Lífsskoðun

Ég hef þá lífsskoðun að meginregla um frelsi, sem gerir ráð fyrir að hver og einn maður taki ábyrgð á eigin lífi, sé farsæll leiðarvísir þeirra sem fást við lagasmíð og reyndar í lífinu manna almennt hvað svo sem þeir taka sér fyrir hendur. Ég tel þessa reglu siðferðislega rétta í því tilliti að samfélagið er myndað af jafnréttháum einstaklingum þar sem einn á ekki að hafa boðvald yfir öðrum um hans eigin málefni. Reglan leiðir að mínum dómi líka til farsælla mannlífs, t.d. með færri slysum, vegna þess að meginreglan kennir mönnum að taka ábyrgð á sjálfum sér. Enginn er betur til þess fallinn að taka ákvarðanir um velferð manns heldur en hann sjálfur. Þrátt fyrir þetta er öllum að sjálfsögðu heimilt að benda öðrum á farsælar leiðir í lífinu, þó að ekki felist í því heimild til að setja þeim bindandi reglur um annað en að skaða ekki aðra.

Stjórnlyndur maður er annarrar skoðunar. Hann telur réttlætanlegt að taka ákvörðunarvald um eigin mál af mönnum af minnsta tilefni. Mér finnst að þeir sem vilja ráða persónulegum málefnum annarra manna beiti oft hreinum útúrsnúningum í málflutningi sínum. Ég held að á slíkum ráðum þurfi þeir einir að halda sem skortir rök í orðræðunni.

Það er alveg merkilegt að sjá hvernig forsjárhyggjan getur heltekið suma menn sem gefa kost á sér í pólitík og ná kjöri sem alþingismenn. Alþingismenn eru, svo sem von er, haldnir þörf til að láta gott af sér leiða. Margir þeirra halda að því markmiði verði best náð með því að hafa vitið fyrir fólkinu, þ.e.a.s. vernda það fyrir sjálfu sér. Þeim ætlar seint að lærast þau einföldu sannindi að eina verndin, sem eitthvað dugar, er sú vernd sem í því felst að hver og einn maður taki ábyrgð á sínu eigin lífi.

Ég skrifa þennan pistil á afmælisdegi dóttur minnar sem ég veit að reynir að lifa eftir þessum meginreglum.

Þeim tíma sem fer í að hugleiða þessi sannindi í alvöru er vel varið hjá öllum.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur