Ofurviðbrögð

Það fór eins og mig grunaði þegar ég vísaði til viðtals Bylgjunnar við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur í morgunþætti í fyrradag, 24. júní. Margir risu upp á afturfætur sína vegna þess arna. Það er eins og margir telji að útgerðin greiði ekkert í ríkissjóð fyrir heimildina til að veiða fisk við Ísland. Það er mikill misskilningur. Heiðrún Lind skýrir stöðuna í þessu og kemur þar fram að útgerðin greiði að jafnaði þriðjung af hagnaði sínum í veiðigjöld, sem er sérstakt endurgjald fyrir aðganginn að miðunum. Í viðtalinu rökstyður hún að sú mikla hækkun sem til stendur að gera á þessum veiðigjöldum muni hafa mjög lamandi áhrif á rekstur fyrirtækja sem stunda fiskveiðar. Nú ættu menn að gera sér grein fyrir því að þessi fyrirtæki borga skatta eftir sömu reglum og önnur fyrirtæki í atvinnurekstri. Veiðigjöldin eru viðbót við skattgreiðslurnar. Og þá er deilt um hvort þau beri að hækka frá því sem nú gildir. Heiðrún Lind gerir í viðtalinu skýra grein fyrir stöðunni. Hún aftekur ekki að hækka megi veiðigjöldin en telur að hækkunin sem stendur fyrir dyrum sé meiri en svo að fyrirtækin ráði við hana a.m.k. til lengri tíma. Menn ættu að hlusta á viðtalið áður en þeir tjá sig um málið á þann glaðbeitta hátt sem margir gera. Hér er hlekkur á viðtalið. Það er eins og margir telji sig sjálft eiga í vændum háar fégreiðslur úr ríkissjoði ef veiðigjöldin verði hækkuð! Ætli það geti ekki talist draumórar?

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur