Brynjólfur Bjarnason

Á Íslandi ríkir sú venja að skrifaðar eru minningargreinar um þá sem falla frá og þá sagðir kostir á lífsferli þeirra. Það má segja að sé annmarki á þessum skrifum að hinn látni fær ekki sjálfur að njóta þess jákvæða sem samborgararnir hafa um þá að segja að lífsferlinum loknum. Slík skrif þjóna samt verðmætum tilgangi við að varðveita minninguna um hinn látna og mannkosti hans. Og frá sumum þeirra er næstum ekkert að segja annað en jákvæðar minningar. Að mínum dómi háttar á þann veg minningunni um Brynjólf Bjarnason. Við kynntumst fyrir meira en 50 árum. Þau kynni hófust með því að við tókum báðir þátt í að gefa út Eimreiðina, sem var tímarit sem flutti greinar og rökfærslur um hugsjón sem við Brynjólfur höfðum báðir um frelsi manna og persónulega ábyrgð þeirra á þeim verkum sem þeir tóku þátt í.

Segja má um Brynjólf að hann brást aldrei hugsjón sinni. Við vorum nokkrir „Eimreiðarmenn“ sem hittumst reglulega tvisvar í mánuði til að ræða um frelsishugsjónina í landi okkar auk þess að ræða um þjóðfélagsmálin almennt. Í hópnum voru menn sem hafði verið trúað fyrir ábyrgðarstörfum í þjóðfélaginu og voru á þeim vettvangi þjóðþekktir fyrir störf sín. Sumir þeirra sem voru á öndverðum meiði við okkur í viðhorfi sínu til stjórnmála reyndu stundum að halda því fram að við sætum á launráðum við þjóðfélagið og vildum koma einhverjum misgjörðum í verk. Ekkert var fjær sanni. Við hittumst bara til að ræða sameiginlegar hugsjónir okkar sem orðið höfðu til á þeim árum er við stunduðum nám í háskólum. Þær beindust aldrei að neinu öðru en því að styrkja frelsi og ábyrgð í þjóðfélaginu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, sem öllum mönnum mátti jafnóðum vera kunnugt um.

Þetta voru hugsjónir sem vinur minn Brynjólfur Bjarnason brást aldrei. Reyndar ber litríkur ferill hans í trúnaðarstörfum þess ríkuleg merki. Ég man aldrei eftir að okkur hafi greint á um þessi hugsjónamál. Hann var sannkallaður mannkostamaður sem oft var kallaður til þátttöku í margvíslegum málefnum sem lutu að því að styrkja hugsjónina sem hafði leitt okkur saman. Minning hans mun því lifa um langa framtíð. Blessuð sé minningin um vin minn Brynjólf Bjarnason.

Jón Steinar Gunnlaugsson