Oft var þörf en nú er nauðsyn

Flestir Íslendingar gera sér ljóst að helstu náttúruauðlindir þjóðarinnar felast í því að geta framleitt orku með umhverfisvænum hætti, fyrst og fremst með virkjun fallvatna og jarðhita. Fyrir nokkrum dögum gekk dómur í héraði sem felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun. Þessi dómur virðist byggður á umdeilanlegri túlkun á ákvæðum laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sýnist mega draga þá ályktun af forsendum dómsins að bannað hafi verið með þessum lögum að byggja vatnsaflvirkjanir sem einhverju skipta á Íslandi.

Að mínum dómi er ekki ástæða til að fjalla um túlkun þeirra lagaákvæða sem dómurinn kveðst byggja á. Það er einfaldlega ljóst að þjóðin getur ekki unað við þessa niðurstöðu. Of langan tíma tekur að áfrýja þessum dómi. Þess í stað verður nú þegar að grípa til lagasetningar sem heimilar Landsvirkjun tæpitungulaust að ráðast í framkvæmdir við virkjun fallvatna og verður ekki séð að þörf sé á nýyrðinu vatnshlot, sem notað er í þessum lögum til að koma á móts við kröfur afturhaldsmanna um að stöðva virkjanir.

Að mínum dómi ber nú að bregðast hratt við. Ráðherra ætti þegar í stað núna, þegar Alþingi situr ekki, að setja bráðabirgðalög skv. heimild í 28. gr. stjórnarskrár, sem fella úr gildi þessi undarlegu lagaákvæði, sem dómstólar telja sig geta með réttu eða röngu túlkað á þann hátt sem fram kemur í forsendum þessa dóms. Ekki er ráðlegt að bíða aðgerðarlaus eftir því að Alþingi setji lög um þetta efni eftir að það kemur saman 8. febrúar n.k. því að á þinginu sitja alþingismenn sem kunna aðferðir til að tefja lagasetningu um þjóðþrifamál af því tagi sem hér um ræðir. Lögin þarf því að setja strax svo að unnt verði að forða því stórfellda tjóni sem þessi dómur veldur.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður