Flestir Íslendingar kannast við alkunnar skýringar á hugtökunum forræðis- eða forsjárhyggju. Þessi hugtök eru notuð um þá háttsemi yfirvalda að taka fram fyrir hendurnar á almennum borgurum og setja á einn eða annan hátt skorður við frjálsum athöfnum þeirra. Meginhugsunin í forræðishyggju er sú að almennir borgarar séu almennt ekki færir um að hugsa skynsamlega eða rökrétt um eigin hagsmuni. Þess vegna þurfi að stjórna og stýra athöfnum þeirra með valdboði til að tryggja að þeir fari sér ekki að voða eða geri ekki eitthvað sem yfirvöldin telja að yrði þeim eða öðrum samborgurum til skaða.
Hugtakið forræðishyggja er þannig gjarnan notað um stjórnmálastefnur sem vilja hafa ríkisvaldið sterkt, lagaboð mörg og athafnafrelsi einstaklinga takmarkað meðan ríkisvaldið tekur ákvarðanir fyrir fólkið og stendur í framkvæmdum þess. Þessu fylgir ávallt mikil skattheimta því handhafar ríkisvaldsins þurfa peninga til að geta haft ráðin af fólkinu. Hugtakið er notað um ýmsar stjórnmálastefnur bæði til hægri (t.d. íhaldsstefnu, eins og sumir vilja meina), fyrir miðju (kristilega demókrata) og til vinstri (sósíalisma, nasisma og fasisma). Lengst gengur þetta í ríkjum sem vilja ráða mannlegri breytni. Jafnaðarmannaflokkar, t.d. á Norðurlöndum, segjast vilja beita forræðishyggju vegna þess að að þeir vilja tryggja með valdboði að allir fái sem jafnastan hluta af gæðum samfélagsins. Þessi viðleitni gengur lengst í ríkjum sem við kennum við alræðishyggju (t.d. ríki kommúnismans). Þá er hugtakið einnig notað utan stjórnmálanna í þeim almenna skilningi að einstaklingur sem aðhyllist forræðishyggju leitist við að hugsa fyrir annað fólk, enda á þeirri skoðun að fólk sé almennt ekki fært um það.
Við segjum flest á tyllidögum að við viljum aðhyllast frelsi einstaklinga til að ráða sér sjálfir og taka þannig ábyrgð á sjálfum sér. Slík skipan sé best til þess fallin að hvetja menn til frumkvæðis í eigin málum og stuðla þannig að lífshamingju þeirra. Á þessum grundvelli ættum við af fremsta megni að forðast forræðishyggju þeirra sem við höfum valið til að fara með ríkisvald. Hún er að minum dómi allt of ráðandi í landi okkar.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur