desember 2024

  • Dýr myndi Eyjólfur allur

    Það er birt kostuleg frétt í Morgunblaðinu í dag, laugardag. Einn af nýskipuðum ráðherrum í ríkisstjórninni, Eyjólfur Ármannsson, segist telja að lög um bókun 35, sem til stendur að setja, brjóti í bága við stjórnarskrána. Hann hefur reyndar haldið þessu fram af miklum þunga fyrr, en það var áður en hann varð ráðherra. Kveðst ráðherrann nú geta hugsað sér að greiða frumvarpi um þetta atkvæði á Alþingi; a.m.k. muni hann sitja hjá við afgreiðslu þess, þó að hann telji engan vafa leika á því að hér verði brotið gegn stjórnarskránni!

    Það er varla að maður geti trúað þessu. Er málum nú svo komið hér á landi að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu tilbúnir að styðja lagasetningu á Alþingi, sem þeir segjast telja að fari í bága við stjórnarskrána? Mér er nær að halda að aðrir eins þverbrestir hafi varla sést hjá íslenskum stjórnmálamönnum fyrr, allavega ekki hjá ráðherrum í ríkisstjórninni. Um þá gilda lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963 og er enginn vafi á að þeir bera skyldu til að virða stjárnarskrána í störfum sínum, hvort sem málefni heyrir undir ráðuneyti þeirra eða starfsbræðra þeirra í ríkisstjórninni.

    Kannski Alþingi muni höfða mál gegn þessum spakvitringi fyrir landsdómi ef hann stendur við sín stóru orð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Á jólum

    Á jólum ættum við aðeins að hægja á og taka tíma í að hugsa um lífið og tilveruna. Við erum öll að leita að hamingjunni og hvernig við getum best höndlað hana.

    Ég er kominn á efri árin og tel mig á langri ævi hafa lært eftirfarandi sannindi um leitina að hamingjunni.

    Ekki leita hennar hjá öðrum. Leitum hennar í sjálfum okkur með því að breyta ávallt rétt að okkar eigin mati. Hlustum á skoðanir annarra en látum þær ekki ráða skoðunum okkar fyrr en við höfum að yfirveguðu ráði lagt mat á þær. Munum líka að lífshamingjan er ekki fólgin í að sækjast eftir ríkidæmi og völdum. Hún er fólgin í ástinni og þá fyrst og fremst á þeim sem næstir okkur standa, oftast maka okkar og börnum. Reynum að haga lífi okkar þannig, að við getum sofnað að kvöldi sátt við afstöðu okkar og gjörðir á deginum sem liðinn er. Þá mun svefninn veita okkur hvíld og styrk til að fást við verkefni næsta dags.

    Ég óska öllum vinum mínum á fasbókinni gleðilegra og friðsælla jóla.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Forsjárhyggja

    Það er alveg merkilegt að sjá hvernig forsjárhyggjan getur heltekið suma menn sem gefa kost á sér í pólitík og ná kjöri sem alþingismenn. Alþingismenn eru, svo sem von er, haldnir þörf til að láta gott af sér leiða. Margir þeirra halda að því markmiði verði best náð með löggjöf sem hefur hefur vit fyrir fólkinu, þ.e.a.s. verndar það fyrir sjálfu sér. Þeim ætlar seint að lærast þau einföldu sannindi að eina verndin, sem eitthvað dugar, er sú vernd sem í því felst að hver og einn maður taki ábyrgð á sínu eigin lífi.

    Taka má dæmi af lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þar er tilgangi laganna lýst í 1. gr. þeirra, þar sem segir:

    „Markmið þessara laga er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og að stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar.“

    Síðan er í lögunum að finna margs konar ákvæði sem ganga út á að takmarka heimildir manna til að taka peningalán sem tryggð eru með ábyrgð þeirra sjálfra eða annarra. Hvers vegna er löggjafinn að skipta sér af þessu? Ef lánveitandi og lántaki semja um lánveitingu með skilmálum sem báðir samþykkja, hvað hefur þá löggjafinn að gera með að takmarka heimildir þeirra til að semja sín á milli um þetta? Báðir gera þetta á sína eigin ábyrgð.

    Þetta eru að mínum dómi kostuleg afskipti af einkamálefnum sem koma löggjafanum ekkert við. Meðan sjálfráða menn hafa heimildir til að semja við aðra um málefni sín og báðir aðilar eru sammála um skilmála samnings, kemur ríkisvaldinu samningurinn ekki við. Svo einfalt er það.

    Mörg fleiri dæmi eru til um þessi ósköp. Í forsjárhyggju laga er einatt takmarkað frelsi borgaranna til að ráðstafa sínum eigin málefnum á sína eigin ábyrgð. Í ríki sem vill virða rétt manna til persónulegs frelsis og þ.m.t. ábyrgðar á sjálfum sér, geta lagaákvæði af þessu tagi ekki talist réttlætanleg.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ásetningur til manndráps

    Þessa dagana eru sagðar fréttir af dómsmálum, þar sem sakborningur virðast hafa veist að fórnarlambinu á lífshættulegan hátt, þannig að bani hefur hlotist af, en verið samt aðeins ákærður fyrir hættulega líkamsárás.

    Það er vissulega svo í sakamálum, að sanna þarf ásetning brotamanns, m.a. til manndráps hafi sú orðið afleiðing árásarinnar. Hafi árásin verið lífshættuleg og brotamanni mátt vera ljóst að dauði kynni að hljótast af, ætti handhafi ákæruvalds að mínum dómi að miða ákæru við að ásetningur hafi staðið til manndráps. Séu einhverjar mildandi aðstæður til staðar ætti það að vera dómarans að taka tillit til þeirra við sakfellingu sína, fremur en ákæranda. Þá má hafa í huga að sá síðarnefndi getur gert varakröfu um heimfærslu brotsins til mildara refsiákvæðis sé tilefni til.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Yfirbót Sjálfstæðisflokks

    Að loknum þessum Alþingiskosningum hlýtur að liggja fyrir að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins muni mynda ríkisstjórn á Íslandi. Þetta verður klárlega meira og minna hrein vinstri stjórn.

    Í þessu felast tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að ganga í endurnýjun lífdaga með hreinni andstöðu við slíka ríkisstjórn. Ekki veitir honum af.

    Meðal þeirra stefnumála flokksins sem m.a ber nú að leggja áherslu á eru þessi helst:

    1. Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.

    2. Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn hafa stutt frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.

    3. Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.

    4. Fullveldi þjóðarinnar. Sést hafa merki um að fyrirsvarsmenn flokksins hafa viljað standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti. Frá þessum tilhneigingum ber að hverfa hið snarasta.

    5. Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl. Þetta myndi þýða mikla fækkun ríkisstarfsmanna og sparnað á skattheimtu ríkisins.

    6. Þessu síðast nefnda mun fylgja raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu.

    7. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.

    8. Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.

    9. Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.

    10. Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.

    11. Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar. M.a. ber flokknum að berjast gegn niðurdælingu á koltvísýringi sem vinnur gegn plöntugtóðri á jörðinni og sóar verðmætum. Loftslagshysterían er ein helsta birtingarmynd sósíalismans í dag.

    12. Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.

    13. Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum og hætta með öllu stuðningi við svonefndan vókisma, t.d. trönsun á börnum og bann við kynjaaðgreindum salernum.

    Með skýrri stefnu í þessum efnum gæti flokkurinn kannski endurheimt krafta Sigríðar Andersen, Snorra Mássonar og Bergþórs Ólasonar og fleiri kraftmikla boðbera frelsis og ábyrgðar.

    Það þarf engan Miðflokk.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður