Málefnaleg innlegg

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag 25. júní er að finna grein eftir Ásgeir Ingvarsson undir fyrirsögninni „Stríð, friður og Donald Trump“. Ásgeir skrifar reglulega greinar í Morgunblaðið sem undantekningarlaust eru svo sannarlega þess virði að vera lesnar. Greinin í dag er öfgalaus og vönduð greining á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs núna eftir að klerkastjórnin í Íran varð þátttakandi í þeim. Þessi skrif gefa raunsanna mynd af þessum atburðum og er hressandi að lesa hana í staðinn fyrir hlutdræg og stóryrt skrif, sem svo margir ástunda um þessar mundir, Þeir eru sýnilega drifnir áfram af fréttaflutningi RÚV sem er allur á aðra hliðina. Takk fyrir Ásgeir.

Svo var líka í morgun flutt í Bítinu á Bylgjunni viðtal við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, sem starfar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún talaði um skattlagninguna á fiskveiðarnar, sem nú er á döfinni. Hún fór á öfgalausan og málefnalegan hátt yfir þessar fyrirætlanir og sýndi fram á alvarlega skaðsemi þeirra. Ég hef ekki heyrt nokkurn annan tala um þetta umdeilda mál af meira viti og á vandaðri hátt. Menn ættu að „sækja sér“ þetta viðtal og hlusta án þeirra fordóma sem svo margir temja sér um málið. Takk fyrir Heiðrún.

Áhugamenn um stjórnmál ættu að leggja sig eftir vönduðu efni um þessi viðkvæmu mál, en taka niður skyggðu gleraugun sín á meðan.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur