Hryðjuverk

Hryðjuverkasamtök, sem hafa lýst yfir því að þau stefni að útrýmingu þjóðar þinnar, gera morðárás á heimaland þitt. Þau drepa saklausa borgara þar og handtaka fjölda annarra, sem þeir flytja með sér úr landi og halda föngnum við illa meðferð. Þeir vita að stjórnvöld í heimalandi þínu munu bregðast hart við. Þeir telja þjóð þína ekki eiga sér tilverurétt og segjast vilja útrýma henni. Heima fyrir fela þeir sig meðal saklausra borgara í því skyni að þeir verði fyrst drepnir í þegar þjóð þín hefur aðgerðir til að hefna fyrir morðárás þeirra og bjarga föngunum. Þeir vita líka að almenningur í öðrum löndum muni fordæma drápin á fólkinu, sem þeir nota sem hlífðarskjöld. Þeir vita hversu skelfilegt það er fyrir allt friðelskandi fólk að fá daglegar fréttir af saklausu fólki, þ.m.t börnum, sem verða fórnarlömb í þessum átökum. Þeir vita líka að borgarar í öðrum löndum munu fordæma þessi viðbrögð þjóðar þinnar. Auðvitað. Við viljum ekki drepa þá sem saklausir eru. Samt ættu borgarar annarra ríkja að velta fyrir sér hvor aðilinn beri meiri ábyrgð á hörmungum þessa fólks sem „verður á milli“, þeir sem ráðast á það eða hinir sem stofnuðu til átakanna og notuðu svo fólkið til hlífðar fyrir sjálfa sig. Þeir vissu að það myndi falla vegna þess að þjóð þín myndi vilja ná til þeirra sem hófu morðin.

Mikið er það göfugt þegar umheimurinn fordæmir árásir þjóðar okkar og skelfilegar afleiðingar þeirra en víkja aldrei að morðárás hinna sem öllu komu af stað. Við erum svo göfug og erum jafnvel fús til að halda á Austurvöll til að fordæma þá sem brugðust við árás hinna.

Ég tek fram að ég styð ekki þau varnarviðbrögð sem hafa kostað saklaust fólk lífið. Það er hins vegar illa þolandi að hlusta sífellt á einhliða málflutning þeirra sem styðja Hamas hryðjuverkasamtökin.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur