessu frábæra fólki. Svo mikið er víst að arfleifð þessa öðlings hefur lifað í þeim og mun gera um ókomna tíð.

    Blessuð sé minning Grettis Gunnlaugssonar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Kerfi á kostnað fólks

    Ég held að ég hafi strax á ungum aldri dottið niður á ágætis áttavita í stjórnmálum, um að það sé betra að fólk haldi um taumana í eigin lífi en að aðrir hafi vit fyrir því og taki af því völdin í ýmiskonar ákvörðunum.

    Ég tel mig á lífsleiðinni hafa rekist á margt sem styður gagnsemi þessa áttavita. Til dæmis hef ég ekki rekist á marga vænlega pólitíkusa síðustu misseri. Mér sýnast þeir flestir, jafnvel allir, byggja á þeirri grundvallarforsendu í málflutningi sínum, að þeim sjálfum sé betur treystandi en almenningi í mörgum málum. Mismörgum, auðvitað, en almennt hefur þetta ágæta fólk tilhneigingu til forsjárhyggju. Til dæmis vann stærsti „hægri flokkurinn“ ómældan skaða á íslensku samfélagi með ýmsum þvingunaraðgerðum í þeirri ríkisstjórn sem var við völd á undan þessari.

    Það vakti fyrst í stað von í brjósti að sjá marga öndvegismenn í Viðreisn taka í kosningabaráttunni upp hanskann fyrir einkarekstur, þegar þáverandi ráðamenn létu til dæmis rothöggin dynja á frjálsu framtaki og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Þeir áttu heiður skilinn fyrir það, en virðast nú hafa skipt um kúrs.

    Það veldur núna vonbrigðum að fylgjast með þessu sama góða fólki standa fyrir því að færa fjármuni í miklum mæli úr blómstrandi grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, þar sem einkaframtakið hefur staðið sig frábærlega í að finna nýjar lausnir og framleiða vöru á hagkvæman hátt. Féð er núna fært yfir í þunglamalegan hramm ríkisvaldsins; til kerfis sem er ekki líklegt til að nýta það til þess að draga vagninn í verðmætasköpun fyrir þjóðina og stuðla að bættum lífskjörum á Íslandi.

    Eins og einhver orðaði það svo vel í kosningabaráttunni fyrir rúmu hálfu ári:

    „Hversu langt geta stjórnsamir stjórnmála- og embættismenn gengið í að verja kerfi á kostnað fólks?“

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Valda ný lög tjóni?

    Nú hefur Alþingi lögfest frumvarp sitt um aukna skattheimtu á útgerðina í landinu. Ég hef sagt að meirihlutinn á Alþingi hafi haft umboð frá þjóðinni til þessarar lagasetningar, þar sem hann var kosinn í lýðræðislegum kosningum í nóvember á síðasta ári.

    Minnihluti þingsins reyndi að hindra framgang málsins með málþófi eins og allir vita. Þar kom að meirihlutinn stöðvaði málþófið með því að beita til þess lagaheimild í 71. gr. þingskaparlaga. Sumir stjórnarandstæðingar hafa talað stórt um þessa þessa aðgerð stjórnarmeirihlutans og talið hana takmarka málfrelsi þeirra.

    Mér hefur verið legið á hálsi fyrir að benda annars vegar á lýðræðislegan rétt meirihlutans til að setja þessi lög og hins vegar á augljósa og ámælisverða tregðu hans til að skoða og fjalla um alls kyns efnislega annmarka á þessari lagasetningu sem minnihlutinn hefur borið fram. Hafa verið lagðar fram allmargar skýrslur sérfræðinga um þetta efni. Sá sérfræðingur hér á landi, sem ég met hvað mest, er Ragnar Árnason prófessor emeritus í hagfræði. Í Morgunblaðinu í dag 17. júlí er birt viðtal við Ragnar, þar sem hann tíundar allmargar rökstuddar athugasemdir sínar við efni þessara nýsettu laga. Telur hann m.a. að þau muni draga úr efnahagslegum afrakstri þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni.

    Það er auðvitað grafalvarlegt mál ef þessi lög hafa verið sett án þess að taka nægilegt tillit til þeirra neikvæðu afleiðinga sem Ragnar og margir fleiri sérfræðingar hafa bent á. Meirihlutinn á Alþingi hefur auðvitað heimild til að setja lög sem valda tjóni á verðmætum hagsmunum þjóðarinnar. Synjun hans á að skoða og taka tillit til ofangreinda annmarka á þessum lögum er hins vegar mjög ámælisverð og hlýtur í fyllingu tímans að bitna á honum við kosningar. Þetta hef ég bent á og brýtur sú ábending ekki með neinum hætti gegn þeirri skoðun minni að meirihluti Alþingis hafi haft heimild til að setja lögin.

    Þá er einnig nauðsynlegt að benda á að stjórnarmeirihlutinn hafði fulla heimild til að nýta 71. gr. þingskaparlaga til að binda endi á málþóf minnihlutans, sem hafði fengið miklu meira en nægilegt ráðrúm til að gera grein fyrir annmörkunum á þessari lagasetningu. Stóru orðin um þetta eru tilhæfulaus enda var ekki annað gert en að nýta lagaheimild til að stöðva svona aðferð við að standa í vegi fyrir lagasetningu meirihlutans. Sakar ekki í þessu sambandi að benda á að samkvæmt almennum fundarsköpum getur meirihluti fundarmanna stöðvað umræður á fundum þess félags sem í hlut á og þannig knúið fram atkvæðagreiðslu um fundarefnið.

    Mér þætti vænt um að menn áttuðu sig á því að ég er ekki í neinu liði í þessum átökum en hef aðeins reynt að skýra lögfræðilegar hliðar málsins.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Mikið hefur gengið á

    Sitjandi ríkisstjórn hefur í skjóli meirihluta síns á Alþingi komið fram vilja sínum um hækkun veiðigjalda. Mikið hefur gengið á:

    Í lýðræðislegum kosningum varð niðurstaðan sú að nýr stjórnarmeirihluti náði völdum í þjóðfélaginu.

    Nýi meirihlutinn vildi hækka skattana sem útgerðin skyldi þurfa að greiða fyrir aðganginn að fiskimiðunum við landið.

    Ríkisstjórnin flutti frumvarp á Alþingi um þetta.

    Illa var staðið að gerð frumvarpsins. Meiri hlutinn vildi svo við þingmeðferðina ekki taka tillit til tillagna minnihlutans. Þær voru sagðar byggjast á gagnaöflum um málið sem með réttu hefði átt að liggja fyrir við gerð frumvarpsins.

    Á Alþingi var tekist harkalega á um þetta frumvarp. Minnihlutinn hélt uppi málþófi til að andmæla frumvarpinu og koma fram tillögum sínum um breytingar á því í því augnamiði að draga úr skaðlegum áhrifum þess á afkomu þjóðarinnar.

    Meirihlutinn lýsti því að hann væri staðráðinn í að koma frumvarpinu í lög hvað sem öllum sjónarmiðum um skaðleg áhrif þess liði. Þingsalurinn var svo gott sem tómur þegar minnihlutinn flutti óteljandi ræður sínar. Lá fyrir að efni þeirra myndi engu breyta.

    Meirihluti almennings í landinu virtist styðja frumvarpið en þó að slepptum þeim íbúum dreifðra byggða sem töldu að afkoma sín myndi rýrna við lögfestingu þess. Stuðningur manna við þetta frumvarp virtist byggjast á sjónarmiðum um að pyngjur þeirra myndu þyngjast við lögfestingu þess.

    Kannanir liðinna ára hafa sýnt að íslenska stjórnkerfið á fiskveiðum hefur skilað íslensku þjóðinni meiri arði en þekkist í öðrum löndum. Þetta breytti engu um fyrirætlanir meirihlutans á Alþingi.

    Meirihlutinn á Alþingi, sem studdist við meirihluta þjóðarinnar í síðustu Alþingiskosningum, hafði auðvitað lýðræðislega heimild til að koma frumvarpi sínu í lög. Fyrir lá að málþóf minnihlutans myndi þar engu um breyta. Þegar það var orðið ljóst var gefin forsenda fyrir málþófinu brostin. Því var haldið áfram þrátt fyrir þetta. Meirihluti þingsins ákvað þá að beita heimild í lögum til að stöðva málþófið og láta þingið ganga til atkvæða um frumvarpið, Til þess hafði hann heimild samkvæmt lögum.

    Komi í ljós að þessi lagasetning hafi valdið þjóðinni tjóni verður tekist á um þetta í stjórnmálabaráttunni við næstu Alþingiskosningar.

    Fyrir liggur að meirihluti á Alþingi getur sett lög sem valda þjóðinni tjóni. Ef einhver telur sig verða fyrir slíku tjóni getur hann leitað til dómstóla ef hann á hagsmuni, sem unnt er að bera undir þá. Að öðru leyti verður gert út um þennan ágreining við næstu kosningar til Alþingis.

    Það er ástæðulaust fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar að lýsa þessari atburðarás sem árás á lýðveldið af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hún gerði bara það sem lög heimiluðu henni. Efni máls og talað orð fela í sér þau átök sem málefnið gefur tilefni til í ríki sem viðhefur þá skipan sem við teljum lýðræði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Tilveruréttur lýðveldisins?

    Einn af varaforsetum Alþingis, Hildur Sverrisdóttir, stjórnaði fundi Alþingis þriðjudaginn 8. júlí s.l. Um miðnætti frestaði hún fundi. Stjórnarliðar hafa haldið því fram að Hildur hafi ekki haft heimild til að gera þetta. Af því tilefni skal tekið fram að í 8. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis segir svo um störf varaforseta: „Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað“. Það átti því undir valdsvið Hildar að stjórna fundinum og þ.m.t. að slíta honum.

    Strax í upphafi fyrsta fundar morguninn eftir (í gær 10. júlí) brá svo við að forsætisrráðherra, Kristrún Frostadóttir, fór fyrst þingmanna í ræðustól og lýsti því að framganga stjórnarandstöðunnar við meðferð á frumvarpinu um veiðigjöldin, væri í andstöðu við lýðræðislega stjórnskipan á Íslandi. Ýmsir stjórnarþingmenn fylgdu þessu eftir með ræðum um að Hildur Sverrisdóttir varaforseti hefði ekki haft heimild til að fresta fundinum kvöldið áður. Öll þessi afstaða þingmanna meirihlutans virðist byggjast á því að minnihlutinn geti haldið þinginu í herkví með málþófinu og stjórn þingfunda. Er það svo? Í 71. gr þingskaparlaganna er kveðið skýrt á um að unnt sé að knýja fram lok umræðna á Alþingi. Geta níu þingmenn krafist þess að greidd skuli atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu sé lokið.

    Hvers vegna beitir meirihluti Alþingis ekki þessari heimild? Í stað þess að gera það hverfa þingmenn meirihlutans unnvörpum úr þingsalnum meðan minnihlutaþingmenn tala.

    Forsætisráðherrann virtist í ræðu sinni telja að skollin væri á styrjöld milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Tekist væri á um tilverurétt lýðveldisins. Það munaði ekki um það. Af hverju lætur hún lið sitt ekki beita lagaheimild til að binda endi á þessar umræður? Er hún hrædd við að bera ábyrgð á slíkri ákvörðun? Það vekur svo athygli að forsætisráðherrann hefur sagt að málið snúist um þingrof. Veit hún ekki hvað það hugtak merkir? Hyggst hún rjúfa þingið og efna til kosninga ef ríkisstjórnin kemur ekki fram málum sínum?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Meirihlutinn ræður

    Á Íslandi ríkir sú skipan að þjóðin kýs alþingismenn. Ræðst skipting þingmanna milli flokka af úrslitum kosninga. Meirihluti þingmanna myndar ríkisstjórn og setur þjóðinni lagafyrirmæli, þó að minnihlutinn sé andvígur þeim. Minnihlutinn hefur heimild til að andmæla fyrirætlunum meirihlutans og gera grein fyrir ástæðum andmælanna við umræður á þinginu. Fari meirihlutinn fram með lagafrumvarp verður það að lögum ef þingmenn meirihlutans gefa sig ekki og samþykkja frumvarpið.

    Það er að mínum dómi skylda alþingismanna sem andvígir eru setningu laga, sem meirihlutinn vill setja, að beygja sig fyrir því eftir að hafa notið málfrelsis við meðferð frumvarps á Alþingi. Valdi sett lög meirihlutans þjóðinni tjóni verða landsmenn að una því. Telji menn að lög sem sett hafa verið brjóti gegn réttindum annarra borgara og valdi þeim tjóni geta þeir eftir atvikum leitað réttar síns fyrir dómstólum. Hugsanlegt er að ekki verði unnt að skjóta tjóni af skaðlegri lagasetningu til dómstóla af réttarfarsástæðum. Þá situr þjóðin uppi með tjónið. Réttlætingin fyrir því er sú að almenningur í landinu kaus þá sem völd fengu og notuðu þau til að setja landinu lagareglur sem valda þjóðinni eða hluta hennar fjárhagslegu tjóni.

    Reglurnar sem þessu valda eru það sem við nefnum lýðræði. Meirihlutinn ræður þó að reyndin verði sú að lögin sem sett eru geti talist arfavitlaus og valdið þjóðinni fjárhagslegu tjóni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Hjarðhugsun

    Það er lagt fyrir okkur á næstum hverjum degi að hafa skoðanir á málefnum þjóðfélagsins sem svonefndir fjölmiðlar fræða okkur oftast um. Við vitum að frásagnir þeirra eru oft litaðar af persónulegum skoðunum þeirra manna sem semja fréttir. Þeim ber auðvitað að reyna að vera hlutlausir í frásögnum sínum, en það getur verið erfitt, því flestir sem sinna þessum frásögnum hafa sjálfir skoðanir á því sem frá er sagt. Sumir fjölmiðlar gefa sig meira að segja út fyrir að vera talsmenn ákveðinna sjónarmiða í stjórnmálum eða öðrum málefnum sem fjallað er um.

    Það getur verið erfitt að greina kjarnann frá hisminu í því sem borið er fram fyrir okkur í tilfallandi fréttafrásögnum á hverjum degi. Flest tökum við oftast afstöðu í hugarheimi okkar þó að við gerumst sjaldnast sjálf opinberir talsmenn hennar. Ætli flest okkar séu ekki undir þá sök seld að trúa oftast frásögnunum sem við heyrum. Í þeim felast oft staðhæfingar eða tilgátur um staðreyndir auk dulbúnings á persónulegum skoðunum þess sem segir frá. Verður þá stundum til eins konar hjarðhugsun sem flest okkar aðhyllast hugsunarlaust án þess að vera í nokkurri aðstöðu til að gagnrýna frásögnina af því sem um ræðir. Þetta ber okkur að forðast þó að erfitt sé því að við „vitum ekki betur“.

    Sum okkar búa yfir því sem við nefnum hugsjónir. Í þeim felst oft að við reynum sjálf að leggja ákveðinn mælikvarða á það sem við heyrum, sem þá oftast samrýmist hugsjónum okkar. Við þekkjum flest nafngiftir margra þessara hugsjóna. Sumir eru sósíalistar sem vilja að valdsmenn ráði atburðum í samfélaginu að svo miklu leyti sem unnt er. Aðrir eru það sem við köllum vinstri menn, án þess að þeir vilji sjálfir kalla sig sósíalista. Enn aðrir aðhyllast frelsi og ábyrgð einstaklinganna sjálfra. Þeir eru stundum kallaðir frjálshyggjumenn. Og margir falla ekki undir þessar skilgreiningar og aðhyllast þá oftast þær hugmyndir um atburði líðandi stundar sem hyggjuvit þeirra eða kannski skorturinn á því segir þeim.

    Ég er á þeirri skoðun að við ættum sem flest að reyna að gera okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem við viljum að þjóðfélagið lúti að mestu. Þessar hugmyndir ættum við að reyna að móta út frá þeim sjónarmiðum sem styðja viðleitni okkar til að vera sjálfstæðir einstaklingar sem vilja bera ábyrgð á sínum eigin gjörðum, hvort sem er í persónulegum málum eða þeim sem lúta að skipan sameiginlegra mála þjóðfélagsins. Kannski við komumst þá nær því að lúta ekki að jafnaði þeim viðhorfum sem fjölmiðlar og atkvæðamiklir einstaklingar mata okkur á með því að vera að minnsta kosti gagnrýnin á það sem við heyrum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur