Hetja

Öllum núlifandi mönnum er kunnugt um ótrúleg illvirki, sem menn hafa framið gegnum tíðina. Þar rísa kannski hæst glæpir sem Nasistar í Þýskalandi drýgðu, þegar þeir frömdu fjöldamorð á Gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Var þá milljónum Gyðinga smalað eins og búpeningi inn í gasklefa og þeir drepnir án þess að hafa annað til saka unnið en að tilheyra kynstofni gyðinga. Kannski er mannskepnan grimmasta dýrategund jarðarinnar, því hún fremur oft illvirki sín í þeim eina tilgangi að slátra fórnarlömbunum.

En stundum verður málum hins vegar svo háttað að verstu illvirkin ala af sér stærstu hetjudáðirnar. Nicolas Winton var breskur maður sem fæddur var á árinu 1909. Á fyrstu árum síðri heimstyrjaldarinnar tók hann sér fyrir hendur að bjarga gyðingabörnum sem bjuggu í Tékkóslóvakíu frá drápsvél Þjóðverja áður en þeir réðust þar inn og slátruðu Gyðingum sem þar bjuggu, jafnt fullorðnum sem börnum. Þessi maður kom 669 tékkneskum börnum til Bretlands og kom þeim þar fyrir í fóstri hjá breskum fjölskyldum. Liggur ljóst fyrir að með þessum hætti bjargaði hann lífi þessara barna.

Þessi einstaki maður lét ekki hátt um verk sín. Varð almenningi ekki kunnugt um verk hans fyrr en á 9. áratug 20. aldarinnar. Þá kom í ljós að þúsundir manna áttu honum líf að launa, bæði þeir sem hann hafði bjargað og svo einnig afkomendur þeirra. Hlaut hann þá verðuga viðurkenningu fyrir hetjudáðir sínar.

Lífshlaup Nicolas Winton ætti að vera okkur ævarandi áminning um að láta okkur varða misgjörðir, sem einatt eru framdar á mannfólkinu kringum okkur. Í þeim efnum getur framtak einstaklinga skipt máli og jafnvel orðið þeim til bjargar sem órétti eru beittir. Við ættum því ekki að leiða alltaf hjá okkur lögbrot og aðrar misgjörðir á réttindum annarra, eins og svo margir gera. Lífsferill Nicolas Winton ætti að vera okkur hvatning til góðra verka gagnvart öðru fólki í stað þess að þegja þunnu hljóði, þegar við verðum vör við misgjörðir gagnvart því, þó að þær jafnist sem betur fer ekki á við misgjörðir Þjóðverja í stríðinu.

Nicolas Winton náði háum aldri og varð 106 ára. Hann féll frá á árinu 2009.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur