maí 2025

  • Gáfnamerki

    Gáfnamerki: gott að þegja,
    glotta að því, sem aðrir segja,
    hafa spekingssvip á sér,
    aldrei viðtals virða neina,
    virðast hugsa margt, en leyna
    því, sem raunar ekkert er.

              — Guttormur J. Guttormsson

    Ég lét af störfum sem dómari við Hæstarétt haustið 2012. 

    Segja má að megintilgangur minn með því að hætta hafi verið löngun mín og kannski þörf á að geta fjallað um dómstólinn á opinberum vettvangi til þess að „berja í brestina“ en að mínum dómi var brýn þörf á að gera það. Ég hafði kynnst starfsemi þessa æðsta og þýðingarmesta dómstóls þjóðarinnar „innan frá“ ef svo má segja og þóttist vita hvað ég söng þegar ég fjallaði um einstaka þætti í starfsemi hans. Fyrsta bók mín um þetta kom út á árinu 2013 „Veikburða Hæstiréttur“ og gerði ég þar grein fyrir þýðingarmestu breytingunum sem ég taldi að gera þyrfti á skipulagi dómstólsins og vinnubrögðum hans. Tillögur mínar voru vel rökstuddar og ítarleg grein var gerð fyrir þörfinni á að hrinda þeim í framkvæmd.

    Ég varð fyrir vonbrigðum með þær viðtökur sem bókin fékk á almennum vettvangi. Lítt var rætt um alvarlega gagnrýni mína á Hæstarétt Íslands, þó að ég héldi áfram að hvetja menn til dáða, m.a. með meiri skrifum. Það var eins og þjóðin væri dofin gagnvart dómstólnum. Ég vísaði einhvers staðar til Nóbelskáldsins um tilhneigingu Íslendinga til að stunda „orðheingilshátt“ og tala bara um „titlíngaskít“ þegar ræða þarf alvarleg mál. Mér finnst þetta ástand hafa verið viðvarandi og ennþá sé brýn þörf á endurbótum. M.a. gerði Alþingi að kröfu dómaranna breytingu á lögum um Hæstarétt og fékk réttinum sjálfun svo gott sem alræðisvald um skipun nýrra dómara. Það var mikið óþurftaverk. Við dómstólinn stofnaðist við þetta eins konar klíka sem herti skaðleg áhrif sín á starfseminni. Í þessu nutu dómararnir fulltingis lögfræðinga sem störfuðu utan dómstólsins en sóru sig í valdamikinn hópinn.

    Á síðustu árum hefur ekki verið fjallað að ráði um verk Hæstaréttar opinberlega og þá síst á gagnrýninn hátt. Engu er líkara en að þeir, sem gerst ættu um að vita, óttist dómstólinn. Málflutningsmennirnir eru hræddir um hagsmuni skjólstæðinga sinna í ódæmdum málum og lögfræðingar, sem hyggja á frama innan dómskerfisins, halda líka að sér höndum. Þeir vita að til þess að ná slíkum frama verða þeir að koma sér vel við valdahópinn sem stjórnar dómskerfinu, meðal annars vali nýrra dómara, en þar eru dómarar við Hæstarétt áhrifamestir.

    Nýjasta dæmið, skylt þessu, er þegar núverandi dómsmálaráðherra hafnaði að kröfu sjálfra dómaranna tillögum um að fækka þeim, þó að umfangið á starfseminni hefði minnkað verulega við stofnun Landsréttar og ríkisstjórnin gæfi út yfirlýsingar um nauðsynlegan sparnað í ríkisrekstri. Núna geta verklitlir dómararnir sinnt aukastörfum og drýgt tekjur sínar verulega. Hefur íslenska ríkið meira að segja fengið þeim slík störf í hendur. Þetta þekktist ekki áður.

    Kannski lýsir þagnarhjúpurinn sem umlukið hefur Hæstarétt Íslands sér vel í opinberri umfjöllun að undanförnu þegar minnst hefur verið á þörfina fyrir að fækka sitjandi dómurum. Hugsanlega vill dómsmálaráðherra ekki styggja dómsvaldið af ótta við að það verði ekki ráðherranum hliðhollt í framtíðinni, enda hafa Hæstaréttardómararnir orðið berir að grófri misnotkun valds í embættisfærslum sínum eins og ég rek hér að neðan. Svo gæti verið að sumir lögfræðingar vilji hafa sitjandi dómara góða í von um að eiga meiri möguleika á að fá skipun í embætti við dóminn þegar skipa þarf nýja dómara í framtíðinni.

    Þegar ég hef skrifað bækur mínar um réttinn, hef ég velt því vandlega fyrir mér hvort ég ætti að skýra frá ótrúlegri atburðarás í tengslum við skipun mína í embætti dómara við Hæstarétt á árinu 2004. Þar hafði framferði nær allra starfandi dómara við réttinn verið með þeim hætti að afar ámælisvert hlaut að teljast. Þeir brutu gegn lögum á þann veg að tvímælalaust varðaði við almenn hegningarlög, þar sem kveðið er á um refsinæmi þess að misfara með opinbert vald (sjá xiv. kafla laganna t.d. 130. gr.). Þetta gerðu þeir í því skyni að hindra skipun mína í réttinn. Í huga mér tókust annars vegar á hagsmunir af því að þjóðin gæti borið traust til æðsta dómstóls síns og svo hins vegar hagsmunir af því að reyna að hindra misnotkun ríkisvalds á æðstu stöðum í framtíðinni. Mér var og er auðvitað vel ljóst hversu þýðingarmikið það er að þjóðin geti borið traust til dómstólsins. Hefðin hefur verið sú að þegja til að reyna að vernda þetta traust.

    Ég komst að þeirri niðurstöðu að traust mætti ekki byggjast á vanþekkingu á vondum verkum. Það yrði að byggjast á þekkingu á góðum verkum. Þögn um misgjörðir og misnotkun valds er einungis til þess fallin að festa slíka háttsemi í sessi. Sá sem kemst upp með að misnota vald sitt vegna þess að enginn talar um það er líklegur til að endurtaka slíkt hátterni. Niðurstaða mín varð því sú að segja frá atburðarásinni. Er frásögn mína að finna í 13. og þó einkum 14. kafla bókar minnar „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Ég átti í barnaskap mínum von á að frásögnin myndi valda miklu fjaðrafoki, bæði í fjölmiðlum og einnig meðal æðstu valdsmanna þjóðarinnar í ríkisstjórn og á löggjafarsamkundunni. Atvikin sem ég lýsti voru að vísu nokkuð komin til ára sinna, þar sem þau áttu sér stað um 10 árum áður en bók mín kom út. Allt að einu hlutu allir ábyrgir menn að sjá að átta af níu dómurum við Hæstarétt höfðu brotið gróflega gegn lagaskyldum sínum; meira að segja þannig að refsingu hefði átt að varða.

    Því miður tel ég mig hafa orðið vitni að slæmum dómaraverkum, bæði meðan ég enn starfaði sjálfur við dómstólinn og ekki síður eftir að ég lét af störfum. Ég hef engan áhuga á að ná mér niðri á þeim sem gerðu á hluta minn á sínum tíma enda eru þeir einstaklingar sem þá áttu hlut að máli horfnir frá störfum. Þeir sem við tóku hafa hins vegar flestir sýnt að þeir eru ekkert betri. Og þörfin fyrir endurbætur er brýn. Við viljum ekki að börnin okkar þurfi að sitja undir geðþótta og kunningjagæsku þegar helgasta stofnun réttarríkisins, æðsti dómstóllinn, á í hlut.

    Ég býst við að hvarvetna í nágrannalöndum okkar hefðu það þótt mikil og alvarleg tíðindi ef fráfarandi dómari við æðsta dómstól viðkomandi þjóðar hefði skýrt frá framferði samdómara sinna eins og því sem hér er hefur verið lýst. Menn hefðu að minnsta kosti leitað eftir svörum og skýringum. Gat það til dæmis verið að sögumaður færi rangt með staðreyndir í lýsingu sinni? Hefði ekki verið nauðsynlegt að þeir sem fyrir sökum voru hafðir svöruðu fyrir sig? Það var ekki gert einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir kunnu ekki svörin og óttuðust að efni gagnrýni minnar kæmi til tals í þjóðfélaginu. Í þessu náðu þeir góðum árangri. Þetta var óþægilegt umræðuefni svo flestir þögðu bara þunnu hljóði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Ólögmæt hlerun

    Uppi hefur orðið fótur og fit vegna upplýsinga um að starfandi lögreglumenn hafi misnotað aðgang sinn að gögnum lögreglunnar um rannsóknir á nafngreindum mönnum. Veittu lögreglumennirnir öðrum aðilum aðgang að þeim til notkunar í lögskiptum sínum við þá sem þarna höfðu verið til rannsóknar. Þýðingarmestu gögnin í þessu voru símhleranir hjá þessum sökuðu mönnum. Hefur réttilega verið talið að brotið hafi verið á persónulegum réttindum þessara manna og þar með réttarvernd þeirra sem varin er af stjórnarskránni.

    Lögreglan má samkvæmt lögum ekki hlera síma manna nema dómari hafi úrskurðað um heimild hennar til hlerunarinnar. Eru mjög ströng ákvæði í lögum um skilyrði fyrir því að dómari megi veita lögreglu slíka heimild. Er ljóst að ekki kemur til greina að gefa hlerunarþola eða lögmanni hans upplýsingar um hlerunarúrskurð til að gæta hagsmuna sinna af honum, því slík vitneskja þeirra skemmir þessa rannsóknarheimild. Af þessum sökum hvílir rík skylda á dómara að grandskoða skilyrðin fyrir því að fallast megi á ósk lögreglu um hlerunarheimild.

    Fyrir liggja upplýsingar um að á árunum eftir hrun 2008 til 2012 bárust héraðsdómstólum 875 beiðnir frá lögregluyfirvöldum um símhleranir hjá einstökum mönnum. Var fallist á 869 þeirra eða 99,7%. Þetta hlutfall er hærra en þekkist í nokkru öðru landi í Evrópu. Þá hefur líka komið fram að yfirvöldin áttuðu sig fljótlega á því að Héraðsdómur Vesturlands var fúsari en aðrir héraðsdómstólar til að fallast á þessar beiðnir. Leitaði lögreglan því mest til þessa dómstóls með beiðnir sínar. Virðast þær hafa verið veittar án þess að dómarinn í því umdæmi kannaði hvort lagaskilyrðum fyrir þeim væri fullnægt. Svo undarlegt sem það var að leita til þessa landsbyggðadómstóls um heimildir fyrir þessu var ástæðan sýnilega sú að dómarinn sem þar sat veitti heimildirnar án þess að kanna hvort fyrir þeim væru lagaheimildir. Virðist hann hafa stimplað þær án athugunar á lögmæti þeirra.

    Á forsíðu Fréttablaðsins 16. júní 2014 var slegið upp frétt um að þessi dómari hafði á sínum tíma veitt svona heimild án nokkurrar könnunar á skilyrðum hennar. Stóð svo á um manninn, sem hlera átti, að verið var að sleppa honum úr gæsluvarðhaldi, þar sem honum hafði verið kynntur réttur hans til að neita að svara spurningum lögreglu.

    Í dómi Hæstaréttar í öðru máli 4. febrúar 2016 (mál nr. 842/2014) var fjallað um heimildir lögreglu til að hlera síma manna sem setið höfðu í gæsluvarðhaldi og nutu því heimildar til að svara ekki spurningum lögreglu um sakarefnið. Var sagt orðrétt í forsendum dómsins: „Með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr, lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.“

    Af þessum forsendum Hæstaréttar er ljóst að héraðsdómarinn sem veitti svona heimildir braut gegn mannréttindum mannsins sem fyrr var nefndur.

    Á Íslandi þótti síðar vera ástæða til að gera þennan dómara að forseta Hæstaréttar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Glaðbeitt ráðherra!

    Ég verð að viðurkenna að mér finnst það vera afbökun á tungumáli okkar að breyta birtingarmynd sagnorða og lýsingarorða sem fylgja nafnorðum í eintölu sem í sjálfu sér geta tekið til fleiri en eins einstaklings eða þá einstaklinga af báðum kynjum. Fyrir nokkru var t.d. fjallað um þá venju hjá mörgum að tala ekki um ráðherra í karlkyni, þó að orðið ráðherra sé karlkynsorð. T.d. gæti einhver átt það til að segja að ráðherra væri glaðbeitt en ekki glaðbeittur. Þetta virðist vera gert vegna þess að bæði karlar og konur geta verið ráðherrar. Annað dæmi eru lýsingar á íþróttakappleikjum þar sem íþróttalið eiga hlut að máli er það nánast orðin regla að tala um liðið í fleirtölu, þó að aðeins sé verið að lýsa því sem liðið gerir inni á vellinum þegar notað er nafn liðsins í eintölu. Íþróttafréttamenn segja t.d. yfirleitt að Manchester United sækja upp völlinn þó að nafn liðsins sé eintöluorð. Málfræðilega væri rétt að segja að MU sæki upp völlinn þó að í liðinu séu margir leiknenn.

    Mér er nær að halda að þetta sé orðin regla hjá þeim sem lýsa athöfnum annars kappliðsins, þó að notað sé eintöluorð um liðið eins og vera ber. Þar er samt jafnan notuð fleirtala í lýsingunni og þá sjálfsagt vegna þess að fleiri en einn leikmaður skipi liðið inni á vellimum eða þá að þeim sem talað er um sé lýst með eintöluorði af því kyni sem orðið sjálft segir til um. Svo er líka á ferðinni ósamræmi í notkun tungumálsins að þessu leyti. Ef t.d. nafn viðkomandi liðs er kvenkynsorð, t.d. Gerpla, er sagt að Gerpla sýni góðan leik í fimleikum í stað þess að Gerpla sýna slíkan leik.

    Ég lærði íslenska málfræði í Menntaskólanum í Reykjavík. Þessi framangreindi háttur nútímans sker í eyrun. Mér finnst óþarfi að afbaka tungumálið með þeim hætti sem hér er nefnt. Ég held líka að í rituðu máli sé þetta síður gert þó að þess sjáist þar sjálfsagt merki. Hefðbundinn háttur í notkun tungumálsins held ég að hafi dugað ágætlega fram til þessa og felur ekki í sér neina mismunun kynjanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Endurbætur á Hæstarétti

    Ég starfaði sem dómari við Hæstarétt í átta ár, 2004-2012. Áður en ég tók til þessara starfa hafði ég séð til verka réttarins ýmislegt sem ég var ekki sáttur við. Ég hafði lýst þessu í ræðu og riti, þegar ég tók þá ákvörðun að sækja um dómarastarf fyrst og fremst í því skyni að kanna hvort mér yrði eitthvað ágengt við að bæta úr því sem ég taldi aðallega að hefði farið úrskeiðis. Ég var skipaður til starfans, þó að sitjandi dómarar við réttinn hefðu reynt hvað þeir gátu til að hindra skipun mína. Þeim athöfnum lýsti ég í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Sú saga þolir varla birtingu, svo ósæmileg sem hún var, sérstaklega þar sem æðsti dómstóll þjóðarinnar átti í hlut.

    Eftir að hafa starfað í réttinum þennan tíma varð mér betur ljóst en áður hvar skórinn kreppti. Ég lét því ekki bara við það sitja að segja deili á dómaraverkum sem ég taldi ekki standast, heldur setti ég fram tillögur um hverju mætti breyta í lögum um Hæstarétt til að stuðla að vandaðri vinnubrögðum réttarins og gagnsæi við starfsemina. Ég gaf út ritgerðina „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð var ítarleg grein fyrir hugmyndum mínum um lagabreytingar í þessu skyni og rökstuðningi fyrir þeim. Segja má að meginstefið í tillögum mínum hafi verið gagnsæi, bæði við skipun nýrra dómara og einnig við ritun atkvæðanna í fjölskipuðum dóminum. Ég taldi þá m.a. að afnema þyrfti áhrif sitjandi dómara og vinahóps þeirra á skipun dómara og svo ættu dómarar að skila skriflegum atkvæðum þar sem gerð yrði grein fyrir lögfræðilegum rökstuðningi þeirra hvers og eins í stað þess að kveða upp hópdóma, þar sem öll áhersla lægi á því að vera allir sammála í öllum málum.

    Þeir sem tjáðu sig um þessar hugmyndir tóku þeim vel. Menn virtust sjá að tillögurnar lutu aðeins að því að bæta og styrkja starfsemi réttarins. Allt að einu náðu þær ekki fram að ganga. Ástæðan var hatrömm andstaða dómaranna. Kom þá í ljós hið sama og einatt er ráðandi, þ.e. undirgefni við þá sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þágu sjálfra sín og berjast gegn endurbótunum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Skilyrði til að refsa megi

    Hvað ætli þurfi til, svo að dómari megi kveða upp refsidóm yfir manni sem sakaður er um refsivert brot? Nú á tíðum er algengt að almenningur taki afstöðu til þess, hvort dómar í refsimálum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess umkomna að telja sakborninga seka þó að dómstóll hafi sýknað þá af ákæru. Færri telja sakborninga saklausa ef dómstóll hefur sakfellt þá.

    Af þessu tilefni er ástæða til að endurbirta það sem ég hef nefnt gátlista og hefur að geyma upptalningu á þeim skilyrðum sem, dómarar þurfa að telja að fullnægt sé í sakamáli, áður en sakborningur er sakfelldur:

    1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

    2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

    3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

    4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

    5. Við meðferð máls á áfryjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

    6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

    7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar.

    8. Dómarar verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

    Þessar reglur kunna að leiða til þess að sekur maður verði sýknaður í dómsmáli gegn honum. Það er gjaldið sem við greiðum fyrir að geta kallast réttarríki.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Að taka þátt í hópnum

    Hafa menn leitt hugann að því hversu mjög félög og flokkadrættir eru sterkar frumforsendur fyrir alls kyns ágreiningi og voðaverkum manna? Hóphyggjan er fyrirbæri sem rænir menn heilli hugsun og hindrar þá í að taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er svo miklu auðveldara að taka þátt í einhverju sem hópurinn gerir. Félagar í hópnum þurfa ekki að taka persónulega ábyrgð á háttsemi hans. Nóg er að vísa til þess að hópurinn hafi tekið afstöðu og félagarnir í hópnum styðji hana. Þetta er líka stundum nefnt hjarðhegðun, sem er lýsandi orð fyrir svona breytni.

    Mér er nær að halda að hóphyggjan sé ráðandi háttur í samfélagi mannanna. Menn eru með einum hópi og þá gegn öðrum. Styrjaldir eru t.d. reknar í nafni hópa. Ein þjóð ræðst á aðra og drepur sem mest hún má. Þeir sem drepnir eru hafa fæstir nokkru sinni gert á hluta þeirra sem drepa. Þeir sem tilheyra einni þjóð standa saman og þá eftir atvikum gegn öðrum þjóðum. Persónuleg háttsemi og ábyrgð kemur sjaldnast við sögu. Sama má segja um trúarhópa, sem reglulega fremja illvirki á fólki úr öðrum hópum. Nú er frá því sagt að mörgum, jafnvel flestum, almennum borgurum í Þýskalandi Hitlers hafi verið kunnugt um útrýmingu gyðinga en ekki látið málið samt neitt til sín taka.

    Og fjölskipaðir dómstólar eru ofurseldir hóphyggjunni. Þar eru dómar oftast kveðnir upp án þess að einstakir þátttakendur í hópnum geri sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu og rökum fyrir henni. Samt eiga þeir aðeins að beita réttarheimildum, eins og þeir skilja þær, við úrlausn málanna. Sumir dómarar hafa meira að segja kveðið upp úr um að samstaða innan hópsins sé sérstakt keppikefli. Þessi aðferðafræði felur það í sér að niðurstaða dómsmála ræðst fremur af samningum innan hópsins en af beitingu réttarheimilda. Dómari sem fékk að ráða í síðustu viku skuldar hinum samstöðu í þessari svo ekki hallist á í hópnum. Aðilar dómsmálanna verða fórnarlömb hóphyggjunnar.

    Þó að fallast megi á að hópar geti að vissu marki verið gagnlegir, ætti það sem við getum kallað einstaklingshyggju að ráða miklu meiru um hagi okkar og afstöðu. Menn eiga að taka sjálfir afstöðu til málefna í miklu ríkari mæli en nú er og vera tilbúnir til að taka ábyrgð á þeirri afstöðu. Mér er nær að halda að styrjöldum og hernaðarlegum voðaverkum myndi fækka í heiminum ef menn tækju upp þennan hugsunarhátt í miklu ríkari mæli en nú er gert og legðu hóphyggjuna til hliðar sem almennan lífsmáta, eins og hún svo sannarlega er nú.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frændur eru frændum bestir

    Frændi minn Ögmundur Jónasson skrifar nýja grein í Morgunblaðið 30. apríl um dómskerfið. Er hún að nokkru leyti svar til mín vegna skrifa í blaðinu 16. apríl, þar sem vikið hafði verið að fyrri skrifum hans um sama efni.

    Nú skýrir Ögmundur betur en áður afstöðu sína til málsins og sé ég ekki betur en að hann sé í meginatriðum sammála mér um að dómstólar eigi bara að dæma eftir settum lögum en ekki að „setja ný“, eins og sumir lögspekingar hafa talið þeim rétt að gera.

    Ögmundur víkur sérstaklega að sakamálum, þar sem felldir hafa verið dómar yfir sakborningum sem sakaðir hafa verið um kynferðisbrot. Fæ ég ekki betur séð en hann telji, eins og ég, að sanna þurfi slík brot lögfullri sönnun til að heimilt sé að sakfella sakborninga fyrir þau. Hafi læknisskoðun á brotaþola oftast meginþýðingu við þá sönnun. Þessu er ég að mestu leyti sammála en verð samt að benda á eitt atriði sem frændi minn hefði mátt nefna.

    Þegar kynferðisbrot eru borin undir dómstóla má segja að sanna þurfi tvo meginþætti. Annars vegar hvort brotaþoli beri þess óyggjandi merki að hafa sætt slíku broti. Hins vegar þarf að sanna, sé um það deilt, að sakborningur í máli hafi framið brotið en ekki einhver annar maður. Um þann þátt málsins geta læknar sjaldnast borið og verður þá að leita annarra sönnunargagna um þetta.

    Mér sýnist af skrifum Ögmundar að hann hljóti að vera mér sammála um að sönnun á þessum síðarnefnda þætti þurfi að vera til staðar til að unnt sé að sakfella sakborninginn. Kannski hefur hann, eins og ég, horft á kvikmyndina „Atonement“, sem gerð var árið 2007, þar sem er að finna örlagaríka frásögn af manni sem ranglega var dæmdur fyrir kynferðisbrot og þeim hörmum sem hann mátti þola af þessu tilefni.

    Að þessu sögðu sýnist mér að við frændur séum að mestu leyti sammála. Dómarar dæma og löggjafinn setur lögin sem þeir dæma eftir. Ég læt svo eftir mér að benda honum á að skrifa styttri greinar um hugðarefni sín en hann gerir. Þá lesa menn skrifin frekar en ella.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur